Þeir sem sigra og þeir sem tapa

Það er eins og oft áður þegar litið er á úrslit kosninga að fyrir flesta flokka má finna jákvæða punkta og telja þá á einhvern hátt hafa unnið sigur, þó stundum verði að nota að skeyta orðinu varnar fyrir framan.

Einu flokkarnir sem ég get ekki frá mínum sjónarhornum gert að sigurvegurum eru Björt framtíð og Píratar.

Björt framtíð hreinlega þurkast út og erfitt er að sjá að flokkurinn eigi sér viðreisnar von. Píratar tapa verulegu fylgi, þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu og að öðrum stjórnarandstöðuflokkum gangi vel bærilega.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki yfir miklu að gleðjast. Hann getur þó sagt að hann sé stærsti flokkurinn og hann heldur þeim titli í öllum kjördæmum.

En flokkurinn tapar verulegu fylgi og að sem meira er, hann tapar 5 þingmönnum. Það er mikið högg og þannig er Sjálfstæðisflokkurinn klárlega einn af þeim flokkum sem kemur hvað verst út úr þessum kosningum.

Þó að alltaf sé gott að vera stærsti flokkurinn er tapið nokkuð sem Sjálfstæðisflokkurinn fær í fangið og verður að horfast í augu við.  Það má segja að tapið komi ekki jafn illa út í %stigum og þingmönnum, en það er að ekki síst vegna ótrúlega góðrar nýtingar atkvæða í síðustu kosningum.

Vinstri Græn vinna örlítið á og vinna einn þingmann. Það er vissulega sigur, en fyrir flokk í stjórnarandstöðu getur það ekki talist mikill sigur og miðað við skoðanakannanir eru um gríðarlegt tap að ræða.

Það sem margir vildu meina að væri ákall eftir því að Katrín Jakobsdóttir yrði forsætisráðherra, breyttist í hvísl og þagnaði svo alveg.

Það má því segja að Vinstri græn hafi tapað kosningabaráttunni.

Samfylkingin verður að teljast einn af sigurvegurum þessara kosninga. Góð fylgisaukning,ríflega 100%, flokkurinn orðinn 3. stærsti flokkurinn. Það má ef til vill segja að "bangsalegir karlmenn" virki vel í formannssæti Samfylkingarinna, því Össur Skarphéðinsson stóð sig líkt og Logi, mjög vel í brúnni. 

Sé litið til lengri tíma er árangur Samfylkingarinnar alls ekkert sérstakur, ekki hálfdrættingur á við þegar best gekk, en alla vegna er flokkurinn kominn með góða viðspyrnu.  Það má bæta því við að flokkurinn bætir afskaplega litlu við sig, umfram það sem Björt framtíð tapar.  En flokkurinn má þó vissulega vel við una að hafa tekist að ná þeim "klofningi" heim, ef svo má að orði komast.

Miðflokkurinn er sigurvegari þessara kosninga.  Það er alveg sama hvernig litið er á málið, flokkur sem var stofnaður fyrir örfáum vikum, og nær þessum árangri er sigurvegarinn. Sigurinn er auðvitað ekki hvað síst gríðarlegur persónulegur sigur fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson. 

Hann er líklega einn umdeildasti stjórnmálamaður undanfarinna ára, en sannar með eftirminnilegum hætti að hann nýtur fylgis á meðal almennings. Flokkurinn er hársbreidd frá því að hafa þingmann í öllum kjördæmum og er í sumum þeirra þriðji stærsti flokkurinn.

Framsóknarflokkurinn vinnur það sem við köllum varnarsigur.  Hann tapar að vísu í kringum 1% stigi af fylgi sínu, en heldur þingmannatölu sinni, kemur mun betur út en skoðanakannanir gáfu til kynna og náðu varaformanni sínum, Lilju Alfreðsdóttur inn á lokasprettinum. Miðað við velgengni Miðflokksins, sem ég held að líti á sem klofning úr Framsóknarflokki, þá er árangur flokksins verulega góður.

Þess utan er Framsóknarflokkurinn flokka líklegastur til þess að enda í stjórn að mínu mati í hvora "áttina" sem hún verður mynduð. Sá aukni styrkur sem hann náði á endasprettinum gefur honum styrk til þess.

Píratar koma frekar illa út úr þessum kosningum. Tapa fylgi og fjórum þingmönnum. Enginn flokkur tapar meira fylgi nema Björt framtíð og það munar minna en %stigi á tapi þeirra og Pírata.

Flokkur fólksins er einn af stóru sigurvegurum þessara kosninga. Ekki nýr flokkur en kemst í fyrsta sinn á þing. Ein af stjörnum kosningabaráttunnar er tvímælalaust Inga Sædal. Ég trúi því að eldræða hennar í leiðtogaumræðunm í Sjónvarpinu hafi skilað þessum sigri.

Ég held að með henni hafi hún að einhverju leyti orðið "mamma og amma okkar allra", eins og einn kunningi minn orðaði það.  Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig flokkurinn spjarar sig á Alþingi.

Viðreisn er í varnarsigursdeildinni. Flokkurinn tapar umtalsverðum hluta af fylgi sínu og tapar rétt ríflega 40% af þingmönnum sínum. Flokkurinn umbreytist einnig í frekar þröngan "höfuðborgarsvæðisflokk", enda ekki með þingmann í neinu landsbyggðarkjördæmanna.

En árangurinn er þó mikið betri en benti til í upphafi kosningabaráttunar og að því leyti til hafa flokksmenn ástæðu til að gleðjast og fagna nokkurs konar sigri.

Björt framtíð fær skell rétt eins og skoðanakannanir hafa bent til frá upphafi kosningabaráttunnar. Flokkurinn fær í raun hlálega útkomu og þurkast út af þingi. Ég get ekki séð að hann eigi mikinn möguleika á endurkomu og spái því að hann muni renna "heim" í Samfylkinguna fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar, þó að flokksmenn geti splundrast eitthvað.

Loks er rétt að telja Íslensku þjóðina til sigurvegara kosninganna, því einhver gleðilegstu fréttir frá þessum kosningum er að kjörsókn hefur aukist.

En hvernig spilast úr stjórnarmyndun miðað við þessa "uppröðun" þjóðarinnar er svo önnur saga, en það er hægt að vinna kosningar og tapa stjórnarmyndunarviðræður og öfugt.

Það er spennan næstu daga.

 


mbl.is Ríkisstjórnin tapar 12 þingsætum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Miðflokkurinn er bara Framsóknarflokkurinn, hvernig þú færð annað út er mér hulin ráðgáta. Hugsa að 99% fylgs Miðflokksins sé framsóknarfylgi. Framsóknarflokkur Sigurðar Inga fær svo restina að viðbættum þeim sem gátu ekki hugsað sér að kjósa flokkinn með Sigmund Davíð innanborðs.

Annars eru þessi úrslit hálfgert meh. Einskonar bland í poka. Eitthvað fyrir alla. Sosum enginn sem vann, bara Björt framtíð skíttapaði.

Þarf eitthvað að hugsa uppá  nýtt hvernig ríkisstjórnir eru myndaðar.

Kristján G. Arngrímsson, 29.10.2017 kl. 17:09

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Velgengni samfylkingar er auðskýrð. Þeir fengu atkvæði BF og einhver frá viðreisn. Eurofílarnir fóru heim. Ávinningur þeirra er ekki málefnabundinn og hefði sennilega orðið svona, hver sem væri í brúnni.

DBMF er skynsamlegasta og stabílasta stjórnarmyndunarúrræðið.

Jón Steinar Ragnarsson, 29.10.2017 kl. 17:26

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Ég get ekki sagt að mín sýn sé "sú eina rétta", ég einfaldlega býð hana fram.

Ég hef enga trú á því að Framsóknarflokkurinn einn hefði fengið sama "fylgi" og "hinir tveir Framsóknarflokkar" fá.

Það er auðvitað engin leið til þess að sanna það eða afsanna, enda fóru engar "samhliða kosningar" fram þar sem einungis Framsóknarflokkurinn var í boði.

Ég held að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefði mjög líklega aukist í sumum kjördæmum hefði einungis Framsóknarflokkurinn verið í boði. Í öðrum kjördæmum, t.d. NorðAustri hefði Sjálfstæðisflokkurinn fengið eitthvað, en Samfylkingin hefði næsta örugglega fengið eitthvað af þeim sem hefðu ekki getað hugsað sér að kjósa Framsókn með Sigmund innanborðs. 

Þetta byggi ég á því sem ég hef heyrt frá mörgum sem ég þekki, sem segja mér að óánægðir Framsóknarmenn hafi kosið Samfylkinguna og Loga í síðustu kosningum, og ef til vill tryggt kjör hans sem kjördæmakjörins þingmanns.

En þetta eru ekki raunvísindi, það ber að hafa í huga.

Björt framtíð skíttapaði, en restin eins og þú segir nokkuð bland í poka, en þó ekki hægt að líta fram hjá lélegum árangri Pírata, verandi í stjórnarandstöðu og allt það.

@Jón Steinar Þakka þér fyrir það. Það er rétt, Samfylking gerir ekki mjög mikið betur en að taka "heim" það fylgi sem Björt framtíð hafði, en það er eigi að síður ekki slæmur árangur.

En ég er ekki sammála því að sú hefði orðið raunin, t.d. með Oddnýu Harðardóttur í brúnni. Langt í frá.

Árni Páll hefði ekki náð því heldur.

En það er ekki ólíklegt að nú þegar Samfylkingin hefur heldur braggast komi fram einstaklingar sem segi:  Nú get ég.

G. Tómas Gunnarsson, 29.10.2017 kl. 18:02

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

 Píratafylgið síðast var talsvert óánægjufylgi og líklega hefur það horfið núna yfir til t.d. flokks fólksins. Staðfastir Píratar gefa sig þó ekki. ;)

Ég er sammála því að Logi á stóran þátt í fylgisaukningu Samfó. En ég viðurkenni fúslega að vera langt í frá hlutlaus, þekkjandi Loga vel. Oddný var vonlaus formaður.

Kristján G. Arngrímsson, 29.10.2017 kl. 18:10

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta.  Sem fyrrverandi ritstjórnarmeðlimur Laufblaðsins er auðvitað stórt vafamál hvort ég geti talist hlutlaus þegar ég tala um Loga og árangur hans sem formanns Samfylkingar.  Þetta veist þú auðvitað.

Ég held að hann hafi staðið sig vel sem "gargandi jafnaðarmaður" og betur en aðrir þeir hjá Samfylkingunni sem eru í "augsýn", hefðu getað.

En eins og áður eru þetta ekki raunvísindi.

Hvað varðar Pírata og fylgistap þeirra er ég sammál því að auðvitað byggðu þeir að hluta til á óánægjufylgi. Hitt spilar líka rullu að Píratar hafa í sívaxandi mæli komið fram sem einungis enn einn vinstriflokkurinn og það á sinn þátt í fylgistapi þeirra.

Þeir skera sig einfaldlega í minna mæli frá og ferskleikinn er horfinn.

G. Tómas Gunnarsson, 29.10.2017 kl. 18:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband