Jólatrésskemmtun og þjóðræknisdagur

Um helgina fór ég á jólaskemmtun Íslendingafélagsins hér í Toronto.  Það var hin ágætasta skemmtun, og skemmti foringinn sér að sjálfsögðu manna mest og best.

Fyrir mig var nú líklega hápunkturinn að fá bæði kleinur og vínartertu að snæða, enda hef ég ekki verið duglegur við að baka eða steikja slíkar dásemdir sjálfur.  Vínartertan hér er að vísu með torkennilegum glassúr á toppnum, en það er óþarfi að láta slíkt eyðileggja fyrir sér ánægjuna.

En eins og ég hef gert síðan ég flutti hingað lék ég aðalhlutverkið í skemmtuninni, það er að segja jólasveininn.  Það er enda áríðandi að jólasveinninn sé tvítyngdur og geti brugðið fyrir sig bæði ensku og íslensku.  Þetta er ekki kröfuhart hlutverk, enda talar jólasveinninn hér í Vesturheimi ekki mikið, það nægir að láta klingja í bjöllum og segja HO HO HO. 

Mesta harðræðið felst tvímælalaust að þegar ég er búinn að setja á mig hár úr gerfiefnum, skegg úr gerviefnum, húfu, jakka og buxur úr gerfiefnum, þá svitna ég ég eins og grís í ofni.

En síðan fá allir krakkarnir tækifæri til persónulegs viðtals við jólasveininn, segja frá afrekum sínum það árið og hvað þau helst óska sér til gjafa á jólunum.  Þá er áríðandi að sveinki bæði tali og skilji íslensku og ensku.  Þau eru síðan leyst út með litlum poka með smá leikföngum og sælgæti.

Svo bar við þetta árið að allir krakkir, nema sonur minn, komu til að spjalla við jólasveininn.  Hann harðneitaði að tala við þennan skringilega kall.  Hvað þá að hann vildi ganga í kringum jólatréð með honum.  En þegar skemmtuninni var að ljúka tók ég einn pokann og færði honum.  Hann hálf faldi sig á bak við móður sín, tók þó við pokanum en sagði fátt.

Þegar við vorum hins vegar að keyra heim á leið og ég var að spjalla við hann um hvernig hefði verið, var annað hljóð komið í strokkinn.  Jú, jú, hann hafði hitt jólasveinninn, sem hann taldi hinn vænsta mann, þeir höfðu talað nokkuð lengi saman og hafði farið vel á með þeim.  Taldi hann að þeim hefði orðið nokkuð vel til vina og reiknaði með að hitta kallinn aftur seinna.  Sömuleiðis var hann nokkuð viss um að kallinn myndi færa sér jólagjafir.

En í gær tók sig aftur upp þessi gríðarlega kleinulöngun, eftir að hafa komist á bragðið um helgina.  Ég tók mig því til og steikti kleinur í fyrsta skipti á ævinni.  Það tókst nokkuð vel, þó að nokkrar þeirra væru nokkuð skrýtnar í laginu, en það kom ekki að sök, enda flestar þeirra horfnar. 

Það var enda kaffi og kleinur á boðstólum að Bjórá í morgun.

En til að það komi skýrt og skörulega fram, að ég er enginn óupplýstur, óaðlagandi innflytjandi, þá eldaði ég butternut squash súpu handa fjölskyldunni í kvöldmatinn.  Það gerist ekki mikið kanadískara en það.

Dagurinn í gær var því þjóðræknisdagur, kleinur og buttnet squash, ljómandi blanda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband