Brosandi bulla þeir um IceSave

Nú kringum jól og áramót mátti sjá ýmis skrif um endurheimtur Breta og Hollendinga á þim fjármunum sem þeir lögðu fram til reikninghafa IceSave. 

Eins fram hefur komið eru heimturnar all góðar og betri en oft var reiknað með.  Enginn vissi fyrirfram hvernig þær myndu ganga.

En nú þegar upplýst var að Bretar og Hollendingar hefðu fengið u.þ.b. 85% af höfuðstól krafna sinna greitt, upphófst skrýtinn málflutningur víða.

Það var byrjað að tala um að Íslendingar væru að greiða IceSave, með bros á vör. Ýjað að því að allt umstangið hefði verið blekking, þjóðaratkvæðagreiðslurnar óþarfi og allt væri eiginlega í þeim farvegi sem þeir sem vildu semja ætluðu að málið færi í.

Þetta ætti líklega að þýða að þeir hefðu haft rétt fyrir sér alla tíð og Íslendingum væri hollast að hlusta á þá í framtíðinni.

Þess vegna langar mig að vekja athgli á góðri grein sem mér var send slóðin af, en hana má finna á Kjarnanum.

Þar skrifar Sigríður Mogensen góða grein undir fyrirsögninni: Við brosum því við borgum ekki Icesave.

Ég vil hvetja alla til að lesa greinina, en þar segir Sigríður m.a.:

Ef pólitík er vikið til hliðar eru staðreyndir málsins nokkuð einfaldar og skýrar. Það er mjög mikilvægt að sagan sé skrifuð eftir staðreyndum, sérstaklega í hagsmunamáli að stærðargráðu við Icesave málið.

Að halda því fram að þjóðin sé nú að greiða Icesave höfuðstólinn er ótrúlega furðuleg röksemdarfærsla. Eignir voru fluttar úr gamla Landsbankanum yfir í þann nýja og hluti af greiðslunni fyrir þær eignir er í formi skuldabréfs í erlendum gjaldeyri (oft nefnt Landsbankabréfið) sem nýji bankinn þarf að standa skil á gagnvart þrotabúinu. Greiðslur af skuldabréfinu munu vissulega renna til helstu kröfuhafa þrotabúsins, sem eru bresk og hollensk stjórnvöld. Icesave samningarnir hefðu ekki breytt uppgjörinu á milli gamla og nýja Landsbankans, en til viðbótar hefði ríkissjóður verið í ábyrgð fyrir því að forgangskröfuhafar þrotabús einkabankans fengju kröfur sínar greiddar upp í topp. Ásamt því að inna af hendi sligandi vaxtakostnað vegna þeirrar skuldbindingar.

Það væri kærkomið ef þjóðin gæti í sameiningu þakkað fyrir að svo fór ekki. Óháð því hver afstaða fólks var á sínum tíma í málinu. Hún skiptir ekki máli í dag. Íslendingar unnu fullnaðarsigur fyrir EFTA dómstólnum – skattgreiðendur bera ekki ábyrgð á höfuðstóli Icesave krafnanna og greiða hann ekki. Vonandi ber virtum álitsgjöfum sú gæfa að reyna ekki að telja þjóðinni trú um annað.

 

Það er engu líkara en að "IceSave hákarlinn" hafi ekki komist í neitt feitara en að gleypa "sannleikann" hjá sumum þeirra sem börðust undir "merki hans".

 

IceSave Shark 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki það sem fram kemur í þessari grein. Er núverandi Landsbanki að borga þetta Landsbankabréf sem rennur í IceSave skuldina?

Kristján G. Arngrímsson, 11.1.2015 kl. 18:33

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján  Ekki ætla ég að taka mér þann titil að ég sé "IceSave sérfræðingur".

En mér fannst greinin góð og á frekar skýru máli.  Eins og segir hér að ofan

Eignir voru fluttar úr gamla Landsbankanum yfir í þann nýja og hluti af greiðslunni fyrir þær eignir er í formi skuldabréfs í erlendum gjaldeyri (oft nefnt Landsbankabréfið) sem nýji bankinn þarf að standa skil á gagnvart þrotabúinu.

Þegar "gamli Landsbankinn" varð óstarfhæfur, átti hann auðvitað fullt af eignum.  Húsnæðiskuldir fjölda Íslendinga, skuldir margra fyrirtækja o.s.frv.  Hann ætti líka veðkall á fjölda hlutabréfa í misgóðum fyrirtækjum, bæði á Íslandi og erlendis, sérstaklega í Englandi, að ég held.  Þar á meðal voru m.a. hlutabréf í Iceland keðjunni svo eitthvað sé nefnt.

Margt af þessu var flutt yfir í "nýja Landbankann".  Hann fékk þær eignir, eða lán, að sjálfsögðu ekki ókeypis.

Það var greitt m.s. með skuldabréfi.  Hvort að það var sanngjarnt verð eður ei, ætla ég ekki að fullyrða, enda skiptir það í sjálfu sér ekki mestu í samhenginu.

"gamli Landsbankinn" hefur svo verið að selja eignirnar sem voru eftir hjá honum og fá greiðslur af skuldabréfinu frá "nýja Landsbankanum".

Það fé sem kemur inn er að sjálfsögðu notað til að greiða kröfuhöfum. 

Að sjálfsögðu eiga þeir rétt á því.  Um það var ekki deilt.

En Íslenska ríkið (skattgreiðendur) er ekki í ábyrgð fyrir skuldinni, hvað þá vaxtagreiðslum sem Bretar og Hollendingar kröfðust.  Ætli vextirnir væru ekki þegar orðnir tugir milljarða.

En að sjálfsögðu er það fleira en "þetta skuldabréf", sem er færa Bretum og Hollendingum betri heimtur en margir þorðu að vona.  Þar er að sjálfsögðu einnig um að ræða sölu á t.d. hlutabréfum  sem urðu kjur í "gamla Landsbankanum".

Vona að þetta hjálpi eitthvað.

G. Tómas Gunnarsson, 11.1.2015 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband