Gleðileg jól

Þá eru jólin komin, einu sinni enn. Dimmur, en góður tími, þar sem (skert) samvera og vinátta eiga sviðið. 

Reyndar tekur matur og drykkur æ meira pláss, og segja má að margir "blóti" jólin. 

Það er reyndar (eins og ég hef oft skrifað hér áður) einn stærsti kosturinn við jól, það er að segja orðið sjálft.

Það er allra og getur staðið fyrir ótal mismunandi atriði.

Það tilheyrir heiðni, það er ein heilagasta hátíð kristinna og trúleysingjar eins og ég eigum auðvelt með að tileinka okkur jólin, enda nokkurn veginn á sólhvörfum, sem eru alltaf tímamót.

Ég óska öllum nær og fjær, gleðilegra jóla og vona að þeir njóti þeirra í friði og spekt.

 

 


Flugeldasýningar á aðfangadag

Ég fór óvenjuseint á fætur í morgun.  "Væbblaðist" um, undirbjó matseldina og drakk kaffi.

Fór óvenjuseint á netið þennan morgunin, enda vaninn sá að það eru ekki margar né miklar fréttir á aðfangadag.  Þær snúast um færð og "fílgúd", messur og matseld.

En loksins þegar ég dreif mig á netið blasti við hver "bomban" á fætur annari.

Búið að semja í "Brexit", Kári Stef og Þórólfur allt að því komnir í hár saman yfir því hverjum datt í hug að ræða við Pfizer, og síðast en ekki síst, Bjarni Benediktsson í "hörkupartýi" í miðjum faraldri.

Það kemur einnig fram í fréttum að þar hafi flestir haft áfengi um hönd. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar voru sumir einstaklingar svo óforskammaðir að þeir föðmuðust.

Þannig að ekki vantaði fréttirnar.

Ekki dettur mér í hug að hnýta í Bjarna fyrir að hafa verið þarna.  Ég hefði ábyggilega verið þarna sjálfur - ef aðeins mér hefði verið boðið.

En ég er ekki fjármálaráðherra, né formðaur stjórnmálaflokks, hvað þá að ég hafi verið að hvetja almenning til að gæta ítrustu varúðar í sóttvörnum.  Ég hef farið allra minna ferða án þess að óttast "veiruna" um of.

Allt þetta kann auðvitað að vera skýringin á því að engin hefur boðið mér í partý lengi.

Það mátti reyndar einnig lesa í fréttum að duglegur "kóvídetectiv" hefði tilkynnt samkvæmið til lögreglu og tekið fram að fjármálaráðherra væri staddur í samkvæminu í tilkynningunni.

Það er hollara fyrir alla Íslendinga, ráðherrar meðtaldir, að gera sér grein fyrir því að fylgst er með þeim.

Þannig er reyndar staðan víðast um heim, og boðar okkur engan fögnuð.

En það er, í það minnsta í mínu minni, langt síðan aðfangadagur hefur verið jafn fréttaríkur.

 

 

 


mbl.is Hefði átt að yfirgefa listasafnið strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. desember 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband