Fara "kvenréttindi" og lýðræði ekki saman?

Ég vil meina að ég sé ekki síður jafnréttissinnaður en aðrir, jafnvel meira en sumir, en á það ber að líta að vissulega eru menn og konur ekki nauðsynlega á eitt sáttir um hvað jafnrétti sé og hvernig beri að túlka það hugtak.

Jafnrétti er í mínum huga fyrst og fremst að ekkert í lögum, reglugerðum og öðru slíku geri mismun á milli manna, sem sé að allir hafi jafnan rétt. 

Það færist hins vegar í vöxt að hugtakið jafnrétti eða skort þar á, sé notað um það þegar annað kynið er meira áberandi í ákveðnum störfum eða stöðum.  Persónulega finnst mér það ekki rétt og væri því nær að tala um jafnræðis eða jafnstöðu baráttu.

Ég held til dæmis að fáir myndu segja að það væri ekki jafnrétti til háskólanáms á Íslandi þó að svo hátti til að þar séu fleiri konur en karlar.  Það væri enda út í hött.

Það vekur líka athygli mína í þessarri frétt að þar sem "jafnréttisstýran" virðist helst telja að skóinn kreppi, eru á stöðum þar sem lýðræði ríkir.  Í fréttinni segir: 

Þar má nefna hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja, á þingi og í sveitarstjórnum.

Allir vita hvernig staðið er að vali fulltrúa á þing og í sveitarstjórnir.  Vilja menn að þær frjálsu kosningar sem viðhafðar hafa verið verði aflagðar, og það verði bundið í lög að ekki sé löglegt að kjósa nema eftir kvóta, eða að stjórnmálaflokkar hafi ekki frelsti til til að ákveða hvernig kynjasamsetning er á listum?

Það sama gildir um fyrirtækjastjórnir, þar kjósa þeir sem eiga hluti í fyrirtækjunum stjórnarmenn.  Eiga þeir aðeins að hafa frelsi til þess að kjósa eftir lögbundnum kvótum, en ekki til þess að kjósa einfaldlega þá sem þeir telja hæfasta til að stjórna eigum sínum?

Í dag var skipt um stjórnarformann í FL Group.  Ingibjörg Pálmadóttir tók við af eiginmann sínum Jóni Ásgeiri Jónssyni. 

Eflaust eru þeir til sem líta á það sem stóran sigur fyrir jafnrétti á Íslandi að hún taki við.

Persónulega sé ég ekki muninn.  Ekki það að ég treysti ekki Ingibjörgu til góðra verka (hún enda af traustu Skagfirsku kyni) hjá FL Group, en þarna er einfaldlega stærsti hluthafinn að skipta um fulltrúa sinn og ég held að kyn hans skipti ekki nokkru máli.

Hitt er svo annað mál að atvinnulífið hefur gott af aukinni þátttöku kvenna í fjárfestingum og stjórnunarstöðum, en það verður að vera á réttum forsendum.  Konum mun án efa fjölga í stjórnum í réttu hlutfalli við aukna þátttöku og aukin umsvif þeirra á fjármálamörkuðum.  Fyrirtæki eins og t.d. Auður Capital, er mun betur til þess fallið að að hafa áhrif á jákvæðan og uppbyggilegan máta heldur en nokkur lagasetning.

En umfram allt verður að tryggja að "kvenréttindi" fari saman við lýðræði, bæði almennings og hluthafa.

 


mbl.is Jafnréttisbaráttunni langt í frá lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Snæland

Kæri Tómas

Þarft innlegg og enn þarfari áminning!!  Jafnrétti hefur verið íslenskur brandari nú um árabil, þarf sem hallað hefur verið á rétt karla.  Að sjálfsögðu var full þörf fyrir mörgum árum að ná fram jafnrétti til handa konum; en formæður okkar sem stóðu í þeirri baráttu, ætluðu aldrei að ganga svo langt, sem "Talibana" stefna núntímans hefur gert, og halla bátnum til að skerða hlut karla á kostnað kvenna.  Það er ekki jafnrétti.  Um árabil hefur misréttið aukist, og karlar eiga orðið verulega undir högg að sækja. Og svo berjum við okkur á brjóst, og öskrum "Við höfum lýðræði og jafnrétti"!!  Kjaftæði, segi ég!!!  Við höfum tileinkað okkur stefnu, sem er útí hött og hefur ekkert með jafnrétti að gera, heldur aðeins lágt sjálfsmat kvenna, sem er fóðrað stöðugt.  Hvar eru rökin fyrir því, að ef ég og þú sækjum um vinnu hjá hinu opinbera, höfum sama bakgrunn og menntun, þá VERÐI að ráða mig, af því að ég er kona??  Lítisvirðing við mig, segi ég,- því ég hef engan áhuga á að verða ráðin fyrir kynhlutverk mitt, ég vil verða ráðin á faglegum forsendum!!! Þetta er eins og annað, öfgarnar eru svo svakalegar að mann sundlar.  Ég hef oft fjallað um þessi mál á blogginu mínu, og er sennilega komin á "dauða-lista" femínista,- og satt að segja gæti mér ekki staðið meira á sama :)    Ef þú vilt kíkja á fyrri færslur um þessi mál og önnur mér hugleikin, þá endilega kíktu á trukkalessan.blog.is  ég myndi heldur ekkert hafa á móti að bæta þér á blogg-vina-lista.  Eins og ég sagði "Toffy" í morgun, það eru ekki margar greinar sem grípa hug minn til andsvars, en greinar ykkar beggja um Kvenréttindadaginn, ráku mig til andsvars.  Svona að lokum, hvar á Íslandi er "Bjórá"??  Frábært nafn á húsi/götu, verð ég að segja hehehehehe                                                            Góða helgi og kveðjur frá Kongó                                                                  Steinunn

Steinunn Helga Snæland, 20.6.2008 kl. 06:45

2 identicon

Er ekki kominn tími til að fólk hætti að sjá baráttu Femínista sem "Jafnréttisbaráttu" og fari að sjá hana eins og hún er, sem er ekkert annað en pólitísk forréttinda barátta.

Þetta er heldur ekki fyrir allar konur því það er beinlínis krafist þess að þær sem "fá vinnu" í gegnum "flokkinn" noti hana til að "greiða" til baka í formi bitlinga og að sé barist í gegnum þá stöðu fyrir enn auknum forréttindum til handa "flokks systra". 

Fransman (IP-tala skráð) 20.6.2008 kl. 08:43

3 Smámynd: Viðar Eggertsson

Góður pistill. Mig langar að bæta við: Það er mjög villandi að tala um jafnréttindamál eins og það þýði eingöngu kynjajafnréttindi.

Það hefur pirrað mig lengi hvað feministar líta framhjá því að fólk geti verið beitt misrétti á öðrum grundvelli en kynferði. Svona einokun á hugtaki getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir aðra þá sem eiga á hættu að vera beittir misrétti.

Jafnræðisregla stjórnarskrárinnar kveður á um að ekki megi beita fólki misrétti á grundvelli trúabragða, kynferðis, litarháttar, kynhneigðar o.sv.frv.

Viðar Eggertsson, 20.6.2008 kl. 17:28

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Bestu þakkir fyrir innleggin og viðbæturnar.  Ég fagna því líka að ekki skuli allir gengnir hinni "pólítísku rétthugsun" á hönd í þessu máli

Auðvitað á jafnrétti að vera fyrir alla.  En kvótar á ákveðna þætti mannlífsins leysa engan vanda eða auka jafnrétti.  Þvert á móti draga þeir úr jafnrétti

Bjórá stendur í Kanada.  Nfnið er því frekar dregið af ferfætlingnum en öli, nema hvorutveggja sé.  En það er rétt að það komi fram að ég bý við Beaverbrook (sem ég þýði auðvitað sem Bjórá) en gatan mun skýrð í höfuðið á Lord Beaverbrook, umsvifamiklum Kanadískum viðskiptajöfri, sem gat sér hvað mestrar frægðar fyrir útgáfustarfsemi í London og svo því að stýra stórum hluta af hergagnaframleiðsu Breta í seinni heimstyrjöldinni.

G. Tómas Gunnarsson, 21.6.2008 kl. 14:51

5 Smámynd: Steinunn Helga Snæland

Kæri Tómas!

Takk fyrir upplýsingarnar, ég er að vinna með slatta af Kanadamönnum, ágætisfólk.  Svolítið einkenninlegur húmor, en það finnst þeim eflaust um okkur líka :)  Hlakka til að fylgjast með skrifum þínum í framtíðinni

Kv

Steinunn

Steinunn Helga Snæland, 26.6.2008 kl. 11:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband