Svolítið bergmál frá 2007

Sunnudagur 04.11.2007 - 13:29 - Ummæli (0)

Innblásin útrásarræða Össurar á flokksstjórnarfundi

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sagði í Silfri Egils í dag að hann teldi það besta kostinn að endurtaka samruna Reykjavik Energy Invest og Geysis Green Energy. Ef það gerist ekki sé hætta á því að GGE muni fá slíkt forskot að fyrirtækið verði eitt um að hagnast á þeim verðmætum sem liggja í íslenskri sérþekkingu á raforkuframleiðslu úr jarðvarma.

Aðalefni flokkstjórnarfundar Samfylkingarinnar í dag var ræða Össurar um orkumál – og er ekki ofsagt að sú ræða hafi verið innblásinn málflutningur í þágu útrásar með íslenska þekkingu á sviði nýtingu jarðvarma. Össur komst ekki sjálfur á fundinn vegna veikinda en Einar Karl Haraldsson, aðstoðarmaður hans, flutti hana fyrir hans hönd.

Í ræðu Össurar kom fram að hann telur núverandi löggjöf um orkumál allsendis ófullnægandi og hann hyggst fela sérfræðingum að meta á faglegan hátt hagrænar afleiðingar af aukinni álframleiðslu á næstu árum. „Upplýsingar sem þannig fengjust ættu að auka möguleika til þess að stýra fjárfestingunum eða afstýra þeim ef niðurstöður benda til þess að verkefni setji efnahagslífið á annan endann. Nú standa yfir viðræður við fjármálaráðuneytið og Hagfræðideild Háskóla Íslands um útfærslu og framkvæmd málsins. Greinargerð með niðurstöðum úr þessu mati ætti að liggja fyrir á útmánuðum,“ sagði Össur sem varaði við því að öll nýtanlega orka landsins yrði sett í álframleiðslu.

En veigamestu kaflar ræðu Össurar snúa að útrásinni og þeim umræðum sem fram fara um hana í landinu um þessar mundir. Eyjan birtir hér á eftir nokkra kafla ræðunnar sem að því snúa en ræðuna sjálfa er hægt að lesa með því að smella á tengil á .pdf skjal neðst í fréttinni:

„Útrásin er nú komin á flugskrið. Ég tel litlar líkur á að atburðir og deilur síðustu vikna breyti því. Það kunna að koma aðrir leikendur til skjalanna, en útrásin mun halda áfram. Víða um lönd hafa íslensk fyrirtæki, Enex, Geysir Green Energy, og hið umdeilda dótturfyrirtæki Orkuveitunnar, REI, ásamt dótturfyrirtækjum, ýmist ein og sér, eða í samvinnu, eða jafnvel í samvinnu við erlend fyrirtæki í viðkomandi löndum, verið að hasla sér völl.

Haldi útrásin áfram með núverandi skriði er líklegt að á næstu 2-3 árum muni hún fyrst og fremst felast í tvennu. Annars vegar munu íslensku útrásarfyrirtækin halda áfram að kaupa sig inn í, eða yfirtaka orkufyrirtæki sem eru starfandi. Hins vegar munu þau halda áfram að verða sér úti um ný svæði, sem enn eru ónýtt, einsog í stóru jarðhitalöndunum á borð við Indónesíu, og hefja þar uppbyggingu. Það tekur nokkur ár að hefja vinnslu á ónýttum svæðum, en flest þeirra sem eru á radar íslensku fyrirtækjanna hafa þegar verið kortlögð og rannsökuð, mörg af fyrrverandi nemendum íslenska jarðhitaháskólans.

Íslenskar fjárfestingar á sviði jarðorku gætu því á næstu 2-3 árum orðið 50 – 100 milljarðar á ári, en gætu síðar miðað við áætlanir þeirra sem stýra útrásinni aukist í 2-300 milljarða á ári. Miðað við þann mikla áhuga sem er á alþjóðlega vísu á því að virkja jarðhita, og þær undirtektir sem íslensku útrásarfyrirtækin hafa fengið í stóru jarðhitalöndunum, einsog Indónesíu, Filippseyjum og Bandaríkjunum, þá er ekki ólíklegt að innan 10 ára gætu fjárfestingar íslenskra útrásarfyrirtækja á sviði jarðorku numið yfir 2 þúsundum milljarða íslenskra króna og í hreinni íslenskri eign yrðu þá 10-15 þúsund MW jarðorkuvirki – í 20 til 30 löndum. Til samanburðar má nefna að uppsett afl jarðvarmavirkjana í heiminum er um 9 þúsund MW í dag, miðað við síðustu fáanlegar tölur.

Þetta kunna að þykja mjög stórar tölur en eru þó hóflegri en þær, sem byggja á bjartsýnustu áætlunum. Gengju þessi áform útrásarinnar eftir þá eru þetta samt sem áður innan við 0,3% af orkumarkaði heimsins.

[...]

Við sem jafnaðarmenn verðum að gera okkur grein fyrir að útrásin snýst ekki aðeins um að finna íslenskum höndum og hugum viðfang, eða ávaxta íslenskt fjármagn. Hún snýst líka um allt annað og meira. Tökum Djíbútí, þar sem Íslendingar eru á leið í níu milljarða fjárfestingar, til að virkja jarðhita í Sprungudalnum mikla sem liggur um Austur-Afríku. Þar er mikill orkuskortur, sem stendur bæði heilbrigði landsmanna og uppbyggingu atvinnulífs fyrir þrifum. Það rafmagn, sem þar er falt, er allt framleitt með litlum dísilrafstöðvum. Það mengar, og það er ótryggt. Það sem skiptir kanski mestu fyrir líf fólksins í Djíbútí er að það er fokdýrt. Þar kostar kílówattstundin 17-18 sent. Íslensku orkufyrirtækin gætu með því að virkja jarðhitann rafvætt Djíbútí og selt landsmönnum rafmagn, fyrir þriðjung af því verði sem menn borga í dag. Þetta snýst þessvegna líka um það að lyfta kjörum fátæks fólks, og gera líf þess léttara. Er það ekki líka okkar hlutverk?

Okkar hlutverk er að ýta fram jarðhitanum. Við kunnum að vera lítil þjóð, en á sviði jarðhita og orkuvinnslu úr jörðu erum við stórþjóð. Við höfum því móralska skyldu til að koma okkar þekkingu á framfæri, og ýta við öðrum þjóðum að ráðast í nýtingu sinna eigin jarðorkulinda. Það getur orðið okkar mikilvægasta framlag til að leysa vandamálin sem stafa af hlýnun jarðar.

[...]

Við þurfum líka að gæta þess að hafa ekki öll okkar orkuegg í einungis einni körfu, og verðum að kosta kapps um að það sé rúm fyrir fleiri orkufrek fyrirtæki en aðeins álfyrirtækin – ekki síst þau sem menga lítið, og skapa mikla atvinnu fyrir jafnt iðnaðarmenn, ófaglært fólk og háskólagengið.

Við eigum líka að styðja útrás orkufyrirtækjanna af kappi, hvað sem þau heita, og skapa þannig í senn aukna vinnu fyrir íslenskt hug- og verksvit, ódýra orku fyrir almenning í fátækum löndum, og leggja okkar af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda.“

Fréttin er ættuð héðan.

Í fréttinni sem þessi færsla er hengd við má svo sjá hver urðu örlög Geysir Green Energy, sem óttast var að fengi.... "slíkt forskot að fyrirtækið verði eitt um að hagnast á þeim verðmætum sem liggja í íslenskri sérþekkingu á raforkuframleiðslu úr jarðvarma."

Ef til fær þetta Íslendinga til að hugleiða hver áhættan er, þegar halda á í "útrás" á erlenda markaði.  Ef til vill ekki síst þegar stjórnmálamenn tala eins og "milljarðarnir bíði handan við hornið og einungis þurfi að sækja þá".

Vissulega er Íslensk þekking enn að störfum í jarðhitaverkefnum víða um heim, og það er vel, en eins og flestum tilfellum öðrum, borgar sig að fara hægar yfir og byggja ekki upp óeðilegar væntingar.

Það er líka rétt að gjalda varhug við því þegar stjórnmálamenn vilja stefna opinberum og hálfopinberum fyrirtækjum í stórfelldar fjárfestingar til að "græða vel" fyrir skattborgarana.

En nú er svo kominn annar "gullpottur undir regnboganum" í umræðuna. Jarðstrengur til Bretlands. Umframorkan (sem finnst þó ekki á álagspunktum) á Íslandi er milljarða virði út í Bretlandi og enn og aftur má svo skilja að lítið þurfi að gera nema að "sækja þá".

Enn og aftur eru opinberir aðilar í aðstöðu til að "græða vel" fyrir skattborgarana og Íslendingar geta lifað "happí ever after", eða svo gott sem.

Er ekki jafn rík ástæða til að staldra við, nú sem árið 2007?

 

 

 

 

 


mbl.is 28,5 milljarða gjaldþrot GGE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband