Sinn er siður...

Orðtækið sinn er siður í landi hverju þekkja líklega flestir.  Það er enda rétt, það er mjög misjafnt hvernig venjur og síðir þróast í mismunandi samfélögum. 

Hér fyrir neðan hef ég tínt til nokkur atriði sem hafa vakið athygli mína hér í Kanada.  Sum atriði koma inn á atriði sem hafa verið í umræðunni á Íslandi undanfarin misseri, en en önnur síður.  Listinn er auðvitað ekki tæmandi og ber ekki að taka of alvarlega en það er þó að mínu mati ýmislegt á honum athyglivert.

1. Hér í Kanada fara allir með ruslatunnurnar sínar út að götubrún.  Annars er ruslið þitt ekki tekið. Punktur.  Þetta gerir það að verkum að það er aðeins 1. manns starf að losa tunnurnar.  Bílstjórinn á ruslabílnum sér um verkið.

2.  Í flestum bæjum og borgum hér í Kanada eru í gildi lög sem skylda íbúa til að hreinsa snjó og klaka af gangstéttum sem liggja fyrir fram húsnæði þeirra.  Að trassa slíkt getur varðað sektum og ollið skaðabótaskyldu (slíkt er þó að mér skilst afar fátítt, en slík mál hafa þó ratað í réttarsali).  Hornlóðir vaxa ekki í vinsældum vegna þessa.

Göturnar eru hins vegar ruddar og saltaðar um leið og snjómugga sést, jafnvel fáfarin stræti eins og hér sem ég bý.  Þetta hefur þó ekki alltaf verið svona og fyrir u.þ.b. 5 árum var sú þjónusta mun verri.  En borgarstjórnin var óspart látinn heyra það að þetta væri grundvallaratriði sem yrði að vera lagi.  Það er rétt að taka það fram að hér eru nagladekk bönnuð.

3.  Hverfið sem ég bý telst líklega nokkuð stöndugt millistéttarhverfi.  Samt er það svo að um hverfið mitt liggja háspennulínur á þremur möstrum.  Engan hef ég heyrt kvarta undan þessu, aldrei hef ég verið beðinn um að skrifa undir mótmæli, eða heyrt nokkurn tala um að grafa verði strengina í jörð.  Þetta er nokkuð vinsælt útivistarsvæði, fólk viðrar hundana sína og þarna vaxa eplatré sem má sjá fugla og önnur dýr  sækja í á haustin.  Ég og krakkarnir höfum reyndar étið nokkuð af þeim líka.  Ekki að þetta séu nokkuð sértök epli, þetta er hins vegar smá upplifun að taka epli beint af trénu, svona í "almenningi",  og snæða undir því.

4.  Hverfið sem ég bý í var byggt í kringum 1955.  Síðan er reyndar búið að rífa mörg húsanna og byggja stærri, en það er önnur saga.  Samt eru engar gangstéttir við margar gatnanna.  Engan hef ég heyrt kvarta yfir því.  Margir hafa reyndar á orði (ég tek undir það) að þetta sé stór kostur.  Sjá lið númer 2.

5. Rafmagnslínurnar hér í hverfinu eru enn á staurum.  Það sama gildir um sjónvarpskapalinn og megnið af símalínum.  Þetta er afspyrnu ljótt.  Þess utan þá er öryggið umtalsvert minna og meiri hætta á að rafmagnið detti út.  Rétt eins og gerðist hér fyrir nokkrum árum þegar menn með stærri keðjusög en hugsanagetu komu og felldu tré hérna hinum megin við götuna.  Tré eru reyndar mikið vandamál, þau eiga það til að vaxa í kringum rafmagnslínurnar (hér eru víða 50 til 60 ára tré í hverfinu).  Þegar er rigning og rok má oft sjá rafmagnsblossa innan úr laufþykkninu, með tilheyrandi blikki í ljósunum.  Reglulega koma líka menn frá "rafveitunni" og eru að klippa og saga greinar hér og þar um hverfið.  Þegar ég hef furðað mig á þessu fyrirkomulagi, er mér jafnan sagt að þetta sé "ódýrara".

6. Hér eru allir að taka þátt í alls konar sjálboðastarfi (ég er þó ekki kominn af krafti í þann gír).  Allt frá því að vinna í "súpueldhúsum" eða hjálpa til í skólanum sem barnið þitt er í, nú eða á elliheimilum eða sjúkrahúsum.  Nágranni minn fer einu sinni í viku og keyrir þá sem þjást af krabbameini á milli heimilis þeirra og þeirrar stofnunar sem þeir njóta meðferðar hjá.

Í nærri því hverri einustu matvöruverslun eru kassar sem hægt er að skilja eftir matvörur sem síðan er komið til viðeigandi hjálparstofnana.

Sömuleiðis eru söfnunargámar fyrir notuð föt mjög víða.

Hér í Ontario er það skilyrði fyrir útskrift úr High School að hafa skilað ákveðnum tímafjölda í sjálfboðastarfi.

7.  Vilji einhver losna við notaða hluti, svo sem húsgögn, barnaleikföng eða annað í þeim dúr, þá er einfaldast að setja það  út við götubrún.  Það hverfur yfirleitt samdægurs.  Sama gildir um gamla málmhluti s.s. þottavélar eða annað slíkt, brotajárnssafnarar láta slíkt ekki fram hjá sér fara.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband