Ódýru trixin og hvers vegna virðing fyrir Alþingi fer þverrandi

Það er auðvitað gott fyrir stjórnmálamenn að kunna öll trixin í bókinni.  En það er bagalegt fyrir þá ef þeir nota eingöngu þau ódýru eða illa hefluðu.

Það virðist Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstri grænna hinsvegar reyna að tileinka sér.  Þekktastur er hann líklega fyrir að kalla forseta Íslands ræfil, en nú kemur hann og tilkynnir þjóðinni að honum hafi verið hótað lífláti.  Líflátshótunin er sögð hafa komið frá framkvæmdastjóra í stóru fyrirtæki á Íslandi.  Undirliggjandi eru auðvitað að þessum "vondu kapítalistum" er til alls trúandi.

Ekki vildi hann fara með málið fyrir lögreglu, þó að líflátshótanir varði við lög eins og sjá má í þessari frétt af mbl. is í dag.  Það er þó undarlegt ef hann hefur metið stöðuna svo að einhver alvara byggi að baki hótuninni.

Hann kýs heldur að reyna að gera sjálfan sig að einhverskonar píslarvotti, því líklega eiga lesendur að trúa því að hótunin hafi komið fyrir vel unnin störf Björns í þágu almennings á Alþingi.

Ekki ætla ég að fullyrða hvort Birni hafi verið hótað lífláti eður ei, um það hef ég enga aðstöðu til að dæma, en hitt veit ég að svona fullyrðingar getur hver sem er sett fram og eru þær ekki fallnar til að bæta umræðuna, nema að sá sem setur þær fram geti og sé reiðubúinn til að bakka þær upp.

Það er því ekki að undra þó að virðing fyrir Alþingi og stjórnmálamönnum sé í lágmarki, þegar þingflokksformenn, sem ættu að vera fyrirmynd almennra þingmanna tala með þessum hætti.


mbl.is Segist hafa fengið líflátshótun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já fyrir mér er þessi alþingismaður ásamt mörgum fleiri algjörlega ómarktækur.  Finnst svona fréttamennska bara brandari.  Fannst heldur meiri alvara í snörunni sem sett var inn á lóðina hans Jóns Magnússonar.

En allt er nú gert til að láta á sér bera segi nú ekki margt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.10.2011 kl. 18:38

2 Smámynd: Þorsteinn J Þorsteinsson

Hja mer fer Bjørn Valur og stor hluti Altingis a sama stad og lanshæfismat Islands I RUSLFLOKK,ENDA TREISTA EKKI NEMA 10% ALTINGI OG TAD ER GRAFALVARLEGT MAL FYRIR LYDRÆDID,EN TETTA LID ER OF UPTEKID AF SJALFUM SER TIL AD FATTA TAD

Þorsteinn J Þorsteinsson, 27.10.2011 kl. 19:43

3 Smámynd: Brattur

Mér finnst það ekki "ódýrt trix" að segja frá því hvernig menn tala og hóta til að ná sínu fram... þvert á móti finnst mér nauðsynlegt að það komi upp á yfirborðið... Íslandi hefur of lengi verið stjórnað með hótunum.

Brattur, 27.10.2011 kl. 20:32

4 Smámynd: Guðmundur Pétursson

Björn Valur er alltaf að toppa sjálfan sig í hálfvitaskapnum. Hvar var þetta úrhrak grafið upp? Sama má reyndar segja um marga

aðra þingmenn. Hálfvitaskamkundan á Austurvelli nýtur samt trausts u.þ.b. 10% þjóðarinnar sem er alveg ótrúlea hátt.

Guðmundur Pétursson, 27.10.2011 kl. 21:31

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Brattur, ekki veit ég hversu mikið eða lengi Íslandi hefur verið stjórnað með hótunum, en ég held reyndar að það sé orðum aukið.

En ef svo væri, eru dylgjur og hálfkveðnar vísur ekki leiðin til að berjast gegn því, en það er einmitt það sem Björn Valur gerir.

Hafi honum verið hótað og hann talið að alvara byggi að baki á hann auðvitað að leita til lögreglu og kæra viðkomandi.

En svona uppsláttur sem ekkert stendur á bakvið gerir ekkert nema að gjaldfella umræðuna.  Það er einmitt það sem margir alþingismenn hafa verið duglegir við undanfarið og Björn Valur ekki hvað síst.

G. Tómas Gunnarsson, 28.10.2011 kl. 01:29

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér þætti gaman að vita hvaðan Brattur hefur þessar upplýsingar.  Hann mætti gjarnan koma með skjalfest dæmi fullyrðingunni til fulltyngis. 

Hann getur kannski sannað fleiri negatívur.

Kæri Brattur, reyndu nú að kynna þér helstu pytti rökræðunnar (fallacy's) áður en þú stígur á stokk. No offence.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.10.2011 kl. 06:52

7 Smámynd: Brattur

G. Tómas ég þekki það bara úr vinnuumhverfinu og umræðunni úr pólitíkinni hvernig menn hafa hótað og hrætt fólk til að vera þægt og hlýða annars myndi það hafa verra af... missa vinnuna o.s.frv.

Ég get rétt ímynda mér að það sé ekki létt verk fyrir Björn Val að sanna hvað honum og þessum manni fór á milli í þessu samtali... en eitt veit ég að Björn Valur er ekki að búa þetta til.

Mér finnst Björn Valur alls ekki vera að gjaldfella umræðuna, hann er bara að segja frá því hvernig komið er fram við þá sem eru að berjast alla daga við að koma Íslandi út úr ógöngunum sem aðrir en hann komu okkur í.

Ég held að það sé hollt fyrir okkur að heyra svona sögur... við skulum ekki berja hausnum við steininn og halda að þetta sé einhver uppsláttur... að er nauðsynlegt að svona nokkuð komi fram í dagsljósið.

Brattur, 28.10.2011 kl. 08:01

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Verð að taka undir með Bratti að hluta til.  Það er hótað, bæði í pólitík og af atvinnurekendum.  Þetta er frekar veruleikinn en undantekninginn.  Ég þekki þetta ágætlega bæði frá fólki sem ég hef unnið með í pólitík og vinnu, og svo fleiri sem ég hef heyrt af.  Þeir sem eru atkvæðamestir í svona hótunum eru til dæmis þeir sem eru í L.Í.Ú.  Þegar þeir hóta starfsfólkinu fyrir hverjar kosningar að ef það kýs ekki rétt þá verði vinnustaðnum lokað, skipinn fari burt og þeir sitji eftir með sárt ennið.   Menn sem ekki mega vera á listum nýrra flokka vegna hótana um að þeir missi vinnuna ef þeir ætli að fara að "taka upp á svona vitleysu". 

Margoft séð að fólk þorir ekki að tjá sig ef það á eitthvað undir vinsemd sinna yfirmanna í pólitík eða atvinnu.  Síðast bara núna um daginn var einn sem ekki gat skrifað undir bréfið til ráðstefnugesta vegna þess að hann óttaðist um stöðu sína.  Þetta er gegnsýrt í öllu þjóðfélaginu.

Hins vegar finnst mér þessi upphrópun alþingismannsins ekki fara fyrir mikið.  Meira svona uppblástur.  Ég er sammála þeim sem segja að ef þingmanninum fannst sér raunverulega ógnað þá hefði hann átt að fara beint í löreglu og kæra manninn fyrir morðhótun. 

Málið er að það er aldrei hægt að sanna þetta, því oftast er þetta sett fram þannig eins og hvert annað ofbeldi og einelti að það er reynt að gera það þannig að menn segi ekki frá. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.10.2011 kl. 10:36

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að þessar hótanir sem margir vilja meina að séu til staðar sé verulega ofmetnar, þ.e.a.s. ef þær eru til staðar.

Enginn þarf að óttast að missa vinnuna eftir því hvernig hann kýs, enda slíkar kosningar leynilegar.

En auðvitað hafa fyrirtæki hagsmuni og þau reyna að koma þeim á framfæri, bæði hjá starfsfólkinu og víðar um samfélagið.  Fyrsta dæmið sem kemur upp í huga mér er bréf sem Samherji senti út fyrir einhverjar (man ekki hvort það var 2003, 2007 eða 2009) til starfsfólks.  Margir ruku upp til handa og fóta og töluðu um hótanir.  Persónulega leit ég ekki svo á.

Auðvitað á fyrirtæki eins og Samherji mikið undir störfum stjórnmálamanna.  Það er ekkert óeðlilegt við að stjórnendur skýri starfsfólki frá hugsanlegum áhrifum lagasetninga sem eru boðaðar á fyrirtækið.  Að gera það í bréfi bendir til þess að þeir hafi ekkert að fela.

Það sama á við nú í dag, margir stjórnendur ræða við starfsfólkið um hvort að fyrirtæki myndi hugsanlega vegna betur eða verr væri það í "Sambandinu".  Ég lít ekki svo á um um hótanir eða verið sé að reyna að hafa áhrif á kosningahegðun.

Annað dæmi er svo þegar kona (sem ég man ekki hvað heitir) hélt því fram á fundi í Háskólabíói, að henni hefði verið hótað af ráðherra og virtust öll spjót standa á þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni.  Stuttu seinna kom svo í  ljós að "hótunin" hafði komið fram í stuttu samtali sem viðkomandi hafði átt við "vinkonu" sína Ingibjörgu Sólrúnu.

Það verður þó ekki fram hjá því litið að í árferði eins og ríkir á Íslandi í dag er atvinna "meira virði" en oft áður og missir hennar meira áfall.  Þessu var auðvitað ögugt farið í "góðærinu", þegar margir atvinnurekendur voru í vandræðum með að fá til sín fólk.

En Björn Valur þarf varla að óttast atvinnurekendur sem eru með hótanir, þeir svipta hann ekki atvinnunni.  Það gætu kjósendur hins vegar gert og er sá möguleiki ekki svo fjarlægur.

G. Tómas Gunnarsson, 28.10.2011 kl. 13:28

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég er ekki að tala um hvað fólk gerir í kjörklefanum.  Ég á við að fólk veigri sér við að segja sína meiningu opinberlega af ótta við að missa vinnuna, eða fá ekki stöðu eða vera hrakinn frá.  Þegar forstjórar tala svona fyrir kosningar eins og ég minntist á.  Og ég veit að það er rétt og hefur staðið yfir lengi, þá er oft um að ræða útlenskt verkafólk sem hreinlega þorir ekki annað en að hlýða. 

Ég hef unnið á kosningaskrifstofu nú í nokkur ár, og það koma á hverju ári fram vísbendingar, fullyrðingar og spurningar frá fólki sem hefur hlustað á þetta og vill vita hvort þetta sé leyfilegt.  En það er bara ekkert hægt að gera, nema segja fólkið a kosningar séu leynilegar.  

Sammála þér um að það er orðið ansi valt undir Birni Val, enda á þessi maður vart heima á alþingi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.10.2011 kl. 14:02

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég ætla ekki að segja að slíkar hótanir séu ekki til, en aldrei hef ég heyrt af þeim staðfesta sögu. 

Ég hef þá trú að oft stafi þetta einfaldlega af mismunandi upplifunum fólks þegar talað er saman.  Þegar málið er rakið niður virðist lítið standa eftir, rétt eins og hjá konunnni sem lýsti hótunum gegn sér í Háskólabíói.

En ef mönnum er hótað hnakkaskoti,  eins og Björn Valur talar um, er næsta víst að minni hætta er á að um misskilning sé að ræða, þó vissulega mætti sjálfsagt deila um hve mikil alvara byggi að baki.

Þess vegna ætti auðvitað að kæra málið til lögreglu, ef grunur leikur á að eitthvað stæði að baki hótuninni.  Ef málið er þá til utan hugar og bloggsíðu Björns Vals.

G. Tómas Gunnarsson, 28.10.2011 kl. 18:19

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hvað myndir þú kalla það þegar forstjóri frystihúss kallar fólkið sitt saman í kaffistofunni og les þeim pistilinn og segir að ef það kjósi ekki rétt, fari togaranir út og komi ekki aftur, og þar með vinnustaðnum lokað.  Er það að þínu mati aðeins upplifun þeirra sem á hlýða?

Held að við séum að mestu sammála, en ég bara þekki þessa hlið sem er kolsvört. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.10.2011 kl. 19:17

13 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má auðvitað deila um hvort að starfsfólk eigi að þurfa að þola að einhver "messi" yfir því í kaffistofunni, en mestu skiptir auðvitað hvernig staðið er að málum.

Persónulega get ég ekki séð neitt rangt við að fyrirtæki útskýri fyrir starfsfólki hvað áhrifi hugsanleg lagasetning eða kosningaloforð geti haft á störf og stöðu fyrirtækisins.

En það er eins og ég sagði áður ekki sama hvernig það er gert, og á slíkum fundum getur "upplífun" einstaklinga verið verulega misjöfn, sumir litið á málið sem upplýsingar en aðrir sem hótanir.

Spurningin hlýtur að vera þessi:  Ef að einhver breyting verður á t.d. fiskveiðilöggjöfinni, er þá rekstri fyrirtækisins stefnt í voða?  Er þá hætta á að það leggi upp laupana, eða t.d. yrði sameinað öðru fyrirtæki í öðru bæjarfélagi?  Er þá ekki rétt að starfsfólkið viti það?

Er það hótun eða er það upplýsing?

Þetta er auðvitað aðeins lítið dæmi sem ég tek og ekki neitt sem ég hef heyrt eða upplifað.  En upplifun fólks á t.d. ræðu eða samtali getur verið ákaflega mismunandi og fer oft eftir þeim skoðunum sem það hefur fyrir. 

Það hef ég reynt á sjálfum mér og þeim sem ég þekki vel.  Ef ég hef t.d. sótt fundi með vinum mínum og rætt um þá eftir á.

G. Tómas Gunnarsson, 29.10.2011 kl. 02:33

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

I rest my case.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.10.2011 kl. 02:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband