Hófstillta, hófsama, frjálslynda miðjufólkið

Ég var að þvælast um netið þegar ég sá þessa stuttu frétt á Eyjunni. Þar er verið að ræða um hvar miðjan sé í íslenskum stjórnmálum og hverjir þá miðjumenn - gjarna bætt hófsamir fyrir framan.

Þar lýsir Ögmundur Jónasson yfir undrun sinni á því að Viðreisnarfólk tali um sjálft sig með miðjufólk, en bætir því við að sjálfur hafi hann álitið sig "frjálslyndan miðjumann".  En það var auðvitað einmitt frasinn sem Viðreisn fór fram undir í nýafstöðnum kosningum.

En það er líklega einmitt meinið, "holir frasar" eru teygðir og togaðir yfir hin ólíklegustu sjónarmið.

Hver hugsar um sjálfa/n sig sem harðsvíraða "öfgamanneskju"?

Sjálfur hef ég ég alltaf litið á sjálfan mig sem hófstillinguna holdi klædda og frjálslyndur er ég fram úr hófi.

En samt á ég hvorki fulla samleið með þeim Ögmundi Jónassyni, eða Pawel Bartozek í pólítík.

Samt hef ég í gegnum tíðina verið sammála Ögmundi á stöku sviðum, og borið fyrir honum mikla pólítíska virðingu. En ég get samt ekki stillt mig um að velta fyrir mér, hverjir eru í þeim fjölda sem er vinstra megin við Ögmund í íslenskri pólítík ef hann er staddur á miðjunni?

Eins er það með Pawel, mér hefur í gegnum tíðina líkað við æði margt sem hann hefur sett fram, bæði í blöðum/vefritum og útvarpi.  Ekki síst vegna þess að hann setur sínar skoðanir fram með föstum en hófstilltum hætti. 

Ég kann vel að meta slíkt.

En ég hef ekki litið á Pawel, ekki frekar en Ögmund, sem miðjumann í íslenskri pólítík.

Ef til vill er þetta angi af "algórhytmabómullinni" sem er að skjóta upp kollinum í umræðunni. Þar sem allir eru umkringdir jákvæðum skoðanasystkinum og allir utan "bómullarinnar" eru lítt þenkjandi "öfgamenn". Allt "gott fólk" er á miðjunni. En það er einmitt vaxandi tilhneyging í umræðunni, að sýna æ minna tillit til andstæðra skoðana og æ minna umburðarlyndi.

Ég er ekki dómbær á það, ég nota enga af þessum "samfélagsmiðlum", mér finnst þeir ekki henta mér, hef takmarkaðan áhuga á því hvað kunningjar mínir, hvað þá "frægt fólk" gerir í frítíma sínum eða snæðir. Líklega er eitthvað af "neanderdalsgenum" í mér.

En þegar upp er staðið, skiptir ekki meginmáli hvar á hinu pólítíska litrófi skoðanir eru staðsettar, það er lítið vandamál fyrir flesta að mynda sér skoðun á því hvort þeir séu sammála eður ei, jafnvel þótt pólítísk gps hnit liggi ekki fyrir.

 


Bloggfærslur 5. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband