Sigurvegarar kosninganna - með og án forgjafar

Þá eru kosningum lokið og úrslitin liggja fyrir. Eins og oft upphefst nú "uppgjörið" og það er eins og oft skiptar skoðanir um hverjir eru sigurvegarar kosninganna og hvað það sé sem kjósendur eru að kalla eftir.

Í eðli sínu eru kosningar keppni um atkvæði og sá vinnur kosningar sem fær flest atkvæði, en það er ýmislegt fleira sem líta má til, til dæmis hverju flokkar bæta við sig, hvernig þróaðist fylgi þeirra - miðað við skoðanakannanir og jafnvel söguna.

Það er líka hægt að vinna kosningarnar og "tapa" eftirleiknum og stjórnmálasagan geymir ýmis dæmi um það.  Þannig mun það koma  í ljós á næstu dögum (ef til vill vikum) hverjir verða endanlegir sigurvegarar.

Sigurvegarar og taparar án "forgjafar"

En það er ljóst að sigurvegari kosninganna  er Sjálfstæðisflokkurinn. Kemur mörgum á óvart (þar með töldum mér) með því að vera fast við 30%.  Afgerandi stærsti flokkuri landsins og formaðurinn afar traustur og kosningarnar verða að teljast gríðarlegur persónulegur sigur fyrir Bjarna Benediktsson. Hafi einhverjir Sjálfstæðismenn efast um hann hlýtur það að vera úr sögunni.

Stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum, 5 þingmenn í kraganum, og svona má lengi telja. Það eina sem ætti að valda flokknum ákveðnum áhygjum eru úrslitin í Reykjavíkurkjördæmunum.

Kosningasigurinn er einnig athygliverður vegna þess óróa sem hefur verið í flokknum undanfarna mánuði, útganga fyrrverandi forystumanna og óánægðra kvenna.

Sigurinn því enn sætari fyrir vikið.

Vinstri græn koma  sterk úr þessum kosningum og formaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir kemur sömuleiðis ákaflega vel út. Ég held að Katrín sé nú óskoraður leiðtogi stjórnarandstöðunnar á líðandi kjörtímabili og sömuleiðis í raun foringi "vinstri vængsins" á Íslandi.

Þrátt fyrir að Píratar hljóti að hafa orðið fyirir miklum vonbrigðum eru þeir sigurvegarar. Þriðji stærsti flokkur, góður sigur þrátt fyrir að augljóst hafi verið að þeir hafi átt von á stærri sigri.

Með þrjá flokka á undan sér og þrjá flokka á eftir sér er Framsóknarflokkurinn fjórði stærsti þingflokkur landsins, en það er stórt fall frá því að vera sjónarmun frá því að vera sá stærsti. í öðru sæti.  Eini ljósi punkturinn er sá að Lilja Alfreðsdóttir kemst inn.  Það hefði einhverntíma þótt lygasögu líkast að Framsóknarflokkurinn hefði þingmann í Reykjavík, en Samfylkingin ekki.

Það er vert að hafa í huga að þó að Framsóknarflokkurinn tapi ótrúlega miklu fylgi, eru fleiri sem velja flokkinn en Viðreisn, Bjarta framtíð og Samfylkingu.

Fimmti stærsti flokkurinn er Viðreisn, sem er óneitanlega góður staður til að vera á fyrir flokk sem er að bjóða fram í fyrsta sinn. Eftirminnileg innkoma.

Þá er það Björt framtíð, sem getur ekki verið sátt við sitt gengi, ungur flokkur sem aldrei hefur verið nema í stjórnarandstöðu getur ekki verið sáttur við að tapa fylgi í sínum öðrum kosningum.  En eftir að hafa verið utan þings um langa hríð í skoðanakönnunum strjúka þau svitann af enninu.

Sjöundi og síðast flokkurinn sem kemst á þing er Samfylkingin. Hún er, fyrir utan þá flokka sem ekki ná á þing, sannarlega sá flokkur sem tapar kosningunm. Flokkurinn býður afhroð, á aðeins 3. þingmenn og má sannarlega muna sína fífla fegurri. Að fara úr næstum 30% fylgi, í undir 6 á minna en 8 árum, er fylgistap sem á líklega fáa ef nokkra sína líka.

Líklega vill Samyfylkingin ólm sameinsast einhverjum á næstu mánuðum, Björt framtíð kemur óneitanlega upp í hugann, því næsta verkefni sem blasir við Samfylkingunni hlýtur að vera að reyna að byggja upp björgunarfleka í Reykjavíkurborg, til að reyna að finna viðspyrnu.

Sigurvegarar með "forgjöf".

Ef aðeins er litið til hve flokkar auka mikið fylgi sitt, er röðin önnur.

Viðreisn er sá flokkur sem eykur mest fylgi sitt.  Það er alveg sama hvort reiknað er í prósentustigum, eða hlutfallslegri aukningu.  Það er reyndar ótvræður kostur að byrja á 0 í slíkum útreikningum.

Í öðru sæti eru Píratar. Auka þingmannafjölda sinn um 7 eins og Viðreisn, en prósentustigin eru færri.

Í 3ja sæti eru Vinstri græn.

Í fjórða sæti Sjálfstæðisflokkur.

Af "tapflokkunum" tapar Björt framtíð minnstu, síðan kemur Samfylking og Framsóknarflokkurinn.  Það er þó vert að hafa í huga að Samfylking tapar hærra hlutfalli af atkvæðaprósentu sinni og hún er að tapa vel yfir helming af fylgi sínu, aðrar kosningar í röð.  Engin flokkur hefur tapað hærri hlutdeild af fylgi sínum en Samfylking gerir nú, nema Samfylking árið 2013.

Eins og blasir við er matið í "forgjafarflokknum" meira huglægt. Það má týna ýmislegt til, og deila um margt. Það er til dæmis ekkert of algengt að flokkar í ríkisstjórn bæti við sig fylgi eins og Sjálfstæðisflokkurinn gerir nú.  Það tókst svo sannarlega hvorki Samfylkingunni né Vinstri grænum í síðustu kosningum, hvað þá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum í þeim þar síðustu.

Það má líklega teljast nokkuð kostur að vera "óspjallaður" flokkur, þ.e. að hafa aldrei setið í ríkisstjórn, eins og gildir um Pírata, Bjarta framtíð og Viðreisn.  En Bjartri framtíð dugar það ekki til neins.

Svo er það keppnin við skoðanakannanir. Þar vinna flokkar alls kyns sigra, ekki síst þegar skoðanakannanir hafa verið misvísandi eins og fyrir þessar kosningar.

Það er enda í "forgjafarflokknum" sem flestir stjórnmálaflokkar reyna að telja sjálfum sér og öðrum trú um að þeir séu á einhvern hátt sigurvegarar kosninga.

Það held ég að eigi við um alla flokka í þessum kosningum, nema Samfylkinguna. Hún reyndi að vísu að halda því fram að stefna hennar hafi sigrað, en ég held að engin hafi verið að hlusta.

En þegar til kastanna kemur snúast kosningar um atkvæðafjölda og í framhaldi af því þingstyrk. Þar vinnur Sjálfstæðisflokkurinn góðan sigur, og næst á eftir honum koma Vinstri græn.

Það þýðir ekki að aðrir flokkar gæti ekki vel við unað, sérstaklega Píratar og Viðreisn.

Og svo eiga allir flokkarnir 7 enn möguleika á að ná sigri í "stjórnarmyndunarkaplinum", en það er allt önnur og flóknari saga.

P.S. Einn sigurvegari er ónefndur, en það er Flokkur fólksins. Hann nær nógu hátt til að fá styrk frá ríkinu þó að hann nái ekki á þing.  Við verðum að vona að hann beri gæfu til að nota þann möguleika sér til framdráttar.

Eitthvað rámar mig í flokk með svipað nafn og ekki ósvipaða stefnu, sem náði svipuðum árangri í síðustu kosningum, en síðan heyrðist lítið eða ekkert til, nema deilur um ríkisstyrkinn.


mbl.is Lokatölur: Píratar bæta við manni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar töpuðu - kosningabaráttunni

Auðviað geta Píratar verið nokkuð ánægðir, þeir stórauka fylgi sitt og ná að festa sig í í sessi, en það er alltaf en.

Staðreyndin sem blasir við er að Píratar töpuðu kosningabaráttunni, glutruðu niður afar vænlegri stöðu.

Þó að þeir reyni að bera sig borginmanlega (og nota bene tala eins og "hefðbundnir valdaflokkar) og segjast ekki hafa búist við meiru, blasir við að það er rangt.

Þeir eru einfaldlega ekki að segja satt.

Það blasir við öllum sem vilja sjá og velta fyrir sér pólítík, að flokkur sem á von á því að fá í kringum 14-15% í kosningum, tekur ekki að sér að mynda ríkisstjórn fyrir kosningar.

Einhverjir vilja sjálfsagt benda á að að slíkt stjórn eigi ekki svo langt í land miðað við kosningaúrslit, og hafa nokkuð til síns máls.  En það er ekki síður vegna góðrar frammistöðu Vinstri grænna frekar en Pírata.

Aðrir vilja sjálfsagt kenna slælegri kosningaþátttöku ungs fólks um. Um það er að segja að ég hef reyndar engar tölur séð um það enn, en skuggakosningar framhaldsskólanna gefa Pírötum vissulega betri úrslit en hinar raunverulega, en samt engan veginn nóg til að halda því fram að betri kjörsókn hefði gefið verulega breytt úrslit.

Píratar einfaldlega "fluttu inn í skýjaborgirnar" sem skoðanakannanir og fjölmiðlar teiknuðu upp.  En þeir stóðu ekki undir því.

Ég held að þetta megi líklega að stórum hluta skrifa á forystufólk Pírata. Þó að margir vilji breytingar í íslenskum stjórnmálum felur það ákall (að mínu mati, þó að ég geri ekki kröfu til að teljast talsmaður kjósenda) ekki í sér að kjósendur séu að óska eftir  forystumönnum veifandi einhverjum spjöldum í sjónvarpssal og dónalegu pískri. Það gefur vissulega í skyn "ný stjórnmál", en ekki í þá átt sem flestir óska sér að ég tel.

Ég reikna heldur ekki með því að flokkurinn hafi aflað sér margra atkvæða á þingi ASÍ.

En þar með er ekki sagt að Píratar séu ekki einn af þeim sem teljast sigurvegarar, þriðji stærsti flokkurinn, sá flokkur sem bætir næst mest við sig (mest af þeim flokkum sem áttu sæti á þingi) og er í eftirsóknarverðri stöðu.

Nú hefst alvaran.


mbl.is Einar Pírati: Súrsæt niðurstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband