Auðvitað þarf ekki að notfæra sér tjáningarfrelsið

Það má oft heyra talað á þeim nótum að við þurfum ekkert að vera að birta skopmyndir sem særa eða móðga einhverja sem tilheyra þessum eða hinum trúarhópnum.

Og það er alveg rétt.

Enda eru líklega flestir sem ekki gera það.

Sumir hafa þó gaman af því að skoða góðar skopmyndir og aðrir hafa gaman af því að gera þær.  Sumar eru rætnar o.s.frv.

En það er svo mart sem við þurfum ekkert að gera.

Konur þurfa auðvitað ekkert heldur að vera að fara í sundbol, hvað þá bikini.  Það eru til sundföt sem hylja líkamann svo til alveg.  Það tapar enginn neitt á því að skilja meira eftir handa ímyndunaraflinu.

Það er heldur engin ástæða fyrir þær að vera alltaf að sýna sig í stuttum pilsum, varalitaðar, með augnskugga og alls kyns annað undarlegt sem ég kann ekki að nefna.  Það eru til einstaklingar sem finnst slíkt ekki tilhlýðilegt og þetta er auðvitað algerlega óþarft, svo ekki sé minnst á randýrt.  Flest af þessu er svo keypt fyrir dýrmætan gjaldeyri. 

Það er ekki eins og konur séu ekki fallegar ómálaðar og kappklæddar.

Og við karlar, við þurfum auðvitað ekkert að vera að raka okkur.  Það finnst mörgum ekki tilhlýðilegt að fullorðnir karlmenn séu alveg "allsberir" í framan.  Það er heldur ekki eins og þau kosti ekkert rakvélarblöðin.  Sem betur fer er þó tíska núna að safna skeggi, þannig að Íslendingar líta út fyrir að vera þokkalega trúræknir.  Hver veit, það getur ef til vill aukið fjölda múslimskra ferðamanna, ef við reynum að skapa áreitisminna umhverfi.  Þetta fer líka ljómandi vel við lopapeysur.

Það væri nú ekki til of mikils mælst að hvíldardagar væru virtir.  Auðvitað er það sárt fyrir marga að sjá Mammon tilbeðinn alla daga vikunnar, á mörgum stöðum 24 tíma á sólarhring.  Það myndi nú ekki kosta okkur mikið að sýna þessa tilitssemi, frekar að það sparaði okkur fé.

Og áfengisdrykkjan.  Áfengi á boðstólum alla daga út um allt.  Ungt fólk sullandi í áfengi helgi eftir helgi.  Auðvitað er það augljóst að slíkt gera ekki einstaklingar sem bera virðingu fyrir guði.  Það getur tekið á taugarnar að horfa upp á slíkt fyrir þá sem "vita betur".  Og það er auðvitað svo að mörg okkar mega alveg við því að drekka minna, og við getum sem best gert það heima hjá okkur.  Svona bara prívat.

Svo er eitt sem er alger óþarfi, það er að vera alltaf að skipta sér af því sem "nágranninn" er að gera.  Það er auðvitað erfitt vegna þess að oftast nær "vitum" við svo mikið meira og betur en hann. 

Og ef að hann er að gefa eitthvað út sem okkur líkar ekki, þá kaupum við það ekki, og lesum það ekki.

Og lifum hamingjusöm upp frá því, eða hvað?

 

charlie 5

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kona sem er ein á ferð og jafnvel léttklædd er auðvitað algjör drusla sem kallar á að vera nauðgað sbr. kannski þetta varðandi Svíþjóð:  " In addition, immigrants were three times more likely to be investigated for violent assault, and five times more likely to be investigated for sex crimes. Those from North Africa and Western Asia were overrepresented."    http://en.wikipedia.org/wiki/Immigration_and_crime#Sweden

Annars er ofstopinn í íslensku hneykslunarumræðunni að verða slíkur að maður er farinn að veigra sér við að benda ættingjum og vinum (facebook) á það er sannara reynist. Sá sem vogar sér að benda á innantómt hneykslunarkórsframsóknarandúðarofstækið er í stórri hættu að verða bannfærður eða í það minnsta verður að skerða eigið tjáningafrelsi til að eiga ekki vinslit á hættu ;-)  

Svo er reyndar stórmerkilegt þegar svona atburðir verða eins og í París að þá verður það "afneiturum" sönnun þess að svona muni ekki gerast. 

Alveg eins og það að þó að upp komist um múslimska öfgaklíku á bak við verknaðinn þá skal samt útskýra verknaðinn sem glæp (ekki nánar skilgreint) eða geðveiki. Væntanlega til að sleppa við að þurfa að horfast í augu við sannleikann sem er sá að mikil hætta steðjar að samfélögum á vesturlöndum vegna öfgasinnaðra múslima sem fæstir eru  geðveikir né glæpamenn í venjulegum skilningi heldur trúarofstækismenn.

"Ghaffar Hussain of anti-radicalization charity the Quilliam Foundation argued that the number of British Muslims being drawn to Islamic State and other organisations meant that the UK was “definitely” losing the fight against radical extremism."

 http://www.newsweek.com/twice-many-british-muslims-fighting-isis-armed-forces-265865

Það er reyndar merkileg tilviljun að varnaðarorð Sveinbjargar borgarfulltrúa skyldu kristallast svona í sömu vikunni: Hryðjuverk öfgatrúaðra múslima og  þörfin fyrir Reykjavíkurflugvöll og þá ALLAR brautirnar.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 14.1.2015 kl. 14:01

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

 @Bjarni Gunnlaugur   Takk fyrir þetta.  Ég er þeirra skoðunar að umræðan sé þörf, en hún þarf líka að vera rökrétt og án sleggjudóma og alhæfinga.

Þar vantar mikið á.

Eftir ábendingu kunningja míns hlustaði ég á Í Bítið á Bylgjunni, þar sem rætt var við formann annars múslima safnaðar eða félags á Íslandi.  Þar mátti hringja inn.

Umræðan var ömurleg.  Hreint út sagt, og það var ekki múslimanum að kenna. Íslendingarnir sem hringdu inn komu í stórum dráttum úr tveimur áttum.  Annaðhvort þeirri "crackpot ídíótsku", því get ekki fundið annað orð, þó ég sé ekki hrifinn af því að nota slíkt.  Eða "Hálsakógaráttinni", sem lagði ef til vill ekki mikið til umræðunnar, en er þó tvímælalaust skárri.

Engin spurning af viti kom fram.

En ef eitthvað á að gerast annað en "polarisering" (þá er ég ekki að tala um Ísland, heldur frekar Evrópu almennt) verðum við að vinna með hófsömum múslimum og taka upp frekara samstarf við þá.

Ég fylgdist nú ekki grannt með umræðunni fyrir borgarstjórnarkosningarnar, en gerði slíkt úr fjarlægð.

Mig rekur ekki minni til þess að Sveinbjörg kastaði fram mörgum "spádómum".  En hún mælti gegn moskubygginug.

Þar er ég ekki sammála, ég get ekki séð tilgangin í því að koma í veg fyrir slíka byggingu.

En málið vakti hins vegar athygli á því að kirkjur og tilbeiðsluhús fá fríar lóðir.  Því er ég á móti og vil að verði lagt af.

Það var það eina jákvæða sem ég sá við þá umræðu.

G. Tómas Gunnarsson, 14.1.2015 kl. 16:59

3 identicon

Ég heyrði viðtal á útvarpi Sögu nýlega sem Arnþrúður átti við Salman Tamimi. Arnþrúður ætlaði greinilega að taka karlinn á beinið en má eiga það að hún lét fréttakonuna i sér ráða að mestu. Salmann á hinn bóginn stóð sig frábærlega vel og var afskaplega rökfastur. Hrifnastur var ég þó af því hve karlinn er seigur í íslenskunni. Mér finnst mér sómi sýndur sem Íslendingi að heyra mann og það af gjörólíku málsvæði, hafa sett sig svona vel i tungumálið. 

 Þó ég hafi ekki verið sáttur við orð Salmans í fyrra um gildi sharia laga og handarhögg þjófa þá vil ég trúa því að þetta sé heiðvirður og hófsamur múslimi, rétt eins og langflestir aðrir íslendingar múslimir eður ekki.

Varðandi moskuumræðuna og Sveinbjörgu þá var þar margt að athuga og menn gleymdu algjörlega að anda með nefinu i því máli rétt eins og nú varðandi ummæli Ásmunds sem sum hver eru sjálfsögð og eðlileg sbr. sjónvarpsfréttir nú um hugmyndir Dana hvernig eigi að taka á þeim sem fari að berjast með ISIS.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 14.1.2015 kl. 22:04

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Bjarni Gunnlaugur   Takk fyrir þetta.  Ég hef ekki heyrt þetta viðtal og hlusta eiginlega aldrei á Sögu.  Það er einfaldlega svo margt annað að gera að ég hlusta eiginlega aldrei á útvarp og horfi næstum aldrei á sjónvarp, nema þegar mér er bennt á eitthvað athyglisvert.

Ég reyni ef til vill að finna þetta ef dauð stund kemur.

Það geta allir misst sig.  Þá er mest áríðandi að beygja sig að biðjast afsökunar, viðurkenna mistökin. 

Verst ef að mistökin eru gerð til einskis, vegna þess að við lærum ekkert af þeim.

Ég hef orðið var við að margir hafa illan bifur á honum, en ég ætla ekki að dæma hann út frá reiðiskasti.  Ég sagði þó einhverntíma eftir þetta að Samtök verslunarinnar myndu ábyggilega vilja fá hann sem forvarnarfulltrúa.

Það eru tvær moskur starfandi á Íslandi.  Hvaða tilgangi þjónar það að berjast gegn því að önnur þeirra flytji í nýtt húsnæði?

Ásmundur gerði mistök.  Hann setti mál sitt fram á rangan hátt, en ég er alveg sammála því að óþarflega mikið var gert úr því.

En menn þurfa að vanda sig, og velta því líka fyrir sér hvort að "Feisbúkk" er réttur pólítískur vettvangur.

Að setja inn hálf hráar hugdettur, svona á "hlaupum" getur verið verulega varasamt.

Það má virkileg læra af þessu máli.

G. Tómas Gunnarsson, 14.1.2015 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband