Sterkt umboð fyrir Breska Íhaldsflokkinn

Á komandi dögum og vikum eigum við eftir að sjá alls kyns skýringar og vangaveltur um Bresku þingkosningarnar.

Úrslitin eru bæði mögnuð og margslungin.

Upplausnin sem hefur ríkt í Breska þinginu ætti að vera að baki, en á sama tíma mun ákall um sjálfstætt Skotland verða hávært og krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu þar að lútandi. Staða Skoska þjóðarflokksins enda sterk, þó að nokkuð vanti upp á sama styrk og 2015.

En Íhaldsflokkurinn hefur gríðarlega sterkt umboð frá kjósendum og ljóst er að þeim var best treyst til að koma á ró og festu í Breskum stjórnmálum, en þar hefur verulega vantað upp á undanfarna mánuði, svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Ég hugsa að sterkri stöðu Íhaldsflokksins sé fagnað víðast um lönd, jafnvel innan "Sambandsins".  Líklega hafa einhverjir innan "Sambandsins" gælt við þann draum að niðurstaða kosninganna yrði á þann veg að hætt yrði við "Brexit", en ég hygg að flestir geri sér grein fyrir því að mestu skiptir að traust og starfhæf ríkisstjórn sé í Bretlandi, þannig að reikna megi með því að hún komi málum (og samningum) í gegnum þingið.

En Johnson og Íhaldsflokkurinn stendur sterkt á miðjunni og hægri vængnum, en Verkamannaflokkurinn, með sitt sósíalíska/marxíska yfirbragð, hefur likt og svo margir sambærilegir Evrópskir flokkar, misst tengingu við þá kjósendur sem þeir telja sig starfa fyrir, verkafólk.

Corbyn sem margir töldu þegar hann komst til valda í Verkamannaflokknum, tákn um "nýja framsókn sósíalismans", fær frekar háðulega útreið.

Svipaða sögu má segja af Jo Swinson, leiðtoga Frjálslyndra demókrata, sem margir sáu framtíðarleiðtoga í, ja, bara fyrir fáum vikum.  All nokkrir þingmenn bæði frá Verkamamanna- og Íhaldsflokknum gengu til liðs við flokkin sem samsamaði "Sambandinu" og var í fylkingarbrjósti þeirra sem vildu draga úrsögnina til baka.

Eftir stendur Boris Johnson sem ótvíræður sigurvegari.

En hans bíður erfitt hlutverk, því væntingarnar eru miklar.

En hingað til hefur hann staðið sig vel og spilað vel úr erfiðri stöðu.  Nú hefur hagur hans vænkast og verður fróðleglegt að fylgjast með framhaldinu.

P.S. Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun sem ég bloggaði um þegar Johnson var kjörinn leitogi, að það hefði átt að gerast fyrir ríflega 3. árum.


mbl.is Þakkar stuðningsmönnum Verkamannaflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þróunarlönd" með geimferðaáætlanir

Þó að ég sé ekki mikill aðdáandi DJ Trumps, hefur hann oft máls á málum sem eru allrar athygli virði.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að honum gengi betur að afla þeim fylgis ef framganga hans væri með öðrum hætti, en það er önnur og lengri saga.

En hér vekur hann athygli á máli sem er vert að gefa gaum.  Hví er Alþjóðabankinn að lána Kína peninga?

Er Kína í hópi fátækari ríkja heims?

Er ekki Kína orðið umfangsmikið í "stuðningi" og lánastarfsemi við fátækari lönd heims? Væri ekki æskilegra að Alþjóðabankinn lánaði þeim "beint" frekar en í "gegnum" Kína?

Er ekki Kína t.d. með sína eigin geimferðaáætlun?

Víðast um lönd hefur það tíðkast um all nokkra hríð að "tipla á tánum" í kringum Kína vegna viðskiptahagsmuna.  Það er tímabært að slíku linni.

Kína vill að litið sé á sig sem jafningja, það er tímabært að það sé gert.

Sé litið til þjóðartekna á einstakling, sjá hér og hér, og svo annarra þátta svo sem þeirra eigin "þróunaraðstoðar";  verður ekki séð að Kína sé í þörf fyrir "alþjóðlega aðstoð".

P.S. Angi af sama meiði er að Alþjóða póststofnunin skilgreini Kína sem "þróunarland" og aðrir póstnotendur og/eða skattgreiðendur séu látnir niðurgreiða póstkostnað Kínverskra fyrirtækja.

 

 

 

 


mbl.is Vill að Alþjóðabankinn hætti lánveitingum til Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Corbyn tilkynnir að hann muni ekki leiða Verkamannaflokkinn í fleiri kosningum - leiðtogi Frjálslyndra demókratata nær ekki kjöri

Allt stefnir í að Verkamannaflokkurinn fái sín verstu kosningaúrslit í áratugi.  Afstöðu flokksins til Brexit og sósíalisma Corbyns hefur verið hafnað.

Persónulega fékk hann þó glimrandi kosningu í sínu kjördæmi, Islington.

En hann tilkynnti þegar þau úrslit voru kynnt, að hann myndi ekki leiða Verkamannaflokkinn í fleiri kosningum.

En hann segir ekki af sér tafarlaust, heldur hyggst leiða flokkkin í "uppgjöri við kosningaúrslitin" og þangað til nýr leiðtogi verður kjörinn.

Það bendir til þess að "Corbynistarnir" í flokknum muni reyna að halda völdum, hvort það tekst verður fróðlegt að sjá.

Það hafa verið fjöldi athyglisverðra úrslita í þessum kosningum.  Íhaldsflokkurinn hefur verið að taka kjördæmi sem hafa verið í höndum Verkamannaflokksins í áratugi, í sumum tilfellum hart nær öld.

Ef til vill er það táknrænt að fyrir stuttu var tilkynnt að fyrrum kjördæmi Tony Blair, hefði verið unnið af Íhaldsflokknum.

Það er líka athyglisverðar niðurstöður frá Skotlandi, þar virðist allt stefna í að Skoski þjóðarflokkurinn vinni slíkan yfirburðasigur að ljóst er að pólítíska andrúmsloftið í Englandi og Wales, stefnir í allt aðra átt en í Skotlandi.

Nú var tilkynnt að frambjóðandi Skoska þjóðarflokksins hefði sigrað leiðtoga Frjálslyndra demókrata.

Sigrarnir gerast ekki mikið sætari en þessi.

En úrslitin undirstrika þau vonbrigði sem Jo Swinson hefur valdið í kosningabaráttunni. Áfall fyrir Frjálslynda demókrata og Jo Swinson. Ólíklegt að hún verði leiðtogi til langs tíma.

 


mbl.is Corbyn ekki sætt ef útgönguspár rætast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband