Hvaða "lögverndun" má afnema?

Nýleg skýrsla frá OECD hefur komið af stað umræðu um niðurfellingu lögverndunar á ýmsum starfsheitum.

Talað var um bakara og ljósmyndara, og svo er hér í viðhengdri frétt minnst á hag- og viðskiptafræðinga.

Ég hef séð minnst á að sömuleiðis mætti fella niður lögverndun lögfræðinga og sjálfsagt eru um málið skiptar skoðanir, sem og um lögverndun einstakra starfsheita.  Einn kunningi minn sagði einu sinni að ótrúlega hátt hlutfall af lögfræðingum væru lítið annað en mjög vel menntaðir rukkarar.

Fyrir ekki svo löngu síðan var tekist á um hvort að lögvernda ætti starfsheiti leiðsögumanna.

Mér hefur skilist af fréttum að engin þjóð lögverndi fleiri starfsheiti en Íslendingar.

Ég held að flestir séu þeirrar skoðunar að skólaganga sé almennt til góðs og skapi þekkingu og færni.

En skólaganga er ekki eina leiðin til þess.

Margir af bestu ljósmyndurum jafn á Íslandi sem heiminum öllum hafa aldrei setið á skólabekk í faginu.

En skapaði það hættu fyrir almenning ef einhver þeirra opnaði stofu og tæki portrett myndir gegn gjaldi?

Ég efast heldur ekkert um að bakaranám sé gagnlegt og gott. En er það hættulegt ef einhver sjálflærður bakari (sjálflærður bakari er auðvitað ekki til eftir Íslenskum lögum) opnar lítið bakarí og selur kökur og kleinur?

Nú eða pantar frosin hálfbökuð brauð frá útlandinu og stingur þeim í ofn?

Gildir ekki svipað um t.d. málara?  Er einhverjum hætta búin af því að ráða ófaglærðan málara?

Gildir ekki orðsporið frekar en menntunin í þessum fögum? Eftir sem áður gætu fagmenntaðir fundið sér einhverja merkingu, til að láta vita af menntun sinni.  Neytandinn myndi síðan velja.

Ég get heldur ekki séð hættuna af því að sjálflærðir hagfræðingar láti ljós sitt skína, þó að líklegt sé að nám í faginu eigi að geta gefið forskot.

Það sama gildir um viðskiptafræðinga.  Auðvitað gefur nám ákveðið forskot, en einstaklingur sem hefur t.d. rekið eigið lítið fyrirtæki til fjölda ára hefur líklega byggt upp mikla þekkingu.

En ég held að það sé þarft að velta þessum málum upp og ég held að án efa megi fækka lögvernduðum starfsheitum að einhverju marki og sjálfsagt að taka skýrslu OECD með opnum huga.

Hér má finna skýrslu OECD

og hér Íslenska þýðingu, sem ég rakst á, á völdum köflum hennar.

 

 

 


mbl.is Vill hætta lögverndun hag- og viðskiptafræðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Góðar pælingar. Banki ræður "lögfræðing" og "hagfræðing" til starfa, að sjálfsögðu eru þeir með menntun við hæfi. Þegar betur er að gáð er lögverndun oft óþörf. Hver sem er ætti að fá að kalla sig "lækni". Það eru starfandi grasalæknar og skottulæknar! Það er auðvelt að sjá hvað býr að baki. Allir starfandi rakarar eru með meistarabréfið upp á vegg. En hvað með samkeppni? Eigum við að leyfa hverjum sem vill klippa að stofna rakarastofur? Nei, sögðu  flestir fyrir nokkrum árum. Hvað ef það verður fundinn upp rakaravélmenni?

Benedikt Halldórsson, 19.11.2020 kl. 20:42

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Benedikt, þakka þér fyrir þetta. Ég hef reyndar verið klipptur af einstaklingi sem hafði ekki fagmenntun.  Líkaði það ágætlega.  Hef heyrt af mörgum konum sem lita hárið á hvor annari og jafnvel klippa.

Ef einhver einstaklingur birtir reglulega spár um þróun hagkerfisins, hlutabréfaverðs og svipaðra hluta, og þær ganga þokkalega eftir, er þó eitthvað óeðlilegt að einhver banki vilji ráða hann?

Ég hugsa nú að margir hugsi öðruvísi til lækna, en "hómópatía" er lífseig.

En ég vil taka það fram að ég hef ekki fastmótaðar skoðanir í þessu efni, en ég held að full þörf sé að skoða málin með opnum hug.

En ef ég hef skilið rétt (vonandi leiðréttir mig einhver ef ég hef rangt fyrir mér) þá get ég sett á stofn lítið fyrirtæki sem framleiðir t.d. sultur eða ávaxtasafa án vandræða.

En ef ég vill framleiða brauð þarf ég bakara og ef ég vil framleiða pylsur þarf ég kjötiðnaðarmann. 

Í hverju liggur munurinn?

G. Tómas Gunnarsson, 19.11.2020 kl. 21:43

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég var svolítið undrandi þegar ég komst að því að til væri löggilding á hagfræðinga. Aldrei nennt að hafa fyrir því að ná mér í slíkt og átta mig ekki alveg á hvaða tilgangi það þjónar. Mér finnst sjálfsagt að hafa löggildingu gagnvart störfum þar sem menn gegna einhverskonar opinberum skyldum eða eftirlitshlutverki, til dæmis fyrir endurskoðendur. Lögmenn gegna líka stundum slíku hlutverki.

Þorsteinn Siglaugsson, 19.11.2020 kl. 22:39

4 identicon

Hef alltaf litið á hagfræði og viðskiptafræði sem menntun en ekki starfsiltil þannig séð. Frekar að það væri dónaskapur og lygi að kalla sig slíkt ef maður hefur ekki menntunina, en lögbrot. Endurskoðandi hins vegar með faggildingu eins og Þorsteinn bendir á.

Er það rangt munað að lögfræðin sé þannig að það sé eitt að klára skólann og annað að mega kalla sig lögfræðing? Er ekki eitthvað embættispróf eða eithvað slíkt?

Oft snýst þetta svo um hluti eins og hversu miklu er hægt að klúðra og svo hvaða möguleika við höfum sem venjulegir bjánar að greina á milli hvort sá sem við erum að fá til að vinna fyrir okkur kann eitthvað eða ekki. Ég held að það séu grunnástæðurnar fyrir faggildingum ýmiskonar.

ls (IP-tala skráð) 20.11.2020 kl. 09:21

5 identicon

Þarna er um að ræða dálítinn misskilning og hugtökunum lögfræðingur og lögmaður ruglað saman. Starfsheitið lögfræðingur er alls ekki verndað með lögum og það getur hver sem er notað það án viðurlaga, hvort sem hann hefur lokið námi í lögfræði eða ekki. Hinsvegar er hugtakið lögmaður lögverndað og enginn sem hefur ekki þau réttindi má nota það. Til þess að verða lögmaður þarf að ljúka meistaranámi í lögfræði frá viðurkenndum háskóla og svo ljúka námskeiði sem dómsmálaráðuneytið stendur fyrir. Þá er viðkomandi orðinn lögmaður og má flytja mál fyrir dómi og taka að sér málflutning og annað á grundvelli réttarfarslaga.

Það eru ýmis önnur skilyrði sem þarf að uppfylla til að vera lögmaður eins og að hafa ekki hlotið fangelsisdóm og ekki hafa orðið gjaldþrota. Einnig verður sá sem starfar sem lögmaður að starfa sjálfstætt eða hjá öðrum lögmanni svo dæmi sé tekið. Þá þurfa lögmenn að vera með starfsábyrgðartryggingu til að verja umbjóðendur sína fyrir fjárskaða sem lögmaðurinn getur valdið.  Það er aðeins hluti lögfræðinga sem eru lögmenn og sá sem hefur fengið lögmannsréttindi þarf að leggja þau inn ef skilyrðin eru ekki uppfyllt, eða ef viðkomandi er ekki að starfa sem lögmaður. Það eru til um 2.300 lögmenn í dag og um 1.200 réttindi eru í notkun, þ.e. afgangurinn um 1.100 lögmannsleyfi eru óvirk. 

Halldór Þormar Halldórsson (IP-tala skráð) 20.11.2020 kl. 10:12

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta.  Ég held nú að munur sé á "lögverndun" og "löggildingu".  En híð opinbera hefur auðvitað lögverndað þig um langa hríð án þess að þú hafir orðið var við það.

@ls, þakka þér fyrir þetta.  Seint mundi mér koma í hug að kalla mig t.d. stærðfræðing, alveg burtséð frá því hvort að það er lögverndað eður ei.

En hver er svo ábyrgðin sem fylgir löggildingu t.d. endurskoðenda?  Er það ekki eitthvað sem SigurRósar menn eru að komast að þessa dagana? Og fleiri á undan þeim.

Ekki það að ég þekki ekki til þess máls til að segja um hvar "meinið" liggur. 

Það er munur á lögmanni og lögfræðingi eins og Halldór fyrir yfir í sinni athugasemd.

Það er víða hægt að klúðra og líklega má halda því fram að bakari gæti drepið stóran hóp viðskiptavina sinna.  Það sama gildir líklega um kjötiðnaðarmenn. 

En sultugerðar, bruggmeistari, ávaxtasafaframleiðandi eru líklega í svipaðri stöðu.

Hefur landsamband "Sultugerðarmanna" einfaldlega ekki staðið sig í stykkinu og aflað stéttinni tækifæri til náms og löggildingar?

Eða er eitthvað annað sem veldur?

En eins og ég sagði áður held ég að þetta sé þörf umræða.  Hvort að eitthvað breytist er svo allt annar handleggur.

@Halldór, þakka þér fyrir þetta.  Mjög góð og upplýsandi athugsemd.

G. Tómas Gunnarsson, 20.11.2020 kl. 14:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband