Skrípaleikur í kringum sölu og innflutning á áfengi

Það mega allir (eftir því sem ég kemst næst) sem hafa náð löglegum aldri flytja inn áfengi til Íslands. Þeir borga af því tilskilin gjöld til hins opinbera og mega síðan glaðir drekka sitt og bjóða gestum.

En þeir mega ekki selja það í verslunum sem þeir kunna að eiga.

Sömuleiðis er allt áfengi sem selt er á Íslandi flutt inn eða framleitt af einkaaðilum. Þeir borga af því til lögboðin gjöld til hins opinbera og dreifa því svo til veitingahúsa, ÁTVR og Fríhafnarinnar.

Það er því allt eins líklegt að áfengið sem einstaklingar drekka á veitinga- eða öldurhúsum hafi aldrei farið um hendur hins opinbera (þ.e. ef litið er fram hjá tollafgreiðslu).

En líklega hefur mest af söluaukningu á áfengi undanfarin ár einmitt átt sér stað á veitingahúsunum, líklega mest vegna fjölgunar erlendra ferðamanna.

Ég hef enga trú á því að ÁTVR (og þar með ríkissjóður) hafi misst nokkurn spón úr aski sínum þegar dreifing til veitingahúsa var færð yfir til einkaaðila. Líklega hefur fyrirtækið frekar sparað við þá breytingu.

Ég hef heldur ekki heyrt af því að verð til veitingahúsa hafi hækkað, eða þjónusta minnkað, en get vissulega ekkert fullyrt um slíkt.

En eftir stendur að ótrúlega stór hópur er þess fullviss að engum sé treystandi fyrir því að selja einstaklingum áfengi nema ríkinu, þ.e.a.s ef það er ekki á veitingahúsi.

Ja nema auðvitað ef einkaaðilinn er í útlöndum  og nýtur milligöngu póstfyrirtækja.

Þá er hættan af sölu einkaaðila líklega úr sögunni, eða hvað?

Væri netverslunin íslensk, væri líklega voðinn vís.


mbl.is Vínáhugamenn panta í gegnum netið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Á Íslandi var bjór bannaður en vodka var löglegt. Það segir svolítið um nálgun íslenskra yfirvalda á sölu áfengis.

Wilhelm Emilsson, 12.11.2015 kl. 22:17

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Vilhelm Þakka þér fyrir þetta. Vissulega var það skrýtin nálgun. En það er í raun ekki síður merkilegt hvað mikið af rökunum gegn bjórnum hafa verið "endurunnin" nú þegar talað er um að útvíkka söluheimildir einkaaðila á áfengi.

Það er ljóst að framboð og "útstilling" áfengis hefur aukist mjög hratt á undanförnum árum. Bæði hjá ÁTVR og einkaaðilum. Mest hefur þó aukningin líklega verið hjá einkaaðilum, enda sprenging í fjölda veitingahúsa með vínveitingaleyfi.

En ÁTVR kynnir áfengi á vefsíðum, hefur stóraukið fjölda verslana og þar fram eftir götunum.

En ef einkaaðili geri slíkt, er hann líklega að brjóta lögin.

G. Tómas Gunnarsson, 13.11.2015 kl. 05:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband