Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Hvar er best að auglýsa?

Nú er mikið rætt um hvar opinberir aðilar á Íslandi eigi að auglýsa.  Fyrirhugað er auglýsingaherferð til þess að fá Íslendinga til þess að ferðast innanlands.

Göfugt markmið.

En hvar á að auglýsa?

Ætti fyrst og fremst að auglýsa hjá Íslenskum aðilum, eða á einnig, og ef til vill í meira mæli að nota hina ýmsu samfélags/samskiptamiðla þó að um sé að ræða erlend fyrirtæki?

Stutta svarið hlýtur að vera að nota þá miðla mest sem bjóða upp á ódýrustu snertinguna.

Auglýsing er eitt og styrkur annað.

Nær einhver Íslenskur fjölmiðill álíka snertingu/verð og vinsælustu samfélagsmiðlarnir gera?

Verður ekki að gera greinarmun á auglýsingum og stuðning/styrk?

Auglýsingaherferðum er ekki ætlað að styðja við fjölmiðla heldur að ná árangri/markmiði.

Líklega verður þó alltaf einhver hluti af auglýsingaherferðinni beint að Íslenskum fjölmiðlum. 

En ef "markaðslögmálin" eru látin gilda verður líklega mjög stór hluti af þeim hluta, eytt hjá Ríkisútvarpinu.  Það hefur einfaldlega það stóra markaðshlutdeild.

Það er vissulega umhugsunarvert.

Það eru bara einstaklingar með "hjarðfofnæmi" eins og ég sem ekki finnast á samfélagsmiðlum. 

Ef ná á til fjöldans, eru þeir líklega besta og ódýrasta leiðin.

 

 


Viðtalið við Katrínu - án Franskrar þýðingar

Ég er ekki mikill aðdáandi þess að kvikmyndir eða viðtöl séu "over voiced".  Yfirleitt fer það mikið í taugarnar á mér.  Textun er mun þægilegri og skemmtilegri máti.

Hér má finna viðtalið við Katrínu Jakobsdóttur, hjá Frönsku sjónvarpsstöðinni France24, án Frönsku "voice over" þýðingarinnar.  Mun þægilegra til áhorfs og hlustunar.

 

 

 P.S. Til gamans má geta þess að France24 er 100% í eigu Franska ríkisins og er ætlað að koma  "Frönsku sjónarhorni, i fréttaflutningi, á framfæri í heiminum. Stöðin sendir út á Ensku, Frönsku, Spænsku og Arabísku.

Frakkar hafa lengi haft áhyggjur af "anglo-american" áhrifum í heimsfréttunum og er France24 ætlað að vera "Franskt mótvægi".

 

 


mbl.is Góðan árangur megi rekja til almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greinar dagsins: Falsfréttir, gagnrýni og tjáningarfrelsi

Ég fékk senda tengingar á tvær fínar greinar sem birtast í Kvennablaðinu og eru báðar skrifaðar af Evu Hauksdóttur.

Þar er fjallað um falsfréttir, gagnrýni og tjáningarfrelsi.

Greinarnar heita: Ætlar Elfa Ýr Gylfadóttir að ritskoða gagnrýni á Evrópusambandið?  og Þrengt að tjáningarfrelsi í Evrópu

Athyglisverðar greinar sem ég hvet alla til að lesa og velta þessum málum fyrir sér. Hvað er rétt að banna, hvaða hagsmunir eru meiri og minni o.s.frv.

Í greinunum má lesa m.a.:  "Þegar ég heyri orðið „falsfréttir“ detta mér helst í hug staðhæfingar sem eru óumdeilanlega rangar. Allskyns snákaolíufréttir hafa flætt yfir og það er full ástæða til þess að heilbrigðisyfirvöld vari fólk við ráðum eins og klórdrykkju og bendi á fullyrðingar sem eru til þess fallnar að veita falskt öryggi eins og þær að tilteknar fæðutegundir verji mann gegn smiti. Mér þætti fengur að upplýsingasíðu í anda Snopes, til þess að fletta ofan af slíku bulli og mér þætti í góðu lagi að ríkið legði til fé til þess að halda slíkum upplýsingavef úti, á meðan þessi ósköp dynja yfir. En hér virðist eitthvað annað og alvarlegra vera í bígerð."

"Í öðru lagi eru dæmigerðar falsfréttir sem hafi það að markmiði að sá fræum [svo] efans og ýta undir tortryggni bæði gagnvart stjórnvöldum einstakra ríkja,  gagnvart heilbrigðisyfirvöldum og til að grafa undan Evrópusambandinu með fullyrðingum um að samvinna Evrópuríkja sé ekki að virka, þau standi ekki saman."

Seinni tilvitnunin er í greininni, en ekki skrif Evu heldur tekin beint úr frétt Ruv.is um málið. Ég hvet alla til þess að lesa þá frétt sömuleiðis.

"Hatursorðræða er refsiverð ef hún felst í ógnunum eða hvatningu til ofbeldis eða mismununar eða ef hún er sett fram í þannig samhengi að fyrirsjáanlegt sé að hún verði tilefni ofbeldis eða mismununar. Það er ekki refsivert að hafa úreltar skoðanir. Engu að síður verður tjáning, sem „rétthugsandi“ fólk telur hatursfulla, oft tilefni pólitískra ofsókna. Fólk er niðurlægt á samfélagsmiðlum og nuddað upp úr vömmum og skömmum sem koma málinu ekkert við. Félagsleg útskúfun fylgir í kjölfarið, sumir missa vinnuna og stundum er lögreglu sigað á fólk sem er ekki á nokkurn hátt hættulegt, bara með skoðanir sem falla ekki í kramið.

Þótt hatursorða sé algengasta réttlætingin fyrir takmörkun tjáningarfrelsis er líka ástæða til að hafa áhyggjur af hömlum við tjáningu um trúarbrögð. Í október 2018 lagði Mannréttindadómstóll Evrópu blessun sína yfir þá lagatúlkun austurrískra dómstóla að gagnrýni á Islam gæti varðað hóflegri refsingu ef hún væri til þess fallin að særa trúartilfinningar múslíma. Í því tilviki hafði stjórnmálakona lagt út af sambandi Múhammeðs spámanns við eiginkonu sína, sem samkvæmt trúarritum var 9 ára þegar hjónabandið var fullkomnað, og spurt: „Hvað köllum við það ef ekki barnagrind?“"

Þessi tilvitnun er úr seinni greininni.

 

 


Er ríkið sem næstum enginn vill viðurkenna að standa sig hvað best?

Ekki vill ég ræna þær heiðurskonur sem nefndar eru í fréttinni hér á mbl.is hrósinu eða heiðrinum.

Þær hafa staðið sig almennt vel, ekki eingöngu hvað varðar baráttuna gagnvart Kórónuveirunni, heldur einnig í mörgu öðru.

Það er samt rétt að taka það fram að það er ekki tímaritið Forbes, sem er að hrósa leiðtogunum, heldur er um að ræða það sem oft er kallað dálkahöfundur (Forbes kallar það "contributor) að nafni Avivah Wittenberg-Cox.

Hún er ráðgjafi, markþjálfi, rithöfundur og fyrirlesari.

Forbes tekur það fram að skoðanir í slíkum dálkum séu dálkahöfundanna (ekki blaðsins), rétt eins og fjölmiðlar gera gjarna.

Þetta er því ekki grein viðskiptatímaritsins Forbes, heldur grein í viðskiptatímaritinu Forbes.

Hér stendur mbl.is þó mjög vel miðað við ruv.is, sem slær því upp í fyrirsögn: "Forbes mærir Katrínu og kvenleiðtoga í COVID-faraldri."

Í fréttinni eru skrifin síðan eignuð blaðamanni Forbes.

Ég geri mér grein fyrir því að mörgum þykir þetta vera tóm leiðindi af minni hálfu, en ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að vandaðir fjölmiðlar hafi staðreyndir í heiðri og segi rétt frá.

En þetta var útúrdúr.

Það sem mér kom í hug þegar ég las þessa frétt og svo síðar dálkinn í Forbes, er sú staðreynd að öll þessi ríki (nema eitt auðvitað) sem stjórnað er af þessum skörulegu konum eiga það sameiginlegt að viðurkenna ekki eitt ríkið sem fjallað er um.

Taiwan.

Það eru aðeins í kringum 15 ríki sem viðurkenna Taiwan og ekkert þeirra "vestrænt" ef ég man rétt.

Taiwan fær ekki aðild að Sameinuðu þjóðunum, né undirstofnunum þess, eins og vel hefur komið í ljós í samskiptum þess við WHO á undanförnum vikum.

Þó varð Taiwan einna verst af öllum ríkjum í SARS faraldrinum 2003, ég held að einungis Kína og Hong Kong hafi orðið verr úti. Ef til vill er það hluti af skýringunni á því hvað það stendur sig vel nú.

Í upphafi stóðu Taiwan og Kína andspænis hvort öðru og hvort ríkið taldi sig eiga að ráða yfir hinu.

En Taiwan hefur breytt um stefnu í viðleitni sinni til að verða viðurkennt í samfélag og þjóðanna og en hefur lítið miðað áleiðis.

En eftirtektarverð undantekning er á, en Taiwan, undir skráningunni Chinese Tapei (er samt undir T í stafrófsröðinni), er meðlimur í WTO (Alþjóða viðskiptastofnuninni), þó að Kína sé það sömuleiðis.

Það var einmitt núverandi forseti sem leiddi samninganefnd Taiwans við það tækifæri, en þá hafði hún ekki hafið stjórnmálaþátttöku.

Þar hafa bæði Kína og Taiwan tekið þátt í starfseminni frá því snemma á þessari öld.

Það er óskandi að svo geti orðið í fleiri alþjóðlegum stofnunum og ríkin semji sín á milli.

Hér má lesa ágætis skrif um Taiwan og diplómatískar tilraunir  þess.

P.S. Líklega hafa margir tekið eftir ónákvæmni í dálkaskrifunum í Forbes, þegar talað er um að undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur, standi öllum Íslendingum til boða ókeypis skimun.

Þar er ekki við Forbes að sakast, heldur dálkahöfundinn.

Þannig gerast þó hlutirnar oft, og ég varð margsinnis var við slíkt t.d. hvað varðaði fréttaflutning um Ísland í kringum bankahrunið. 

Fékk mig virkilega til að velta því fyrir mér hversu mikið ég gæti treyst fréttum, sérstaklega frá fjarlægari löndum.

 


mbl.is Kvenleiðtogar ná hvað bestum árangri gegn veirunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfsagðar fréttir

Það eru víða sagðar fréttir í æsingastíl þessa dagana.  Sá atburður sem fjallað er um hér er ágætis dæmi um slíkt.  Fréttir af honum eru ekki falsfréttir í þeim skilningi að þær séu rangar, heldur eru þær frekar hálfsagðar.

Í mörgum fjölmiðlum er talað/skrifað eins og risafjöldagrafir séu hér og þar í New York.

Reyndar má hrósa mbl.is fyrir að fara hægar í sakirnar en margir aðrir fjölmiðlar gera.

Í raun má segja að fjöldagröfin sé ein og hafi verið til staðar í kringum 150 ár.  Hún er á Hart eyju.

Talið er (engin veit líklega með vissu) að þar séu grafnir ríflega milljón einstaklingar.

Það er stór tala þegar tekið er tillit til þess að eyjan er u.þ.b. 1.6km X 0.5km að stærð.

Það má því vera ljóst að þar er ekki um að ræða leiði eins og við flest þekkjum þau.

Þarna hefur New York borg grafið þá einstaklinga sem látast og enginn sækir líkið og ef aðstandendur lýsa því yfir að þeir hafi ekki efni á útför.

Bill de Blasio, borgarstjóri New York borgar hefur sagt að þær reglur hafi ekki breyst, né sjái hann fyrir sér að það verði gert.

Að jafnaði er talað um að þarna séu grafnir 25 einstaklingar í hverri viku. Það sveiflast eitthvað eftir árstíðum eins og margt annað.

Nú er talað um að sú tala sé 6 til 7 föld.

Það ætti í sjálfu sér ekki að koma á óvart í miðjum faraldri, en ef til vill segir það okkur eitthvað um þjóðfélagshóp sem fer illa út úr faraldrinum, en það er of snemmt að segja nokkuð til um það.  Líklega kemur það í ljós síðar.

En það segir sig sjálft að núna er sömuleiðis mikið álag hjá útfararþjónustum, líkbrennslum og öðrum sem sinna þjónustu í kringum jarðarfarir.

Besta umfjöllunin sem ég hef séð enn sem komið er um þetta mál er í The Independent. Hófstillt, full af staðreyndum og öll sagan sögð ef svo má að orði komast.

Það hefur þó nokkuð verið talað um að það sé nauðsynlegt að við höldum ró okkar.

Það er enn mikilvægara þegar kemur að fjölmiðlum.


mbl.is Nota fjöldagrafir í New York
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Síðasta veiðiferðin", eða "nýjasta áfengisauglýsingin"?

Ég fékk þessa ábendingu frá kunningja mínum, enda mér ekki boðið á frumsýningu nýjustu Íslensku kvikmyndarinnar.

Síðasta veiðiferðinEn nýjasta Íslenska kvikmyndin ku heita "Síðasta veiðiferðin". "Auglýsingaplakat" hennar má sjá hér í færslunni.

Ég vil hvetja alla til að sjá hana, því mér er sagt að hún sé góð og meinfyndin.  Það er alltaf eitthvað sem ég kann að meta.

Það eru aldrei of margar gamanmyndir að mínu mati.

En það sem vakti athygli mína við "plakatið" (hvað er nú aftur Íslenska orðið yfir slíkt), er hin skammlausa áfengisauglýsing sem þar er á ferðinni.

Fjöldi vörumerkja bæði bjór og áfengistegunda vel sjáanlegur, í bland við ýmsa af bestu Íslensku leikurum.

Ekkert út á það að setja, nema auðvitað að áfengisauglýsingar í eru bannaðar í Íslenskum fjölmiðlum og á Íslandi. (Ef til vill ætti ég að taka það fram að ég skrifa þessa færslu í landi þar sem áfengisauglýsingar eru löglegar).

Hvers vegna?

Á hverjum degi sjá Íslendingar áfengisauglýsingar í erlendum fjölmiðlum, og oft á tíðum í Íslenskum, jafnvel Ríkissjónvarpinu sjálfu í beinum útsendingum.

Það er í lagi?

Ríkissjónvarpið sjálft getur birt auglýsingar fyrir áfengisframleiðendur og veðmálafyrirtæki, svo lengi sem þeir hafa keypt auglýsingaþjónustuna í þeim löndum sem það er löglegt.

Ríkissjónvarpið sýnir áfengisvörumerki í sinni útsendingu, en aðeins ef framleiðendur hafa borgað erlendum aðilum til að setja vöru þeirra eða vörumerki í kvikmynd eða sjónvarpsþátt.

Mun "Sjónvarpið" sýna "Síðustu veiðiferðina", þrátt fyrir að líklega sé áfengi auglýst þar? (Ég hef ekki séð myndina, þannig að ég vil ekki fullyrða).

Er ekki tími til kominn að stíga inn í nútímann, jafna aðstöðu og rétt innlendra framleiðenda gagnvart erlendum, jafna rétt og tekjumöguleika innlendra fjölmiðla gagnvart erlendum og hætta "2.25%", eða "léttöl" feluleiknum"?

Leyfum áfengisauglýsingar í Íslenskum fjölmiðlum, það er sanngirnisatriði.

 

 

 

 


Dagskrárstjórar "Sambandsins" láta til sín taka

Það eru miklar umbyltingar á fjölmiðlamarkaði, ekki síst afþreyingarhluta hans. Reyndar hafa verið nær stanslausar "umhleypingar" þar svo áratugum skiptir og sér varla fyrir endann á því.

Neysla á fréttum og afþreyingu hefur breyst og þróast.

Æ færri horfa á "dagskránna", heldur hefur hver og einn stjórn fyrir sig, velur sitt efni.  Fjölskyldur horfa sjaldan eða aldrei saman á sjónvarp, heldur kýs hver og einn sinn dagsrkrárlið.

Allir eru sínir eigin dagskrárstjórar, ef svo má að orði komast.

Þetta er eftirspurnarhliðin.

Þá kemur að framboðshliðinni.

Víðast hvar er enginn skortur á þeirri hlið.  Víða um lönd eru sjónvarpsstöðvar og efnisveitur hins opinbera, sem bjóða upp á fjölbreytta dagskrá á kostnað skattgreiðenda. Margar þeirra þurfa að uppfylla skilyrði hvað varðar framboð, gjarna hvað varðar innlent efni.

Síðan eru alls kyns sjónvarpsstöðvar og efnisveitur í höndum einkaaðila sem ýmist bjóða áskrift eða selja auglýsingar, sumar hvoru tveggja.

En Evrópusambandinu er eitthvað uppsigað við frjálst samband framboðs og eftirspurnar hvað varðar fjölmiðla og vill því setja framboðinu skorður.

"Sambandið" heimtar að minnst 30% af efni allra efnisveita sem starfi innan ríkja þess sé Evrópskt.

Reyndar eins og er algengt nú orðið lætur það sér ekki nægja að stjórna innan sinnan eigin landamæra, heldur krefst þess sama af Íslandi, Noregi og Liechtenstein.

Að hluta til virðist "Sambandið" ætla sér að taka að sér að hluta til "menningarlega tilsjá" með Íslandi.

Það er eiginlega með eindæmum hvernig "fríverslunarsamningur" þar sem Íslendingar "fengu allt fyrir ekkert", eins og fullyrt var á sínum tíma, hefur leitt þjóðina á þennan stað.

Eru Íslendingar einhverju bættari og menningu þeirra á einhvern hátt hjálpað með því að Netflix (og aðrar svipaðar efnisveitur) setji inn aukinn fjölda af Búlgörskum, Eistneskum, Rúmenskum og Pólskum kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum?

Myndu Íslendingar ekki frekar vilja setja skilyrði um að t.d. ákveðið hlutfall (mun lægra en 30%) af efni yrði að vera Íslenskt, eða ákveðið hlutfall barnaefnis yrði að vera talsett á Íslensku, eða eitthvað í þá áttina?

En "kommissarnir" vilja auðvitað ráða ferðinni, og þar sem "kommissarar" hafa ráðið ferðinni hafa þeir yfirleitt verið hrifnir af "kvótum" og "kvótana" þarf að fylla.  Með góðu eða illu.

Auðvitað vilja allar streymisveitur bjóða upp á efni sem nýtur vinsælda og er mikið horft á.  Á meðal þess er og hefur alltaf verið Evrópskt efni.

En það er auðvitað misjafnt ár frá ári hve mikið það er, og með auknum fjölda efnisveita dreifist það á fleiri staði.  Því gæti það hæglega orðið svo að til að fylla "kvótann" verði gripið til þess að kaupa það ódýrasta sem býðst, því áhorfið verði hvort sem er það lítið.

Þannig eru svona inngrip oft mjög tvíeggjuð.

En vissulega mun þetta færa þó nokkuð fé til Evrópskra framleiðenda, ef til vill er það megin ástæðan.

En þetta er enn eitt dæmið um stjórnlyndið sem svo oft ræður ríkjum í "Sambandinu" og getur verið svo hvimleitt.

Ef að t.d. efnisveita sem hefði eingöngu Disneymyndir á boðstólum er ógn við Evrópska menningu er ekki mikið varið í þá menningu.

En auðvitað er það bisnesshugmynd (alveg ókeypis fyrir þá sem vilja framkvæma hana) að setja á stofn efnisveitu eingöngu með Evrópsku efni.  Ef það næðist 30% markaðshlutdeild væri hún líklega í góðum málum.

P.S. Mikið væri gaman að heyra álit þingmanna Viðreisnar á svona framkomu Evrópusambandsins.  Getur það verið að flokkur sem vill afnema  reglur um Íslensk mannanöfn (sem ég er sammála) styðji að "Sambandið" setji "kvóta" á uppruna kvikmynda og sjónvarpsþátta? 

Ristir þeirra meinta "frjálslyndi" ekki dýpra en svo?

P.S.S. Hvað gerir kvikmynd eða sjónvarpsþátt Evrópskan?  Tungumálið, fjármögnunin?  Framleiðslulandið? Hvað með samframleiðslur, og fjármögnun frá mörgum heimsálfum, m.a. Evrópu?

 

 


Sápuópera með 10.000 (tíu þúsund) þætti

Eins og oft áður var ég að þvælast eitthvað um netið og rakst þá á þá staðreynd að í dag (föstudag) hefði verið sýndur 10.000, þátturinn af Bresku sjónvarpsseríunn, eða "sápuóperunni" "Coronation Street".

Þó að mig reki minni til að hafa eitthvað heyrt um þessa "seríu" hef ég aldrei séð einn einasta þátt.

En fyrsti þátturinn var sýndur fyrir 60 árum síðan, 1960.

Það hlýtur að vera ákveðið afrek að hafa haldið þessu gangandi í öll þessi ár.

En það besta sem ég sá var stutt umsögn sem einhver hafði sett inn, eitthvað á þá leið að fyrstu 30. árin hefðu verið góð, en síðan hefði þetta verið allt niður á við.

En þetta gæti auðvitað verið "últimate" hámhorf. lol

 


Hefur Mannréttindadómstóllinn ekkert heyrt um Íslensku vanhæfireglurnar?

Ekki veit ég hvernig niðurstaðan í þessu máli verður, það er eins og jólagjafirnar, vandi um slíkt að spá.

En ég velti því fyrir mér hvort að Mannréttindadómstóllinn hafi ekkert heyrt af Íslensku "vanhæfisreglunum"?

Nú hef ég séð það í fjölmiðlum að Róbert Spanó dómari í málinu og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaðurinn sem kemur umræddu máli fyrir dóminn, séu æskuvinir.

Nú get ég ekkert fullyrt um sannleiksgildi þess, enda hvorki vinur né kunningi þeirra sem um er rætt.

En sé þetta nú satt, hvernig stendur á því að Íslenskir stjórnmálamenn og almenningur eru ekki brjálaðir og krefjast þess að dómarinn stígi til hliðar?

Er ekki um augljóst "vanhæfismál" að ræða?

Eða eru svona tengsl bara "allt í lagi" svo lengi sem hvorugir minnist á að hann hafi hringt í hinn?

Er ekki þörf á að rannsaka þetta frekar?

P.S.  Íslenskir fjölmiðlar ættu auðvitað að rannsaka þetta frekar. Síðan væri auðvitað tilvalið að bera þetta undir Helgu Völu Helgadóttur, sem er eftir því sem ég kemst næst stödd út í Strassbourg, og svo Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, sem er einmitt (einn af tveimur af ég man rétt) fulltrúi Íslendinga á Evrópu(ráðs)þinginu.

P.S.S. Auðvitað á Evrópuráðsþingið frekar að vera kalla "Evrópuþingið" en þing "Sambandsins", sem hefur ekki nema u.þ.b. helming Evrópuríkja sem aðildarlönd. Sömuleiðis á Mannréttindadómstóll Evrópu mun meira tilkall til þess að vera kallaður "Evrópudómstóllinn", en einhver "smá" dómstóll sem aðeins dæmir í málum sem varða aðildarríki "Sambandsins",


mbl.is Á ekki von á viðsnúningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært skref hjá Póstinum, auðvitað á raunkostnaður að gilda.

Það má alveg hafa samúð með héraðsfréttablöðum og erfiðum rekstri þeirra. En ég er hjartanlega sammála þessu skrefi Íslandspóst.

Það getur ekki átt að vera hlutverk ríkisfyrirtækja eða hlutafélaga í opinberri eigu að styðja við þennan eða hinn reksturinn með því að láta hann greiða minna fyrir þjónustu en efni standa til.

Ef það er gert hlýtur það að bitna á öðrum notendum þjónustunar, sem þurfa þá að niðurgreiða þá þjónustu með hærri gjöldum.  Í þessu tilfelli póstsendingar héraðsfréttablaða.

Ef hið opinbera vill styrkja útgáfu héraðsblaðanna, fer best á að það sé gert með beinum styrkjum, þannig að það sé gegnsætt og uppi á borðum

Ekki í gegnum annan rekstur.

Áfram Pósturinn.

P.S. Heyrði einhversstaðar á "skotspónunum" að réttast væri að gera nýjan forstjóra Póstsins að "farandforstjóra" sem færi og tæki til hjá ríkisfyrirtækjum. 

Ég hef heyrt verri hugmynd.


mbl.is Eini kostur Póstsins að hækka verðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband