Kemur næsti forseti Frakklands frá vinstri eða hægri?

Það er ekki rétt að Sósíalistaflokkurinn franski eigi í erfiðleikum með að ákveða hver verður fulltrúi þeirra í forsetakosningunum á næsta ári. Þeir halda forkosningar þann 22. janúar næstkomandi, og seinni umferð (ef þarf) þann 29. sama mánaðar. 

En það er ekki ljóst hverjir verða þar í kjöri, enda framboðsfrestur ekki runninn út. Á meðal þeirra sem ekki hafa tilkynnt af eða á um framboð, er Hollande núverandi forseti og forsætisráðherra hans, Manuel Valls.

Nú þegar eru 4. einstaklingar komnir í framboð, en þó þykir mörgum líklegt að annað hvort Valls eða Hollande hafi sigur í forkosningunum, þó að hvorugur þeirra þyki líklegur til að komast áfram í seinni umferð forsetakosninganna sjálfra.

Nú er mikið gert úr því að líklega geti Frakkar eingöngu valið á milli tveggja hægri kosta þegar kemur að úrslitum forsetakosninganna.

Flestar spár og kannanir (ekki eins að þær hafi reynst "hoggnar í stein" upp á síðkastið) benda til þess að að slagurinn muni standa á milli François Fillon, frambjóðanda Lýðveldisflokksins og Marine Le Pen, frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar.

Fillon þykir hallur undir (engilsaxneska) frjálshyggju í efnahagsmálum, en er íhaldsmaður hvað varðar samfélagsmálin, en hann hefur þó gefið út að hann hyggist ekki framfylgja sínum persónulegu skoðunum, í málum eins hjónabandi samkynhneigðra og hvað varðar fóstureyðingar. Ef til vill má í stuttu máli segja að hann hyggist ekki snúa klukkunni afturábak, en ólíklegt sé að réttindi á þessum sviðum aukist í stjórnartíð hans.

Hann hefur talað fyrir róttækum aðgerðum í efnahagsmálum, miklum uppsögnum í opinbera geiranum, lengingu vinnuvikunnar o.s.frv.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að það tíðkast að tala um Marine Le Pen og Þjóðfylkinguna sem hægri öfgaflokk.

Persónulega er ég ekki sammála þeirri greiningu, enda stór partur af stefnu hennar rétt eins og hún hafi verið tekin frá franska Kommúnistaflokknum á árunum fyrir og kringum 1980.  Og merkilegt nokk þá fékk Kommúnistaflokkurinn í kringum 20% atkvæða á þeim árum.

Kjósið mig og ég mun endurreisa velferðarkerfið, félagslegar varnir og bjarga ykkur frá Bandarísk stýrðri hnattvæðingu.

Ég mun opna heilsugæslustöðvar í smærri bæjum; útvíkka "lærlingakerfi", stofna háskóla fyrir listir og nytjalistir; setja pressu á landsstjórnina að halda póstútibúum og öðrum ríkisstofnunum opnum; og setja pressu á svæðisstjórnir að taka innlend fyrirtæki fram yfir erlend í viðskiptum.

Í stuttu máli má segja að þetta hafi verið boðskapur Le Pen í héraðskosningunum sem fóru fram seint á síðasta ári.

Boðskapur hennar fyrir forsetakosningarnar verður líklega svipaður. Þó er líklegt að tónninn um "Bandarísk stýrða hnattvæðingu" verði eitthvað endurskoðaður eftir kjör DJ Trump.

Le Pen stendur fyrir mikil ígrip hins opinbera í efnahagslífinu, verndarstefnu, strangt aðhald með fjölda innflytjenda, allt eins og Kommúnistaflokkurinn fyrir tæpum 40 árum. Íhaldssemi hennar í samfélagsmálum hefði komið kommúnistum í kringum 1980 lítið á óvart, nema auðvitað að kaþólska kirkjan var ekki í hávegum höfð hjá þeim.

Hvernig úr þessu muni spilast ef Fillon og Le Pen muni berjast í seinni umferð forsetakosninganna er erfitt að spá um.

Flestir á vinstri væng franskra stjórnmála "hata" Le Pen eins og pestina.  En stefnulega séð stendur hún þeim mikið nær en Fillon.

Miðað við stöðu efnahagsmála í Frakklandi í dag, telst stefna Fillon líklega mun róttækari en Le Pen - að einu atriði undanskildu - afstöðunni til Evrópusambandsins (franskir kommúnistar, sumir hverjir, hafa viljað rifta Maastricht samkomulaginu og búa til "nýtt Samband").

Það er því mikil einföldun, ef ekki beinlínis rangt, að líkur séu á því að Frakkar muni aðeins geta valið á milli hægri og hægri stefnu í forsetakosningunum.

Le Pen býður þeim stefnu til vinstri, það mun Sósialistaflokkurinn að sjálfsögðu einnig gera og það mun að öllum líkindum svo verða kjósendur hans sem munu ráða úrslitum í seinnig umferðinni.

Margir telja að "trendið" um að kjósa "gegn kerfinu" muni sigra í Frakklandi og Le Pen eigi góða möguleika. 

Frakkar eru hins vegar nokkuð þekktir fyrir að vera á skjön við "pólítísk trend" og hafa líklega verið það í það minnsta frá lokum seinna stríðs.

Ég er því þeirrar skoðunar að Fillon muni hafa góðan sigur, það er þrátt fyrir allt hann sem er að boða breytingar, þrátt fyrir að hann hafi verið partur af "kerfinu" í bráðum 40 ár.

En það er enn langt til kosninga og ótal margt eftir að gerast sem getur haft áhrif á úrslitin.

Ekki síst ef að svo illa færi að frekari hryðjuverk yrðu í Frakklandi.


mbl.is Munu Hollande og Valls takast á?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband