Eru neikvæðir stýrivextir og massív peningaprentun það sem þarf á Íslandi?

Enn á ný virðist umræða um upptöku euros aukast aftur á Íslandi. Að sumu leyti er það skiljanlegt, vegna þess að auðvelt er að setja upp nokkuð sláandi dæmi um mismun á vaxtakjörum sem bjóðast á landinu bláa og sumum ríkjum á Eurosvæðinu.

En það fylgir sjaldnast sögunni hvers vegna vaxtamunurinn er svo hár nú um stundir.

Stýrivextir Seðlabanka Eurosvæðisins, sem og Danmerkur og Svíþjóðar hafa undanfarna mánuði verið neikvæðir. Svo mikið hefur legið við að reyna að hrista "líf" í efnahag Eurosvæðisins, og að keyra niður gengi gjaldmiðils þess sem og Danmerkur og Svíþjóðar (sem er er jú aðallega til að hindra "flóttafólk" úr euroinu að koma þangað).

Samhliða þessu hefur farið fram massív peningaprentun.

Á sama tíma á Íslandi hefur mátt heyra hver varnaðarorðin á fætur öðrum, um að nú verði að fara varlega svo að efnahagslífið ofhitni ekki og hvatt hefur verið til þess að "kippa úr umferð" fjármagni og reyna að slá á þennslu.

Það hefur því vantað algerlega í umræðuna af hálfu "Sambandssinna" sem endilega vilja taka upp euro, hvernig massív peningaprentun og neikvæðir stýrivextir myndu hafa áhrif á íslenskt efnahagslíf og hvers vegna það er einmitt það sem íslendingar þarfnast nú.

En massív peningaprentun og neikvæðir stýrivextir væru einmitt raunveruleikinn á Íslandi í dag, ef euro væri gjaldmiðillinn.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Veruleg lækkun vaxta við upptöku evru væri auðvitað æskileg enda er það einn galli krónunnar að henni fylgja óhjákvæmilega mjög háir vextir.

Vegna þess hve veikur gjaldmiðill krónan er verður hún að búa við hærri vexti meðal annars til að koma í veg fyrir að fé streymi úr landi til ávöxtunar í traustari gjaldmiðli.

Lægri vextir lækka rekstrarkostnað fyrirtækja. Þannig myndast svigrúm til launahækkana. Vaxtalækkun getur valdið ofþenslu. Hækkun launa er þá mikilvæg mótvægisaðgerð gegn ofþenslunni.

Háir vextir auka ójöfnuð. Þeir sem eiga fé fá betri ávöxtun en ella og þeir sem skulda þurfa að greiða hærri vexti Þannig yrði ESB-aðild og evra mikilvægt tekjujöfnunartæki.

Það er ekki hægt að saka ESB um að hafa beitt peningaprentun í ríkum mæli. Í samanburði við Bandaríkin og Bretland hefur peningaprentun verið hófleg svo að ekki sé minnst á Ísland í gegnum árin.

Það hefur þó borið á peningaprentun i ESB undanfarin misseri. Áhrifin hafa verið jákvæð fyrir evruríkin því að evran var orðin of sterk. Við lækkun á gengi hennar batnaði samkeppnisstaða evrusvæðisins.

Vextir á Íslandi eru miklu hærri en í samanburðarlöndunum og laun miklu lægri. Með ESB-aðild og upptöku evru gefst tækifæri til að jafna þennan mun og um leið stytta vinnutímann.

Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2015 kl. 17:19

2 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

 Ásmundur! þetta er eins og að blóta í kirkjunni að halda fram að vextir á Íslandi séu miklu hærri en í samanburðarlöndunum og laun miklu lægri!

Eyjólfur Jónsson, 1.11.2015 kl. 18:02

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Eurosvæðið og ESB - "Sambandið" er ekki eitt og hið sama. Þér af öllum mönnum ætti að vera það ljóst.

Það er alveg rétt að gott væri ef vextir væru lægri á Íslandi. Í kringum 4% væri t.d. gott.

En myndir þú mæla með neikvæðum stýrivöxtum og massívri peningaprentun fyrir Ísland í dag?

Það nægir að segja já eða nei.

Stórfelld peningaprentun og lágir vextir eru alla jafna taldir færa auð til hinna efnameiri. Slíkt kyndir undir eignabólur, stórfeldlar hækkanir á fasteignum og hlutabréfum. Hverjir eru það sem standa best að vígi til að hagnast á slíku?

Hverjir eru það sem alla jafna hafa betri aðgang að lánsfé?  Hvers vegn hefur samþjöppun auðs verið  æ meira í umræðunni, nú þegar vextir hafa víða verið lágir um langt skeið?

ESB - "Sambandið" hefur ekki beitt fyrir sig peningaprentun. Það er ekki í þess valdi. En Seðlabanki Eurosvæðisins hefur verið með massíva peningaprentun og mun skarpari hlutfallslega en Bandaríkin. Og nú er reiknað með að enn verði bætt í, því efnahagurinn er enn í hægagangi og ekkert hefur gengið að vekja upp "verðbólgudrauginn".

Seðlabankar Danmerku, Svíþjóðar og Sviss, svo aðrir séu nefndir hafa beitt sömu meðulum, aðallega með því markmiði að halda gengi gjaldmiðla sinna niðri, og hamla á móti "fjárflóttamönnum" af Eurosvæðinu.

Jafn lágir vextir og eru á Eurosvæðinu bera vitni um sjúkt hagkerfi sem reynt er að hrista "líf" í með neikvæðum stýrivöxtum og peningaprentun.

Á Eurosvæðinnu er meðaltalskuldastaða u.þ.b. 92%/GDP og uppfyllir því svæðið sem heild, ekki skilyrðin til að vera aðili að sjálfu sér, ef svo má að orði komast. Skuldirnar eru u.þ.b. 150% af því sem leyfilegt er.

Ef ég man rétt eru það 5 ríki af 19 á Eurosvæðinu, sem eru innan við 60% skuldamörkin.  Það eru Luxemburg, Slóvakía, Lettland, Litháen og Eistland.

Eina ríkið af upphafsríkjunum 12 sem "störtuðu" euroinu sem er innan markanna er Luxemburg.

Þannig er staðan á Eurosvæðinu í dag.

G. Tómas Gunnarsson, 1.11.2015 kl. 18:25

4 identicon

G. Tómas, þú talar eins og þú hafir haft ofurtrú á ESB og evru en orðið fyrir vonbrigðum.

Að sjálfsögðu eru hagsveiflur í evrulöndum þó að þær séu af allt annarri stærðargráðu en hér. Þess vegna er bara eðlilegt að mörg lönd uppfylli ekki inngönguskilyrðin í efnahagslægð eins og nú stendur yfir.

Að sækja um ESB-aðild í efnahagslægð er ákjósanlegt vegna þess að þá nýtur maður uppsveiflunnar. Annars legg ég til að þú hættir að tala um meðaltöl í ESB- og evrulöndum. Þau hafa enga þýðingu fyrir okkur.

Vextir eru lágir í heiminum í dag. Evrusvæðið sker sig ekki úr að þessu leyti. Í Bandaríkjunum td hafa stýrivextir í mörg ár verið um 0%.

Þó að ástandið sé erfitt í einstökum evrulöndum smitast það ekki yfir til okkar við ESB-aðild. Við munum reyndar vegna EES-samningsins finna fyrir því ef það versnar. ESB-aðild mun engu breyta um það.

Skuldarar munu fagna gífurlega þeirri vaxtalækkun sem ESB-aðild hefur í för með sér. Þeir fjármagnseigendur sem hugsa bara um eigin gróða munu hins vegar hafa allt á hornum sér.

Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2015 kl. 22:36

5 identicon

Þó að mörg evruríki skuldi mikið er greiðslubyrðin léttari en þegar skuldirnar voru miklu minni vegna þess hve vextirnir eru orðnir lágir.

Þannig getur greiðslubyrðin af láni sem er 90% af landsframleiðslu verið léttari en td láni sem var 60% af landsframleiðslu með mun hærri vöxtum.

Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2015 kl. 22:42

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Sjálfur hef ég aldrei verið aðdáandi "Sambandsins", eða "Sambandssinni". En ég hef ekkert á móti því sem slíku, ef ríki vilja binda sig þannig eða sameinast. Það verða ríki að ákveða í samstarfi við þegna sína, en það hefur þó ekki verið ástundað mikið, samanber hvernig farið var með atkvæði Frakka og Hollendinga.

Ég er einnig þeirrar skoðunar að mun "minna samband", ef svo má að orði komast gæti orðið allrar athygli vert, en þá þyrfti að búa svo um hnútana að það yrði um kyrrt á því "leveli".

Þegar 14 af 19 löndum uppfylla ekki skilyrðin er eitthvað mikið að, og segir jafnframt að það er ekki nóg að setja lög og skilyrði, ef ekkert er gert með þau. En slíkt virðist vera "Sambandinu" nokkuð tamt.

Meðaltöl segja vissulega sína sögu, þó að ekki megi taka þau of hátíðlega. En þau lýsa því sem væri til staðar í "æ nánara "Sambandi"". Það er jú þangað sem "Sambandið" stefnir nú, bæði leynt og ljóst.

Það má heldur ekki gera ráð fyrir því að Ísland myndi fyrst og fremst taka mið af því sem er að gerast í Þýskalandi, því til þess eru litlar líkur.

Þegar sótt var um aðild fyrir Íslands, var bæði Ísland og "Sambandið" í niðursveiflu. Ísland þó fyrr á "kúrfunni". Nú stefnir allt í uppsveiflu á Íslandi, ef hún er ekki þegar byrjuð en lítið gengur á Eurosvæðinu, þar sem verðhjöðnun er jafn líkleg og ekki (og hefur látið sér kræla á undanförnum mánuðum), gjaldmiðilinn er á niðurleið (nokkuð sem sum ríki svæðisins þurftu verulega á að halda, en önnur ekki, hjá þeim dregur hann fyrst og fremst úr lífskjörum).

Það er alveg rétt að vextir eru lágir, og hafa ýmis lönd raunar lækkað þá meira en þau í raun ættu að vera, til að koma í veg fyrir að fjárflótti úr euroinu keyri upp gengi gjaldmiðla þeirra.

Það er líka rétt að vextir af miklum ríkisskuldum eru vissulega léttbærari en ef vextir væru hærri. En flestu ríkin á Eurosvæðinu hafa verið að auka skuldir sínar hratt og ná ekki tökum á skuldsetningu sinni.

Ef, með peningaprentuninni, tekst að hrista örlítið líf í efnahaginn, og vextir fara hækkandi, þá eru þau í stórkostlegum vandræðum. Ekki síst þau lönd þar sem "innri gengisfelling" hefur átt sér stað og skattstofninn skroppið saman. Því það er alls ekki víst og raunar frekar ólíklegt að batinn komi alls staðar á sama tíma.

AF 19 þjóðum Eurosvæðins eru 6 með skuldastöðu yfir 100%/GDP. Það eru Grikkland, Portúgal, Ítalía, Kýpur, Belgía og Írland. Spánn og Frakkland eru mjög nálægt og líklegri en ekki til að rjúfa þann "múr".

"Sambandsaðild" ein og sér hefur líklega ekki mikla vaxtalækkun í för með sér. Aðild að Eurosvæðinu myndi hins vegar líklega gera það.  En að fara með vexti niður á "eurostig" í því umhverfi sem ríkir á Íslandi í dag, er líklega ávísun á samskonar bólumyndun og hrun og varð á Spáni og Írlandi. Þar sem vextir tóku ekkert mið af efnahagnum og voru um langa hríð neikvæðir.

Það er því hætt við að gleðin yrði skammvinn.

G. Tómas Gunnarsson, 2.11.2015 kl. 06:57

7 identicon

Það virðist enginn þora að svara spurningu þinni Tómas um hvort neikvæðir vextir og peningaprentun væru góð fyrir Ísland. Miðað við núverandi ástand í íslenska efnahagskerfinu myndi það hleypa af stað óðaverðbólgu sem nánast vonlaust væri að stoppa nema það sama gerðist í Evrópu.

Gulli (IP-tala skráð) 2.11.2015 kl. 08:38

8 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Taka upp evru...evran er ónýtur gjaldmiðill, Seðlabanki Evrópu prentaði trilljónir evra til þess að bjarga evrunni, evran er í höftum, og er í öndunarvél...evran bjargar engu hér..Íslenska krónan er ekki vandinn hér á landi, það sem verður að laga hér, er að embættismannakerfið verður að fara að lögum, t.d. með fjárlög, þar sem fjárlög eru brotin á hverju ári, ef það yrði gert...væri Ísland ríkasta þjóð í heimi...en sósíaldemókratarnir í kerfinu eru að rústa krónunni.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 2.11.2015 kl. 10:04

9 identicon

Þó að neikvæðir stýrivextir séu almennt einkenni á lægð í hagkerfi með eigin gjaldmiðil þá á það alls ekki við í einstökum löndum í myntbandalagi þegar ástæðurnar er að finna í öðrum löndum þess. Það er því af og frá að upptaka evru muni í sjálfu sér leiða til niðursveiflu hér á landi.

Neikvæðir stýrivextir gefa tækifæri til hagstæðra lána fyrir almenning og fyrirtæki. Það þarf að fylgjast með hver áhrifin verða á hagkerfið og grípa til viðeigandi hagstjórnartækja til að koma í veg fyrir að verðbólgan fari úr böndunum.

Þó að aukin eftirspurn geti leitt til verðhækkana kemur á móti að lægri vextir fyrirtækjanna og meiri sala gefa tilefni til verðlækkana. Aukin stöðugleiki leiðir einnig til að verðvitund fólks eykst sem veitir fyrirtækjunum aðhald. 

Að tala um að ekki sé hægt að lækka vexti vegna þess að það leiði til aukinnar verðbólgu minnir á þá fullyrðingu að ekki sé hægt að hækka laun af sömu ástæðum. Þeir sem þannig tala virðast líta svo á að landið sé stjórnlaust. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 2.11.2015 kl. 14:12

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Gulli Þakka þér fyrir þetta. Það vill auðvitað enginn útskýra hvers vegna neikvæði stýrivextir og peningaprentun væri það sem Ísland þarfnaðist í dag. Það liggur eiginleg í "augum úti", eins og poppstjarnan söng, hvers vegna.

@Ægir  Þakka þér fyrir þetta. Euroið er að sjálfsögðu ekki ónýtur gjaldmiðill frekar en nokkur annar. Það dregur einfaldlega dám af efnahagsástandinu á Eurosvæðinu, og hagstjórninni þar.

@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Stýrvextir taka mið af efnahagsástandi, svona alla jafna. Vissulega er efnahagsástandið í Eurolöndunum mismunandi, en "vegið meðaltal" þeirra lítur ekki vel út. Því eru stýrivextir neikvæðir.

Upptaka euros þarf ekki að þýða niðursveiflu á Íslandi. Þvert á móti. Í ástandi eins og nú væri mun líklegra að það hefði í för með sér gríðarlegar bólumyndun (eins og varð t.d. á Írlandi og á Spáni), sem síðan myndi líklega stórt hrun fylgja í kjölfarið. 

Því í uppsveiflu eins og er að myndast (eða er þegar komin af stað) á Íslandi, eru neikvæðir vextir og massív peningaprentun það síðasta sem landið þarf á að halda.

Of lágir vextir eru vandamál í sjálfu sér, því lengur sem þeir gilda, nema að reiknað sé með því að þeir vari að eilífu.

Þeir stuðla að vandræðum í lífeyrismálum, hvetja til óþarfa skuldsetningar og "gírunar", skapa bólur á fasteigna og hlutabréfamarkaði, og verða oft til þess að fyrirtæki með of lítin arð ná að lifa. Allt þetta er ávísun á vandræði ef og þegar vextir hækka.

Gjarna er talað um að of háir vextir leiði af sér lækkandi fasteignaverð og vaxandi atvinnuleysi.

Er það raunin á Íslandi í dag?

G. Tómas Gunnarsson, 2.11.2015 kl. 16:27

11 identicon

Þrátt fyrir lága vexti, jafnvel neikvæða stýrivexti, er ástandið harla gott í flestum ESB-löndum, hvort sem þau eru með evru eða ekki.

Efnahagsástandið í flestum þeirra stendur ástandinu á Íslandi framar og í mörgum þeirra langtum framar. Hvernig fara þau að því, verandi í ESB og flest með evru?

http://prosperity.com/#!/ranking 

Ásmundur (IP-tala skráð) 2.11.2015 kl. 22:11

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Öll ríki Eurosvæðisins eru með neikvæða stýrivexti, það liggur í hlutarinseðli. Ástandið er að sjálfsögðu misgott í þeim, þó að mörg þeirra eigi við vaxandi erfiðlike að stríða í efnahagslífi. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að allt sé í rúst í þeim löndum, en horfir ekki vel til framtíðar. En það er einmitt málið, að euroið er ekki "ein stærð fyrir alla". Sum ríki þrífast vel, önnur ekki. Það er ólíklegt að hagsveiflur á Íslandi muni verða í takt við "kjarnaríki" eurosins og því yrði voðinn vís. Rétt eins og staðan er í dag, þegar þarfir Íslands eru allt aðrar en eru í gangi á Eurosvæðinu.

Hvað varðar "prosperity" listann, má ekki taka hann sem heilgagan sannleik, frekar en nokkuð annað, en hann er góður umræðupunktur og um að gera að ræða málin út frá honum.

5 af 28 ríkum "Sambandsins" standa framar Íslandi á þeim lista. 3 af 19 ríkjum Eurosvæðisins eru fyrir framan Ísland. Engin smærri þjóð stendur Íslandi framar á listanum.

En sú einkunn sem dregur Ísland mest niður á þessum lista er í efnahagsmálum, en það er einmitt þar sem ég reikna með að Ísland eigi eftir að taka stærsta stökkið á næstu árum og færa sig upp listann. Íslenskar "kennitölur" vísa í mun betri átt en hjá löndunum á Eurosvæðinu.

Og það ber að hafa í huga að 12. sætið er ekki slæmur árangur, miðað við það sem á undan hefur gengið hjá íslendingum.

Og taktu til dæmis eftir því að Ísland er með hærri einkunn í efnahagsdálkinum en t.d. Finnland, og Frakkland er í sætinu fyrir framan Ísland.

G. Tómas Gunnarsson, 3.11.2015 kl. 07:54

13 identicon

Að því er efnahagsmálin varðar er Ísland í 31. sæti með öll Norður- og Vesturevrópulöndin ofar á lista nema Finnland sem er á sömu slóðum og Ísland.

Jafnvel sum fyrrum austantjaldslönd standa okkur framar. Slæm staða Finnlands skýrist af hruni Nokia.

Þar sem ESB og evrusamstarfið snýst fyrst og fremst um efnahagsmál er skýrslan meðmæli með ESB og evru en áfellisdómur yfir ástandinu hér.

Fyrir utan efnahagsmál fá stjórnarhættir og heilbrigðismál á Íslandi slæma einkunn. Allt ber þetta að sama brunni.

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.11.2015 kl. 08:54

14 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Það þarf auðvitað lita á stöðuna í heild sinni í samanburði sem þessum. Því þættirnir virka saman. Efnahagsmál kynnu að vera betri, ef skorið hefði verið grimmar niður í öðrum málaflokkum. En það þarf hins vegar ekki að virka betur til framtíðar.

Eins og ég sagði áður þá er Frakkland, sem óneitanlega telst "kjarnaríki" bæði í "Sambandinu" og á Eurosvæðinu, einu sæti ofar en Ísland.

Ég get reyndar ekki fundið nema eitt land úr A-Evrópu sem stendur hærra en Ísland á þessum lista (hvað varðar efnahag), það er Tékkland sem stendur utan Eurosvæðisins.

Allar einkunnir Íslands eru á top 30, nema efnahagurinn.

En eins og ég sagði áður, reikna ég með að Ísland taki stórstígum framförum þar á næstu árum. T.d. er nú búið að skila láni frá IMF, sem var aldrei notað. Lá eingöngu inn á erlendum bankareikningum. Aðrar skuldir hafa einnig verið greiddar niður og verða líklega enn frekar á næstu mánuðum.

Hvað stjórnarhætti varðar er Ísland númer 18. Frakkland er númer 20, Þýskaland númer 16, Belgía númer 17, svo dæmi séu tekin í kringum stöðu Íslands. Reyndar ímynda ég mér að það sé ekki mikill munur á milli sæta í þessu, en þori þó ekki að fullyrða það.

Hvað varðar heilbrigðismálin, þá er Ísland sömuleiðis í 18. sæti þar. Írland er í 17., Danmörk í 16, Svíþjóð í 12.,Tékkland í 26 (sem voru þó yfir Íslandi hvað varðar efnahaginn).  Taktu eftir því að þar eru Bandaríkin í 1. sæti.

Það er gríðarleg einföldun að kenna falli Nokia um öll vandræði Finnlands, þó að vissulega sé það engu hagkerfi hollt að hafa jafn hlutfallslega stórt fyrirtæki innanborðs.

En hluti vandræða Nokia kom auðvitað vegna styrkingar eurosins. Vandræði timburiðnaðarins má að stórum hluta rekja til glataðs samkeppnishæfi, vegn eurosins, þó að forætisráðherrann vildi kenna Apple up. Þar eiga Finnar ekki síst í samkeppni við Svía, sem hafa haft "sveigjanlegri" gjaldmiðil.

Síðan eru auðvitað bæði efnahagsástandið í Rússlandi og innfluttningsbannið, erfitt fyrir Finna. En ýkir vandamálin þegar gjaldmiðillinn tekur ekkert mark af efnahagsástandinu. Það ver þess vegna sem Finnar þurfa að skera niður og lækka laun.

En hvernig það tekst til á eftir að koma í ljós, en mér þykir líklegt að það verði ekki þrautalaust.

G. Tómas Gunnarsson, 3.11.2015 kl. 10:48

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Því má svo auðvitað bæta við, að það er alls ekki svo að euroið hafi reynst öllu ríkjum illa. Þýskalandi og löndunum þar í kring (ekki þó Frakklandi) hefur það reynst vel. Í raun "sígengisfellt" gjaldmiðil þeirra og þannig aukið samkeppnishæfi þeirra og slagkraft í útflutning.

Það er ekki tilviljun að útflutningur Þýskalands stendur í blóma sem aldrei fyrr og atvinnuleysi hefur ekki verið lægra í langan tíma og er á meðal þess lægtsta ef ekki það lægsta á Eurosvæðinu.

Flestir telja að sjálfstæður gjaldmiðill Þýskalands væri á milli 20 og 30% sterkari en nú er.

Hversu mikil lífskjör það "rænir" þjóðverja læt ég öðrum eftir að dæma, en það myndi sömuleiðis líklega ræna stóran hóp þeirra atvinnunni.

En það er ólíklegt að hagsveiflur á Íslandi myndu vera í takt við "kjarnaríkin", nema þá í undantekningartilfellum.

Sem sést auðvitað vel núna, þegar uppsveifla er á Íslandi, en landið þyrfti að þola neikvæða stýrivexti og peningaprentun ef euroið væri gjaldmiðillinn.

P.S. Æ fleiri gera sér grein fyrir því hve illa hefði líklega farið fyrir Íslandi, ef euro hefði verið gjaldmiðillinn við bankahrunið.

Eftirfarandi má lesa í Kjarnanum, sem hefur þó ekki getað talist andstæðingur "Samgbandsins".

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í viðtali við vefinn Politico.eu að Ísland hefði getað orðið gjaldþrota, ef Ísland hefði gengið í Evrópusambandið eða verið í því þegar þrengdi á fjármálamörkuðum fyrir sjö árum, og í eftirleiknum árin á eftir.

"Þetta er líkast til rétt hjá Sigmundi Davíð, enda var vandi Íslands, haustið 2008 og mánuðina og árin á eftir, svo yfirþyrmandi að ekkert annað en einstök neyðarlagasetning og stórtækar aðgerðir á grundvelli hennar gat bjargað efnahagslegu sjálfstæði landsins. Líklega hefði aldrei verið hægt að grípa til hennar ef Ísland hefði ekki verið með eigin mynt og sjálfstæðan seðlabanka."

http://kjarninn.is/skodun/2015-11-03-kerfi-sem-var-daudanum-helgad-spurningar-um-peningastefnuna-adkallandi/

G. Tómas Gunnarsson, 3.11.2015 kl. 10:59

16 identicon

Hér varð algjört hrun 2008 en hvergi í evrulöndum. Þar varð aðeins alvarlegur samdráttur eins og hefði orðið hér ef vi hefðum haft evru.

Krónan olli hruninu. Gengi hennar hrundi um meira en helming áður en hið eiginlega hrun varð. Við það missti Ísland traust enda urðu skuldir við það óyfirstíganlegar enda höfðu þær meira en tvöfaldast vegna gengisbreytinga.

Ísland varð í raun gjaldþrota. Það sem bjargaði okkur var að við komumst upp með að gera bankainnistæður að forgangskröfum á kostnað kröfuhafa þvert á gildandi lög.

Það hefði þó ekki nægt ef við hefðum ekki fengið hagstæð lán frá AGS og nágrannaríkjum þrátt fyrir að hafa ekki uppfyllt skilyrðin um að semja um Icesasave. 

Fullyrðingin um að krónan hafi bjargað okkur upp úr hruninu er fáránleg vegna þess að hun byggir á samanburði við þann ómöguleika að við hefðum haft krónu fram að hruni en evru eftir það.

Að sjálfsögðu hefur hrun NOKIA haft gífurleg áhrif á efnahag Finna. Með tilkomu snjallsíma reyndist NOKIA, sem var langstærsti farsímaframleiðandi í heimi, ekki samkeppnishæft lengur. Nú er svo komið að markaðshlutdeildin er mjög lítil auk þess sem farsímadeildin hefur verið seld úr landi.

Verðmæti hlutabréfa í NOKIA var á sínum tíma meirihluti verðmætis allra hlutabréfa á finnska markaðnum. Það sem er alvarlegast við hrun NOKIA er að það er varanlegt en ekki liður í efnahags

sveiflum.

Það eru því eðlilegar ytri ástæður fyrir því að Finnar eru á sömu slóðum og Ísland á listanum yfir efnahag. Af öðrum Norðurlöndum eru ESB-þjóðirnar Danmörk og Svíþjóð hins vegar í 1. og 2. sæti og Norðmenn í 5. sæti.

Með öðrum orðum er efnahagsástandið hvergi betra í heiminum en á tveim Norðurlöndum sem eru í ESB. Landið í fyrsta sæti er með gjadmiðil sem er bundinn við evru. Ísland hefur því alla mögueika á að blómstra í ESB.

Það má vera að uppsveiflan á Íslandi haldi áfram einhver ár. En það er eins víst að eftir hana fáum við dýfu ef við verðum enn utan ESB með krónu sem gjaldmiðil.

Það er athyglisvert hvað Ísland er neðarlega á lista yfir efnahag í ljósi þeirra fórna sem hafa verið færðar með heilbrigðiskerfið, menntakerfið, menningargeirann ofl þar sem að margra mati hefur verið unnið óbætanlegt tjón. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.11.2015 kl. 15:05

17 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Það varð ekki algert hrun á Íslandi 2008, en mjög alvarlegt bankahrun. Ég held að sagan sýni að hrunið var ekki eins slæmt og upphaflega var talið, sem aftur lýsir sér í því að eftirleikurinn varð aldrei eins alvarlegur eða erfiður og ýmsir spáðu.

Hrun  varð víðar, og hefði orðið mun alvarlegra ef ekki hefði komið til aðstoð. Ekki síst frá Bandaríska seðlabankanum. Ef hann hefði ekki gert umfangsmikla gjaldmiðlaskiptasamninga við ýmsa seðlabanka Evrópuríkja hefði hrunið í evrópuríkjum orðið mun umfangsmeira og alvarlegra.

Enn einu sinni þurftu mörg ríki Evrópu að reiða sig á aðstoð frá Bandaríkjunum.

Og alvarlegt hrun varð á Írlandi, Spáni, í Portugal, í Grikklandi og á Kýpur.

Það að þessum ríkjum var lánaðar gríðarfjárhæðir þýðir ekki að ekki hafi orðið bankahrun þar. Tvær af þessum þjóðum þurftu að setja ströng höft, jafnvel á notkun lögeyris síns, sem þó aldrei þurfti á Íslandi.

Notkun euros kom ekki í veg fyrir hrun í þessum löndum.

Eingöngu aðstoð Seðlabanka Bandaríkjanna kom í veg fyrir bankahrun í Danmörku (sem notar þó ekki euro).

Eigin gjaldmiðill og það að standa utan við ESB gerði Íslendingum kleyft að taka eigin ákvarðanir og setja lög óháð "Sambandinu". Öfugt til dæmis við íra.

Enda eru æ fleiri að skilja (eins og kemur fram í Kjarnanum) hve hlutskipti Íslands hefði orðið erfiðara ef euro hefði verið gjaldmiðillinn þegar bankahrunið varð.

IMF lánin björguðu engu á Íslandi, enda voru þau aldrei notuð. Af þeim voru hins vegar borgaðir býsna háir vextir. Ráðleggingar IMF komu hins vegar margar án ef að góðum notum.

Partur af vandræðum Nokia var auðvitað mikill kostnaður í euroum, en að keppa á markaði sem er fyrst og fremst í US dollurum. Þróunkostnaður og framleiðsla í euroum í Finnlandi gerði fyrirtækinu verulega erfitt fyrir.

Ef þú ert að vitna til "prosperity" listans, er Svíþjóð í 7. sæti og Danmörk í því 9, á "efnahagsdálkinum", nokkuð á eftir Noregi sem er í 4. þú verður að fara rétt með.

Svíar eru ekki með euro og danir eru með krónuna tengda við euro, en þó með vikmörkum sem gefur þeim sveigjanleika. Þeir hafa þó orðið (eins og svíar) að grípa til verulegra vaxtalækkana og peningaprentunar til að hindra að gjaldmiðlar þeirra stígi verulega þegar mikill flótti er úr euroinu.

Besta efnahagsástandið af Norðurlöndunum er í Noregi, sem er ekki í ESB og að sjálfsögðu ekki með euro.

Hvað veistu um margar þjóðir innan "Sambandsins" sem hafa náð í álíka mæli og Ísland að greiða niður opinberar skuldir undanfarin ár (og þá er ég ekki að taka "stöðugleikasvingið með í reikningin)?

Heilbrigðiskerfið og menntakerfið á Íslandi stendur í raun ótrúlega vel í samanburði við "Sambandið" eins og fram kemur bæði í "prosperity" skýrslunni og t.d. PISA.

En það þýðir ekki að það megi ekki gera betur.

G. Tómas Gunnarsson, 3.11.2015 kl. 18:03

18 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má svo ef til vill bæta því við hér að er ástæða er til að hafa áhyggjur af "prosperity" skýrslunni, væri það ef til vill ekki síst vegna þess að hún bendir til hnignunar evrópuríkja sem heildar.

Hvers vegna skyldi það vera?

G. Tómas Gunnarsson, 3.11.2015 kl. 18:06

19 identicon

Ef þú vilt kalla það hrun sem gerðist í ESB-löndum 2008 þá verðurðu að finna annað orð um það sem gerðist á Íslandi.

Hér hrundi fjármálakerfið eftir að krónan hafði hrunið um meira en helming. Alls staðar var komið að lokuðum dyrum varðandi lántökur til bjargar bönkunum.

Í ESB-löndum féllu aðeins einstakir bankar og innistæðutryggingarsjóðir réðu við að ábyrgjast innistæður. Lán til bjargar bönkum voru í boði.

Það má tala um hrun í Grikklandi, þó að það hafi verið allt annars eðlis. Það tengdist heldur ekki beint atburðunum 2008. Það varð ekki fyrr en nokkrum misserum seinna.

Á Írlandi varð ekki hrun vegna þess að öfugt við Íslendinga fengu Írar lánafyrirgreiðslu til að halda bönkunum gangandi. Auðvitað hefðu bankarnir getað farið gjaldþrot eins og varð raunin með marga banka í ESB-löndunum. 

Írsk stjórnvöld töldu hins vegar að hrun fjármálkerfisins myndi hafa svo skelfilegar afleiðingar að það væri þess virði að ríkið ábyrgðist lán til bankanna. ESB hafði ekkert með það að gera.

Írar hefðu aldrei getað tekið sér Íslendinga til fyrirmyndar. Hér hrundi fjármálakerfið vegna þess að engin lán fengust til að halda bönkunum gangandi. Írum buðust hins vegar slík lán og gátu því bjargað sínum bönkum.

Eftir hrun hefur Írlandi vegnað mun betur en Íslendingum. Efnahagsmálin þar eru í 18. sæti á umræddum lista en 31. sæti hér. Þeir eru einnig framar okkar í heildareinkunn. Ímyndun margra Íslendinga um að okkur hafi gengið svo miklu betur en Írum eftir hrun er því alls ekki á rökum reist. 

ESB- og evrulöndin koma sérstaklega vel út úr þessari mælingu. 7 af 10 efstu löndum varðandi efnahagsmál eru í ESB og 6 af 10 í heildareinkunn. Það er frábær árangur þegar um allan heiminn er að ræða.

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.11.2015 kl. 21:45

20 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Þú hlýtur að vera með annan lista en hég hef. Á því eintaki sem ég hef af "prosperity" skýrslunni, er 5 "Sambandslönd" á top 10 í heildareinkunn. Danmörk, Svíþjóð, Holland, Finnland og Írland. Þau eru jafnframt einu "Sambandslöndin" sem eru fyrir framan Ísland.

Hvað varðar efnahagsmálin get ég heldur ekki séð nema 5 lönd í "Sambandinu" á top 10. Það er Þýskaland (5.sæti), Luxemburg (6.), Svíþjóð (7.), Danmörk (9.) og Holland (10). Hin sætin á top 10 eru skipuð, Singapore (1), Sviss (2), Kína (3), Noregi (4) og Kanada (8). Næsta "Sambandsland" er svo ekki fyrr en í 18. sæti (Írland).

Auðvitað má deila um hvaða orð er best að nota, en í raun varð ekki síður bankahrun á Írlandi (og í raun mun víðar), en á Íslandi. Munurinn var hins vegar sá að fé var ausið á það bál, þannig að áhrifin komu ekki jafn skarpt fram, en ennþá er verið að berjast við þau.

Björgunin var ekki síst möguleg vegna "swapsamninga" við Bandaríska seðlabankann, og flestir virðast telja að að án þess hefði björgunin í raun ekki verið möguleg.

En það hefur komið í ljós að það var fyrir þrýsting frá Seðlabanka Eurosvæðisins sem Írar fóru þessa leið, sem margir þar eru ekki sáttir við enn.

Írar eru framar Íslendingum um 2. sæti í heildareinkunn, en 13. hvað varðar efnahaginn.  Það er eitthvað sem segir mér að það eigi eftir að jafnast á næstu árum og Íslendingar líklega að fara fram fyrir Írland, nú þegar skuldir íslenska ríkisins eru að lækka svo hratt.

En ekki þar fyrir að Írland hefur staðið sig ágætlega, ekki síst því að þakka að Írland er frekar það sem kalla má "anglo saxon" hagkerfi en "evrópskt".

Tveir stærstu útflutningsmarkaðir Írlands eru Bandaríkin og Bretland og Bandaríkin sínu stærri. En saman eru þessi tvö lönd með u.þ.b. 40% af útflutningi íra.

En Írland hefur einnig góðar tekjur af "skattaskjólsfyrirtækjum", sem vissulega hefur hjálpað þeim mikið, en sætir vaxandi gagnrýni. "Double Irish" hefur hjálpað mörgum fyrirtækjum við skattaundanskot, en skapar ÍRlandi vissulega góðar tekjur. Það er talað um að hugsanlegur samruni Pfizer og Allergen (Actavis) sé fyrst og fremst hugsaður til að koma Pfizer í írskt skattaskjól.

Það er að hluta til þess vegna sem mörgum finnst að "góðar tölur" íra skili sér lítt til almennings. Atvinnleysi er enn hátt, húsnæðismarkaður erfiður og vanskil enn gríðarleg.

http://www.finfacts.ie/irishfinancenews/article_1028148.shtm

Hér er svo einstaklingur sem hikar ekki við að tala um banka/fasteignhrun á Írlandi: http://www.independent.ie/opinion/columnists/dan-obrien/mortgage-arrears-among-the-worst-and-longestlasting-legacies-of-crash-31498654.html

Þýskaland, Danmörk, Svíþjóð, Luxemborg og Holland hafa um aldir verið velstödd þjóðfélög. Það að þau hafi haldið áfram að vera það innan "Sambandsins", getur varla talist stórkostlegt afrek.  Ætli megi ekki þakka velmegun Þýskalands Bandaríkjunum (Marshall aðstoðinni) meira en "Sambandinu". En vissulega auka frjálsari viðskipti velmegun og ef til vill ætti "Sambandið" fyrst og fremst að helga sig þeim, rétt eins og margir bretar vilja.

G. Tómas Gunnarsson, 4.11.2015 kl. 07:52

21 identicon

Það er rétt hjá þér að þetta eru fimm lönd í báðum flokkum. Ég átta mig ekki á hvernig ég komst að annarri niðurstöðu.

Helmingur er þó meðmæli með ESB. Sérstaklega er athyglisvert að því er varðar efnahagsmálin er aðeins eitt þessara landa ekki með evru eða með tengsl við evru.

Þú virðist engan veginn átta þig á þeirri alvarlegu stöðu sem hér var þegar Geir Haarde bað guð um að blessa Ísland.

ESB-þjóðirnar komust hjá hruni vegna þess að þær fengu lánafyrirgreiðslu sem þær gátu staðið undir. Hér varð hrun vegna þess að Ísland skuldaði of mikið til að slík lán kæmu að gagni. Þau voru því ekki fáanleg. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.11.2015 kl. 08:49

22 identicon

Hvers vegna skuldaði Ísland svona mikið þegar hrunið varð?

Það var fyrst og fremst vegna krónunnar en gengi hennar hafði hrunið um meira en helming. Það þýddi að erlendar skuldir, sem að meirihluta voru skuldir bankanna, meira en tvöfölduðust. Eftir hrun krónunnar var almennt talið að Ísland gæti ekki greitt sínar skuldir.

Þannig var krónan helsti orsakavaldur hrunsins. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.11.2015 kl. 10:43

23 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Eins og ég sagði áður, þá getur það ekki talist stórkostlegt afrek þó að þau ríki sem ríkt hefur velmegun í um hundruði ára, og hafa alla þá tíð verið með ríkustu þjóðum heims, hafi tekist að viðhalda því innan "Sambandsins". Eins og ég sagði sömuleiðis áður má líklega frekar rekja velmegun ´t.d. í Þýskalandi til Marshall aðstoðar en Evrópusambandsins.

Þó að staðan hafi vissulega ekki verið góð þegar íslenska bankakerfið hrundi, held ég að á margan hátt hafi verið gert of mikið úr erfiðleikunum. Það sem skipti þó mestu máli er að íslenska stjórnkerfið stóð sig vel og vann fumlaust þó að vissulega megi deila um einstök atriði. Undirliggjandi styrkur íslenska hagkerfisins hefur síðan komið í ljós, hvernig það kláraði sig án þess að þurfa raunverulega að ganga á þau lán sem voru tekin o.s.frv.

En auðvitað er mun auðveldara að sjá slíkt nú, en var þá í miðri hringiðunni.

"Sambandsþjóðirnar" margar hverjar komust hjá hruni vegna þess að þær fengu lánafyrirgreiðslu. Ekki síst, hversu merkilegt það kann að hljóða, að bankar þeirra fengu beina lánafyrirgreiðslu frá Bandarísks seðlabankunum, auk þess að seðlabankar í Evrópu fengu sömuleiðis lán frá þeim bandaríska (swapdíla).

Hvort að hægt hefði verið að bjarga íslensku bönkunum með svipaðri fyrirgreiðslu er erfitt að segja til um, en þó er vert að gefa því gaum að endurheimtur í gegnum þrotabú þeirra hafa verið mun hærri en reiknað var með, sem gefur til kynna að lánasöfn þeirra hafi verið vanmetin. Það þarf einnig að taka tillit til þess að margar eigur þeirra voru seldar á sannkölluðum brunaútsölum og töpuðust þannig mikil verðmæti.

En það er hinsvegar alveg rétt hjá þér að slík lán voru ekki í boði.

Hvað varðar gengisfall krónunnar, má í raun frekar segja að bankarnir hafi fellt krónuna, en að krónan hafi fellt bankana.

Bankarnir féllu á því (sem er svo algengt í raun með banka) að þeir lánuðu til lengri tíma en þeir fengu lán.

Þegar heildsölulánamarkaðurinn lokaðist (og það var langt í frá eingöngu fyrir íslensku bankana) lentu þeir í standandi vandræðum. Þeir fóru því m.a. að kaupa allan þann gjaldeyri sem þeir gátu "ryksugað" upp á Íslandi. Það felldi að sjálfsögðu krónuna (þó að það væri ekki eina aflið á þeim tíma, því vissulega voru fleiri á "leið úr landinu".).

En þú verður að gera þér grein fyrir því að bankarnir (eins og við tölum um þá) voru ekki íslenskir bankar, í eiginlegum skilningi þó að þeir væru með höfuðstöðvar á Íslandi.

Þeir voru "evrópskir bankar", með starfstöðvar í fjölda landa í Evrópu og í Ameríku.

Þannig voru rétt tæplega 70 af lánum og tekjum Kaupþings utan Íslands. Þannig að skuldir bankanna jukust ekki svo mikið, þó að krónan félli. Hjá Íslandsbanka var hlutfallið 50 og eitthvað prósent, ef ég man rétt. Landsbankinn var þó ennþá með í kringum 50% hlutfall á Íslandi, líklega heldur undir.

Það var heldur ekki eins og að íslensku bankarnir væru þeir einu sem riðuðu til falls þessa daga.

Hundruðir milljarða bandaríkjadollar voru lánðir beint frá Seðlabanka Bandaríkjanna til evrópskra banka, plús það sem var lánað til seðlabanka í Evrópu:

"It wasn’t just American finance. Almost half of the Fed’s top 30 borrowers, measured by peak balances, were European firms. They included Edinburgh-based Royal Bank of Scotland Plc, which took $84.5 billion, the most of any non-U.S. lender, and Zurich-based UBS AG, which got $77.2 billion. Germany’s Hypo Real Estate Holding AG borrowed $28.7 billion, an average of $21 million for each of its 1,366 employees.

The largest borrowers also included Dexia SA, Belgium’s biggest bank by assets, and Societe Generale SA, based in Paris, whose bond-insurance prices have surged in the past month as investors speculated that the spreading sovereign debt crisis in Europe might increase their chances of default.

The $1.2 trillion peak on Dec. 5, 2008 -- the combined outstanding balance under the seven programs tallied by Bloomberg -- was almost three times the size of the U.S. federal budget deficit that year and more than the total earnings of all federally insured banks in the U.S. for the decade through 2010, according to data compiled by Bloomberg."

http://www.bloomberg.com/news/articles/2011-08-21/wall-street-aristocracy-got-1-2-trillion-in-fed-s-secret-loans

Það er hellings meira lesefni um þetta á netinu, ef þú nennir að leita.

Hvers vegna bjargaði ekki Seðlabanki Eurosvæðisins bönkum í Frakklandi, Þýskalandi og Belgíu, svo dæmi séu tekin?

Líklega vegna þess að Seðlabanki Eurosvæðisins var "lamaður og dasaður" og réði í raun ekki við verkefnið. Það þurfti Bandaríkin til, enn eina ferðina.

En Eurokrísan er langt í frá búin, og enn er ekki ljóst hver niðurstaðan verður. Og enn er tiltektinni ekki lokið í bankakerfinu í Evrópu og líklega á mikið eftir að ganga á áður en yfir líkur.

En eins ég sagði áður, voru það frekar bankarnir sem felldu krónuna, en krónan sem felldi bankana.  En eðlilega gaf hún eftir, eins og eðlilegt er, þegar jafn stór hluti íslensks efnahagslífs var komin í vandræði eins og raun bar vitni.

G. Tómas Gunnarsson, 4.11.2015 kl. 18:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband