Geta Púrítanarnir starfað með Pírötum í ríkisstjórn?

Píratar eru augljóslega að þroskast sem stjórnmálaflokkur. Þeir hafa lært að stjórnmál fela gjarna í sér málamiðlanir.

Þeir hafa lært að það þarf að gefa eftir í stefnumálin og jafnvel svíkja loforð sem gefin hafa verið.

Þeir hafa líka lært að finna mis trúverðugar afsakanir fyrir því að ekki er hægt að standa við stefnuna og ef ég hef skilið rétt hafa jafnvel mistök komið þar við sögu.

Þar að auki virðast Píratar telja stefnumál sín hálf absúrd og óraunhæft sé að gera kröfur til annara flokka sem þeir mynda hugsanlega ríkisstjórn með.

Gott ef Píratar eru ekki farnir að sjá ákveðinn pólítískan ómöguleika við kröfur sínar.

Það gerist ekki öllu þægilegra fyrir samstarfsflokkana.

En reyndir stjórnmálamenn og -flokkar eiga ekkert erfitt með að skilja að stundum þarf að svíkja kosningaloforð, nú eða hvika frá stefnunni.

Það er ef til vill stærsta spurningin hvernig hinir óspjölluðu púrítanar í Viðreisn gengur að fella sig við samstarf við stjórnmálaflokk sem svíkur svona stefnu sína og loforð.

Því það var eins og rauður þráður (það er einmitt rauði þráðurinn sem leiðir þá að vinstri stjórn) í gegnum kosningabaráttu þeirra að það að svíkja kosningaloforð væri alfarið fatalt og lúaleg framkoma og slíkir flokkar væru ekki upp á marga fiska.

Það er því erfitt að sjá fyrir sér Viðreisn í samstarfi við flokka sem eru byrjaðir að svíkja loforðin sín jafnvel áður en þeir komast í ríkisstjórn.

Það gæti líka hugsast að kosningaloforð Vinstri grænna frá því 2009, þar sem Steingrímur lofaði því deginum fyrir kjördag (eins og þau höfðu reyndar gert í gegnum alla kosningabaráttuna) að það kæmi alls ekki til greina að sækja um aðild að "Sambandinu".

Það gæti verið erfiður biti að kyngja fyrir "kosningaloforðalögreglu" eins og Viðreisn því sem næst gaf sig út fyrir að vera í kosningabaráttunni.

Ég man þó ekki hvort þau gáfu út á hvað mörgum árum, eða kjörtímabilum slík svik fyrnast.

 

 

 


mbl.is Fjórir málefnahópar funda í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kratar í leit að týndum tíma

Kratar víða um lönd eiga erfiða daga nú um stundir. Fylgi þeirra fer þverrandi víðast um lönd.

Það má vissulega deila um hverja við köllum krata, en það er ljóst að íslenskir Kratar lítu til breska Verkamannaflokksins, undir forystu Tony Blair, sem fyrirmyndar og sumir leiðtogar þeirra íslensku gumuðu sig af flokksskírteini sínu hjá Tony og félögum.

Og sósíalistarnir í Frakklandi standa ekki betur og jafnvel kratarnir á Norðurlöndunum eru ekki svipur hjá sjón.

Það er ef til vill ekki tilviljun að kratarnir skuli hugsa aftur í timann og tala um endurkomu Tony Blair og endurreisn Alþýðuflokksins.

Bæði Samfylkingin og Verkamannaflokkurinn eiga það sameiginlegt að hafa tekið skarpa vinstribeygju þó að ef vill sé það ofsögum sagt að Corbyn sé "rugludallur".

Það er reyndar ekki mjög langt síðan að vinstri sinnaðir álitsgjafar og spekingar töluðu um Corbyn og Sanders í sömu andrá og þóttust hafa séð framtíð vinstri hreyfinga.

Það er komið nokkuð annað hljóð í strokkinn nú, þó að Sanders njóti enn töluverðra vinsælda.

Vinsældir endast oft betur ef menn komast ekki til valda.

En á velmektardögum Samfylkingarinnar mátti jafnvel lesa forystumenn hennar mæra "jafnaðarmanninn" Hugo Chavez, en slíkt kæmi þó líklega engum í hug nú, jafnvel þó að flokkurinn hafi færst til vinstri.

Nú vita nefnilega allir um vitleysuna í Venezuela.

En Kratar eru í kreppu.  Þá fara þeir að leita að týndum tíma.  Þá dettur þeim í hug að Tony Blair (sem er merkilegt nokk sigursælasti forystumaður Verkamannaflokksins) geti snúið aftur og þá dettur þeim í hug að lausn á vandræðum sínum geti verið að endurreisa Alþýðuflokkinn.

Því ekki er ástæðan málefnin (sem eru þau bestu í heimi, en þarfnast samt endurskoðunar) og ekki eru fólkið (nema í Bretlandi) þannig að það hljóta að vera umbúðirnar.

Retro er málið.

 


mbl.is Blair hugar að endurkomu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný ríkisstjórn tekur við í Eistlandi

Eins og ljóst var orðið fyrir nokkru tekur ný ríkisstjórn við völdum í Eistlandi í dag. Þingið mun ræða og greiða atkvæði um ríkisstórn undir forsæti Jüri Ratas, formanns Miðflokksins (Keskerakond). Atkvæðagreiðslan er formsatriði, enda meirihluti þingmanna að baki ríkisstjórnarflokkunum.

Auk Miðflokksins standa að ríkisstjórninni Sósíaldemokratar og Föðurlands- og lýðveldisfylkingin (IRL).

Hver flokkur fær 5 ráðherra og það vekur athygli að IRL fær í sinn hlut bæði fjármála og varnarmálaráðuneytið.

Sú skipan er líklega ætlað að róa öldurnar, IRL er sá eini af flokkunum sem getur talist til hægri. Margir hafa lýst yfir áhyggjum af þátttöku Miðflokksins í ríkisstjórn, enda hefur sá flokkur haft náin tengsl við flokk Putins Rússlandsforseta.

Utanríkisráðuneytið verður í höndum Sósíaldemókrata sem og innanríkisráðuneytið.

Stærstu breyingarnar sem væntanlega verða munu eiga sér stað í skattamálum.

Skattleysismörk hækka líklega verulega, vaxtafrádráttur mun hverfa, hækka á álögur á áfengi, fjármagnstekjuskattur mun lækka (en vaxtatekjur skattlagðar, sem hefur ekki verið), og bifreiðaskattur mun hækka verulega. Skattur á þá sem hafa yfir 2000 euro í mánaðartekjur munu hækka og skattar á fjármálafyrirtæki munu einnig aukast verulega.

Jafnframt á að ráðast í mikla innviðauppbyggingu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja (ýmist að hluta eða fullu).

Ríkisstjórnin boðar jafnframt að auknar lántökur komi vel til greina, en Eistland er eitt af þeim löndum sem hafa hvað lægstar skuldir/GDP.  Það hlutfall hefur jafnan verið vel undir 10%.

Að mörgu leyti má líkega segja að Miðflokkurinn beri skarðan hlut frá borði sé miðað við þingstyrk flokkanna, Miðflokkurinn hefur 27 þingmenn, Sósíaldemokratar 15 og IRL 14. En til hins ber einnig að líta að enginn flokkur hefur viljað starfa með Miðflokknum um all langa hríð, og svo hefur hann vissulega forsætisráðuneytið.

Það má því ef til vill segja að hann hafi viljað leggja mikið í sölurnar til þess að komast í ríkisstjórn og það hefði verið ómögulegt, nema fyrir formannsskiptin sem urðu fyrir fáum vikum.

 


Stórmerkileg niðurstaða í fyrri umferð forkosninga Franska Lýðveldisflokksins

Niðurstaða fyrri umferðar forkosninga Lýðveldisflokksins kemur á óvart með afar skemmtilegum hætti

François Fillon sigrar með yfirburðum sem "engin" átti von á. Allra síst gáfu skoðanakannanir sigur hans til kynna, enda má líklega fara að segja að það sé frekar að verða regla en undantekning að þær séu nokkuð á skjön. Ég held að sú könnun sem ég hef séð gefa honum bestu útkomuna hafi verið í kringum 25%.

En það verður að vísu að hafa í huga að forkosningar sem þessar eru líklega með mjög erfitt forspárgildi, enda afar erfitt að fá gott úrtak, þegar alls óljóst er hverjir munu kjósa á endanum.

En ef marka má fréttir er talið að um 4.3 milljónir hafi tekið þátt í forkosningunum, sem er stórkostlegur sigur út af fyrir sig (aðeins 2.5 milljónir tóku þátt hjá Sósialistaflokknum árið 2011), auk þess að gefa góða innspýtingu í peningakassann (allir sem tóku þátt þurftu að borga 2. euro).

Franskir fjölmiðlar hafa verið uppfullir af fréttum af kjósendum annara flokka sem hugðust ætla að greiða atkvæði hjá Lýðveldisflokknum eigi að síður.

Þannig var talað um að stuðningsfólk Sósialistaflokksins hefði í hyggju að styðja Juppe vegna þess að honum myndi fylgja minnst "óbragð" þegar þau neyddust til að kjósa Lýðveldisflokkinn í síðari umferð forsetakosninganna.

Það var einnig talað um að kjósendur Þjóðfylkingarinnar ætluðu sér að styðja sinn "óskaframbjóðenda" gegn Marine Le Pen, og var sagt að það yrði Sarkozy.

En hvort að þessi stuðningur skilaði sér ekki á kjörstað eða fór á aðra frambjóðendur er erfitt að fullyrða, en ljóst er að Sarkozy er alla vegna úr leik.

Hvort að stuðningsfólk Sósíalistaflokksins eigi eftir að skila sér af auknum krafti í síðari umferðinni og lyfta Juppe, er sömuleiðis opin spurning.

En Fillon hefur verið talinn mest "pro business" af öllum frambjóðendunum og vill fækka ríkisstarfsmönnum um 5 til 600.000, lengja vinnuvikuna í 39 stundir (gefa vinnustöðum þó meira frelsi hvað varðar vinnustundir) og sagði að Frakkland væri í raun "gjaldþrota".

Ég held að ég fari rétt með að hann hafi verið kosinn á þing í kringum 1980, og hefur gengt ráðherraembættum bæði í forsetatíð Chirac og Sarkozy.

Hann er yfirlýstur aðdáendi Margaretar Thatcher, telst "anglophile" og er giftur welskri konu (ekki ólíklegt að alls kyns spekúlasjónir eigi eftir að verða í kringum Brexit út frá því sjónarhorni).

En það verður fróðlegt að fyljgast með hvernig leikar fara næsta sunnudag. Mun þátttakan aukast og hverjir mæta á kjörstað?  Munu sósíalistar fjölmenna á kjörstað og lyfta Juppe?

Hvor verður talin sterkari frambjóðandi gegn Marine Le Pen, sem flestir telja að verði mótherji frambjóðanda Lýðveldisflokksins í forsetakosningunum.

Og svo er líka spurning hvort að Sósíalistaflokkurinn eigi einhverja möguleika á því að komast inn í "hringinn"?

En ef að baráttan í lokin verður á milli François Fillon, sem þykir hallur undir "engilsaxneska frjálshyggju" og hins "franska sósíalisma" sem Marine Le Pen boðar, er hætt við að fylgjendur Sósíalistaflokksins nagi neglur sínar meira en ella.

Líklega má segja að sigur Fillon hafi "opnað" frönsku forsetakosningarnar upp á gátt - ekki síst vegna þess að efasemdir um skoðanakannanir munu fá byr undir báða vængi.


mbl.is Sarkozy heltist úr lestinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband