Of mikið gert úr málinu?

Það má til sanns vegar færa að æskilegt væri að skýrt væri hvort að Ísland getur talist umsóknarríki að Evrópusambandinu eður ei.

Rétt eins og með flesta aðra hluti, er betra að ljóst sé hvernig í pottinn er búið.

En líklega er munurinn þó ekki mikill þegar upp er staðið.

Það eru að verða liðin næstum þrjú ár síðan viðræðunum var formlega hætt og ef ég hef skilið rétt höfðu þær verið ákaflega litlar, ef nokkrar, einhvern tíma á undan.

Viðræðum verður ekki fram haldið að séð verður á meðan núverandi ríkisstjórn situr. Fátt bendir til þess að hún fari frá völdum fyrr en í fyrsta lagi vorið 2017.

Það yrði því ekki fyrr sem óskað yrði eftir áframhaldandi viðræðum, og líklega all nokkru síðar, því ef marka má þá stjórnmálamenn sem mest tala um áframhald viðræðna, yrði það varla gert án þjóðaratkvæðagreiðslu, eða hvað?

Það er líka ljóst að engu nýju ríki verður hleypt inn í "Sambandið" fyrr en í fyrsta lagi 2019.

Þó að við gefum okkur að aðlögunarviðræðum yrði fram haldið snemma árið 2018, þá er það langt um liðið að ég leyfi mér að efast að þeir kaflar sem var "lokað" í fyrri viðræðum yrðu svo áfram. Það er einfaldlega það langur tími liðinn og lög "Sambandsins" síbreytileg að fara yrði yfir þá aftur, þó að líklega gæti það tekið eitthvað skemmri tíma. En það myndi gilda sömuleiðis þó að um "nýja" umsókn væri að ræða.

En ef sama umsóknin er enn í gildi, gilda sömuleiðis allir þeir fyrirvarar sem Alþingi setti, og sendi með henni.

Það er ólíklegt að samningar náist með þeim formerkjum, og vilja ýmsir meina að þeir hafi átt sinn þátt í viðræðuslitunum sem urðu.

Það eina sem breytist við að umsóknin teldist gild, væri líklega að tæknilega þyrfti ríkisstjórn ekki að taka málið upp á Alþingi, áður en slíkt væri gert.  Sömuleiðis þyrfti ekki að leita samþykkis allra "Sambandsþjóðanna" fyrir viðræðum.

En í mínum huga getur það ekki breytt miklu, því að næsta víst er að ríkisstjórn myndi trauðla leggja af stað með málið án tilstillis Alþingis, ekki síst vegna þess að hefði stjórnin traustan meirihluta, myndu "Sambandssinnar" líklega vilja breyta eða fella út í það minnsta hluta af skilyrðunum.

Það myndi heldur ekki breyta neinu þó að málið væri ekki borið undir öll "Sambandsríkin", því eftir sem áður þurfa þau öll að samþykkja samningslok, ef ég hef skilið málið rétt.

En þetta breytir því ekki að gott væri að fá málið á hreint.

Það væri því tilhlýðilegt að ríkisstjórn Íslands óskaði eftir því við Evrópusambandið að það útskýrði hvernig það liti á málið, og hvað þurfi að gera til að það líti svo á að umsóknin hafi verið dregin til baka.

Ef ríkisstjórnin gerir ekkert slíkt, væri vel til fallið að einhver fjölmiðillinn leitaði hinna sömu svara.

 

 


mbl.is ESB-umsóknin mögulega enn í gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu ESB er Ísland hvorki "umsóknarríki" né í neinu aðildarferli. Þetta er alveg skýrt, og til eru tölvupóstsamskipti við vefstjóra ESB sem staðfesta hvenær þessu var breytt.

Það er því óskaplega dapurlegt að horfa upp á sjálfan sendiherra ESB fara með rangt mál og snúa út úr staðreyndum um málið. Slíkan viðsemjanda myndi ég helst ekki vilja eiga í samningaviðræðum við.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.11.2015 kl. 10:55

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Guðmundur Þakka þér fyrir þetta. Ég veit að Ísland er ekki talið umsóknarríki á heimasíðum "Sambandsins". Það er því enn merkilegra að sendiherra þess skuli tala á þennan veg.

Ekki þar fyrir að vefsíður þurfa ekki að segja til um hvernig "kerfið", eða "frammámenn", innan "Sambandsins" lítur á málið. Hvort að það myndi líta á það sem framhald, ef íslensk ríkisstjórn æskti þess að viðræður yrðu hafnar á ný.

En eins og ég sagði í pistlinum, þá breytir þetta ekki miklu, nema að því leyti að ef ltið er svo á að umsóknin og aðlögunarferlið sé "lifandi", þá er í "teoríunni" hægt að halda áfram með viðræður án atbeina Alþingis.

En ég trúi því ekki að slíkt yrði ofan á.

Það er að mínu mati alls ekki rétt að það að slíta viðræðunum hafi ollið einhverju tjóni.

Það að stöðva viðræður gerði það hins vegar óneitanlega, og því lengur sem þær liggja niðri, því minna virði verða fyrri viðræður.

En það er flestum ljóst að viðræðurnar voru ekki stöðvaðar, af því að þær gengju vel, eða væru á lokametrunum.

G. Tómas Gunnarsson, 25.11.2015 kl. 11:40

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"...án atbeina Alþingis"?

Nú hafa vinstriflokkarnir lagt áherslu á að leggja áframhald aðildarviðræðna í dóm þjóðarinnar. Við skulum vona að þeir standi við það þannig að ef þeir komist síðar til valda þá verði engar aðildarviðræður hafnar án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nógu slæmt var að þeir gerðu það 2009 án þess að spyrja þjóðina!

Guðmundur Ásgeirsson, 25.11.2015 kl. 12:00

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Guðmundur Þakka þér fyrir þetta. Slíkt væri vissulega hægt, ef umsóknin er í fullu gildi.  Lagalega séð.

En eins og ég sagði áður, og mér sýnist þú taka undir það, er það afar ólíklegt, ákveðinn ómöguleiki í því fólgin.

Það verður að teljast afar líklegt að um þjóðaratkvæðagreiðslu, en þó alls ekki víst, það færi líklega eftir því hverjir sætu í ríkisstjórn.

En þess vegna skiptir þetta minna máli en margur ætlar. Það er að segja hvort að umsóknin er "lifandi", "dauð" eða "lifandi dauð", en "lifandi dauð" varð hún strax 2012. Ríkisstjórna Jóhönnu og Steingríms gerði hlé, og því lengri tími sem líður án aðlögunar, því minna virði er sú aðlögun sem orðin var, eða var búið að samþykkja.

Hvort að haldið er áfram með fyrri viðræður eða teknar upp nýjar, skiptir því ekki meginmáli nema í "forminu".

En það er alveg jafn nauðsynlegt að berjar gegn aðild og áður.

G. Tómas Gunnarsson, 25.11.2015 kl. 13:06

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég er ósammála þér, Tómas, um þessi mál, en sammála Styrmi Gunnarssyni* og Jóni Bjarnasyni,** formanni Heimssýnar, um málið.

Það var við því að búast, að refsskapur Brusselmanna kæmi fram í þessu máli, ekki sízt þegar utanríkisráðherrann Gunnar Bragi reyndist jafn-ragur, meðfærilegur og svikull í málinu og raun ber vitni.

Þið Guðmundur Ásgeirsson eigið báðir að vita um yfirlýstan illan ásetning Árna Páls og Össurar í málinu: þeir hafa skrifað til Brussel og láta sem bréf Gunnars Braga hafi ekkert gildi og að ótrauðir ætli þeir sér að "halda áfram með" umsókn sína (Össurarumsóknina) um leið og þeim gefst tækifæri til, enda telja þeir hana í fullu gildi.

Og þetta er auðvitað útþenslusinnuðu stórveldinu að skapi. Þess vegna eigið þið ekki að láta að það blekkja ykkur, hvað gerzt hefur á einhverjum (en alls ekki öllum) vefsíðum SB. Engin formleg yfirlýsing hefur komið frá framkvæmastjórn Evrópusambandsins um, að Ísland hafi endanlega og formlega hætt við umsóknina og að hún sé því ekki til lengur og að sækja yrði um upp á nýtt, ef einhver ríkisstjórn hér vildi komast inn í þeirra tröllslega bákn.

Og þess vegna eigið þið heldur ekki að láta það koma ykkur á óvart hvernig sendiherra ESB talar. Það staðfestir einmitt það, sem ég sagði hér um stefnu Evrópusambandsins í málinu, enda er hann fullmektugur (ambassadeur et ministre extraordinaire et plénipotetiel) til að lýsa þeirri stefnu fyrir þess hönd.

Svo er það bara aukageta hans, svona eins og til gamans að stinga fleini í Gunnar Braga og sýna honum auðvitað fullkomna óvirðingu, að láta um leið vita af því, að það sé ekkert mark tekið á leikþætti hans og óskuldbindandi aula-frammistöðu.

http://styrmir.is/entry.html?entry_id=2160442

** http://jonbjarnason.blog.is/blog/jonbjarnason/entry/2160457/

Jón Valur Jensson, 25.11.2015 kl. 19:22

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

... á einhverjum (en alls ekki öllum) vefsíðum ESB

átti að standa þarna.

Jón Valur Jensson, 25.11.2015 kl. 19:24

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

... ekki að láta það blekkja ykkur ...!

Jón Valur Jensson, 25.11.2015 kl. 19:26

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Jón Valur  Þakka þér fyrir þetta. Ég hygg að ef þú skoðar málið, þá séu skoðanir okkar ekki svo ósvipaðar í þessu máli (þó við deilum ákaft í öðrum).

Það sem ég er m.a. að benda og hygg að sé þarft að velta fyrir sér, hverju það breyti, þó að viðurkennt væri að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki?

Það eina sem breytist ef umsóknin er enn í gildi er að ríkisstórn getur í teoríunni haldið aðlögunarviðræðum áfram án þess að til kasta Alþingis kæmi.

Það er vissulega ekki gott.

En ef ríkisstjórn í framtíðinni fær það samþykkt á Alþingi eða í þjóðaratkvæðagreiðslu, að umsókninni verði haldið áfram, breytir í raun engu hvort að framhald á gamalli eða ný umsókn sé um að ræða.

Það er enginn endir á baráttunni gegn "Sambandsaðild" þó að umsóknin sé formlega dregin til baka.

Sú barátta mun standa um ókomna framtíð og ekki síst í hverjum þingkosningum.

G. Tómas Gunnarsson, 25.11.2015 kl. 19:37

9 Smámynd: Samtök um rannsóknir á ESB ...

... plénipotentiaire ...

átti að standa þarna -- ekkert potentielt við það, heldur fullvirkt.

Samtök um rannsóknir á ESB ..., 25.11.2015 kl. 20:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband