Að ganga óbundnir til kosninga

Nú þegar farið er að styttast í óvæntar kosningar, keppast flokkarnir við að lýsa því yfir að þeir gangi til þeirra óbundnir og get starfað með næstum öllum.

Jafnharðan rísa upp raddir sem lýsa því yfir að þetta sé til skammar og kjósendur vilji og eigi rétt á því að vita hvers kyns stjórn flokkar komi til með að mynda eftir kosningar.

Þeir fullyrða að kjósendur vilji hafa skýra valkosti.

Að ýmsu leyti má segja að þetta sé rétt, margir kjósendur eiga sér sitt óska stjórnamynstur og vitneskja um slíkt fyrirfram gæti leitt þá til stuðnings við einhvern þeirra flokka sem væri líklegastur til að gera slíkt að veruleika.

En eins og svo oft eru líka önnur sjónarhorn.

Hví skyldu t.d. kjósendur Vinstri grænna óska þess að flokkur þeirra sé utan ríkisstjórnar eingöngu vegna þess að Samfylkingin (eða einhver annar flokkur) hlýtur slæma útreið?

Og hvað með nýja flokka, eiga þeir að vera skyldaðir til að "gefa sig upp" í eina fylkingu eða aðra?

Ef svo er ekki, er staðan lítið breytt frá því sem verið hefur, tvær fylkingar með "kingmaker" á milli.

Það má líka velta því fyrir sér, hvers vegna flokkar þurfa að bjóða fram "marghöfða" ef þeir hafa skuldbundið sig til þess að starfa saman?

Að ýmsu leyti má því segja að "óbundna" fyrirkomulagið sá ágætt, þó að það sé ekki gallalaust.

Því engin veit hvað kemur upp úr kjörkössunum og hvaða styrkleika hver flokkur mun hafa. 

Það er ekki síst það sem mun ráða úrslitum um hvernig ríkisstjórn verður mynduð - svona ef og þegar það mun takast að loknum kosningum.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Félagi Styrmir Gunnarsson spáði því um daginn að "aðrir flokkar" myndu ganga að því marki bundnir til þessara kosninga að þeir muni sameinast í átaki til að koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda.

Ég náði ekki alveg af hverju þetta ætti að vera, en fjandinn hafi það, menn í "öðrum flokkum" hljóta að vera búnir að átta sig á því hvað það er mikið pólitískt sjálfsmorð að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum - sérstaklega ef Viðreisn þurrkast út í komandi kosningum og Björt framtíð skreppur mikið saman eða hverfur líka af þingi.

Kristján G. Arngrímsson, 22.9.2017 kl. 17:45

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Hef ekki séð þetta sem þú vitnar til frá Styrmi.

En það er gömul goðsögn að samstarfsflokkar Sjálfstæðiflokksins tapi umtalsverðu fylgi,eða meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn. Hins vegar er algengt að stjórnarflokkar tapi fylgi.

En ég hef bloggaði um þetta oftar en einu sinni áður, um það má lesa hér: http://49beaverbrook.blog.is/blog/49beaverbrook/entry/2183460/

Þar segir: Enn á ný er byrjað að tönglast á þeirri mýtu að flokkar tapi á því að starfa með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn.

Yfirleitt eru þó engin rök færð fyrir þeiri skoðun. Ég skoðaði þetta og bloggaði árið 2007. Hér að neðan má finna þá færslu:

23.1.2007 | 21:54

Mýtan um fylgistapið

Hún hefur lengi og víða heyrst sú mýta að flokkar tapi á því að vera í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta hefur verið fært upp á Alþýðuflokkinn sáluga og einnig Framsóknarflokk.

En ef sagan er skoðuð er það alls ekki einhlýtt.

1959 byrjuðu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur í samstarfi, með 39.7 og 15.2% atkvæða á bak við sig. Í kosningunum 1963 vann Sjálfstæðisflokkur 1.7% en Alþýðuflokkur tapaði 1%.

Aftur var kosið 1967, þá tapaði Sjálfstæðisflokkur 3.9% en Alþýðuflokkur vann á, 1.5%. Þegar hér er komið í sögu Viðreisnarstjórnarinnar hefur Alþýðuflokkur því unnið á um 0.5% frá upphafi hennar, en Sjálfstæðisflokkur tapað 2.2%.

Enn er kosið 1971 og þá tapar Sjálfstæðisflokkur 1.3% til viðbótar en Alþýðuflokkurinn tapar 5.2%.

Á meðan þeir tóku þátt í Viðreisnarstjórninni, þá tapar Alþýðuflokkur því 4.7% en Sjálfstæðisflokurrinn 3.5%. Það er allur munurinn. Sé horft til þess að nýr flokkur var kominn fram á sjónarsviðið á vinstri væng stjórnmálanna, Samtök frjálslyndra og vinstrimanna sem fékk 8.9% 1971, þá getur það varla talist stórundarlegt þó að Alþýðuflokkur hafi tapað örlítið meira. Enginn talar þó um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað á því að vera í samstarfi við Alþýðuflokkinn.

1974 vinnur svo Sjálfstæðisflokkurinn á um 6.5%, en Alþýðuflokkurinn heldur áfram að tapa, þá 1.4%, án þess að hafa verið í stjórn, hvað þá með Sjálfstæðisflokki.

Þá tekur við stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Þegar kosið er svo 1978, tapar Framsóknarflokkur 8% en Sjálfstæðisflokkur tapar 10%. Sjálfstæðisflokkur tapaði sem sé 2% meira heldur en Framsóknarflokkurinn. Samt talar enginn um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað á því að sitja í stjórn með Framsókn. Alþýðuflokkurinn vinnur stórsigur, A-flokkarnir leiða Framsókn til öndvegis, vegna þess að þeir geta ekki komið sér saman um hvor þeirra eigi að fá forsætisráðuneytið.

Enn er kosið 1979. Þá tapar Alþýðuflokkurinn 4.6%, en Framsóknarflokkur vinnur á 8%. Engan man þó eftir að hafa talað um að það hafi verið Alþýðuflokknum sérstaklega slæmt að vera í stjórn með Framsókn.

Þá tekur við ríkistjórn Gunnars Thoroddsen. Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og lítill hluti Sjálfstæðisflokks.

Síðan er kosið 1983. Sjálfstæðisflokkur vinnur á, 3.3%, en Framsóknarflokkur tapar 5.9%. Þeir mynda saman stjórn.

1987, Sjálfstæðisflokkur tapar 11.5%, en Framsóknarflokkur tapar aðeins 0.1%. Rétt er þó að hafa í huga að í þessum kosningum bauð Borgaraflokkurinn fram og fékk 10.7%. Þó að það sé tekið með í reikninginn, þá tapar Sjálfstæðisflokkurinn meira heldur en Framsóknarflokkurinn.

1991. Sjálfstæðisflokkurinn endurheimtir fyrri styrk og eykur fylgi sitt um 11.4%. Framsóknarflokkur stendur í stað og Alþýðuflokkur eykur fylgi sitt um 0.3%. Viðeyjarstjórnin er mynduð.

1995. Sjálfstæðisflokkur tapar 1.5% af fylgi sínu en Alþýðuflokkur tapar 4.1% af fylgi sínu. Framsóknarflokkur eykur fylgi sitt um 4.4% og fær 23.3% Það verður þó að hafa í huga þegar þessi úrslit eru skoðuð, að Alþýðuflokkurinn hafði klofnað, Jóhanna Sigurðardóttir hafði stofnað Þjóðvaka og fengið 7.2% atkvæða. Tap Alþýðuflokksins hlýtur því frekar að skrifast á Jóhönnu Sigurðardóttur heldur en samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. Það er ekki alls ekki ólíklegt að ríkisstjórnin hefði haldið velli, og haldið áfram samstarfi ef Alþýðuflokkurinn hefði ekki klofnað, en vissulega er engan veginn hægt að fullyrða um slíkt.

Þá hefst það ríkisstjórnarsamstarf sem enn er við lýði.

Kosið er 1999. Þá vinnur Sjálfstæðisflokkurinn á um 3.6% fær 40.7% atkvæða en Framsókn tapar 4.9% og fær 18.4%. Nýtt flokkakerfi er komið til sögunnar, Samfylkingin fær 26.8%, VG 9.1% og Frjálslyndi flokkurinn 4.2%.

Komið er að kosningum 2003. Þá fær Sjálfstæðisflokkur 33.7%, tapar 7% og Framsóknarflokkur 17.8% og tapar 0.6%. Hvor flokkurinn er að tapa meira?

Síðan þá hefur leið Framsóknarflokks legið stöðugt niður á við, það er að segja í skoðanakönnunum og ekki er ólíklegt að það verði hlutskipti hans í kosningunum í vor. En ég held að skýringanna fyrir því gengi sé að leita í öðrum hlutum heldur en samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Líklegra er að finna orsakirnar hjá flokknum sjálfum og svo þeim breytingum sem hafa verið að gerast á Íslandi, sérstaklega í búsetumálum.

En ef rennt er yfir þessa samantekt, get ég ekki fundið nokkur rök fyrir þeim fullyrðingum sem heyra má síknt og heilagt, jafnvel á virðulegum fréttastofum að þeir flokkar sem séu í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn tapi á því fylgi umfram samstarfsflokkinn.

Já, þetta var skrifað snemma árs 2007.

Og Framsóknarflokkurinn tapaði í kosningum árið 2007. Ef ég man rétt tapaði Framsókn í kringum 6% stigum og Sjálfstæðisflokkurinn vann á í kringum 3. En þá, eins og nú, hafði Framsóknarflokkurinn átt í löngu basli og formannsskiptum sem ekki gengu eða virkuðu vel.

Þá tók við ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Ekki er hægt að segja Samfylkingin hafi riðið lakari hesti en Sjálfstæðisflokkurinn frá þeirri ríkisstjórn í kosningunum 2009.

Og nú er árið 2016, og Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa verið í ríkistjórn í tæplega þrjú og hálft ár. Og já, Framsóknarflokkur tapar fylgi, reyndar eftir mjög eftirminnilegan sigur í kosningunum á undan.

En ég held að flestir geri sér grein fyrir því að það tap skrifast ekki stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn.

Það er því allsendis fráleitt að halda því fram að flokkar tapi á því einu að vera í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. En hins vegar hafa stjórnmálaflokkar í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn oft haldið illa á sínum málum og því tapað fylgi, ég held að það ekki ekki síst við um Bjarta framtíð og Viðreisn í því samstarfi sem nú hefur slitnað upp úr.

G. Tómas Gunnarsson, 22.9.2017 kl. 17:58

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

 Þetta er nú frekar loðið og slatti af túlkunaratriðum sem þú hallar Sjálfstæðisflokki í vil, ekki síst þetta með Viðreisn og BF núna. Og þetta með Framsókn síðast.

Fyrir svo utan að enginn er reykur án elds og þessi "mýta" hefur ekki orðið til úr engu. Þetta er eitthvað sem margir hafa sterklega á tilfinningunni og í pólitík skiptir máli hvað maður hefur á tilfinningunni.

En kannski ætti maður frekar að segja að fólk hljóti nú að fara að fá enn sterkar á tilfinninguna að það sé pólitískt sjálfsmorð að fara í samstarf með Sjálfstæðisflokknum.

Ekki að ég haldi að það muni koma Sjálfstæðisflokknum eitthvað verr núna en áður. Líkurnar á að hann endi í stjórn eftir kosningarnar eru óneitanlega talsverðar, hvað sem Styrmir kann að segja.

Kristján G. Arngrímsson, 22.9.2017 kl. 18:09

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristán Þakka þér fyrir þetta. Þau eru alls ekki loðin þau atriði sem ég tel til.  Ég fullyrði ekkert um BF og Viðreisn nú, eða Framsóknarflokkinn í síðustu kosningum.  En þó að við látum þau liggja "óbætt hjá garði", og þá er auðvitað fyllilega út í hött að fullyrða út frá þeim úrslitum að allir samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins fari illa út úr því samstarfi.

Bæði 1971 og 1995 svo dæmi séu tekin er mun raunhæfara að líta til klofnings Alþýðuflokks. Og 1999 voru umskipti á vinstri væng stjórnmálanna.

Það hefur aldrei verið sínt fram á með góðum rökum að þessi "mýta" eigi við rök að styðjast, en þvert á móti tala allir um hana sem "heilagan sannleik", sem hefur þó í raun ekkert á bak við sig.

G. Tómas Gunnarsson, 22.9.2017 kl. 19:19

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má svo bæta því við hér að í raun er eina rökrétta niðurstaðan í þessu að mínu mati, að fullyrða má að fylgið á vinstri væng Íslenskra stjórnmála, er meiri fljótandi en á þeim hægri.

N.B Ég tel og hef altaf talið Framsóknarflokkinn til vinstri flokka.

G. Tómas Gunnarsson, 22.9.2017 kl. 19:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband