Ágúst Ólafur og fyrirgefningin

Það er rétt að byrja á því að segja að ég hef aldrei kosið Samfylkinguna og líklega mun verða í það minnsta frekar svalt í víti áður en til þess kemur (gæti verið klókt að gera það á mínum síðustu árum, til að gera vistina þar bærilegri).

En ég hef samt sem áður fylgst með þeim skoðanaskiptum sem hafa orðið í kjölfar um hvaða sæti Ágúst Ólafur Ágústsson, ætti að skipa á lista flokksins, af áhuga.

Frá pólítísku sjónarmiði hafa ýmsir áhugaverðir vinklar komið fram eða ekki.

Mjög áberandi sjónarmið er að Ágúst sé látinn gjalda þess að hafa játað sig sekan um kynferðislega áreitni.

Það er skiljanlegt, enda hlýtur slíkt að teljast verulega íþyngjandi fyrir stjórnmálamann. 

Jafnframt má heyra að Ágúst hafi leitað sér aðstoðar við áfengisvanda, og er talað um að verið sé að fremja "ódæðisverk" gegn óvirkum alkólístum.

Ég get ekki að því gert að mér þykir þetta merkilegt sjónarmið.

Ekki síst vegna þess að mér finnst það skrýtið sjónarhorn að skilgreina frambjóðanda eftir því hvort að hann sé óvirkur alkóhólisti eður ei, og einnig þess sem mér finnst örla á, að áfengismeðferð sé nokkurs konar "aflátsbréf" fyrir það sem á undan hefur gengið.

Ekki ætla ég að fullyrða um hvaða sjónarmiðum uppstillingarnefnd Samfylkingar hefur starfað eftir, en er ekki hugsanlegt að hún (og þeir sem greiddu atkvæði) hafi litið til starfa þingmannsins og jafnframt talið sig eiga kost á betri og öflugri frambjóðendum?

Ekki mitt að dæma, en ég get ekki séð hvernig uppstillingarnefnd hefði átt með góðu móti að ganga gegn þeim vilja sem kom fram í skoðanakönnunni, sérstaklega eftir að þeim hafði verið lekið út.

En ekki síður forvitnileg spurning í pólítískum vangaveltum er, hver lak niðurstöðunum?

En eins og oft þegar stjórnmálamenn hljóta "ótímabæran pólítískan dauðdaga", eru margir, jafnvel pólítískir andstæðingar sem bera lof á þann sem er á útleið.

Þar er að verki bæði sá Íslenski siður, að "allir eru góðir þá gengnir eru" og svo hitt, að það er gott að læða því að kjósendum að andstæðingurinn sé svo "vitlaus" að vera að stinga sína bestu menn í bakið.

Að mestu leyti er "fall" Ágústs Ólafs því "hversdagsleg pólítík", því að eins og á Glæsivöllum, þá "í góðsemi (pólítík) þar vega þeir hver annan".

Hvort að þetta eigi eftir að koma Samfylkingunni til góða í næstu kosningum er svo óráðið.

Ég held að uppstillingaraðferðin hafi ekki gert það og hvort listarnir verða sterkari verður ekki skorið úr um fyrr en í haust.

 


Bloggfærslur 22. janúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband