Persónulegir sigurvegar

Kosningar eins og þær sem nú eru nýafstaðnar eru að mestu leyti keppni á milli flokka, en persónur geta skipt sköpum og ráðið úrslitum og hafa oft gert í kosningum.  Þar hafa verið unnir miklir persónulegir sigrar og sömuleiðis hafa eintakingar beðið persónulega ósigra.

Þessar kosningar voru engin undantekning.

Stærsti perónulegi sigurvegari þessara kosninga er ("drumroll" er óþarft) Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Í mínum huga er engin vafi.

Hann stofnar nýjan flokk örfáum vikum fyrir kjördag, eftir að hans "gamli flokkur" hefur gert ljósar og óljósar tilraunir til að koma honum fyrir "kattarnef".

Pólítískir andstæðingar hafa sömuleiðis beint sér gegn honum af hörku og að veita honum titilinn "Umdeildasti pólítíkus undanfarinna ára" er að ég tel rétt og þar veitir honum engin verulega samkeppni.

Hann svarar fyrir sig með nýjum flokki og vinnur stærsta sigur nýs flokks í lýðveldissögunni. Það er varla hægt að svara fyrir sig með öflugri hætti. 

Hvernig þessi sigur mun nýtast er svo önnur saga sem á eftir að skrifa. Það á eftir að koma í ljós hvernig tekst að nýta þennan sigur í þingstörfum og hvort að Miðflokkurinn komist í ríkisstjórn.

Líklega eiga fjölmiðlar sömuleiðis eftir að "pönkast" á Sigmundi harðar en nokkru sinni fyrr.

Inga Sæland er einnig stór sigurvegari. Það er mikið meira en að segja að að koma nýjum flokki á þing. Og Inga Sæland var andlit og holdgervingur Flokks fólksins. Mér sýnist henni megi fyrst og fremst þakka góðan sigur flokksins, og hún í raun dregur 3 aðra með sér á þing.

Logi Már Einarsson, sem sagði sjálfur að hann hefði orðið formaður Samfylkingarinnar fyrir tilviljun, stýrir flokknum til góðs sigurs. Vissulega er staða flokksins langt frá "velmektardögunum", en ég held að hann hafi náð að sanna að það að vera "gargandi jafnaðarmaður" hefur skilað flokknum áfram veginn. Hvort að þessi sigur dugar Loga til þess að verða áfram formaður flokksins á eftir að koma í ljós (eða hvort að innanflokksvígin halda áfram), og fer líklega ekki síst eftir hvort að Loga tekst að koma flokknum í ríkisstjórn.

Lilja Alfreðsdóttir vinnur einnig góðan persónulegan sigur. Ég held að hún hafi heillað ótrúlega stóran hóp með framgöngu sinni og í raun átt stærri hlut í varnarsigri Framsóknarflokksins heldur en formaður flokksins. Hún hélt þingsæti sínu og ég spái því að hún verði orðin formaður Framsóknarflokksins innan tíðar. Það gæti þó breyst, því Framsóknarflokkurinn er líklegur til að fara í ríkisstjórn og þá verður síðar vilji til þess að skipta um "bústjóra".

Óvæntasti persónulegi sigurvegari þessara kosninga er Gunnar Bragi Sveinsson. Ef einhver hefði spáð því fyrir fáum mánuðum að Gunnar Bragi yrði næst kosinn þingmaður í "Kraganum" hefði hann líklega verið talinn létt geggjaður.

Það voru líka margir sem töldu Gunnar hafa verið sendan í "eyðimerkurgöngu" af hendi Sigmundar Davíðs, þegar hann fór í framboð í SuðVestur.

Gunnar Bragi hefur einnig setið undir mjög ómaklegum árásum á undanförnum árum, hæddur fyrir "menntunarskort" og verið talinn "pólítísk eign" einhvers kaupfélagsstjóra.  En Gunnar nær kjöri "á malbakinu" og vinnur pólítískan og persónulegan sigur.

Þó að Viðreisn hafi goldið hálfgert afhroð og tapað verulega í kosningunum, er ekki hægt að líta fram hjá persónulega sterkri stöðu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Staða Viðreisnar í "Kraganum" og sá viðsnúningur sem varð á stöðu flokksins þegar Þorgerður tók við gerir sigur hennar áþreifanlegan.

Ekki síst þegar litið er til pólítískrar fortíðar hennar, þegar hún hraktist úr stjórnmálum með uppnefnið "kúlulánadrottningin", gerir sigur hennar nú aðeins sætari.

Að sama skapi er líklega "fall" forvera hennar á formannstóli, Benedikts Jóhannessonar, stærsta persónulega tap í þessum kosningum. Hann nær ekki kjöri í NorðAustur, sparkað úr formannsstóli stuttu fyrir kosningar og virðist rúinn trausti bæði sinna flokksmanna og kjósenda.

Sigurverari kosninganna á "ská" er svo líklega Dagur B. Eggertsson. Hans staða fyrir komandi borgarstjórnarkomandi er líklega sterkari eftir þessar kosningar, en fyrir þær. Fyrir kosningarnar var flokkur hans, Samfylkingin í mjög erfiðri stöðu.  Nú er líklegt að mínu mati að Björt framtíð (sem er flokkur af þokkalegri stærð í borgarstjórn nú) renni saman við Samfylkinguna, en áður var jafnvel talið að Samfylkingin hefði varla styrk til þess að bjóða fram á eigin spýtur.

Þessar niðurstöður renna því hugsanlegum stoðum undir framhaldslíf Dags sem borgarstjóra, hvort sem borgarbúum hugnist sú hugsun eður ei.

 

 


mbl.is Inga Sæland er til í allt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband