PISA blús

Það má eiginlega ganga að því vísu að þegar niðurstöður PISA kannana eru birtar upphefjist gríðarleg umræða á Íslandi um hvers vegna niðurstöðurnar séu svo slæmar fyrir Ísland og hvers vegna þær færist sífellt neðar á skalanum.

En sú hefur svo gott sem raunin frá því að Ísland byrjaði þátttöku í þessum rannsóknum, leiðin hefur heldur þokast niður á við.

Ég er reyndar sammála því að PISA könnunin sé hvorki upphaf né endir skólastarfs, en það er engin ástæða heldur til að líta fram hjá þeim vísbendingum og samanburði sem könnunin gefur.

Það er ef til vill rétt að taka það fram að ég hef enga reynslu af því að eiga barn í Íslensku skólakerfi, mín eigin reynsla af þvi er áratugagömul og það sem ég veit um Íslenskt skólakerfi er það sem kunningjar mínir hafa sagt mér eða ég lesið.

En ég hef reynslu af því að eiga börn í skólum, bæði í Kanada og Eistlandi. Það eru einmitt löndin sem eru í 5 og 6 sæti í könnuninni, fyrstu lönd utan Asíu.

En hvers vegna standa krakkarnir í þessum löndum sig svona vel?

Við þeirri spurningu er ekki neitt eitt svar.  Ekki eru það kennaralaunin sem skipta öllu máli. Kennarar í Kanada eru reglulega á top 10 yfir best launuðu kennara í heimi, en Eistneskir kennarar eru gjarnan á eða við botninn hvað varðar laun. Laun kennara í Eistlandi ná almennt ekki 200.000 Íslenskum krónum, og eru heldur undir meðal launum í landinu. Luxembourg sem oft hefur verið talið borga kennurum hvað best, er fyrir neðan Ísland hvað varðar PISA árangur.

Það er skrýtin samsetning að í því landi sem nær bestum árangri í Evrópu, eru laun kennara á meðal þeirra lægstu.

En það er rétt að taka eftir því að Íslenskir kennarar eru einnig í hópi þeirra kennara sem hafa hvað lægstu launin.

Í Eistlandi voru börnin mín í bekkjum sem voru yfirleitt með ríflega 30 börn, gjarna 32 eða 33.

Í Kanada hafa bekkirnir yfirleitt verið fámennari, gjarna á bilinu 24 til 27. Einn vetur var drengurinn minn í "samsettum" bekk, sem var þá 2 og 3ji bekkur saman.  Skólinn var ekki stærri en svo að ríflega tvær bekkjardeildir voru í hverjum árgangi og því "afgangnum" skellt saman.  Slíkt fyirkomulag er ekki vinsælt á meðal foreldra, en allt gekk þetta vel.

Í Eistlandi er dagheimilisvist barna mjög útbreidd, en sjaldgæf í Kanada (Ontario).  Í Kanada byrjar hins vegar skólinn við 4ja ára aldur (Kindergarten), sem er þó ekki skylda en er án kostnaðar fyrir foreldra. En það er aðeins 2 og hálfur tími á dag.

Tungumálakennsla (Franska, Kanada er tvityngt land) getur svo hafist við 5 ára aldur, ef foreldrar kjósa svo, en þá fer barnið í "frönsku aðlögun" (French immersion).

Skólaskylda er svo frá 6 ára í Kanada, en ekki fyrr en við 7. ára aldur í Eistlandi.

Heimalærdómur byrjaði strax í 1. bekk í Eistlandi og jókst svo með ári hverju.  Í Kanada byrjar heimalærdómur mun síðar, líklega ekki fyrr en 6. bekk, en strax frá upphafi eru alls kyns "project" í vísindum, landafræði og allra handa sem eru unnin heima (getur lagst þungt á "metnaðargjarn foreldra).

Mikil áhersla er lögð lestur í Eistlandi, jafnt í skóla sem heimavið. Krakkarnir eru látnir lesa sígildar Eistneskar barna og unglingssögur sem og heimsklassík s.s. Astrid Lindgren.

Alltaf fylgir í kjölfarið endursögn (mislangar) á bókinni. Kennarar í Eistlandi eru óhræddir við að gefa út "leslista" fyrir sumarfríið.

Í Kanada er líka mikill lestur, en að mestu leyti bundin við skólann.

Í Eistlandi fá öll börn í grunnskóla frían hádegisverð (ekki endilega "stórkostlegir" réttir, jafnvel bara súpu og brauð, en yfirleitt saðsamir og næringarríkir).  Í Kanada er ekki boðið upp á hádegisverð, heldur koma börnin með nesti að heiman.

Bæði Eistland og Kanada hafa margþætt menntakerfi. Í Eistlandi má t.d. finna bæði skóla sem kenna á Eistnesku og Rússnesku.  Í Kanada (Ontario) eru bæði "hefðbundnir" og kaþólskir grunnskólar reknir af hinu opinbera.  Bæði löndin hafa úrval af einkareknum skólum, margir þeirra, sérstaklega í Kanada eru eingöngu reknir fyrir skólagjöld. En í Eistlandi er einnig margþætt form, og margir skólar velja stóran hluta nemenda sinna, þó þeir fái rekstrarkostnað sinn frá hinu opinbera.

Þannig að fjölbreytileikinn í skólakerfum þessara landa er verulegur. Skólastjórar hafa mikið að segja um hvernig skólarnir eru reknir.

En ef ég ætti að nefna eitthvað eitt sem mér virðist vera öðruvísi í skólum í Kanada og Eistlandi samanborið við hvað ég hef heyrt um Islenska skóla dugir eitt orð:

Agi.

Mér virðist mun meiri agi ríkja í skólum bæði í Eistlandi og Kanada en á Íslandi.

En það fer líka fram mun meiri flokkun á nemendum í þessum löndum en Íslandi, líklega sérstakaklega Eistlandi.

Ekki endilega eftir getu eða einkunnum, heldur einnig eftir hegðun.

Ég man ekki eftir því að hafa heyrt svipað hugtak og skóli án aðgreiningar í Eistlandi eða Kanada.

Það er líklega einn af þáttunum sem gerir stærri bekkjardeildar mögulegar.

En ég vil biðja alla sem lesa þetta að gera sér grein fyrir því að hér er ekki um að ræða neina vísindalega úttekt.

Hér er eingöngu um að ræða mína upplifun af tveimur mismunandi menntakerfum og af afspurn hið þriðja.

En ég held að það sé ljóst að þessi lönd, Kanada og Eistland sem skipa sér svo ofarlega í PISA könnuninni, eru með mjög mismunandi menntakerfi.

Ég held líka að það sé óraunhæft að Ísland geti tekið upp menntakerfi annara landa, hvort sem það er Finnland, Svíþjóð, Kanada eða Eistland.

En líklega þurfa Íslendingar að hyggja að því að bæta sitt menntakerfi og bæta árangur, ekki síst hvað varðar lesskilning.

En ég held að þjóðin þurfi líka að gera upp við sig hvernig menntakerfi hún vill.  Á hvað á að leggja áherslu.

Eiga skólar fyrst og fremst að vera góðir "geymslustaðir" þar sem öllum líður vel, eða á að gera frekari kröfur.

Því það er ekki alltaf átakalaust að "menntast" og getur tekið á. Þar getur verið að það falli ekki öllum að fara áfram á sama hraða, eða á sömu braut.

Líklega er fjölbreytni að mörgu leyti lykilorðið, og það er oft því erfiðara að tryggja það í littlu samfélagi.


Satanísk meðallaun

Það er ekki nema von að það gangi á ýmsu í VR og sýnist sitt hverjum.  Meðallaunin eru einfaldlega satanísk.

Sjálfsagt munu margir líta svo á að að djöfullinn spili í félaginu.

Við verðum að vona meðallaunin hækki eða lækki fljótlega, annars er voðinn vís.

 

 

 


mbl.is 666 þúsund króna meðallaun í VR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband