Menntamálaráðherra á góðri leið með að leysa kreppuna?

Þeir slá ekki slöku við að leysa úr efnahagskreppunni ráðherrar ríkisstjórnarinnar. 

Menntamálaráðherra slær sannarlega ekki slöku við og hefur ýmislegt sem hún hefur töfrað upp úr hattinum til að leysa vanda Íslendinga í kreppunni.

Hún hefur ásamt Reykjavíkurborg ákveðið að eyða u.þ.b. 13. milljörðum til að klára tónlistarhús (eitthvað eru skrýtnar fréttirnar sem berast af því þessa dagana) og það verða sjálfsagt engin vandræði með að finna rekstrarfé fyrir húsið þegar þar að kemur.

Nú er þegar komið að næsta snilldarbragði til þess að leysa kreppuna og halda útgjöldum hins opinbera í skefjum (en talað er um að verði að skera niður ríkisútgjöld um tugi ef ekki hundruði milljarða), en það er að fjölga þeim mánuðum sem listamönnum er greidd laun um þriðjung.

Það er spurning hvort að ekki sé hægt að finna fleiri málaflokka til að auka ríkisútgjöldin, þá geta Íslendingar aftur farið að lifa eins og blóm í eggi.


mbl.is Leggur til breytingar á listamannalaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég á ekki til orð... hef hingað til sett mig í flokk þeirra sem

mundu kjósa VG í kosningum en þetta er bara algjörlega óhæft.

Hvernig væri að Menntamálaráðherra beyti sér í að auka þann pening til Menntamála en bítl handa listamönnum. Eða telst það

ekki nógu flott.

olafurke@gmail.com (IP-tala skráð) 6.3.2009 kl. 13:31

2 identicon

Umm....

Já það á að minnka ríkisútgjöld... En með því að reyna gera hlutina fyrir minni pening og með hagræðingu. Það má náttúrulega ekki fækka verkefnum endalaust. Þú veist að það er mikið atvinnuleysi er það ekki? Og er þín lausn á þeim vanda að fækka störfum og auka við atvinnuleysið? :)

Það besta sem ríkið getur gert einmitt er að koma með sem flestar afsakanir til að byggja sem flest hús. Þar til að aðrir treysta sér til að byggja hús sjálfir.

Sama með listamannalaunin. Er ekki betra að borga þeim fyrir að vinna sem listamenn fyrir landið heldur en að borga þeim fyrir að vera atvinnulaus og gera ekkert.

Ég skil ekki hvernig þú hélst að ríkið gæti bætt ástand íslendinga. Átti bara að millifæra á þig pening?

Jón Grétar (IP-tala skráð) 6.3.2009 kl. 13:41

3 identicon

Já endilega byggjum sem mest.

En höfum það þá skóla spítala infrastructure mannvirki og Hvetjum atvinnulausa til að koma að þjónustu og aðstoð í skólum frekar en að setja peningana í að borga litlum hóp lista elítu. Fyrir mig og mína skiptit það meira máli að barn mitt fái góða menntun.

Gott dæmi væri nú tildæmis að styrkja listnám innan grunnskóla

frekar en þetta og spyr ég þá aftur þykir það ekki nógu flott.

olafurkeg@gmail.com (IP-tala skráð) 6.3.2009 kl. 13:50

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er auðvelt að byggja hús eins og tónlistarhús.  Oft verður erfiðara að reka það.  Þess vegna er það útbreidd skoðun að til atvinnu örvunar séu til dæmis samgöngubætur betur til þess fallnar, þar sem rekstrarkostnaður þeirra sé mun lægri auk þess sem þær geta fært samfélaginu umtalsverðan sparnað.

Hvað listamannalaunin varðar þá get ég ekki séð að um tímabundna aðgerð sé að ræða (eins og atvinnuleysisbætur verða vonandi), heldur um útgjaldaaukningu til frambúðar.

Auk þess get ég ekki séð að erfiðara sé að stunda listsköpun á atvinnuleysisbótum heldur en listamannalaunum.  En fyrir hvern einn sem þyggur listamannalaun, hygg ég að sé hægt að borga u.þ.b. 2. atvinnuleysisbætur.

Ég hef ekki farið fram á neinar millifærslur frá ríkinu til mín, hvorki hér þar sem ég bý nú, eða á meðan ég bjó á Íslandi.  Það breytir því ekki að hið opinbera á ýmsar leiðir til að bæta lífið fyrir Íslendinga, ég er þó þeirrar skoðunar að útgjaldaaukning til listamannalauna sé ekki sú besta eða skilvirkasta.

G. Tómas Gunnarsson, 6.3.2009 kl. 13:50

5 identicon

Hvað tekur það marga pípulagningamenn að smíða veg? Og hvað áætlaru að þú sleppir með marga múrara í mislæg gatnamót?

Það er 21,8% atvinnuleysi í byggingariðnaðinum. Allir hættu að smíða hús. Það má vel vera að tónlistarhús sé ekki bestu húsin til að byggja en þetta er hálfklárað hús. Það var ekkert verið að ákveða að smíða þetta núna bara. Mundi nú halda að það væri ódýrar að klára það heldur en að rífa það og smíða eitthvað annað.

Jón Grétar (IP-tala skráð) 6.3.2009 kl. 13:57

6 Smámynd: Liberal

Þetta er hreinlega galið.  Mann setur hljóðan að sjá svona málflutning.  Þarna á að auka útjöld ríkisins um 100 milljónir á meðan við horfum upp á stórkostlegan niðurskurð í grunnþjónustunni (sem vissulega er nauðsynlegur).

Hversu mörgum sjúkraliðum og grunnskólakennurum þarf að segja upp til að borga þessar 100 milljónir til afdankaðra listamanna sem geta ekki lifað af "list" sinni?  Ég er viss um að einstæða móðirin í Breiðholtinu sem missir vinnuna vegna niðurskurðar hins opinbera sé ánægð með að ljóðskáldið í næstu íbúð skuli fá ríflega búbót frá VG. 

Liberal, 6.3.2009 kl. 14:02

7 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Auðmenn héldu listamönnum uppi áður fyrr, furstar og konungar réðu til sín tónlistarmenn sem sömdu ódauðleg tónverk. Ríkið hefur tekið við hlutverki þeirra, einkum nú eftir að auðmenn samtímans brugðust og klúðruðu öllu. Ef ekki væru listamannalaun myndum við ekki eiga marga rithöfunda eða aðra listamenn yfirleitt; einn og einn gæti kannski brotist áfram. 300 þúsund manna þjóð sem talar tungumál sem enginn önnur þjóð talar, er ekki burðugur markaður. Við ættum því ekki marga rithöfunda, varla einu sinni HKL, ef ekki væru listmannalaun. Og niðurskurður á öllu myndi bara festa okkur í kreppunni. Það þarf að kynda undir menningarstarfsemi á sem flestum sviðum, hvernig sem hægrimenn láta. Núna hafa þeir sem betur fer ekki mikil áhrif.

Þorgrímur Gestsson, 6.3.2009 kl. 14:16

8 identicon

Ég trúi því nú varla að nokkurm manni sé alvara þegar hann mælir með því að tónlistarhúisið verið klárað eða að auka eigi útgjöld í listamannalaun.

Það mun kosta ríkissjóð 13 milljarða að klára tónlistarhúsið en það kostar ekki nema 1 milljarð að rífa það og ganga frá svæðinu. Atvinnuskapandi verkefni ríkisins eru um leið atvinnudrepandi því einhver staðar þarf að taka fjármagnið sem ríkið eyðir í verkefni og sá peningur kemur alltaf frá vinnumarkaðnum. Við erum svo gjörn á að horfa bara á verkið sem er unnið en ekki hugleiða það sem ekki var unnið.

Stjórnmálamaður sem lætur byggja hús getur bent á húsið og sagt: sjáið hvað ég var duglegur að láta byggja fyrir ykkur og mikið rétt smiðurinn og múrarinn fá af því tekjur. Peningurinn fyrir húsinu var tekinn af skattgreiðendum og því tapar skógsmiðurinn viðskiptum því einhver ætlaði að nota peninginn og láta gera við gamla skóg, bólstrarinn tapar viðskiptum því einhver ætlaði að láta laga hjá sér sófann sinn og þar eftir götunni.

Það er því verið að fórna verðmætasköpun sem einstaklingar í samfélaginu virkilega vilja og þurfa fyrir verðmætasköpun sem örfáir stjórnmálamenn telja stórsniðguga.

Eitt að lokum því hér kom fram að betra væri að hafa listamenn á launum við að vinna eitthvað en að hafa þá atvinnulausa og á bótum, ég bara spyr hver er munurinn? Væri ekki betra að greiða þá atvinnulausum verkfræðingum, sem öllu jafna búa til miklu meiri verðmæti fyrir samfélagið en listamenn, einhvers konar verkfræðilaun?

Landið (IP-tala skráð) 6.3.2009 kl. 14:23

9 identicon

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hafa síðustu ár komið út á bilinu 1.000 til 1.500 íslenskar bækur árlega á Íslandi. Listamenn á listamannalaunum gefa út að meðaltali eina bók á ári eða 0,3% af heildarfjölda íslenskra titla.

Landið (IP-tala skráð) 6.3.2009 kl. 14:30

10 identicon

"Ef ekki væru listamannalaun myndum við ekki eiga marga rithöfunda eða aðra listamenn yfirleitt; einn og einn gæti kannski brotist áfram."

Þetta er einfaldlega alveg hrrikalega rangt. Bækur sem fólk á framfæri ríkisins gefur út er einungis lítill hlutiaf heildinni. Hvað með alla þá sem gefa út bók án þess að vera á launum hjá ríkinu?

Ásgeir (IP-tala skráð) 6.3.2009 kl. 14:31

11 identicon

Alveg er ég hjartanlega sammála þeim sem finna aukningu listamannalauna att til foráttu. Ég vil t.d. í þessu sambandi benda á að flokksbróðir menntamálaráðherra er í stökustu vandræðum með að reka heilbrigðiskerfi landsins, nokkuð sem er okkur öllum nauðsynlegt. Á meðan ætlar svo menntamálaráðherra af því að hún fann dálítinn pening í einni skúffunni að fara að bæta við listamönnum á framfærslu ríkisins. Ég meina nú er ekki í lagi með þetta fólk.

Hvað tónlistarhúsið varðar þá erum við aftur komin að þeim flokkssystkinum heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra. Á sama tíma og menntamálaráðherra er að láta halda áfram byggingu tónlistahúss, þá er heilbrigðisráðherra að skoða hvort ekki eigi að slá nýju hátækni sjúkrahúsi á frest. Ég vil benda á að vinna við eitt hús er jafngilt öðru, en ég líki því ekki saman hvað ég tel nýtt sjúkrahúsi muni skila okkur meiri arði í formi betri heilbrigðisþjónustu en tónlistahúsið, sem ég lít nú þannig á að að er allt í lagi að eiga eitt slíkt þegar og ef við eignumst næga peninga til að njóta þeirra.

Staðreyndin er nefnilega sú að maður verður ekkert saddur af því að hlusta á tónlist, horfa á myndlist eða lesa skáldsögur (þó maður gæti kannski reynt að éta bækurnar). Ég hefði nú talið að á meðann við erum ekki betur stödd efnahagslega en raun ber vitni, þá höfum við bara alls ekki efni á að auka við okkur listamönnum. List er nefnilega munaður en ekki eitt af frumþörfum okkar.

Sigurður Geirsson (IP-tala skráð) 6.3.2009 kl. 14:49

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sárast er að þetta er allt á kostnað heilbrigðis og menntakerfis og mun líka verða til þess að við uppfyllum ekki skilyrði IMF um aðhald, sem veldur því að harðari skilyrði kikka inn í framhaldinu. Það er verið að stefna okkur hraðbyri í átt að harmleikjum í suður og mið ameríku, þar sem IMF kom að. Það virðist vera alger afneitun á stöðu okkar hjá þessu liði.  Þau ætla að láta sem ekkert sé og halda að kreppan fari við það.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.3.2009 kl. 20:17

13 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Má bara til með að bæta því við, að ekki er nóg með að tónlistarhúsið sé sóun á dýrmætum gjaldeyri, það verður þar að auki forljótasta byggingin í borginni. Væri nær að ráða mannskap í að rífa það og fylla upp í holuna aftur.

Kristján G. Arngrímsson, 6.3.2009 kl. 20:45

14 identicon

Verkefnastaða listamanna hefur farið hríðversnandi á undanförnum misserum þar sem aðgangur að fjármagni er mjög takmarkað. Þetta gerir það að verkum að listamenn eiga mun erfiðara með að skapa sjálfum sér og öðrum atvinnu. Birtingarmyndin er atvinnuleysi.

Það gleymist einnig í umræðunni að geta þess að með fjölgun listamannalauna er einnig verið að fjárfesta í útflutningi í einum af okkar megnugustu atvinnuvegum.

Á meðan losunarkvótar eru að fyllast, fiskurinn í sjónum er að bregðast okkur og bankakerfið er hrunið þá eru það hugvit listamanna sem stendur eftir sem ein okkar sterkasta auðlind.

Bókmenntir, myndlist, tónlist, leiklist og hönnun (sem nú er verið að stofna nýjan jóð fyrir) er vara sem er vinsæl erlendis og er að færa þjóðinni gjaldeyristekjur á erfiðum tímum.

En það er ekki það eina. Mikilvægi lista þegar kemur að því að treysta samskipti milli þjóða og hlutdeild listarinnar í uppbyggingu viðskiptatenglsa eru einnig þekkt og viðurkennt fyrirbæri. 

Listamannalaun eru öflug leið fyrir ríkið til þess að kaupa ákveðna þjónustu sem tryggir að virkni ofangreindra þátta verði sem mest.

Bendi á orð Þorgerðar Katrínar á Kvikmyndaverðlaununum Eddunni núna fyrir jól þar sem hún sagði að þjóðin hefði sjaldan þurft eins mikið á listamönnunum okkar að halda eins og núna við endurreisn okkar út á við og til að byggja sjálfstraust okkar inn á við.

Nýr menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir er að byggja undir þjóðina á framsækinn og frumlegan hátt. Hún er áð nýta hér auðlind sem áður hefur verið vannýtt, auðlind sem á sama tíma er óþrjótandi. 

Karen María, danslistamaður

Karen María Jónsdóttir (IP-tala skráð) 6.3.2009 kl. 23:47

15 identicon

Það er hægt að telja upp fjöldan allan af stéttum sem skapa meiri verðmæti en listamenn en fá ekki styrki. Ef listamenn eru að selja svona vel í útlöndum og gera það gott, hvers vegna þarf að styrkja þá?

Þessi röksemdafærsla hjá þér Karen er gölluð. Listamenn geta ekki annars vegar verið að gera það rosalega gott en um leið verið háðir ölmusgreiðslum frá skattgreiðendum.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 7.3.2009 kl. 01:07

16 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Bestu þakkir fyrir innleggin, það er alltaf fróðlegt að heyra skoðanir annarra.

Persónulega tel ég það ekki vera 13 milljarða virði að tryggja atvinnu fyrir pípara og múrara, en ég tel heldur tónlistarhúsið ekki vera einu bygginguna sem hið opinbera gæti ráðist í.  Líklega eru margar aðrar byggingar sem hægt er að ráðast í.

Í gegnum söguna hafa alltaf verið til valdhafar, kóngar sem töldu að þeir hlytu vald sitt frá guði og nútíma stjórnmálamenn sem telja sig hafa meira vit á menningu og hvernig beri að verja fé til hennar, heldur en almúginn aka skattgreiðendur.  Það réttlætir samt ekki eyðsluna.

Ég ætla ekki að hætta mér út í rökræður um hvort tónlistarhúsið verði falleg bygging eður ei.  Hef eiginlega ekki myndað mér skoðun á því.  Hef alltaf verið á móti byggingu þess, en fagurfræði hefur ekki spilað þar inn í.

Gjaldeyrir sem aflað er með niðurgreiðslum, þannig að það kosti meira að afla hans heldur en verðmæti, er ekki mikils virði.

Íslendingar gætu sjálfsagt ræktað epli og flutt þau út fyrir "verðmætan gjaldeyri", en það hefði ekkert upp á sig, þar sem tilkostnaðurinn yrði meiri en gjaldeyririnn sem væri aflað.

Tek undir með Vilhjálmi, að það er vissulega merkilegt að listamenn sem eru að gera það "gott út í heimi", eru gefnir út á ótal tungumálum í ótal löndum (fyrir jól koma tilkynningar um slíkt nær daglega) skuli ekki hafa tekjur af því til að framfleyta sér, heldur þurfi að treysta á framfærslu frá ríkinu.  Ekki ólíklegt að þar sé "fiskur undir steini".

Það ætti frekar að draga styrki til listamanna saman, heldur en hitt.

G. Tómas Gunnarsson, 7.3.2009 kl. 01:56

17 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Ég treysti mér eki til að dæma um útlit væntanlegs tónlistarhúss, en tel samt brýnt sð ljúka gerð þess. Það verður líka að gera kostnaðaráætlun um rekstur þess í ca. 5 ár (að hætti gamla Sovjéts).

Uppbygging lista tekur langan tíma, og til þeirra þarf fjármagn bæði skamms og langs tíma. Segja má, að við, Íslendingar, höfum byggt upp listir, sem tengjast væntalegu tónlistarhúsi rúma hálfa öld og það er vel. Samt eru verkefnin framundan óþrjótandi, og þannig verður það vonandi áfram landi og þjóð til hagsældar.

Stjórnmálamönnum er mikill vandi á höndum í núverandi efnahagslægð, Hanna Birna, borgarstjóri og Katrín, menntamálaráðherra, hafa tekið djarfa ákvörðun og umdeilda. Spurningin er sú, hvort hún hafi verið nægilega vel ígrunduð. Hvort unnt hafi verið að fresta framhaldi framkvæmda um l-2 ár ? Þeirri spurningu verða þær að svara.

Með kveðju, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 7.3.2009 kl. 10:03

18 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég á  ekki vel gott með að skilja svona stjórnun en allir í kring um okkur setja kreppupening í mannvirki sem eru fyrir til hags fyrir alla þjóðina s.s. vegakerfi og þessháttar. Ég setti út á þetta fyrir töluverðu en lítið tekið undi það en nú vona ég að einhver rísi upp á alþingi. Það er nefnilega ekki nóg að klára þetta það er reksturinn. Ég sá myndina frá Noreg en þeir sýndu allt vesenið og kostnað við sína tónlistarhöll. Þessir 6 milljarðar verða 20 í hið minnsta. Ég leifi mér að segja Stelpu kjánar.  

Valdimar Samúelsson, 7.3.2009 kl. 10:53

19 identicon

Kæra þjóð, þið eruð ekki alveg í sambandi.

100 milljónir í listamannalaun er smánarleg upphæð fyrir þau jákvæðu áhrif sem listir og menninghafa á samfélagið.

Hverjir munu bjarga orðspori Íslands erlendis?

Ekki ríkisbubbar Íslands. Ekki stóriðjusnillingar.

Það verður listafólkið okkar.

Heimskulegur molbúaháttur að halda að hér sé verið að kasta peningum án þess að nokkuð komi á móti.

Ef fólk ætlar að kvarta, hvernig væri þá að kvarta undan því að ríkisbubbar hafa fært þúsundir milljarða til útlanda sem ættu auðvitað að vera hér á landi?

Nú á að afskrifa skuldir Hreiðars og Sigurðar Kaupþingsmanna ...upp á 15 milljarða.

Upphæðin mundi duga til að byggja tónlistarhúsið OG tvöfalda listamannalaun (sem eru raunar ekki langt frá atvinnuleysisbótum, hvort er nú betra að eyða í?)

Helvítis fokking fokk

Ragnar (IP-tala skráð) 7.3.2009 kl. 11:10

20 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég er að hugsa um að mynda þrýstihóp gegn þrýstihópum.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.3.2009 kl. 12:42

21 identicon

Má ég vera með í þeim þrýstihóp :)

Eitt að lokum: Það er mjög góð regla að réttlæta aldrei eitt óréttlæti með því að benda á annað.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 7.3.2009 kl. 14:58

22 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er leiðinleg staðreynd að það þurfi að afskrifa tugi milljarða vegna lána stjórnenda bankanna til sjálfs sín.  Ég finn til með þeim erlendu lánadrottnum sem tapa þeim peningum, en get ómögulega séð það sem röksemd fyrir auknum fjárframlögum til listamanna.

Það má merkilegt vera ef Íslendingar verða ekki allir farnir að lifa af listum á næstu árum, allt sem þarf til er að auka til þeirra fjárframlögin svo um munar.  Eftir það munu Íslendingar lifa sem blóm í eggi.

Ég held að það verði fiskurinn og álið sem komi til með að byggja upp orðspor Íslands erlendis, því það mun eiga mikinn þátt í því að gera Íslendingum kleyft að standa við skuldbindingar sínar.

Frægð Íslenskra listamanna og hve mikil landkynning hún er, er að mínu mati ofmetin.  Vissulega hafa margir hér heyrt um Björk og Sigurrós, en annað heyrist í raun ekki nefnt nema í afmörkuðum kreðsum.  Ég veit ekki hvað mörgum mánuðum þau hafa eytt á listamannalaunum, hef ekki trú á því að þeir séu margir.

Fyrir utan þau er sá Íslenski listamaður sem mesta athygli hefur vakið hér í Toronto, listaneminnn sem kom fyrir sprengjueftirlíkingu í ROM listasafninu hér, og það var athygli sem Ísland hefði komist af án.

Þrýstihópur gegn þrýstihópum líst mér vel á, ef til vill blogga ég meira um á hugmynd Jóns Steinars síðar.

G. Tómas Gunnarsson, 7.3.2009 kl. 18:46

23 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Þetta með þrýstihóp gegn þrýstihópum er mögnuð hugmynd, Jón Ragnar.

Með góðri kveðju, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 9.3.2009 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband