Er Þorgerður Katrín að kalla eftir massívri peningaprentun Seðlabankans?

Ég er reyndar ekki hissa á því að "Sambandssinnar" eins og Þorgerður Katrín fitji upp á vaxtaumræðu.

Það er gamalt trix til að fá almenning til að  halda að vextir myndu lækka verulega ef Ísland gengi í "Sambandið".

Slík vaxtalækkun er þó "fugl í skógi", en ekki hendi, þó að líklegt væri að vextir myndu lækka að einhverju marki, ef euro yrði lögeyrir á Íslandi, t.d. eftir 10 ár eða svo.

Því þótt vaxtalækkunin yrði næsta víst einhver, hafa fjárfestar brennt sig eftirminnilega á því að halda að allar skuldir í euroum séu hinar sömu, ef svo má segja.

Það sem Þorgerður Katrín minnist heldur ekkert á er hvers vegna vaxtakostnaður eurolandanna sem hún nefnir er lægri en Ísland (í %stigum).

Það er vegna dapurs efnahagsástands á Eurosvæðinu, gífurlegra skulda, atvinnuleysis og stöðnunar.

Undir venjulegum kringumstæðum myndi efnahagsástand eins og ríkir í löndum eins og Grikklandi, Spáni, Portúgal, Ítalíu og jafnvel Frakklandi, þýða að vextir á skuldum þeirra ríkja væru mun hærri en þær eru í dag, líklega jafnvel hærri hjá sumum þeirra en þau kjör sem Íslandi bjóðast.

En til að reyna að koma lífi í staðnað og þreytt efnahagslíf Eurosvæðisins hefur Seðlabanki (ásamt seðlabönkum aðildarríkjanna) þess staðið fyrir gríðarlegri peningaprentun, keypt stóran hluta af skuldabréfum ríkisstjórna og einnig sumra stórfyrirtækja.

Eðlilega keyra slík risa inngrip upp eftirspurn eftir bréfunum og jafnframt niður vexti á þeim. Skuldabréf einstakra ríkja hafa enda farið í neikvæða vexti.

Þetta veit Þorgerður Katrín, hún kýs einfaldlega ekki að minnast á það, það hentar ekki hennar málflutningi.

Er það nýja peningastefnan sem Þorgerður Katrín er að kalla eftir?

Heldur einhver að vextir í landi þar sem talað er um að hagvöxtur hafi dansað í kringum 10% á síðasta ársfjórðungi, geti verið nálægt vöxtum á efnahagssvæði þar sem horft er til 2% hagvaxtar í  hillingum?

Heldur Þorgerður Katrín að massvív peningaprentun og neikvæðir stýrivextir væri það sem hentaði Íslandi í dag? Vill Þorgerður Katrín beita Seðlabankanum til kaupa á skuldum ríkisstjóðs til að keyra niður vextina?  Telur hún að Seðlabankinn ætti að ýta undir þennslu?

Það væri veruleikinn ef Ísland væri á Eurosvæðinu.

Stjórnmálamenn geta ekki leyft sér að tala eins og vextir séu ótengdir almennu ástandi í efnahagsmálum, þó að vissulega megi deila um hvort þeir eigi að vera örlítið lægri eða hærri.

Ég hygg að öll þau lönd sem Þorgerður Katrín nefndi (og fleiri til á Eurosvæðinu) væru til í að skipta á vaxtaprósentu við Ísland, ef með fylgdi framtíðarhorfur, atvinnuleysistölur, atvinnuþátttaka, skuldastaða og viðskiptajöfnuður. Jafnvel verðbólgan sem Ísland býr við þætti eftirsóknarverð sum staðar, því verðhjöðnun er ekki skemmtilegt fyrirbrigði.

Stjórnmálamenn og flokkar sem tala hátt um ný vinnubrögð ættu ekki að hoppa niður í skotgrafirnar sem þeir höfðu komið sér fyrir í síðast þegar þeir sátu á þingi.

 

P.S. Svo er aftur algengt að lágt stýrivaxtastig á Eurosvæðinu skili sér misvel t.d. í fasteignalánum. Þar sker N-Evrópu sig yfirleitt nokkuð frá með afar lága vexti, oft í kringum, eða jafnvel örlítið undir 2%. En vextir til húsnæðiskaupa, t.d á Írlandi eru miklu hærri, sama gildir um Eistland, svo tvö dæmi séu tekin af handahófi.

Þannig er ekki til neitt sem heitir "fasteignavextir á Eurosvæðinu", enda um verulega mismunandi svæði að ræða, sem eru talin mismunandi góð veð.  Svo er endalaust hægt að velta því fyrir sér og rökræða um hvort, ef euro yrði lögeyrir á Íslandi, vextir á fasteignalánum yrðu líkari því sem gildir í Þýskalandi, eða hvort þeir yrðu nær því sem er á Írlandi, eða jafnvel enn hærri.

 

 


mbl.is Spurði út í „óþolandi vaxtabyrði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband