Sögulegur sigur Íhaldsflokksins í aukakosningum í Bretlandi

Þessi frétt lætur ef til vill ekki mikið yfir sér, en þó má lesa all nokkur tíðindi í henni, en það má segja að á þau sé ekki minnst.

Verkamannaflokkurinn bauð í raun afhroð í Copeland, það er ekki hægt að kalla það neitt annað.

Flokkurinn hefur, þar til nú, unnið sigur í kjördæminu frá því að því var komið á fót (1983) og í því og fyrirrennara þess í samfellt 80 ár.

Þessi sigur Íhaldsflokksins er jafnframt fyrsti sigur sitjandi stjórnarflokks í aukakosningum í u.þ.b. 35 ár, eða síðan 1982.

Staða Verkamannaflokksins, þrátt fyrir sigur í Stoke, virðist fara síversnandi og ekki síst staða formannsins Jeremy Corbin´s, sem ýmsir töldu tákn um nýja tíma vinstrisins í alþjóða stjórnmálum (ásamt Bernie Sanders).

Verkamannaflokkurinn vinnur hins vegar varnarsigur í Stoke, kjördæmi sem hann hefur sömuleiðis haldið eins lengi og elstu menn muna. Sjálfstæðisflokkurinn (UKIP) vinnur á, en langt í frá eins mikið og margir höfðu reiknað með, því jafnvel var talið að hann ætti möguleika á sigri.

En Stoke hefur verið kölluð "höfuðborg Brexit", enda greiddu um 70& kjósenda í kjördæminu atkvæði með úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu.

Það er einmitt hluti af vandræðum Verkamannaflokksins, en mikill fjöldi frammámanna flokksins hefur verið fylgjandi "Sambandsaðild", en meirihluti þeirra kjördæma sem þeir hafa þingmenn í, greiddu atkvæði með úrsögn.

En báðar þessar aukakosningar styrkja í raun yfirburðastöðu Íhaldsflokksins í breskum stjórnmálum.

Margir höfðu spáð því að Brexit kosningarnar myndu kljúfa flokkinn, en í raun hafa þær gert hann mun sterkari, en Verkamannaflokkurinn er ekki nema svipur hjá sjón.

Sjálfstæðisflokkur hins sameinaða konungsdæmis hefur einnig átt nokkuð erfitt uppdráttar. Ekki það að 25% atkvæða í Stoke geti talist slakur árangur, en samt virðist flokkurinn eiga erfitt mað að finna tilgang, nú eftir að Bretar hafa samþykkt úrsögn úr "Sambandinu" og að hin "charismatíski" leiðtogi Nigel Farage hefur stigið til hliðar.

Ég hef áður sagt að Sjálfstæðisflokkurinn muni eiga erfitt með að finna fótfestu nú eftir Brexit og ég held að þessar aukakosningar renni stoðum undir þá skoðun.

Ýmsir hafa sagt að eini möguleiki flokksins til að sækja fram sé að sveigja stefnuskrá sína enn frekar til vinstri en nú er, til að keppa við Verkamannaflokkinn, hvort að slík stefnubreyting verði ofan á á eftir að koma í ljós.

En báðar þessar aukakosningar, þó sérstaklega sú í Copeland, styrkja yfirburðastöðu Íhaldsflokksins í breskum stjórnmálum.

Það er nokkuð sem Brexit hefur fært þeim, þvert á flesta spádóma.

P.S. Það er ekki oft sem mér þykir fréttaflutningur RUV betri en mbl.is, en það er þó í þessu tilviki. Frétt RUV er alltof grunn, en nær þó frekar að koma meginatriðunum til skila.

 


mbl.is Verkamannaflokkurinn tapaði og vann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þakka góða grein. Við vonum að Brexit hugsjónin vinni.

Valdimar Samúelsson, 25.2.2017 kl. 08:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband