Ritskoðun nútímans?

Það er býsna mikið rætt um "ritskoðun" þessa dagana.  Þó held ég að það sé ekki alveg rétta orðið til að nota.

Ef til væri réttara að tala um "birtingarvald", nú eða eins og í fréttinni sem þessi færsla er hengd við, "dreifingarvald".

Sé slíku valdi beitt, er það líklega í sumum tilfellum allt að ígildi "ritskoðunar", en ég myndi þó telja það annars eðlis.

En auðvitað er fjölmiðlum ritstýrt og margir hafa kvartað undan skorti á "ritstýringu" eða eftirliti á samfélagsmiðlum.

Það er vandratað á slíkum slóðum.

En eiga einhverjir kröfu á því að samfélagsmiðlar (svo ekki sé minnst á aðra miðla) skaffi þeim vettvang?

Er eitthvað óeðlilegt við að samfélagsmiðlarnir setji reglur sem allir þurfa að fara eftir?

En auðvitað vaknar spurningin um hverjir dæma þá "seku" og hvernig er að því staðið.

Hins vegar má að mörgu leyti halda því fram að vald "fjölmiðlarisa" dagsins í dag sé mun minna en var, þegar tími dagblaða og stórra sjónvarpsstöðva ríkti.

Það kostar mun minna að koma á fót samfélagsmiðli en sjónvarpsstöð (þó að sá kostnaður hafi einnig minnkað), það kostar minna að koma á fót vefmiðli en prentblaði og svo má áfram telja.

En auðvitað eru "stóru aðilarnir" ráðandi á markaðnum og ef til vill má kalla þá "hliðverði" samtímans.

Persónulega er ég þó þeirrar skoðunar að slíkar takmarkanir eða lokanir muni ekki hafa þau áhrif sem óskað er eftir, jafnvel þveröfug.

Umræðan, hvort sem við teljum hana til góðs eða ills, mun finna sér farveg og nýjir miðlar munu spretta upp.

Hins vegar getur "sómakært fólk" haldið sig á meginstraumsmiðlunum og verður enn minna vart við "vandræðagemsana" en áður.

"Pólaríseringin", verður þannig enn meiri en áður og undrunin verður enn meiri en áður þegar komist er að því að það eru ekki allir sömu skoðunar og "vinir þínir á netinu".

Sumir einstaklingar verða enn vissari um að "vinstri fasistarnir" séu að reyna að ritskoða þá, en aðrir verða þess fullvissir um að "aðgerðirnar" virki, því þessar "ógeðfelldu skoðanir sjást bara ekki lengur".

Rétt eins og "enginn drakk á bannárunum". Lausnin er að banna hlutina.

En það er hægt að velta þessum hlutum endalaust fyrir sér, og í raun er það öllum hollt.

Svo má velta því hvort að ennþá verði vilji til að brjóta samfélagsmiðla eins og t.d FaceBook upp?

Munu komandi valdhafar í Washington gera það?  Elisabeth Warren var áhugasöm um slíkt.

Eða hafa þeir komist hjá slíkum "uppbrotum" með því að taka "rétta" afstöðu?

 

 


mbl.is Google fjarlægir Parler
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einkafyrirtæki geta náttúrlega ákveðið hvað þau birta og birta ekki. Rétt eins og Morgunblaðið ákveður hvaða aðsendar greinar það birtir, og verslunareigandi hvaða vörur hann selur.

ls (IP-tala skráð) 10.1.2021 kl. 10:44

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Munurinn á Mogganum (hefðbundnum fréttamiðlum) og netmiðlunum er að netmiðlarnir eru með undanþágu fyrir løgsóknum,skv grein 230 í Fjarskiptaløgum USA (Communicationss Act). Sú undanþága byggir á því að þeir séu að veita almenningi frjálsan vettvang til að tjá sig. Nokkurskonar Karlinn á kassanum. Þó leifðist að banna beina hvatningu til ofbeldis og barnaklám. Þeir hafa þó útvíkkað þessa ritskoðun þannig að nú tekur hún til pólitískra skoðana sem ekki eru eigendum að skapi. Þar með er ástandið í USA orðið soveskt/kínverskt. 

Ragnhildur Kolka, 10.1.2021 kl. 13:45

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@ls, þakka þér fyrir þetta. Þó að ég geti nú að hluta tekið undir með þér, er málið líklega mun flóknara og þess vegna hef ég gaman af því að velta því fyrir mér, án þess að ég hafi komist að  niðurstöðu.

Auðvitað verður blað eins og Morgunblaðið að velja og hafna, það er ekki hægt að stækka blaðið þó að margir vilji komast að.

En er ekki nóg pláss á internetinu?

Vissulega velur verslundareigandi hvaða vörur hann selur (svona að jafnaði), en getur hann valið hverjum hann selur þær?

Er í lagi að bar setji upp skilti sem segir "Hér seljum við ekki Samfylkingarfólki", eða að verslun setji upp skilti "Enga Sjálfstæðismenn hér"?

Væri í lagi að setja upp skilti sem segði: "Enga kaþólikka hér - þeir brjóta alltaf sóttvarnarreglur."?

Ég held að við kærum okkur ekki um slíkt og myndi sjálfsagt talið (eðlilega) "daðra" við lögbrot. 

Er þá ekki eðlilegt að svipaðar kröfur séu gerðar til fjöl- og samfélagsmiðla?

Það er að segja að reglur séu skýrar og mismuni ekki eftir skoðunum eða öðru slíku, enn væri þó hægt að áminna eða banna (fyrir ítrekuð brot) ef til dæmis færslur eru taldar skarast á við almenn lög.

Eftir sem áður er málið flókið, því oft er líklega matsatriði hvort að svo sé.

Ofan á það er svo einnig misjafnt á milli landa hvernig lögum er háttað.

Skiptir þá uppruni færslu á samfélagsmiðli máli?

Ef samskiptamiðillinn er ábyrgur fyrir slíku efni (ég er þó ekki viss) er þá samskiptamiðillinn þá sömuleiðis ábyrgur fyrir því ef ég pósta þar höfundarvörðu efni?

Eða ættu samskiptamiðlar fyrst og fremst að einbeita sér að því að allir reikningar/notendur séu "raunverulegir" og séu rekjanlegir til raunverulegra aðila? 

En er það yfirleitt mögulegt?

Læt þessar vangaveltur duga í bili, en mér finnst þetta áhugavert mál.

G. Tómas Gunnarsson, 10.1.2021 kl. 14:18

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ragnhildur, þakka þér fyrir þetta.  Það er góður punktur sem þú kemur með þarna og þarft að hafa í huga.

Svo er aftur spurning hvort að von sé á breytingu í lagaumgjörðinni og ég hygg að samfélags og netmiðlar eigi eftir að vera mikið í umræðunni næstu misseri.

G. Tómas Gunnarsson, 10.1.2021 kl. 14:22

5 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Mér finnst líklegra að ef breytingar eiga sér stað á umhverfi netmiðla, þá verði það samkeppnis yfirvöld sem taki á málum vegna einokunaraðstöðunnar stóru risanna, frekar en að þingmenn Bandaríkjaþings komi sér saman um það.

Ragnhildur Kolka, 10.1.2021 kl. 15:03

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ragnhildur, þakka þér fyrir þetta. Það er nú rétt að hafa í huga að Federal Trade Commission (Samkeppnistofnun), deilir að hluta völdum sínum með Antitrust deild Dómsmálaráðuneytisins, sem auðvitað fær nýjan yfirmann eftir fáa daga.

En stjórn FTC, er að ég held meirihluta Repúblikanar, og verður það næstu árin. 

En lagaumhverfi fyrir samfélagsmiðla hljóta að verða í umræðunni á næstu misserum, ekki bara í Bandaríkjunum heldur víðar.

G. Tómas Gunnarsson, 10.1.2021 kl. 21:56

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég held að þetta sé ekkert mjög flókið. Google er einkafyrirtæki og ræður einfaldlega hverjum það veitir pláss. Má kannski segja að eðlilegt sé að krefja Google um rök fyrir banni, og í þessu tilviki eru þau ekki svo vandfundin, virðist vera.

Maður vill ekki vera sá sem réttir gjallarhorn til manns sem notar það til að hrópa Eldur! inni í troðfullum áhorfendasal, svo tekið sé frægt dæmi. Það eru einfaldlega til rökrétt og skynsamleg takmörk fyrir málfrelsi eins og öllu frelsi.

En the bottom line er nú samt bara að Google ræður hverjum það veitir vettvang, ekkert flókið. Ég held að enginn myndi fetta fingur út í það að sett yrði upp skilti með orðunum "enga mannhatara hér" - þótt annað gilti um bann við kaþólikkum. Það er nú ekki alveg sama hvað maður ber saman.

Hjólreiðaviðgerðamanninum á Hverfisgötunni sem setti upp miða með "enga gyðinga" var það að sjálfsögðu heimilt, en engan undrar að hann fór á hausinn skömmu seinna. 

Þetta nálgast spurninguna um það hvort þeir sem ekki sýna umburðarlyndi eigi skilið að aðrir sýni þeim umburðarlyndi. Hætt er við að verði þeim sýnt mikið umburðarlyndi verði umburðarlyndi fljótlega liðin tíð. 

Er það ekki einhverskonar heigulsháttur að segja að allt sé þetta spurning um persónulegt viðhorf? Kemur ekki að því að taka verður afdráttarlausa afstöðu og segja að eitthvað sér skilyrðislaust rangt?

Eða er það líka matsatriði?

Kristján G. Arngrímsson, 10.1.2021 kl. 22:15

8 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Rekst ég svo ekki næst á þessa frétt sem er eins og ég hafi skrifað athugasemdina mína um hana:

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2021/01/10/ofgahopur_skelfir_litid_samfelag/

Verða bæjarbúar ekki að sýna þessu blessaða "ásatrúarfólki" umburðarlyndi? 

Kristján G. Arngrímsson, 10.1.2021 kl. 22:25

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján þakka þér fyrir þetta. Er þetta alveg svona einfalt, t.d. á Íslandi?

Brýtur skilti sem segir "Enga gyðinga"  ekki stjórnarskránna?  Í henni segir:

65. gr.
[Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.] 1)

Hvað er "staða að öðru leyti"? Nær það yfir stjórnmálaskoðanir?  Ekki getur Google, þó einkafyrirtæki sé sagt að konur fái ekki pláss.

Hvað er svo brot?  Ef ég segi að Kristján Arngríms eigi nú skilið að detta niður stiga, er ég þá að hvetja til að einhver hrindi þér niður einhver stíga?

Er það alvarlegra að segja slíkt um stjórnmálamann, en t.d. þig?

Eru allir sammála um hvað er rétt og rangt?  Við höfum lög, en höfum við eitthvað annað?

Er það ekki löggæslu að framfylgja lögum, eða ber hverju fyrirtæki og serhverjum einstaklingi sömuleiðis skylda til að beita sér í slíku?

Það var vinsælt í "þriðja ríkinu" að handtaka fólk sem "þótti líklegt til að fremja glæpi".  Það var upp á Enskuna kallað "preventive custody". 

Hefur "ásatrúarfólkið" framið einhvern glæp, eða er engin ástæða til að bíða eftir því?

G. Tómas Gunnarsson, 10.1.2021 kl. 22:51

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Leiðin fram hjá ritskoðun á netinu er einföld.

Hún felst í því að nota internetið sjálft, í stað þess að fylgja hjörðinni í að nota aðeins þann afmarkaða (og takmarkaða) hluta internetsins sem er undir lénum í eigu erlendra stórfyrirtækja.

Sem dæmi er ég vefstjóri á íslenskri vefsíðu undir eigin léni. Enginn ákveður hvað birtist á henni og hvað ekki, nema við sem rekum þá síðu. Erlend fyrirtæki hafa nákvæmlega ekkert um það að segja.

Það hefur enginn þvingað ykkur til að nota samfélagsmiðla sem er stjórnað af erlendum stórfyrirtækjum. Þið fylgduð bara hjörðinni inn í þá girðingu. Góðu fréttirnar eru að þið getið auðveldlega komist út úr henni aftur ef þið takið bara ákvörðun um það og framkvæmið hana.

Internetið er svo miklu meira en einhverjir samfélagsmiðlar. Jafnvel er þeir eru allir teknir saman kemst það ekki í hálfkvisti við þann hluta internetsins sem er utan þeirra miðla og frjáls frá þeim.

Þegar ég þarf að fá upplýsingar, til dæmis um stefnu stjórnmálaflokks, þá fer ég einfaldlega á vefsíðu hans. Ef einhver annar flokkur er ekki með heimasíðu heldur bara prófíl á einhverjum erlendum samfélagsmiðli sem ég nota ekki, þá mun ég einfaldlega ekki vita af því og þá er mjög ólíklegt að sá flokkur muni fá mitt atkvæði.

Samfélagsmiðlar eru gildra sem ábyrgir netnotendur ættu að forðast. Allt sem hægt er að gera á þeim er líka hægt að gera utan þeirra á opna internetinu, og margfalt miklu meira til.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.1.2021 kl. 23:38

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Guðmundur, þakka þér fyrir þetta. Ég er í raun hjartanlega sammála þér. Sjálfur finnst ég á engum samfélagsmiðli, ja, nema utan blog.is, sem ég nota til að viðhalda Íslenskunni minni og að einhverju marki sinna Íslenska "þrætugeninu".

Það þýðir ekki að ég leiði aldrei hugann að því sem er að gerast utan "míns sjóndeildarhrings".

Ég hef aldrei verið á FaceBook, Twitter o.s.frv, nú eða skrifað í Morgunblaðið eða reynt að fá birta grein á visir.is

Það þýðir ekki að ég velti ekki fyrir mér lýðræðislegu hlutverki slíkra miðla og hvaða þýðingu þeir hafa fyrir aðra.

Það þýðir heldur ekki að ég geri mér ekki grein fyrir því hvaða áhrif útskúfun, eða velþóknun getur haft.

Þess vegna skrifaði ég þessar vangaveltur hér.

G. Tómas Gunnarsson, 10.1.2021 kl. 23:59

12 identicon

Sæll Tómas.

Skil hvorki innslag þitt við þessa frétt né rest.

Ef ég tengi þetta við fréttina, rétt eins og þú gerir,

Þá er þetta einfaldlega viðskiptabann.

Er það virkilega þín skoðun að ábyrgð fjórða valdsins sé orðin svo léttvæg?

Ekki það að ég hafi tröllatrú á fjórða valdinu.Enda tel ég að fjórða valdið hafi misnotað sitt atburðarvald.

Að, ef einhver sé ósáttur með fréttaflutning þá geti hann/hún komið á víðfeðmum fót vefmiðli bara sí svona?

Endilega útskýrðu.

Fyrirfram þökk

Dr.Skjóni.

Dr. Skjóni (IP-tala skráð) 11.1.2021 kl. 02:17

13 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Einhvers má þrætugenið við, drengur.

Ef ég þættist sjá fram á að maður með hátalara ætlaði að hrópa Eldur! í troðfullum áhorfendasal, væri ég þá að hefta málfrelsi hans (og fremja stjórnarskrárbrot) ef ég hrifsaði hátalarann af honum áður en hann gæti hrópað?

Ég spyr vegna þess að ég held að tilvikið sem fréttin um Google er um fjalli um alveg hliðstætt mál. Google er að koma í veg fyrir að hættuleg orðræða ná til fjölda manns og stofni fólki í hættu. Eigum við ekki að fórna málfrelsi þessa eina til að bjarga lífi og limum fleiri?

Ég vona líka að þorpsbúar þarna í Minnesota láti slag standa og hreki "ásatrúarfólkið" af höndum sér. Kannski er þetta dæmi um að nauðsyn brjóti lög og að siðferðilegar ástæður trompi lagaákvæði.

Það er líka auðvitað bull að þar með væri "ásatrúarfólkinu" mismunað á grundvelli trúar, það væri einfaldlega verið að mismuna því á grundvelli ofbeldis, og það er allt í lagi að mismuna á grundvelli ofbeldis, ekki satt?

Ástæðan fyrir því að ásatrúarfólkið er ekki velkomið hefur ekkert með ásatrú þess að gera heldur ofbeldisferil þess. Allt annað er bara fyrirsláttur og lagalegur orðhengilsháttur.

Kristján G. Arngrímsson, 11.1.2021 kl. 11:00

14 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Dr. Skjóni, þakka þér fyrir þetta. Sjálfsagt er þetta ekkert sérstaklega skýrt, enda fyrst og fremst um hugleiðingar að ræða.  Eins og ég tek fram hér að ofan hef ég ekki komist að niðurstöðu.

Á einhver "app" framleiðandi ótvíræðan rétt á því að Google dreifi vörunni hans, nú eða haldi því áfram?

Er hægt að þvinga viðskipti á þann hátt?

Já, segja margir, þar á meðal Íslenska Samkeppniseftirlitið sem sagði að Penninn yrði að selja bækur frá Uglu forlagi.  Það var að ég held bráðabirgða til síðustu áramóta og ég þekki ekki framhaldið.

Er Google "fjórða valdið"?

En eins og kemur fram í upphaflegu færslunni hefur athygli Bandaríska samkeppniseftirlitsins beinst að "stóru tæknifyrirtækjunum" upp á síðkastið.  Evrópsk yfirvöld hafa þau jafnfram til margvíslegrar skoðunar.

Síðan er önnur spurning með samfélagsmiðla eins og FaceBook o.fl.  Það er rétt að hafa í huga að þeir eru eins og Ragnhildur minnit á hér að ofan með undandþágu frá ákveðnum tegundum lögsókna vegna "almannaþjónustu".

En eru það þá mannréttindi að fá að vera á FaceBook og er það brot á slíkum ef einhver er bannaður, t.d. án þess að hafa verið fundin sekur nokkrursstaðar nema hjá "lögreglu" viðkomandi fyrirtækis?

Eða hefur viðkomandi samfélagsmiðill fulla heimild til að ritstýra og þá jafnvel "ritskoða" sinn miðil?

Ef ég hef skilið rétt, þá hafa einstaklingar verið settir í bann hér á blog.is.  Þó er það skýrt tekið fram að ábyrgð sé öll hjá höfundum, og t.d. hægt að skoða kennitölur flestra sem hér skrifa.

Er slíkt bann óeðlilegt?  Á einhver rétt á því að skrifa hér? Psrsónulega tel ég æskilegt að hér sé ekki mismunun, en er eitthvað sem bannar það?

Sjálfur hef ég bannað einn einstakling á mínu bloggi, en það var einfaldlega fyrir síendurtekið "spam".  Hef sömuleiðis bannað nokkrar "IP tölur" fyrir endurtekið "meme spam".

Þetta blog er þannig ritstýrður miðill, þó deila megi um skýr- eða glæsileikann.

Vona að þetta skýri málið að einhverju marki.

G. Tómas Gunnarsson, 11.1.2021 kl. 13:04

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Fyrir mér fellst spurningin að stórum hluta í setningu þinni: 

"Ef ég þættist sjá fram á að maður með hátalara ætlaði að hrópa Eldur! í troðfullum áhorfendasal, væri ég þá að hefta málfrelsi hans (og fremja stjórnarskrárbrot) ef ég hrifsaði hátalarann af honum áður en hann gæti hrópað?"

Svona ef ég gef mér að þú og einstaklingurinn séu ekki staddir á fundi hjá Sálarrannsóknafélaginu, hvernig þykist þu vita hvað hinn einstaklingurinn ætlar að segja?  Og ertu algerlega viss um að hvergi sé eldur í húsinu?

Þetta að "þykjast vita", er svo teigjanlegt.  Líklega "þykist" Orban vita að Soros hefur eitthvað "illt" í hyggju.

Sjálfsagt telur hann jafnvel að "nauðsyn brjóti lög", eða í það minnsta að "nauðsynin" sé það sterk að það rétlæti að sérsníða lög að tilefninu.

Ef lögreglan "þykist" vita að einhver ætli að fremja afbrot má hún þá handtaka hann?

Hitt er svo allt annað mál hvort að einhver á rétt á gjallarhorninu (það talar víst engin í hátalara lol), eða heilu hljóðkerfi?

Það er líklega stóra spurningin. Eru það mannréttindi að fá að vera á FaceBook og Twitter, sem eins og komið hefur fram undanþágu gegn ákveðnum tegundum lögsókna vegan "almannaþjónustu"?

Svo er hvort að einstaklingur hafi þegar brotið af sér.  Það er líka spurning sem vert er að hafa í huga, mun frekar en hvort að hann gæti hugsanlega gert það.

Ég hef ekki séð að Trump hafi gert það í ræðu sinni þann 6. janúar, þó að ræðan sé "létt rugluð".

Ég fann "endurskrift" af henni en þori ekki að ábyrgjast gæðin a henni, frekar en öðru á netinu.

https://www.rev.com/blog/transcripts/donald-trump-speech-save-america-rally-transcript-january-6

Líklega er rétt að taka fram að ég er ekki að hvetja til ofbeldis gegn einum eða neinum, með því að birta þenna hlekk hér.

Hvað varðar "ásatrúarfólkið", þá sé ég ekki að söfnuðurinn hafi brotið neitt af sér.

Gildir ekki um þá eins og aðra, uns sekt er sönnuð?

Ég tók svona "skemmtri skírn" á Google, og sá þar að einhverjir meðlimir safnaðarins eru grunaðir um aðild að kirkjubrunum.

Jafn ógeðfellt og það er, get ég ekki séð að það dugi til að fullyrða að söfnuðurinn sé "ofbeldissöfnuðu",  prediki eða boði ofbeldi.

En ég get alveg tekið undir að slíkir söfnðuðir eru ekki glæsilegir og leiðinlegt ef þeir verða til þess að koma óorði á ásatrúarsöfnuði um víða veröld.

En ég held samt sem áður að við verðum að byggja á lögum, en ekki því sem "einhverjum" kann að þykja "nauðsynlegt" og lögum ofar.

Ef okkur finnst lögin röng, þá hefjum við baráttu fyrir breytingum á þeim.

Slíkt er ekki orðhengilsháttur, og enn sem komið er höfum við líkega ekki betra tæki til að skera úr um "nauðsynina" en dómstóla.

G. Tómas Gunnarsson, 11.1.2021 kl. 13:34

16 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Auðvitað er meginreglan sú að einkafyrirtæki ræður því hverjum það veitir vettvang. En fyrirtæki á borð við Google, Facebook og Twitter eru hins vegar þess eðlis að það hvort hægt er að hafa þar vettvang getur einfaldlega ráðið því hvort til manns heyrist eða ekki. Með öðrum orðum njóta þau í raun einokunarstöðu. Nú má vel vera að manni þyki slíkt bara í fínu lagi þegar viðkomandi fyrirtæki útlokar einhvern sem manni er í nöp við eða hefur talið sér trú um að kunni að vera hættulegur. En verður maður ekki að hugsa örlítið lengra en það? Þarf maður ekki að velta því fyrir sér hvort það sé eðlilegt í lýðræðisþjóðfélagi að fela örfáum forstjórum stórfyrirtækja slíkt vald og hugsa kannski um hvernig maður myndi bregðast við ef þeir tækju upp á að beita sömu þvingunum gagnvart einhverjum sem maður sjálfur styður, og þá væntanlega í krafti réttlætingar sem maður sjálfur væri ósammála. Er ekki betra að hugsa hlutina til enda?

Þorsteinn Siglaugsson, 11.1.2021 kl. 13:56

17 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þetta snýst ekki um það hvort manni er í nöp við einhvern heldur hvort það sem einhver segir er líklegt til að hafa skaðlegar afleiðingar, sbr. manninn í leikhúsinu með gjallarhornið. Ég myndi taka það af honum jafnvel þótt hann væri vinur minn.

En svona hugsunardæmi eru auðvitað aldrei fullkomin og alltaf hægt að pota í þau með því að benda á óljós atriði eins og "þykjast vita" og "er örugglega ekki eldur?" Til að dæmið þjóni tilgangi sínum verður maður alltaf að gefa sér tilteknar forsendur.

Ég held reyndar að það sé raunin að ef lögreglan telur rökstuddan grun um yfirvofandi afbrot eða glæp þá grípur hún í taumana - stundum með skelfilegum afleiðingum sbr. Minneapolis í fyrra. Svo þegar lögreglan gerir ekkert er hún harðlega gagnrýnd, sbr. Washington um daginn.

Það er vandlifað.

Varðandi "ásatrúarsöfnuðinn" þá er nú held ég nokkuð ljóst, að því gefnu að það sem fram kemur í frétt mbl. sé rétt, að ásatrúin er bara yfirvarp. Sniðug nýting á "loophole" í lögunum. En aftur, að því gefnu að fréttin sé rétt.

Kristján G. Arngrímsson, 11.1.2021 kl. 16:32

18 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Það er nú varla hægt að tala um samfélagsmiðlans sem einokunarfyrirtæki, en vissulega má tala um fákeppni og eins og hefur komið fram hafa samkeppnisyfirvöld víða um heim verið að skoða þau.

En það hefur líka komið fram að aðrir miðlar hafa sótt í sig veðrið undanfarna daga.  Umræða verður ekki stöðvuð svo glatt.

Nýjir miðlar hafa einnig komið fram, s.s. TikTok, sem ég viðurkenni að þekkja lítið til. 

Staða samfélagsmiðla er því alls ekki skrifuð í stein.

En mér finnst þetta bæði fróðleg og mikilvæg umræða, og verulega þarft að reynt sé að finna einhvern grunn í samskiptum þessara fyrirtækja og notenda.

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Að "þykjast vita eitthvað" og "rökstuddur grunur", er ekki sami hluturinn.

Ég hef reyndar ekki tölu á þeim skiptum sem ég hef talið mig vita eitthvað sem kom svo á daginn að var ekki rétt. 

Rökstuddur grunur hefur reyndar einnig reynst rangur.

En grunur (jafnvel þó að rökstuddur sé) gefur ekki ástæðu til handtöku. En lögregla hefur ýmis önnur úrræði til að koma í veg fyrir hugsanlegan glæp.

En það er ekki nóg að "þekktur þjófur" sjáist í Hagkaup, svo að það megi handtaka hann.

Líklega telst það ekki nóg að hann stingi hlut í vasann, ætli hann verði ekki að "bera" hann fram fyrir kassann, fyrr hefur hann ekki stolið.

Uns sekt er sönnuð, er ekki lagalegur orðhengilsháttur, heldur ein af grunnstoðum réttaríkisins.  Ég vona að henni verði ekki kastað fyrir róða.

Það er svo allt annað hvort að þú reynir að gera vini þínum ljóst að hann sé geti verið að fremja lögbrot, eða koma í veg fyrir að hann fremji siðferðisbrot eða annað slíkt.

En skaðir þú hann, t.d. líkamlega í hamaganginum, þýðir lítið (að mínu mati) að segja, en ég þóttist vita að hann ætlaði að hrópa eldur.

Hafi hann aldrei gert það er þú brotamaðurinn.

G. Tómas Gunnarsson, 11.1.2021 kl. 17:57

19 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

 Gleymdi að bæta við hér hlekk á ágætis frétt um "ásatrúarfólkið", sem ég fann með astoð Hr. Google.

https://www.grandforksherald.com/news/government-and-politics/6721310-Murdock-Minn.-residents-tell-city-to-deny-permit-to-hate-group-Asatru-Folk-Assembly

Mér sýnist þetta vera yfirveguð frétt, full af upplýsingum og tilvitnunum í fólk sem hefur verið á frekar kurteislegum fundi.

Það er ekkert óeðlilegt að skoðanir séu skiptar og mér sýnist að um enga "kórdrengi" sé að ræða sem hafa keypt kirkjuna.

En margir söfnuðir hafa að geyma misjafna sauði.

Aldrei myndi ég ganga í söfnuð sem þennan, en það þýðir ekki að ég telji rétt að banna hann, eða neita honum um "safnaðarheimili", nema hægt sé að færa fyrir því lagaleg rök, eða samþykktir bæjarins að leyfi slíkar útilokanir.

Reyndar eru mál um "réttindi" alltaf fróðleg.  Það skaut t.d. upp í hugann á mér núna að ef ég man rétt þá úrskurðaði Hæstiréttur Bandaríkjanna á þann veg að bakaríseigandi hefði verið stætt á því að neita samkynhneygðu pari um að baka "brúðartertu" fyrir það.

G. Tómas Gunnarsson, 11.1.2021 kl. 18:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband