Hvaðan kemur rafmagnið?

Núna þegar bensín og dísel hefur aldrei verið dýrara, er mikið talað um nauðsyn þess að knýja farartæki með öðrum orkugjöfum.

Mest er rætt um rafmagn og svo vetni, en etanól og metangas eru sömuleiðis í umræðunni.  Flestir ræða þó um rafmagn og vetni sem sem lausnir sem geti orðið ráðandi á markaðnum.

Vetnið er framleitt með rafgreiningu, en persónulega verð ég að segja að auðvitað hljómar rafmagnslausnin lang best, dreifikerfið þegar til staðar í svo að segja hvert hús og "orkustöðvar" missa að mestu leyti mikilvægi sitt.

Farartæki sem knúin væru rafmagni eða vetni drægju verulega úr loftmengun (einhver áhöld eru með mengun hvað varðar rafgeymana) og myndu gjörbreyta "loftslaginu" sérstaklega í borgunum.

En verði rafmagnsbílar það sem koma skal hlýtur að vakna spurningin hvaðan á rafmagnið fyrir þá að koma?

Það er lítil bylting falin í því ef rafmagnið verður áfram framleitt að stórum hluta með jarðefnaeldsneyti.  Það eru því miður til þess að gera fáar þjóðir sem hafa stóran hluta raforkuframleiðslu sinnar með öðru hætti.

Þeir lausnir sem helst eru á borðinu í dag, væri að hefja af krafti nýtingu vatns og jarðvarma, vind og sólarorku og svo er það auðvitað kjarnorkan.

Allt eru þetta í dag umdeildar lausnir.

Allir þekkja umræðuna um náttúruspjöll við vatns og jarðvarmavirkjanir, sólar og vindorka þykir sumstaðar ekki boðleg þar sem stöðvarnar séu svo mikil útlitslýti og andstöðu við kjarnorka þarf líklega ekki að rifja upp.

Hér í Ontario kemur 22% raforkunnar frá vatnsaflsvirkjunum.  50% kemur frá kjarnorku, 16% kemur úr kolakyntum orkuverum og 6% er framleitt með gasi.

Ég verð að viðurkenna að ég geri mér ekki grein fyrir hve rafmagnsþörfin eykst mikið ef bílar verða almennt knúnir af rafmagni, en hefði gaman af því að heyrar tölur í þá átt.

En hvaðan skyldi rafmagnið fyrir þá koma?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er í reynd (fullkomlega skiljanleg) einföldun í þessari umræðu að ræða um orku sem einfaldlega orku. Þú nefnilega bendir réttilega á að nú þegar sé verið að framleiða orku með ágætis árangri, og nefnirðu þar nokkrar afskaplega góðar lausnir (nú verð ég drepinn) eins og fallvatnsvirkjanir, vindorku og kjarnorku.

Það verður sennilega aldrei vandamál að framleiða orku fyrir alla plánetuna með rísandi eftirspurn, af sömu ástæðu og að gjörsamlega hugsunarlaus pappírseyðsla mun aldrei útrýma skógunum af jörðinni. Ástæðan er einföld; það er hægt að búa til meira. Þegar pappírinn eða rafmagnið verða of dýr, þá verða einfaldlega fleiri tré gróðursett eða fleiri virkjanir settar á fót (sem er gott að mínu mati, þó ég sé ekki fyrir að eyða orkunni í álver). M.ö.o. er þetta skólabókardæmi um vandamál sem frjáls markaður leysir sjálfkrafa, þannig að við þurfum í raun ekkert að pæla í orkuframleiðslu. Sá vandi leysir sig sjálfur.

Vandinn er að GEYMA orkuna, EKKI að framleiða hana. Sumir hugsa "hversu erfitt getur það hugsanlega verið að geyma orku?" - en sá vandi er ansi gamall og ansi alvarlegur.

Rafhlöður eru nefnilega... jafnvel þær bestu og dýrustu (og mest mengandi), algert drasl. Ennfremur er ekkert nýtt við það að menn rannsaki nýja og betri rafhlöðutækni. Sú tækni hefur fengið ótvíræða athygli alls hátækniiðnaðarins, vegna þess að geymsla á orku hefur alltaf verið vandamál. Hugsaðu þér að vera fyrsta fyrirtækið með síma sem þarf ekki að hlaða nema mánaðarlega, eða fartölvu sem er hægt að nota í viku á fullum hraða án þess að stinga í samband. Hvatinn til að búa til góðar rafhlöður hefur verið lengi til staðar, og vandamálin við að geyma orku eru raunveruleg og afskaplega erfið viðfangs.

Bílar hinsvegar, flugvélar, þyrlur og þvíumlíkt er eiginlega eingöngu raunhæft að knýja með einhvers konar chemical reaction (man ekki íslenskuna), þ.e. með því að brenna eitthvað... eða eitthvað, vegna þess að það ferli hefur þá kosti að vera auðveldlega færanlegt, hægt er að ná í orkuna þegar manni sýnist, og þegar það vantar meira hellir maður bara vökva í stað þess að bíða í heilan sólarhring til að geta tekið einn rúnt um laugarveginn aftur... þetta eru vandamálin.

Ekki FRAMLEIÐSLA á orku, heldur GEYMSLA á orku. Þar koma vetni, etanól og metangas sterk inn í, ekki vegna þess að það sé hægt að framleiða orku með þeim, þvert á móti kostar það miklu meiri orku að búa þau til heldur en maður fær úr þeim... en það er hægt að brenna þessi efni og nota þau í flugvélar, þyrlur, byggingavinnuvélar og það sem knýr áfram siðmenninguna nú til dags.

Vona að þetta hafi verið fróðlegt. :)

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 24.6.2008 kl. 18:27

2 identicon

Bara eitt sem ég gleymdi; að nota rafgeyma til að knýja áfram skip til dæmis, eða flugvél, er bara... vonlaust. Það er ekki að fara að gerast. Við erum helvíti heppin ef okkur tekst að koma upp bílaflota sem gengur fyrir rafmagni. Við verðum að fá eitthvað í staðinn fyrir olíuna, sama hversu mikið rafmagn við framleiðum.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 24.6.2008 kl. 18:30

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Bestu þakkir fyrir þessi afar fróðlegu innlegg. 

Ég er reyndar sammála því að það á ekki að þurfa að vera vandamál að fullnægja eftirspurninni, en það mun í flestum tilfellum kosta óánægju, baráttu og annað því um líkt, því að það eru svo margir sem eru ekki sáttir við þá kosti sem við höfum til rafmagnsframleiðslu í dag.  Það þarf ekki að leita lengi í fjölmiðlum til að sjá baráttu gegn öllum þeim kostum sem við nefnum.

Ég held að flugvélar fljúgi seint fyrir rafmagni með beinum hætti, en eru ekki möguleikar fyrir hendi að skip og flugvélar gætu nýtt sér vetni?  Ég held að það hljóti alla vegna að vera hægt að útbúa skip með þeim hætti.

Vissulega hef ég heyrt af því að rafgeymsla sé vandamál.  En þó virðast stór stökk hafa verið tekin hvað þetta varðar og ég hef heyrt af því að á næstunni taki ekki nema 10 til 20 mínútur að hlaða rafgeymi sem dugi til 60 til 80 kílómetra aksturs, þannig að þetta virðist stefna í rétta átt.

Á stærri skala hef ég heyrt um tilraunir til að hita saltlausn með ónýttri raforku að næturþeli og nota til raforkuframleiðslu að degi til.

En það sem ég var aðallega að velta fyrir mér, er að það mun þurfa síaukið rafmagn, og það þarf að byggja virkjanir, hvaða kostir munu verða nýttir?

G. Tómas Gunnarsson, 25.6.2008 kl. 17:42

4 identicon

Það er svo aftur á móti afar góð spurning. Ég held einhvern veginn að það hljóti að vera allir kostir nýttir. Fallvatnsvirkjanir verða sennilega alltaf allavega nokkuð umdeildar, þó ég gruni að það hljóðni aðeins í mótmælaröddunum þegar fólk er farið að átta sig á því nákvæmlega hversu alvarlega við þurfum mikið af rafmagni í bráð... allavega.

Ég hugsa að vindorka og sólarorka séu pólitískt skástu kostirnir. Vindorka hreinlega borgar sig, og sólarorka kemst nær og nær því. Sennilega gætum við Íslendingar þó seint notað sólarljós, allavega þá ekki nema um hásumarið.

Hvað varðar flugvélarnar og skipin, þá hittir vetnið alveg beint í mark hvað varðar skipin eftir því sem ég fæ best séð. Ég veit ekki með flugvélarnar, það eru eflaust eitthvað öðruvísi lögmál þar í gangi, en ég veit að til eru flugvélar sem ganga á etanóli einvörðungu, og eiga Brasilíumenn heiðurinn skilið af þeim stórsigri. Vandinn við vetni er sá klassíski að það þarf *gríðarlega* orku til að búa það til... sem er allt í góðu ef við erum ekki að sóa raforkunni í einhver fokking álver, til dæmis.

Etanól meikar ekki endilega mikið sens hérlendis vegna þess að við eigum mjög erfitt með að rækta plönturnar sem henta í það. Ennfremur er erfitt að flytja etanól og vetni reyndar líka, en vetnið gætum við framleitt innanlands, allavega ef það mun nokkurn tíma borga sig að framleiða það, sem það því miður gerir ekki akkúrat núna.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 19:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband