Tímamót og tækifæri

Það markar óneitanlega tímamót þegar síðasti bandaríski hermaðurinn yfirgefur Ísland.

Sú saga sem hófst með landtöku breska hersins í maí 1940, þegar þeir hernumu Ísland, er nú lokið, alla vegna í bili, ekki er hægt að útiloka að hermenn snúi til landsins á ný til langdvalar.

Eftir því sem ég kemst næst hafa bandarískir, breskir, kanadískir og norskir hermenn verið á Íslandi.  Þeir bresku, norsku og kanadísku voru partur af hernáminu, en þeir bandarísku komu eftir að samningur var gerður um að þeir tækju yfir varnir landsins.

Allan þann tíma sem varnarliðið hefur verið á Íslandi hefur dvöl þess verið umdeild, en þó hygg ég að meirihluti þjóðarinnar hafi að öllu jöfnu verið fylgjandi veru þess, en fylgið hefur þó líklega sveiflast upp og niður.  Æ fleiri hafa svo verið þeirrar skoðunar að varnarliðið sé óþarft, nú þegar kalda stríðinu er lokið.

En vissulega hefur umræðan um varnarmál verið nokkuð mikil upp á síðkastið.  Hafa margir haft orð á því að á Ísland vanti sýnilegar varnir.  Auðvitað væri að mörgu leyti æskilegt að hafa sýnilegar varnir, fælingarmáttur þeirra er ótvíræður.  Það má hins vegar ekki rugla því saman að hafa sýnilegar varnir og að hafa sýnilegar varnaráætlanir.  Ekki þekki ég til nokkurs lands þar sem varnaráætlanir eru opinberar, enda væri þá mun auðveldara að finna mótleiki gegn þeim.

En nú er svo komið að íslenska Landhelgisgæslan, lögregla og víkingasveit eru framlína íslenskra varna.  Hvort að það er nóg á vissulega eftir að koma í ljós, en ógnirnar eru ekki margar, ekki eins og staðan er í dag.

En við þessi tímamót, þegar varnarliðið fer, opnast mýmörg tækifæri, nú er að finna góða og hentuga nýtingu fyrir svæðið.

Eitt af því sem oft hefur verið minnst á að færa til Suðurnesja er Landhelgisgæslan og get ég ekki betur séð en að það hljóti að koma sterklega til greina nú, flugvél og þyrlur upp við völl og skipin gerð út frá Keflavík.

Frísvæði hlýtur líka að koma til greina og eflaust væri hægt að búa til fyrirmyndar kvikmyndaver úr hluta af þeim mannvirkjum sem þarna eru (ég held að það sé betri hugmynd en að byggja það í Reykjavík eins og menn voru að ræða í dag). Hægt væri að útbúa æfingasvæði fyrir ökunemendur af Suðvesturhorninu og svona mætti lengi halda áfram.

Eflaust eiga mýmargar hugmyndir eftir að koma fram enda eru möguleikar á nýtingu svæðisins endalausir.

Það er áríðandi að þetta takist vel og verði lyftistöng fyrir Suðurnesin og landið allt.


mbl.is Íslenski fáninn blaktir einn á varnarstöðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband