Er Covid-19 verra en flensa? Líklega fer að eftir því við hvaða flensu og hvaða land er miðað

Margir hafa sagt að Covid-19 sé ekkert verri en venjuleg flensa.  Ég er ekki alveg sammála því.

En er Covid-19 verri en mjög slæm flensa?  Ef þannig væri spurt ætti ég erfiðara með því að gefa ákveðið svar.

Tökum sem dæmi flensuna sem geysaði 1968.  Hún var gjarna kölluð "Hong Kong flensan" og sumir kölluðu hana jafnvel "Maó flensuna".  Það var auðvitað áður en en sú hugsun læddist að nokkrum manni að það samræmdist ekki "nútíma hugsunarhætti" að kenna veikindi við uppruna þeirra, hvað þá "sósíalíska leiðtoga sem veittu sólskini yfir jarðarkringluna".

Hún þótti "nýjung" þá, en er eftir því sem ég kemst næst nákskyld því sem við köllum influensu A, í dag.

En hvað veiktust margir af "Hong Kong" flensunni og og hvað margir létust?

Um það er alls ekki einhugur. Lægstu tölur segja ríflega milljón einstaklinga hafa látist, en hæstu tölur eru í kringum 4. milljónir.  Það voru líklega ekki birtar daglegar tölur þá, eins og tíðkast nú.

Engin virðist hafa nokkra hugmynd um hvað margir veiktust.

Líklega hefðu áhrif "Hong Kong flensunnar" orðið mun meiri og alvarlegri, hefði bóluefni ekki komið til sögunnar 4. mánuðum eftir að hennar varð fyrst vart.

Það sama má reyndar segja um "venjulegu flensuna" sem herjaði á heimsbyggðina árið 1957.

Rétt er að hafa í huga að árið 1968 voru íbúar heimsins álitnir u.þ.b. 3.5 milljarðar, eða vel undir helmingi af þeim 7.5 milljörðum sem taldir eru búa þar í dag.

Árið 1957 voru íbúar heimsins taldir tæplega 2.9 milljarðar.

Það má því vera nokkuð ljóst að flensurnar 1957 og 1968 hjuggu líklega stærri skörð í íbúafjölda heimsins heldur en Covid-19 hefur náð að gera, en vissulega er heimsbyggðin ekki búin að bíta úr nálinni með Covid-19 enn.

Ef miðað er við hærri tölurnar um dauða 1957 og 1968, þyrftu dauðsföll að ná fast að 10. milljónir, til að vera hlutfallslega sambærileg.

Enn sem komið er er því Covid-19 verra en hefðbundin flensa, en ekki eins slæmt eða svipað og "slæm flensuár".

En þá eins og nú urðu lönd mjög misjafnlega fyrir barðinu á "óværunni".  Talið er að t.d. 100.000 einstaklingar hafi látist í Bandaríkjunum 1968/69/70 (tveir vetur) af völdum flensunar.  Þá voru íbúar þar í kringum 200 milljónir.  Það er því nokkuð ljóst að Bandaríkin eru að fara heldur verr út úr "kófinu" en flensunni 1968.

En sé litið til Þýskalands er talið að í kringum 60.000 einstaklingar hafi látist í Austur og Vestur Þýskalandi. 

Það er mikið hærri tala en nú af völdum Kórónuveirunnar. Þó hefur íbúum sameinaðs Þýskalands fjölgað verulega.

Til dæmis er talað um að dauðsföll hafi verið svo mörg í Berlín að líkum hafi verið staflað í neðanjarðarlestargöngum.  Ekki hafi hafst undan við að grafa þá sem dóu og sorphreinsunarmenn hafi verið "shanghæjaðir" í störf grafara.

Í Frakklandi var talið að allt að helmingur vinnandi fólks hafi lagst í rúmið.

Það var einnig mjög mismunandi eftir löndum hvort að fyrri bylgjan (68/69) olli fleiri dauðsföllum en seinni bylgjan (69/70).

En yfirleitt var gripið til lítilla eða engra sóttvarnaraðgerða, þó að vissulega færu margir varlega.

Það er til dæmis vert að hafa í huga að á milli fyrri og seinni bylgjunnar í Bandaríkjunum, eða sumarið 1969, nánar tiltekið í ágúst, var blásið til Woodstock.  Það var síðan í október sem seinni bylgjan fór á fulla ferð.

Eins og velþekkt er úr sögunni vantaði heldur ekki mótmælasamkomur á þessum árum, hvorki í Bandaríkjunum eða Evrópu.

Bæði forseti og varaforseti Bandaríkjanna smituðust af flensunni og yfirleitt er talið að geimfari, sem varð veikur á braut um jörðu hafi smitast af þeim. Hann var þó aðeins 1. af 3.

Þeir sem kannast við hugtakið "68 kynslóðin" gera sér líklega grein fyrir því að fjölmenn mótmæli áttu sér stað bæði austan hafs og vestan á þessum árum.

Það er reyndar eftirtektarvert hve erfitt er að finna yfirgripsmiklar heimildir um þessa faraldra sem þó kostuðu svo mörg mannslíf.

En líklega var tíðarandinn annar. 

Samfélagsmiðlar þekktust ekki, fjölmiðlun var allt önnur og samfélagið sömuleiðis.

Hvernig skyldi verða fjallað um "kófið" að 50. árum liðnum?  Verður fókusinn á hættuna?  Eða viðbrögðunum?

Eða verður þetta að mestu leyti gleymt?

 


Bloggfærslur 30. nóvember 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband