Hræðileg fréttamennska!

Það hafa aðrir bloggarar fjallað um þetta á undan mér, en mér þykir þó merkilega lítið um þetta fjallað.  En frétt Fréttablaðsins á mánudaginn var, " Biðin veldur röskun og reddingum" er einfaldlega hræðileg fréttamennska.

Það sem meira er, mér finnst Fréttablaðið og Dofri Hermannsson skulda lesendum blaðsins útskýringar á því hvernig þessi frétt varð til.  Trúverðugleiki þeirra beggja bíður stóran hnekki við fréttina, en með trúverðugum útskýringum er möguleiki á því að endurheimta hann.

Fyrsta spurningin er auðvitað sú, hvernig komst blaðamaðurinn í samband við Dofra?  Þó að vissulega sé þarft að fjalla um málið, þá vekur það vissulega athygli að starfsmaður Samfylkingarinnar og varaborgarfulltrúi verði fyrir valinu.

Önnur spurning væri hvort að Dofri hafi aldrei á meðan viðtalinu stóð, komið því að, eða látið þess getið að hann væri varaborgarfulltrúi og því ekki alveg hlutlaus í málinu?  Óskaði hann til dæmis eftir því að viðtalið væri við hann sem varaborgarfulltrúa, frekar en foreldri?

Þriiðja spurningin er hvort að fréttamanninum og þeim öðrum sem lásu yfir fréttina (ég leyfi mér að ganga út frá því að á blaði sem Fréttablaðinu, séu fleiri sem lesi yfir fréttir en þeir sem skrifi þær) með öllu ókunnugt um störf Dofra fyrir Samfylkinguna og setu hans sem varaborgarfulltrúa?

Fjórða spurningin væri hvort að fréttastjórum og ritstjórum Fréttablaðsins þyki þetta ásáttanleg vinnubrögð?

Það er nefnilega svo merkilegt að ég gat ekki séð að nokkur útskýring kæmi frá ritstjórn á þriðjudegi, heldur lét Fréttablaðið Birni Inga Hrafnssyni eftir að útskýra það fyrir lesendum hvernig í pottinn væri búið.

Stundum taka blaðamenn og aðrir upp á því að bera Íslensk stjórnmál saman við það sem kallað er "í nágrannalöndunum":  Ekki veit ég hversu sá samanburður er alltaf réttlætanlegur eða raunhæfur, en hitt veit ég að slík fréttamennska þætti ekki góð "'í nágrannalöndunum", og hér í Kanada reikna ég ekki með að viðkomandi blaðamaður þyrfti að mæta til vinnu daginn eftir. 

En þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég verð var við að varamenn í sveitarstjórnum leika skrýtin hlutverk í fjölmiðlum, en í september bloggaði ég einnig um slíkan feluleik.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband