Verðbólgan að koma?

Það eru miklar líkur á því að verðbólga muni aukast á næstu mánuðum.  Ekki eingöngu á Íslandi, heldur víðast um heiminn.

Það mun líklega hrikta í kenningum sem hafa verið áberandi upp á síðkastið, um að hægt sé að prenta peninga út í hið óendanlega, án þess að "nokkuð gerist".

Meira að segja Eurosvæðið (þar sem lítið hefur gerst í langan tíma) er farið að sjá hækkandi verðbólgu.

Þannig er verðbólgan Luxembourg 3.3%, 2.1% í Þýskalandi, í Litháen er hún 2.4 og á Spáni 1.9%.  Hér er miðað við HICP (Harmonized Index Consumer Prices) frá "Sambandinu".  Þessar tölur eru fyrir apríl (og eru líklega bráðabirgða).  Nýjustu tölur frá Íslandi eru þar síðan í mars og þá var verðbólgan þannig mæld 3.8%.

Eurosvæðið í heild hefur verðbólgu upp á 1.3% (tölur frá mars), en meðaltalið segir lítið (þó að ýmsum á Íslandi sé tamt að nota það), enda er til dæmis en verðhjöðnun í Grikklandi er enn 0.8% (apríl), sem er þó skömminni skárra en þegar hún var 2% í mars. Verðhjöðnun er sérstaklega eitruð fyrir ríki eins og Grikkand, sem skuldar svo gott sem tvöfalda þjóðarframleiðslu sína.

Í Bandaríkjunum var verðbólga 2.3% í mars, sú hæsta frá 2018.

Á Íslandi mun það duga skammt að ætla að "berja" á fyritækjum, kostnaður þeirra hefur aukist og verð á innfluttum vörum og hráefni mun líklega hækka verulega næstunni.  Hefur einhver heyrt um að kostnaður s.s. raforka, hitaveita, laun eða annar kostnaður hafi lækkað? Hefur einhver trú á því að húsaleiga, eða annar húsnæðiskostnaður muni lækka?

Hvað skyldi kostnaður fyrirtækja af sóttvarnaraðgerðum vera?

Eftirspurn eftir stáli og málmum hefur aukist hratt og verð hækkað. Kopar hefur hækkað um fast að 90% á síðasta ári, hveiti hefur ekki verið dýrara síðan 2013.

Soyabaunamjöl hefur hækkað um 40% á u.þ.b. ári og kostnaðurinn við að ala sláturfé á maís, hefur víða hækkað um fast að 100%.

Framtíðarverð á kaffi hefur hækkað um ca. þriðjung og sykur hefur sömuleiðis hækkað í slíkum viðskiptum.

Víða er því spáð að "hrávara" muni hækka að meðaltali um 10% það sem eftir lifir árs, eða næstu 12 mánuðum.

Mest af þessu eru líklega bein og óbein áhrif viðbragða heimsins við "veirunni".

Hvernig þetta allt spilast eigum við eftir að sjá, því spámennska er eitt og raunveruleikinn annar.

Engin veit hvað framtíðin ber í skauti sér, og eins og maðurinn sagði, ber að varast alla spádóma, sérstaklega um framtíðina.

En það er vert að velta því fyrir sér fyrir hagfræðinga sem og áhugamenn um slík fræði hvernig "veiran" hefur áhrif á hagkerfin.

Hvað gerist t.d., þegar flestir eru heima hjá sér og hella upp á kaffi í sínum vélum (sem oftar en ekki leiðir til að kaffi fer til spillis og eftirspurn eftir kaffi eykst) en spara með því fé, sem hægt er að nota til annars.  Á meðan borgar hið opinbera laun kaffigerðarmannana, og heldur þannig uppi eftirspurn (í raun eykur hana) jafnframt því að stuðla að sóun á kaffi og aukinni eftirspurn eftir því.

Ef þetta er margfaldað yfir allar starfsgreinar, hver verður útkoman?

Halló verðbólga?

Halló vaxtahækkanir?

Seðlaprentun þegar eftirspurn dregst saman er annað en seðlaprentun þegar eftirspurn er að aukast, eða útlit fyrir slíkt.

Líklega eru flestir seðlabankar í heiminum að hugleiða vaxtahækkanir, en hvenær þær koma til framkvæmda er erfiðara að sjá, þar ræður líka pólítískt andrúmsloft nokkru um.

En líklega er veruleg verðbólga nokkurn vegin óumflýjanleg.

En líklega bíta verkfæri seðlabankans á Íslandi fljótar nú þegara svo margir hafa flutt húsnæðislán sín yfir í óverðtryggð lán, með breytilegum vöxtum.

 

 


mbl.is Hækkunin kom mikið á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Peningaprentunin sem keyrt er á til að mæta afleiðingum sóunarinnar sem þeir sem prenta peningana hafa valdið leiðir vitanlega af sér verðbólgu. En stærsta áhyggjuefnið eru samt þeir tugir milljóna mannslífa sem glatast vegna þeirrar eitruðu blöndu af ofsahræðslu, græðgi og skeytingarleysi sem hefur riðið yfir heimsbyggðina á undanförnu rúmu ári.

Þorsteinn Siglaugsson, 2.5.2021 kl. 01:01

2 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Sá einhverstaðar um daginn, man ekki hvar, kannski Economist, að sagan sýni að í kjölfar faraldra fylgi jafnan efnahagsuppgangur (boom). Kannski þarf ekki að prenta peninga. Enda hélt ég í hagfræðieinfeldni minni að enginn teldi slíkt raunverulegan kost.

Nema kannski Mugabe.

Kristján G. Arngrímsson, 2.5.2021 kl. 10:51

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Verðbólgan er líklega hærri en gefið er upp, henni er meira haldið niðri með  reiknibrellum, á pappír, en í raun.

Veit að verð á byggingavöru í USA hefur hækkað gífurlega.  Þar er búið að prenta svo mikið af dollurum að það væri hægt að betrekkja Ísland með þeim.

Vandinn við peningaprentun er að peningar sem slíkir eru bara "token" sem menn bara ákveða hvers virði er, á meðan hveiti og timbur hefur meira solid virði.

Og nú erum við að sjá afleiðingarnar af því að meirihluti allrar þjónustu *í heiminum* hefur verið stöðvaður með valdi.  Vegna hysteríu.
Afleiðingar þess að láglaunafólk fær ekki laun.
Afleiðingar þess að allar eignir hverfa til fárra stórfyrirtækja/ríkisstofnana.

Það e bara spurning um tíma, og ekki langan, kanski bara mánuði, hvenær allt hrynur stórfenglega.

Ég hugsa að það verði eitthvað alveg nýtt, sem við höfum ekki áður séð.  Og enginn vill sjá það breytast.

Ásgrímur Hartmannsson, 2.5.2021 kl. 11:43

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Þorsteinn þakka þér fyrir þetta. Það er skrýtið ástand víða og í raun sér ekki fyrir endan af því.

Né heldur er hægt að fullyrða hver staðan verður eða hvað tekur við að því loknu.

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ef hagkerfi er keyrt niður er næstum því óhjákvæmilegt að það skjótist hratt upp aftur.

Svo gott sem eina leiðin til að slíkt gerist ekki er að setja sósíalista/kommúnista við stjórnvölinn.  En jafnvel þá er líklegt að það komi "boom" en af öðrum toga, það er að segja sprenging og efnahagsuppgangurinn verði ekki fyrr en búið er að koma þeim frá völdum.  Við höfum mörg dæmi um slíkt.

Flest lönd heims hafa á undanförnum árum "prentað" óhemjumagn af peningum og Bandaríkin og Eurosvæðið gert í í slíkum tölum að það er ekki fyrir dauðlega menn að hafa þær eftir.  Englandsbanki hefur heldur ekki slegið slöku við og er búinn að prenta peninga fyrir í það minnst 1/3 af skuldum landsins.

"Prentunin" í Bandaríkjunum er mæld í trilljónum og ECB er ekki langt á eftir, mér skilst að þar eigi að prenta trilljón euro í ár, til að berjast við veiruna. 

https://www.reuters.com/article/us-health-coronavirus-ecb-idUSKBN21543D

Sem betur fer eru ekki pappírs peningar ekki notaðir mikið við þessa iðju, þá væri líklega fátt orðið um tré. 

Íslendingar hugsa sér líka gott til glóðarinnar í þessum efnum:  https://www.vb.is/frettir/naesta-ar-verdur-ar-peningaprentunar/165312/

En að hefur ekki verið skortur á þeim sem telja peningaprentunina hreinlega lausnina við fjármál hins opinbera.

Seðlabankar búi til handa þeim sé nægt fé til að gera hvað sem er.

Fittar vel inn í slagorðið "það er nóg til", ekki satt?

@Ásgrímur, þakka þér fyrir þetta.  Þetta er nú eitt af þessum skiptum sem ég óska að ég hafi rangt fyrir mér (sem og þeir sem hef verið að lesa greinar eftir) og verðbólgan fari ekki á verulegan skrið.

En það virðist oft vera skortur á því að laga til grundvöllinn, sbr. þessa frétt sem ég sá í morgun.

https://www.vb.is/frettir/lodaskortur-helsta-ahyggjuefni-verktaka/168201/

Hvað hefur oft verið talað um framboð á lóðum.  Hvers vegna er sífelldur skortur?  Skortur sem keyrir upp verð, ekki síst þegar magnið af peningum sem fólk er reiðubúið að setja í fasteign eykst sífellt?

En ef til vill gengur ASÍ í málið og sér til þess að það verði nóg til af lóðum, það gæti fært stórum hluta almennings gríðarlegar kjarabætur, en brennt annan hluta.

Er ekki öruggast að gera lítið og hafa skortinn áfram?

G. Tómas Gunnarsson, 2.5.2021 kl. 14:32

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Dáldið fyndið þetta sífellda væl um lóðaskort á sama tíma og hús æða upp úr jörðinni út um allt eins og gorkúlur.

Náttúrulega gott að tala um lóðaskort til að réttlæta hækkandi verð á framleiðslunni.

Þetta með að nóg sé til - það er auðvitað alveg rétt að nóg er til. Þetta er spurning um hvernig gæðunum er dreift, hvort þau safnast í vasa fárra eða dreifast á diskana hjá fleirum. Ég ætla ekki að halda því fram að eitthvað óréttlæti sé fólgið í misskiptingu auðsins, það er frekar spurning um ríkjandi hugarfar og "tíðaranda". Núna þykir sjálfsagt og eðlilegt að fólk hugsi fyrst og síðast um sjálft sig jafnvel þótt það eigi miklu meira en nóg til hnífs og skeiðar.

Man ekki hvort við vorum eitthvað búnir að tæpa á manninum sem komst í fréttir fyrir það að vilja borga skatta á Íslandi af milljörðunum sem hann græddi.

Stórfrétt: Maður sem vill borga skatta.

Látum vera þótt Jón og Gunna reyni að borga Skattmann eins lítið og þau geta af sínum meðallaunum (og þar fyrir neðan), en þegar þeir sem þéna milljónir á mánuði gera hvað þeir geta til að komast hjá skattgreiðslum þá er það aðfinnsluvert.

Eða, mér finnst það aðfinnsluvert, eins og ég nefndi finnst nú um stundir fáum það aðfinnsluvert. Frekar svona að það sé talið alveg eðlilegt.

Kristján G. Arngrímsson, 2.5.2021 kl. 16:14

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það þarf ekkert að fylgjast sérstaklega vel með fréttum til að sjá að það eru nú um stundir eru gjarna tugir um hverja eign sem er til sölu.

Það er hins vegar hvergi fjallað um lóðir sem standa auðar og enginn vill byggja á.  En þú veist líklega um fjölda slíkra?

Það er líka "í tísku" að segja að ekki sé hægt að treysta markaðnum fyrir þessu. 

Markaðurinn hefur ekki nema hluta af sviðinu, enda hið opinbera sem í raun stjórnar því sem er að gerast með lóðaframboði.

Er einhver sem hagnast í raun meira á síhækkandi fasteignaverði og fasteignamati en hið opinbera, það er að segja sveitarfélög.

Ef þau viðhalda skortinum, fá þau hærri tekjur fyrir sömu þjónustu, fyrir utan að geta fengið hærra verð fyrir lóðirnar.

Kostnaður og eftirspurn er það sem ræður mestu um verðið.  Það er enginn hagnaður af íbúðum sem seljast ekki.

Það er því miður ekki nóg til, en auðvitað eilíft umræðuefni hvernig sé best að skipta því sem er þó til.

https://www.ruv.is/frett/2021/04/24/rikissjodur-taemist-ef-hjukrunarheimili-eru-eina-urraedid

Svandís Svavars, er líklega orðinn "grenjandi frjálshyggukona", sem ég efast um, en hún gerir sér grein fyrir því að það "er ekki endalaust til".

Langflestir borga auðvitað þá skatta sem lög kveða á um.  Hvort að ástæða sé fyrir einhverja að borga meira en það er sjálfsag smekksatriði.

Reyndar hef ég ekki hugmynd um hvort að einstaklingurinn sem þú kynnir til sögunnar borgaði hærri skatta en ella með því að greiða þá á Íslandi, ég hef hvergi séð þá útreikninga, eða hvað miklu munaði ef einhverju.

Það fer sjálfsagt eftir því hvernig fyrirtækið sem hann seldi var byggt upp.

Fréttirnar snerust fyrst og fremst um að hann hefði ákveðið að þeir væru greiddir á Íslandi. 

Ekki að ég sé að gera lítið úr þessari ákvörðun hans, sem kemur Íslendngum vel.

G. Tómas Gunnarsson, 2.5.2021 kl. 18:41

7 identicon

Eru ekki kosningar í haust?

Sé það rétt munað hjá mér má búast við verðbólgu eitthvað fram á veturinn. Ef ríkisstjórnin sem tekur þá við telur sig trausta og líkur á að hún springi ekki of snemma á hún möguleika á að gera eitthvað við verðbólgu. 

Ég er náttúrlega bara að tala um litla hagkerfið hér, en það ætti að vera viðráðanlegra að stíga á bremsur hér en sumsstaðar annarsstaðar.

Varðandi lóðir, þá hefur mest verið byggt á dýrum lóðum, og hefur varla tekist að hafa undan eftirspurn. Svo gleyma menn því stundum að ef mönnum er gert auðveldara að kaupa (t.d. með lægri vöxtum), geta fleiri keypt og þá þarf að vera nóg til, annars hækkar verðið bara.

ls (IP-tala skráð) 2.5.2021 kl. 19:21

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@ls, þakka þér fyrir þetta. Eitthvað hef ég heyrt talað um kosningar í haust. 

Það er líklegt að verðbólgan haldi eitthvað áfram, og spurningin hvað Íslendingar geti gert í því, ef verð er almennt að hækka um víða veröld.  Ef gjaldeyrisinnstreymi eykst og gengið styrkist virkar það á móti.

Ég sé reyndar ekki fyrir mér að innlendur kostnaður lækki.  Varla lækka laun, ég sé ekki hita eða rafmagn lækka, varla lækkar húsnæðiskostnaður.  Ég sé heldur ekki fyrir mér skattalækkanir.

En vaxtahækkun stuttu fyrir kosningar gætu haft veruleg áhrif. 

En hún væri líklega frekar á dagskrá eftir kosningar.

Það hefur verið mikið framboð af dýrum lóðum, ef ég hef skilið rétt.  Til að ná í ódýrari lóðir þarf að fara til Árborgar eða Ölfuss.

Vaxtalækkanir eru raunveruleg kjarabót við fasteignakaup í fáeinar vikur, síðan hafa verðhækkanir gjarna tekið búbótina.

En þegar talað er um að mikið sé byggt, verður að taka tillit til þess að mikil fjölgun hefur verið á Íslandi undanfarin ár.

G. Tómas Gunnarsson, 2.5.2021 kl. 19:41

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Kannski er bara ágætt að viðhalda lóðaskorti til að hægja aðeins á byggingaóðagotinu. Húsin yrðu þá kannski betri og veitir greinilega ekki af:

https://www.ruv.is/frett/2021/05/02/hradahindrun-a-framkvaemdanna-vegi

Kristján G. Arngrímsson, 2.5.2021 kl. 21:50

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"En líklega bíta verkfæri seðlabankans á Íslandi fljótar nú þegara svo margir hafa flutt húsnæðislán sín yfir í óverðtryggð lán, með breytilegum vöxtum."

Þetta er einmitt lykillinn að lausninni.

Þar til nýlega hefur verðtrygging alltaf séð um að kynda verðbólgubálið með þeirri sjálfvirku peningaprentun sem leiðir af henni. Það er orsök næstum allrar verðbólgu sem hefur mælst það sem af er þessari öld. Með því að fara úr verðtryggðu lánakerfi yfir í óverðtryggt útrýmum við þessum stórskaðlega eiginleika og nálgumst eðlilegra ástand, þar sem seðlabankinn getur haft raunveruleg og bein áhrif á þróun mála.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.5.2021 kl. 23:24

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Staðreyndin er sú að skortur á lóðum o og hátt lóðaverð hvetur til þess að flýta sér eins og mögulegt er að koma íbúðunum a markað.

Hærra lóðaverð bindur fé þannig að það liggur á að koma fasteignum á koppinn.

Ef kaupendur bíða í röðum eftir fasteignum kallar það einnig frekar á hröð vinnubrögð.

Lægra lóðarverð og nóg framboð myndi líklega frekar draga úr "óðagotinu".

En líklega er orsakanna einnig að leita annars staðar, svo sem í slakri hönnun o.s.frv.

En lóðaskorturinn mun ekki hjálpa í þessu, frekar en nokkru öðru en að tryggja sveitarfélögum hærra verð og hækka fasteignaverð og fasteignagjöld. 

G. Tómas Gunnarsson, 2.5.2021 kl. 23:54

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Guðmundur, þakka þér fyrir þetta. Starf Seðlabankans verður án efa auðveldar með stóran hluta húsnæðislána óverðtryggð og með breytilegum vöxtum.

En hvort að það dugar til að stöðva verðbólguna er annað mál, en vonandi.

Líklega skiptir mestu máli hvernig þróunin verður í Bandaríkjunum og hvernig vaxtastigið þróast þar.

En innflutt verðbólga getur verið jafn hættuleg.  Svo er auðvita klassískt deiluefni hvað húsnæðisverð eigi að spila stóra rullu í vísitölu eða yfirleitt að vera þar.

G. Tómas Gunnarsson, 3.5.2021 kl. 00:01

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Góðu fréttirnar eru að verðbólga hefur engin sjálfvirk áhrif á óverðtryggðar húsnæðisskuldir, heldur eru viðbrögð við henni ákvörðun tekin af fólki sem þarf að bera ábyrgð á ákvörðunum sínum. Verðtryggingin var ekkert annað en ábyrgðarfirring þessa fólks.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.5.2021 kl. 00:10

14 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er einföld staðreynd sem blasir við að mikið lóðaframboð myndi ekki hafa nein áhrif á óðagot húsnæðisframleiðenda því að ef eitthvað er staðreynd þá er það það að þeir vilja moka inn sem mestum hagnaði að sem skemmstum tíma.

Slök hönnun hefur heldur ekkert með málið að gera því að það sem kemur í ljós er ekki hönnunargallar heldur einfaldlega hroðvirkni í frágangi. Svo ef eitthvað er er kvartað undan því að hönnunin sé of ströng og reglurnar of strangar þannig að ekki sé hægt að byggja ódýrt.

Þessi venjulegi söngur um að þetta sé allt "kerfinu" að kenna - talandi um að firra sig ábyrgð.

Svo er náttúrulega afskaplega gott að kaupendum bjóðist óverðtryggð lán, því þau henta mörgum betur en verðtryggð. Aftur á móti er líka fínt að hægt sé að fá áfram verðtryggð lán því að þau henta líka mörgum. Gott að geta valið, ekki satt? Liggja einhverstaðar fyrir upplýsingar um hversu mikið af nýjum lánum eru verðtryggð og hversu mikið ó?

Kristján G. Arngrímsson, 3.5.2021 kl. 07:28

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Guðmundur, þakka þér fyrir þettta.  Sjálfvirknin er aftengd, en það er ekki ólíklegt að niðurstaðan verði svipuð.  Mörgum mun svo reynast erfiðara að standa í skilum ef verðbólga og vextir fara af stað, ef ekki er um að ræða jafngreiðslulán (sem hefur ekkert með verðtryggingu að gera).

En bankastofnanir geta veitt lán eða yfirdrætti til að standa straum af slíku.

Auðvitað ber einhver ábyrgð á slíkum ákvörðunum, rétt eins og einhver ber ábyrgð ef lán eru með neikvæðum vöxtum.  Íslendingar yfir miðjan aldur þekkja slíkt "shów".

@Kristján, þakka þér fyirir þetta.  Lóðaskortur hægir á íbúðabyggingum í þjóðfélaginu, ekki hraða einstakra byggingaframkvæmda.

Umframeftirspurn hvetur svo til hraðari framkvæmda ef eitthvað er.

Minni tími gefst fyrir kaupendur að skoða hvað þeir eru að kaupa, margir um hituna og margir eða gefast upp eftir að ná aldrei að kaupa eign.

Hitt er ég svo sammála þér um að því fjölbreyttari lánamöguleikar, því betra.

Verðtryggð og óverðtryggð, jafngreiðslulán eða ekki, mismunandi lengd o.s.frv.  "Kúlulán" eins og ríkið býður upp er athyglisverð leið sem virðist hafa gefið ágætis raun víða. 

En þau auka enn á eftirspurnina, sem aftur kemur inn í umræðu um framboð á eignum og byggingalóðum.

G. Tómas Gunnarsson, 3.5.2021 kl. 12:27

16 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Óneitanlega mikilvægt innlegg í þessa umræðu hérna ef raunin er að það skorti alls ekki íbúðir:

https://www.ruv.is/frett/2021/05/04/mikilvaegt-ad-skera-ur-um-hvort-ibudir-skorti

Þegar íbúðaþörf er áætluð, við hvað á að miða, að margir búi þröngt og í iðnaðarhúsnæði eða á að miða við kaupgetu og kaupvilja?

Kristján G. Arngrímsson, 4.5.2021 kl. 09:51

17 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Kaupgeta og kaupvilji er ótvírætt til staðar, þegar fjöldi slæst um eignir og algengara en ekki er að fasteignir seljist á meira en ásett verð.

Ef nóg er til af íbúðum, hvers vegna hækka þær sífellt í verði?

Það eitt og sér sýnir mikinn kaupvilja og kaupgetu.

G. Tómas Gunnarsson, 4.5.2021 kl. 14:38

18 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Er þá Landsbankinn bara að bulla?

Kristján G. Arngrímsson, 4.5.2021 kl. 17:20

19 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Í fréttinni sem þú vísar í segir:  "Húsnæðis- og mannvirkjastofnun segir þörfina mikla en Hagfræðideild Landsbankans segir skortinn lítinn sem engan.".

Engin frekari rök fylgja með skoðun Landsbankans.  Þær kunna að koma fram annars staðar en ég hef ekki séð þær og hafði ekki fyrir því að leita að þeim í þessu tilfelli.

Út af hverju er svona margar eignir að seljast á hærra verði en ásettu?

Út af hverju er verðið (eins og vísitölur sýna) sífellt að hækka?

Út af hverju eru fréttir að um æ fleir berjist um hverja eign (sjálfsagt ekki án undantekninga)?

Þetta er reyndar (að mínu mati) einstaklega illa unnin frétt og RUV ekki til sóma, það er reyndar ekkert nýtt (að mínu mati), enda fjölmiðlun á Íslandi orðin heilt yfir hræðileg.

Sbr. þessa frétt sem kunning minn sendi mér.

https://www.dv.is/433/2021/05/04/birkir-eldi-italiu-vesen-odrum-islendingum/

Myndirðu skilja hvað ég er að meina ef ég segði að þessi frétt tekur kökuna?

G. Tómas Gunnarsson, 5.5.2021 kl. 00:11

20 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Að taka DV sem dæmi um hve "íslensk fjölmiðlun" er hræðileg er nú ekki beint sterk rök. 

Af hverju hækkar verðið? Veit það ekki, kannski er búið að telja öllum trú um að það sé skortur án þess að hann sé, og svo hitt að vextir eru lágir þannig að aðgangur að lánsfé er góður.

En ég sosum ætla nú alls ekki að þykjast hafa mikið vit á húsnæðismarkaðnum.

Kristján G. Arngrímsson, 5.5.2021 kl. 15:22

21 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Er ekki DV hluti af einni af stærri "fjölmiðlasamsteypum" Íslands, þó að ef til vill sé langt seilst að nota orðið "samsteypur" um Íslenska markaðinn.

Fréttin sem þú vísaðir til á RUV var einnig frekar "skringilega" unnin.

Ég slengdi þessu nú inn af því að ég var rétt búinn að fá þetta sent.

En það er orðið algengt að heyra útvarpsviðtöl svo dæmi sé tekið, þar sem erfitt er að skilja hvað um er verið að tala, ef hlustandi hefur ekki þokkalega Enskukunnáttu.

Það á við bæði RUV og frjálsa miðla.

Heldurðu að hækkanirnar á húsnæðismarkaðnum séu bara vel heppnuð múgæsing?  Mikið af slíku á Íslandi upp á síðkastið?

G. Tómas Gunnarsson, 5.5.2021 kl. 16:50

22 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það sem böggar mig mest í fjölmiðlum á Íslandi er þegar "fréttir" eru greinilega til þess eins gerðar að fá smell - markmiðið með fréttinni er semsé ekki að upplýsa lesendur heldur vekja hneykslun hans, forvitni eða reiði.

Þarna er m.ö.o. verið að höfða til annars en skynsemi neytandans og það er vondur bisniss.

Ég veit ekki hvað veldur stöðunni á húsnæðismarkaðnum, en þetta er eitthvað málum blandið fyrst Landsbankinn segir að það sé ekki skortur - fjandinn hafi það, Landsbankinn er ekki bara einhver og einhver. Svo bætist þetta við:

https://n4.is/frett/akureyri-ibudum-fjoelgar-hradar-en-mannfolkinu?fbclid=IwAR39VDOX8QjR6qcIAxP6Ucy0nTiOpBgDXydBKh1eMiOzL_unuujUC4da79Y

(Biðst afsökunar ef þessi frétt er of illa unnin fyrir þinn smekk).

Ég er alls ekki að halda því fram að það sé enginn skortur, það er Landsbankinn sem segir það - sjálfum er mér sosum sléttsama. Og það er ekki hægt að segja bara að þetta sé allt spurning um illa unnar fréttir og lélega fjölmiðla. Það er ekki alltaf hægt að skjóta sendiboðann.

Kristján G. Arngrímsson, 5.5.2021 kl. 18:35

23 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

PS: Svo er nú annað: íþróttafréttir eru alveg sér menningarkimi í íslenskri fjölmiðlun. Það er erfitt að skilja þær ef maður tilheyrir ekki þeim menningarkima. En þessi DV frétt sem þú sendir er vissulega "eitthvað annað" eins og sagt er nú um stundir.

Kristján G. Arngrímsson, 5.5.2021 kl. 18:39

24 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Það er engan veginn óeðlilegt að íbúðum fjölgi á einhverjum stað umfram fólksfjölgun.

Það hefur t.d. verið talað víða um (ekki bara á Íslandi) að erfitt hafi verið fyrir ungt fólk að komast inn á húsnæðismarkað.  Þegar t.d. lánakjör verða betri verður það auðveldara og ungt fólk fer frekar að flytja að heiman, hættir að leigja með vinum sínum og kaupir eigin íbúð o.s.frv.

Þess utan getur verið, eins og kemur fram í fréttinni, að verið sé að kaupa íbúðir af öðrum hvötum.   Það geta verið fjárfestar, það getur líka verið að t.d. verkalýðsfélög hafi ákveðið að fjölga íbúðum á Akureyri, sérstaklaga með tilliti til aukinna ferðalaga innanlands og vinsælda t.d. Hlíðarfjalls (þegar er leyft að skíða).

Það getur líka verið að vel efnað fólk (ef til vill nokkrir saman) vilji sömuleiðis eiga litla íbúð á Akureyri til að nota á á sumrin eða til að fara á skíði.

Er það eitthvað óeðlilegra en að eiga íbúð á "Tene" eða í Florída?

Það eru ótal ástæður fyrir aukinni eftirspurn eftir íbúðum.  Ef svo ferðamannastraumurinn tekur við sér, gæti farið svo að aftur verði farið að kaupa íbúðir fyrir AirBNB.  Sem aftur gæti gert markaðinn enn "þrengri".

En umfram framboð á húseignum sem hefur þó ekki orðið, gæti hins vegar haft góð áhrif fyrir þá sem eru í húsnæðishugleiðingum, en væri líklega síðri fréttir fyrir banka.

Lánastofnanir hafa all jafna ekki áhuga á því að sjá húsnæðisverð og þar með veðhæfni lækka.

G. Tómas Gunnarsson, 5.5.2021 kl. 18:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband