Ástralska leiðin?

Ég fæ það stundum á tilfinninguna að Íslendingar hafi eitthvað óútskýrt blæti fyrir "útlendum leiðum".

En eins og Samfylkingarfólki ætti að vera í fersku minni, reynast þær ekki alltaf eins og lagt er upp með.

Líklega hafa flestir heyrst minnst á "Sænsku leiðina", en hún er til á fleiri en einu sviði, en Portúgalska leiðin (hvað varðar fíkniefni), "Finnska leiðin" í skólamálum, "Skoska leiðin" leiðin í flugsamgöngun hafa einnig verið í umræðunni og fleiri dæmi má líklega finna.

Nú er all nokkuð rætt um "Áströlsku leiðina" í sóttvörnum.

Að því að ég hef séð hefur þó enginn, fjölmiðill eða talsmenn leiðarinnar, haft fyrir því að útskýra hvaða leið Ástralir fóru, nema að sagt að (í stuttri útgáfu) þeir hafi lokað landamærunum, þar séu allir hamingjusamir, borðandi á veitingahúsum og syngjandi á tónleikum.

En Áströlsk yfirvöld hafa gripið til mjög harðra aðgerða hvað varðar landamæraeftirlit.  Ekki eingöngu þurfa allir sem koma til landsins (þeir eru að gera undantekningu nú, hvað varðar Nýsjálendinga) að fara í 14. daga sóttkví undir eftirliti lögreglu/hers, heldur hafa þeir takmarkað þann fjölda sem fær að koma til landsins.

Það kann enda að vera nauðsynlegt til að hafa fulla stjórn á sóttkvíarstandinu.

Þannig hafa aðeins 5000 til 7500 eintaklingar getað komið til Ástralíu í viku hverri, eftir því hvað harðar aðgerðir hafa verið við lýði.

Ástralskir ríkisborgarar, eða þeir sem hafa heimilisfesti þar hafa ekki notið neins forgangs eða sleppa fram hjá þeim kvóta.

Miðað við höfðatöluna margfrægu, reiknast mér til að það samsvari á bilinu 70 til 100 yrði hleypt til Íslands á viku hverri.

Af slíkum kvótum leiða önnur vandamál.  Sökum þess hve fáir mega koma, en flugfélög leitast samt við að halda uppi lágmarksstarfsemi og samgöngum, eru gjarna aðeins hægt að bóka örfáa í hvert flug, en þó notaðar mjög stórar flugvélar, vegna fjarlægðarinnar til áfangastaða.

Mikið er um að 40 til 60 manns séu í hverri flugvél og aðeins seld sæti í "dýrustu klössum".

Sem aftur hefur orðið til þess að aðeins þeir efnameiri hafa efni á sætunum og ferðalög erlendra auðkýfinga og kvikmyndastjarna til Ástralíu, hafa mælst mis vel fyrir á meðal Ástrala, ekki síst þeirra sem hafa ekki efni á að fljúga heim til sín og hafa verið strandaglópar erlendis svo mánuðum skiptir.

Engin sleppur við sóttkví, en kvikmyndastjörnur og auðkýfingar hafa fengið leyfi til að taka út sína sóttkví á búgörðum og lúxus "resortum".

En merkilegt nokk, heyrist mér að málsvara "Áströlsku leiðarinnar" megi á Íslandi ekki hvað síst finna á meðal þeirra sem kenna sig við sósíalisma og stuðngingsmanna fyrrverandi "alþýðuflokka".

En það er allt eins líklegt að slíkar aðgerðir á Íslandi hefðu í för með sér að allar flugsamgöngur, utan fragtflugs og þær flugleiðir sem Ríkissjóður greiddi fyrir, mundu leggjast af.

Talað er um að nú, í kringum ári eftir að reglurnar tóku gildi, sé enn allt að 40.000, Ástralskir ríkisborgarar strandaglópar erlendis, margir búnir að missa atvinnu og búi við þröngan kost.

Þeir hafa leitað til Sameinuðu þjóðanna vegna þess sem þeir telja mannréttindabrot og að Áströlsk yfirvöld brjóti Mannréttindasáttmála samtakanna.

En auðvitað eru skiptar skoðanir um hvort lög, mannréttindi eða annað slíkt sé nokkuð sem þurfi að taka tillit til.

Í janúar síðastliðnum, lækkuðu Áströlsk stjórnvöld vikuleg fjöldan tímabundið, en hleyptu samt inn 1700 tennisspilurum og fylgdarliði þeirra fyrir "Australian Open".

Þeir þurftu í sóttvkí eins og aðrir, en tennisspilarar fengu forgang yfir Ástralska ríkisborgara.

Mér skilst einnig að svo gott sem allar nema nauðsynlegustu samgöngur á milli fylkja í Ástralíu hafi verið bannaðar.

Líklega má færa fyrir því rök að ef Íslandi hefði verið skipt upp í 4 til 5 sóttvarnarsvæði, gætu í það minnsta Norð- og Austlendingar og gott ef ekki Vestfirðingar líka setið á veitingastöðum og sungið á tónleikum, rétt eins og Ástralir.

Spurning sem verður að svara er hins vegar hvort að Íslendingar vilji fara slíkar leiðir og svo má spyrja sóttvarnaryfirvöld hvers vegna þær hafa ekki verið valdar.  Ekki það að ég sé að mæla fyrir þeim.

Persónulega tel varasamt að halda að það sé hægt að "kaupa" pakka að utan, finna bara "töfralausn" sem hægt sé að afrita og allt falli í blóma.

Það sést ef til vill best á þeirri frétt sem þessi færsla er hengd við, þar segir frá baráttu Færeyinga við veiruna.

Þeir virðast í fljótu bragði beita svipuðum vopnum og Íslendingar, en með mikið betri árangri.  "Færeyska leiðin" virðist virka vel, fyrir Færeyinga.

Þar eru líklega að verki einhverjar "breytur" sem blasa ekki við.

Sjálfsagt má líka sitthvað læra af Áströlum, en það er nauðsynlegt að þeirra aðgerðir séu ræddar sem heild og allt komi fram (þessi færsla er ekki heildaryfirlit yfir aðgerðir Ástralskra stjórnvalda).

Þessi færsla byggir á fréttum frá SBS NewsFrance24 og BBC.

P.S. Hitt er svo að þegar þegar stjórnmálamenn, ekki síst ef þeir eru úr Samfylkingunni, boða "töfralausnir", þá tel ég rétt að taka því með miklum fyrirvara.  :-)

 


mbl.is Í Færeyjum er lífið næstum eðlilegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. apríl 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband