Matvælaverð gæti lækkað um 25% í næsta mánuði

Það er tekið varlegar til orða í þessarri skýrslu en oft áður, þegar rætt er um aðild Íslands að "Sambandinu".  Nú segir aðeins að margt bendi til þess að kjör almennigs myndu batna við aðild.  Auðvitað er það svo að líklega myndi ýmislegt breytast við aðild, sumt almenningi til hagsbóta annað síður.

Matvælaverð er hægt að lækka með ákvörðun Alþingis, til þess þarf ekki "Sambands" aðild.  Alþingi þarf eingöngu að samþykkja að fella niður tolla og vörugjöld og gefa innflutning frjálsan. 

Líklega gæti það gerst strax í næsta mánuði ef vilji væri fyrir hendi. 

Slík aðgerð myndi stórlækka vöruverð og spara stórar fjárhæðir í umsýslu og gera alla verslun einfaldari, hvort sem væri fyrir einstaklinga (netpantanir) eða fyrirtæki.  Það sem meira er, það væri hægt að láta þetta gilda fyrir fleiri ríki en "Sambands" löndin og lækka því vöruverð enn frekar en með aðild.

En hvað vöruverð kæmi til með að lækka mikið við óheftan innflutning frá "Sambandinu" ræðst líka mikið af því hvert gengið er.  Rétt eins og hefur komið í ljós með samanburð á bensíni, breyttist allt slíkt gríðarmikið eftir genginu, og það sem virtist gríðarlega ódýrt erlendis þegar gengi krónunnar reis sem hæst, er ekki nauðsynlega svo lengur.

Vextir myndu ekki lækka við inngöngu í "Sambandið", en slíkt gæri gerst þegar og ef Íslendingar næðu slíkum tökum á efnahagsmálum sínum að þeir gætu fengið inngöngu í myntsamstarfið og tekið upp euro.  Þegar þar væri komið við sögu, og efnhagsástandið væri það gott að samþykkt yrði að Ísland mætti taka upp euro, væri vaxtastigið líklegast þegar orðið slíkt á Íslandi að lækkun yrði ekki veruleg.  En slíkt myndi þó þýða að líkur að stöðugleika myndu aukast, þar sem skilyrðin eru ströng.

Það væri vissulega mikill ávinningur fyrir almenning á Íslandi að búa við betri vaxtakjör, en hvort þau yrðu sambærileg við þau bestu á eurosvæðinu er þó óvíst, enda alls ekki boðnir þar sömu vextir yfir línuna, þó að stýrivextir séu þeir sömu.  Ekki er ólíklegt að vextir á Íslandi yrðu heldur hærri, áhættan við lán til húsakaupa og til fyrirtækja yrði metin heldur hærri en víða annars staðar.

Hættan sem blasir við er hins vegar gríðarleg þennsla (t.d. á húsnæðismarkaði) rétt eins og Írar kynntust og eru nú að súpa seyðið af og svo eykst hættan á verulegu atvinnuleysi til mikilla muna, og líklega eru flestir sammála um það kemur almenningi ekki til góða, alla vegna ekki sem heild.

En það er líka ágætt að það komi fram hverjir kosta gerð þessarar skýrslu, en af fréttinni að dæma má draga þá ályktun að það séu Neytendasamtökin.  Í skýrslunni sjálfri kemur hins vegar fram listi af þeim aðilum sem styrktu gerð hennar

Það væri auðvitað til fyrirmyndar ef Neytendasamtökin létu almenningi í té upplýsingar um hvað hver og einn borgaði og hve mikill hluti það var af heildarkostnaði við skýrsluna.  En eftirtaldir aðilar og  fyrirtæki styrktu gerð hennar:  "Glitnir, Hagar, Kaupás, Kaupþing, Landsbankinn, Samband íslenskra sparisjóða, Samkaup,Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráðuneytið." (tekið úr skýrslunni, sem finna má á PDF formi á vef Neytendasamtakanna, www.ns.is )

 


mbl.is Telja líklegt að kjör almennings myndu batna með ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Ég held að þennslan á húsnæðismarkaðinum sé eitthvað sem við erum búin að vera lifa við síðastliðin ár - og nú er staðan orðin þannig að fólk er hætt að geta keypt sér sína fyrstu íbúð nema að þeir eigi mjög góða að. Vextir í þeim löndum sem hafa gengið í ESB hafa verið oft hátt í 20%, en lækkað mjög hratt niður í 5-6% við inngöngu. Þú getur lesið grein Aðalsteins Leifssonar um málið hér; http://www.ru.is/?PageID=1349&NewsID=1627

Þegar við göngum í ESB þá mun vöruverð hér haldast stöðugt, því við verðum með stöðugan gjaldmiðil með evrunni. Þar sem um 70% viðskipta okkar fara fram við ESB löndin, þá er augljóst að innflutningsvörur munu alltaf kosta það sama fyrir okkur.. og það verður mun opnari og skilvirkari samkeppni þegar við getum verslað við ESB löndin öll tollfrjáls með sama gjaldmiðli. Þetta er því ekki bara spurning um 25% lægra matarverð og mun lægri vexti þegar við göngum inn, heldur mun það ástand haldast til framtíðar.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 11.4.2008 kl. 08:12

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er alltaf erfitt að segja til um hvernig ástandið hefði verið, ef forsendur hefðu verið öðruvísi.  Það má þó leyfa sér að draga þá ályktun að ef á Íslandi hefðu verið lægri vextir undanfarin ár (t.d. eurovextri), hefði þennslan og neyslan verið þeim mun meiri og "vaxtaverkirnir" nú harðari.

Ef lesnar eru fréttir frá t.d. Írlandi er það einmitt sem er að gerast þar.  Húsnæðisverð fór upp úr öllu valdi vegna þess að vextir voru of lágir miðað við efnahagsástandið.  Nú eru þeir að hækka, húsnæðisverð hefur verið að lækka mjög skarpt, atvinnuleysi er að aukast.  Írar segja að þeir hafi misst 20% af samkeppnishæfi sínu vegna gengisþróunar euro.

Vissulega eru viðskipti Íslands við ESB mikil, en það er ekki síst við þau lönd sem hafa ekki tekið upp euro.  Ef ég man rétt er stærsta viðskiptaland Íslands Bretland.  Það er vert að skoða hvernig gengisþróun punds og euro hefur verið undanfarin misseri.  Það er t.d. eitt af vandamálunum sem Írland er að fást við nú.

Aðild að "Sambandinu" kemur ekki sjálfkrafa skikki á efnahagsmál á Íslandi, það þurfa Íslenskir stjórnmálamenn að gera.  Ef þeir sem nú sitja treysta sér ekki til þess verður að skipta þeim út.

Það er rétt að stöðugleikinn mun líklega aukast, þó að margir Írar séu ekki of sammála því, en helsti ventillinn sem verður þá eftir er atvinnustigið.

G. Tómas Gunnarsson, 11.4.2008 kl. 14:12

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Jónas:
Já, Evrópusambandssinninn Aðalsteinn Leifsson

Hjörtur J. Guðmundsson, 11.4.2008 kl. 17:57

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Tómas:
Ef málflutningur margra þeirra sem hvað æstastir eru í Evrópusambandsaðild er skoðaður þá er ljóst að rauði þráðurinn í honum er að við Íslendingar séum á einhvern hátt óhæfir til að stjórna okkur sjálfir og þurfum því að fá aðra til að sjá um þá stjórn fyrir okkur. En að sjálfsögðu viðurkenna þeir það seint (fyrir utan t.d. Samtök iðnaðarins), enda varla málflutningur sem líklegur er til vinsælda. En þess þarf svo sem ekki, þetta skín ágætlega í gegn.

Hvað þessa blessaða skýrslu Eiríks Bergmanns Einarssonar um matvælaverð og Evrópusambandsaðild annars áhrærir þá er hún frekar augljós áróður fyrir aðild að Evrópusambandinu sem sést vel á efnistökunum og þeim heimildum sem valdar eru. Það er varla minnzt á sjónarmið gagnrýnin á aðild en hinum hins vegar  gerð góð skil og þeim hampað svo um munar. Skýrslan gengur þess utan öll út á að færa rök fyrir aðild. Eini aðilinn sem vitnað er í og gagnrýninn er á Evrópusambandsaðild er Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor, og tilvitnunin í hann er með þeim hætti að halda mætti að hann væri hlynntur aðild. Nokkuð sem er gott dæmi um eðli skýrslunnar. En við hverju er svo sem að búast frá ötulasta talsmanni Evrópusambandssinna á íslandi skv. Evrópusamtökunum sjálfum?

Hjörtur J. Guðmundsson, 11.4.2008 kl. 18:10

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Hafði nú ekki tíma fyrr en núna að kíkja á þessa grein Aðalsteins.  Hún segir í sjálfu sér ekki neitt.  Aðeins tekin nokkur ár og vaxtaþróun sýnd.  Vextir á eurosvæðinu hafa verið að hækka sem eðlilegt er.

En hvað vaxtaumræðuna varðar, þá er það heldur ekki eftirsóknarvert fyrir hagkerfi að vextir séu sem lægstir.  það bendir gjarna til þess að eitthvað sé að.  Þar með er ekki að meina heldur að það sé best að þeir séu gríðarlega háir, það bendir sömuleiðis til að eitthvað sé að.  Síðan er hægt að rökræða fram og aftur hvað væri eðilegt vaxtastig.

En það má líka bera saman t.d. vaxtastig í Bandaríkjunum og á eurosvæðinu eins og það er í dag.  Hvort er lægra?  Hvort svæðið á meiri erfiðleikum vegna þess að útflutningsfyrirtæki vilja flytja af svæðinu?  Hvort svæðið er betur statt efnahagslega nú um stundir?

G. Tómas Gunnarsson, 11.4.2008 kl. 18:59

6 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Tómas:
Eins og þú bendir á hér að ofan eru frændur okkar Írar nú að súpa seyðið af því að hafa ekki fengið þá stýrivexti á liðnum árum sem þeir hefðu þurft frá Seðlabanka Evrópusambandsins sem leggur höfuðáherzlu á að taka mið af þróun efnahagsmála í Þýzkalandi vegna þess að Þjóðverjar settu það sem skilyrði fyrir þátttöku í evrusvæðinu. Þar hefur á undanförnum árum ríkt efnahagslægð og stýriverxtir bankans því eðli málsins samkvæmt verið lágir til að koma hjólum þýzks efnahagslífs í gang. Írar eru reyndar ekki einir um að vera í þessari stöðu, en sama á við um Spánverja. En þrátt fyrir að vera margfalt stærri þjóðir en við Íslendingar hafa Írar og Spánverjar ekki fengið þá stýrivexti sem þeir hafa þurft. Það kemur því vart á óvart að í greinargerð Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um evruna, sem fylgdi skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra, sé sagt að engar líkur séu á að Seðlabanki Evrópusambandsins muni taka tillit til aðstæðna hér á landi við peningamálastjórn sína og þ.m.t. við ákvörðun stýrivaxta.

Hjörtur J. Guðmundsson, 11.4.2008 kl. 20:19

7 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Hjörtur: Stýrivextir er deyjandi stjórntæki í peningamálum, því nú eru komnir stórir frjálsir markaðir með frjálsum fjármagnsflutningum - ef fólk vill lægri vexti, þá tekur það bara lán annarstaðar.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 12.4.2008 kl. 18:51

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er rétt að stýrivextir eru ekki jafn beittir og áður, þ.e.a.s. í litlum hagkerfum.  En vissulega bíta þeir samt sem áður.  Ef þeir væru "deyjandi" þá væru menn líklega ekki að kveina jafn mikið yfir þeim á Íslandi og raun ber vitni nú um stundir, eða hvað?

Svæði með "stórum fjálsum fármagnsflutningum", hafa samt sem áður stýrivexti, sbr. euro svæðið og Bandaríkin.  Írar kvarta til dæmis hástöfum undan stýrivöxtum á eurosvæðinu, það sama gera margir á Íslandi.

Stýrivextir eru því alls ekki að hverfa sem hagstjórnartæki.

G. Tómas Gunnarsson, 12.4.2008 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband