Atvinna, einkalíf og siðanefndir og -vandir einstaklingar

Urskurðir siðanefnda vekja alltaf athygli, en ekki nauðsynlega gleði.  Hvort að siðavandir einstaklingar sitji í siðanefndunum eru sömuleiðis skiptar skoðanir um.

En hvaða rétt hafa fyrirtæki til að skipa siðanefndir til að fjalla um athæfi starfsmanna sinna utan vinnutíma?

Fróðlegt væri að heyra álit stéttarfélaga á því.

Ég er sammála því að ýmsu leyti virðist framganga Helga á samfélagsmiðlum rýra trúverðugleika hans sem hlutlauss fréttamanns, og þá óbeint stofnunarinnar sem hann starfar fyrir.

En hvar liggja mörkin á milli vinnu og einkalífs?

Hefur vinnuveitandi rétt á því að krefjast á starfsmaður viðri skoðanir sínar hvergi opinberlega?

Má íþróttafréttaritari "halda með" félagi?

Eftir því sem mér skilst lét RÚV starfsmann sinn á Selfossi "fjúka" vegna svipaðs atviks, en ég treysti mér ekki til segja um hvort það er fyllilega sambærilegt eða ekki, þekki ekki nóg til málsins.

Kennari norður í landi, sem var rekinn fyrir að viðra í frítíma sínum, trúarskoðanir  og hvernig "heilög ritning" fjallar um samkynhneigð, var rekinn úr starfi.

En dómstólar töldu rétt hans til að að aðhafast slíkt í frítíma sínum ótvíræðan.

Kennari við háskóla var hins vegar rekinn fyrir að tjá þær skoðanir að konur væru til leiðinda og spilltu fyrir, og dómstólar töldu það lögmæta ástæðu uppsagnar.

Ég þekki ekki hvort að hann ritaði orð sín á Facebook í frítíma sínum eða í vinnunni. Þó skilst mér að um hafi verið að ræða lokaðan hóp.

Þannig að eitthvað eru málin blandin.

Hvar liggja mörkin á milli einkalífs og atvinnu?

Getur framkoma í frítíma, réttlætt atvinnumissi?

Er hægt að banna starfsmönnum að tjá skoðanir sínar?

Ef starfmaður lætur tattúvera hamar og sigð á áberandi stað, gefur það vinnuveitenda rétt til að segja honum upp, vegna þess að táknið gæti sært bæði samstarfsfélaga og viðskiptavini?

Persónulega finnst mér enginn vafi á því að Helgi Seljan hefur brotið siðareglur RUV, rétt eins og mér fannst líklegt að Þórhildur Sunna hafi brotið siðareglur Alþingis.

En hvort að siðareglurnar og siðanefndirnar eigi rétt á sér er allt annar handleggur.

Hvort að það sé lagagrunnur fyrir því að setja starfsmenn undir slíkt, utan vinnutíma, væri fróðlegt að fá úrskurð um.

Þó að í "tísku" sé að setja slíkar reglur segir það lítið til um lögmæti þeirra, það er að segja utan vinnutíma.

En framganga utan vinnutíma getur vissulega skaðað trúverðugleika t.d. fréttamanna, en ég held að engar siðareglur breyti afstöðu þar um.  Einstaklingar dæma eftir "eigin standördum".

En ef til vill segir Helgi Seljan okkur ábúðarfullur frá því næst þegar þingmaður verður sakaður um að hafa brotið siðareglur eða næst þegar háskólakennari verður rekinn fyrir að segja einhverja vitleysu á samfélagsmiðlum.

En svo gæti RUV líka haft "siðameistara" sem starfsmenn senda færslur sínar til, og fá samþykki, áður en þeir birta þær á samfélagsmiðlum.

 

 


mbl.is Siðanefnd féllst ekki á endurupptöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. apríl 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband