Kvótinn: Lífsseigasta Íslenska lýðskrumið. Þegar þorpin "fluttust út á sjó".

Kvóti og kvótakerfið hefur líklega verið langlífasta Íslenska deilumálið, alla vegna síðustu áratugi.

Það er í raun ekki að undra, enda er sjávarútvegur á meðal mikilvægustu atvinnugreinum á Íslandi og án efa sú mikilvægasta í sögulegu samhengi.

Ein af þeim "goðsögnum" sem hafa verið áberandi í umræðunni undanfarna áratugi og skjóta um kollinum aftur og aftur, er að kvótakerfið hafi lagt mörg sjávarþorp svo gott sem í eyði.

Líklega er það eitthvert lífseigasta og algengasta lýðskrum í íslenskri pólítík.

Þetta er ekki sagt til þess að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem hafa komið upp í mörgum smærri útgerðarbæjum, en slíkt hefur vissulega orðið raunin.

Þetta er sagt vegna þess að þeir erfiðleikar voru óumflýjanlegir vegna tæknibreytinga.  Það eina sem hefði getað komið í veg fyrir þá væri "óendanlegur fiskur" í sjónum, að öðrum kosti var það aðeins spurningin hvar erfiðleikarnir yrðu.

Þar stóðu flest smærri byggðarlög gjarna verr en þau stærri.

Tækniframfarir og sú staðreynda að ekki var nægur fiskur í sjónum gerði það óhjákvæmilegt að miklar breytingar yrðu að verða hvað varðaði fiskvinnslu á Íslandi.

Ef til vill má segja að ekki sé rétt að segja á Íslandi, því breytingarnar urðu ekki síst út á rúmsjó.

Ef til vill er lykilatriðið í því að skilja hvaða breytingar urðu í Íslenskum sjávarútvegi fólgnar í lokamálsgrein þeirrar fréttar sem þessi frétt er hengd við (fréttin er að verða 3ja ára), en þar segir:

  • „Skipið hef­ur vinnslu­getu á við lítið sjáv­arþorp, en við það starfa ein­ung­is 27 menn, 25 um borð og 2 á skrif­stofu í landi. Skipið er 1.403 brútt­ót­onn, 57,5 metr­ar á lengd og 12 metra breitt. Fisk­ur­inn er full­unn­inn um borð og er af­kasta­geta um 42 tonn af fullunn­um afurðum á sól­ar­hring, en það jafn­gild­ir um 100 tonna afla upp úr sjó. Á venju­leg­um skut­tog­ara af þess­ari stærð eru um 15 menn i áhöfn þannig að aðeins er bætt við 10 mönn­um til að full­vinna veiðina.“

Allt í einu voru 27 einstaklingar ígildi "heils sjávarþorps".  Tíu einstaklingar vinna fiskinn, í stað þess að áður þurfti heilt frystihús.

Framfarir í tækjabúnaði til að vinna fisk gerði það að verkum að frystihúsin sem höfðu verið "hjarta" svo margra sjávarþorpa urðu óþörf.  En þau frystihús sem enn störfuðu juku framleiðslugetu sína svo um munaði.

Líklega ýkti það svo áhrifin að áhrif verkalýðsfélaga voru allt önnur út á sjó en í landi.

Það er auðvelt að reikna út hvort að vænlegra er að fjárfesta í tækjabúnaði sem er í vinnslu 8 til 10 klukkustundir, 5 daga í viku í landi, eða 24 stundir, 7 daga vikunnar út á sjó.

Munurinn á nýtingu tækjanna er yfir 100 klukkustundir á viku eða meira en þreföld.

Það er m.a. munurinn á vinnslu í landi og á frystitogara.

Það er ekki síst fyrir tilstuðlan fyrirtækja, sem Íslendingar eru svo stoltir af, s.s. Marel, Skagans 3X o.s.frv. sem þessi þróun varð.

Vildu Íslendingar vera án þeirra?

Það eru svo framfarir í kæli- og flutningatækni sem hafa valdið því pendúllinn hefur sveiflast aftur til landvinnslu, með aukinni vinnslu alla leið í neytendapakkningar.

En það hefði ekkert nema "óendanlegur fiskur" komið í veg fyrir samþjöppun í útgerð á Íslandi.  Hugsanlega hefði "dauðastríð" einstakra útgerða orðið lengra og líklega sársaukafyllra ef kvótakerfisins hefði ekki notið við.

En það má ætla að ástand fiskistofna væri sömuleiðis mun verra.

En framsalinu var einmitt ætlað að stuðla að samþjöppun, sömuleiðis Úreldingarsjóði á meðan hans naut við.

Það var einfaldlega ekki til nægur fiskur fyrir alla útgerðarbæi á Íslandi. Svo er ekki enn og ólíklegt að verði nokkurn tíma.

En auðvitað er þarft að ræða sjávarútveg á Íslandi og hvað megi betur fara.

Hvað er rétta hámarkið í hvað varðar kvótahlutdeild? Á að bjóða upp aflaheimildir?  Ef svo, til hvað margra ára í senn? Á þá fyrst og fremst að selja hæstbjóðanda, eða eiga önnur lögmál að gilda?

Eiga "byggðasjónarmið" að vega þyngra en arðsemissjónarmið?

Ætti að vera skylda að hluti hverrar löndunar fari á markað, eða ætti allur afli að gera það?

Eða er núverandi fyrirkomulag býsna gott?

Það er full ástæða til að ræða fyrirkomulag fiskveiða í Íslensku lögsögunni, en látum ekki glepjast af "fortíðarþrunginni lýðskrums rómantík" um að hægt sé að hverfa aftur - til fortíðar.


Bloggfærslur 17. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband