Athyglisverðar forkosningar í Frakklandi

Á sunnudaginn næstkomandi velur Lýðveldisflokkurinn (les Républicains) frambjóðanda sinn fyrir Frönsku forsetakosningarnar sem fram fara á næsta ári. Þó verður líklega aðeins um að ræða fyrri umferð, en sú seinni mun líklega fara fram sunnudaginn þar á eftir.

Forkosning Lýðveldisflokksins vekur mikla athygli, enda telja flestir að líklegast sé í raun verið að velja næsta forseta Frakklands.

Varla er talið að nokkur frambjóðandi Sósíalistaflokksins eigi möguleika á því að komast svo mikið sem í seinni umferð hinna eiginlegu forsetaskosninga.

Ekki er enn ljóst hvort að Hollande (Sósíalistaflokknum), núverandi forseti, muni sækjast eftir endurkjöri, en vinsældir hans á meðal almennings slá öll met niður við. Skoðanakannir sýna að allt niður í 4% kjósenda telji hann hafa staðið sig vel sem forseta.

En það sem gerir forkosningar Lýðveldisflokksins jafnvel enn athyglisverðari, er í raun er um að ræða það sem Íslendingar myndu kalla "opið prófkjör".

Þetta er í fyrsta skipti sem Franska "hægrið" velur þessa aðferð, en yfirleitt hafa frambjóðendur verið valdir innan flokks.

En nú mega allir kjósa. Einu skilyrðin eru að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að viðkomandi "deili gildum með Lýðveldisflokknum", og svo þarf að borga 2. euro.

Þetta hefur orðið til þess að lesa má í fréttum um stórir hópar þeirra sem hafa hugsað sér að kjósa Sósíalistaflokkinn, hafi nú hugsað sér að taka þátt í forkosningunni, til þess að velja þann frambjóðenda sem að þeir telji að standi betur að vígi til að sigra Marine Le Pen í forsetakosningunum. 

Þeir hafa enga trú á því að þeirra maður nái í seinni umferðina.

Sagt er að þeir muni kjósa Juppe.

Jafnframt er talað um að kjósendur Þjóðfylkingarinnar (Front National) ætli sömuleiðis að taka þátt í stórum hópum og kjósa þann frambjóðanda sem þeir telja að Marine Le Pen eigi meiri möguleika á að sigra.

Sagt er að þeir ætli sér að kjósa Sarkozy.

En Sarkozy og Juppe eru jafnframt þeir tveir sem flestir telja að komist áfram í seinni umferðina (því ekki er reiknað með að neinn nái yfir 50% í fyrri umferð).

En það verður fróðlegt að sjá niðurstöðuna og sömuleiðis þátttökuna.

Þó að Sarkozy og Juppe séu almennt taldir sigurstranglegastir, er ekki þar með sagt að úrslitin séu ráðin, það er ekki eins og skoðanakannanir hafi verið á sérstakri "sigurbraut" undanfarið.

Ef til vill kemur Lýðveldisflokkurinn okkur á óvart.

En þátttakendur eru : Jean-François Copé, 52. ára, François Fillon, 62. ára (gjarnan talinn líklegur til að ná 3ja sæti), Alain Juppé, 70 ára, Nathalie Kosciusko-Morizet, 42. ára, Bruno Le Maire, 46. ára, Jean-Frédéric Poisson, 52. ára og Nicolas Sarkozy, 61. árs.

Þó enn sé langt í kosningar þá tel ég líkur Marine Le Pen á því að sigra því sem næst engar. Uppbygging kosningana því sem næst tryggir það.

En ég hugsa að hún gæti hæglega komið á óvart og sigrað fyrri umferðina.

En allar líkur eru á að Frakkar séu að velja sinn næst forseta næstu tvær helgar í forkosningum hjá Lýðveldisflokknum.


mbl.is Le Pen mögulega næsti forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband