Færsluflokkur: Saga
17.11.2006 | 19:44
Að gæta rússana
Þetta er athygliverð frétt. Líklega verð ég að kaupa Moggann á Sunnudaginn.
En það verður að teljast nokkuð merkilegt í ljósi sögunnar, ef Keflavíkurstöðin gengi að einhverju marki í endurnýjun lífdagana, til að verja skipaleiðir fyrir norsk og rússnesk skip. Eitt af meginmarkmiðum hinnar nýju stöðvar, ef af yrði, þá að vernda og vaka yfir viðskiptum Rússa og Bandaríkjamanna.
Þannig tekur heimurinn stöðugt á sig nýjar myndir.
En það þar líka að velta því fyrir sér hvernig Íslendingar muni taka í þessar hugmyndir, nú þegar herinn er rétt farinn?
Hernaðarlegt mikilvægi N-Atlantshafs vex á ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.10.2006 | 13:52
Íslendingar eru sem sé ekki bara skattsvikarar, þeir eru líka skrýtnir og hörundsárir.
Það er hálf grátbroslegt að lesa þessa frétt. Líklega hefði mátt bæta við fyrirsögnina.... og margir hverjir athyglisjúkir. Ekki sé ég tilganginn með lögsókninni, nema ef til vill að hann sé að vekja athygli á fréttinni? Það gæti auðvitað verið "plottið".
En ef ég verð kallaður fyrir í réttarsalinn, til að kanna sannleiksgildi fréttar Extra blaðsins, þá gæti ég ekki neitað því, að ég væri reiðubúinn til að nýta mér gloppur í skattkerfinu. Og yrði ég spurður hvort að ég væri reiðubúinn til að leggja undir mig heiminn? Eiðsvarinn gæti ég ekki sagt annað en að í félagi við góða menn, þá væri ég vissulega reiðubúinn til að leggja mitt á vogarskálarnar.
En þetta eru auðvitað samviskuspurningar sem hver og einn verður að svara fyrir sig.
En svo verður auðvitað að fara að ræða hvað verði gert við þær skaðabætur sem Extra blaðinu verður gert að greiða þjóðinni, eða hvernig eigi að skipta þeim?
Einhverjar hugmyndir?
Ekstra-Bladet sakað um kynþáttafordóma gagnvart Íslendingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.10.2006 | 16:00
Vekjum athygli á baráttunni - Frelsið er ekki bara yndislegt heldur á að vera fyrir alla.
Það er erfitt fyrir mann eins og mig að ímynda sér að ég gæti verið í hættu staddur fyrir það sem mér kynni að detta í hug að skrifa hér á bloggið.
Alla mína ævi hef ég búið í "öruggum" samfélögum, ekki þurft að óttast um hag minn eða minna fyrir hvað okkur dettur í hug að tjá okkur um. En innan fjölskyldunnar er nokkur reynsla af öðru. Konan mín ólst upp í Sovétríkjunum, hún eins og aðrir Eistlendingar voru þar hluti af hvort sem þeir kærðu sig um eður ei. Tengdaforeldrar mínir eyddu lunganum af sínu lífi innan "Járntjaldsins".
Það er þarft að hlusta á frásagnir fólks sem hefur upplifað slíka hluti, og hefur nú frelsi til að segja frá þeim. En það er enn þarfara að minna á hlutskipti þeirra sem enn búa við helsi, sem enn mega eiga von á því að bankað sé upp á og þeir fangelsaðir fyrir eitthvað sem þeir hafa látið frá sér í orðræðu, á prenti eða á netinu.
Því er áriðandi að leggja þessari baráttu lið.
Ógn steðjar að tjáningarfrelsinu á netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Breytt s.d. kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2006 | 17:02
Þriðja kynslóðin
Nú eru á leið í prófkjör tveir einstaklingar af þriðju kynslóð stjórnmálamanna. Það eru þeir Guðmundur Steingrímsson, Hermanssonar Jónassonar og Glúmur Baldvinsson, (Jón) Baldvin Hannibalson Valdimarsonar.
Nú get ég ekki sagt að ég hafi stúderað þetta, en held þó að þetta séu fyrstu einstaklingarnir af þriðju kynslóðinni. Við höfum haft marga stjórnmálamenn af annari kynslóð, svo sem feður þessara einstaklinga, Vilmund Gylfason, Halldór Ásgrímsson, Björn Bjarnason, Valgerður systir hans líka að bjóða sig fram núna, Árni M. Matthiesen, og sjálfsagt er ég að gleyma einhverjum.
En það er vissulega ekkert nýtt að pólítískur áhugi liggi í ættum, en ég heyri skiptar skoðanir á því hvort að menn telji að einstaklingar hagnist á þessari "ættfræði" þegar kemur að prófkjörum og pólítískum frama.
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.10.2006 | 14:56
Obrigado Michael
Það var gaman að horfa á Brazilíska kappaksturinn í dag. Það var eins og svo oft áður fyrst og fremst Michael Schumacher sem sá okkur fyrir skemmtuninni. Hann ók snilldarlega, sýndi og sannaði að það er engin tilviljun að hann er 7faldur heimsmeistari og árangursríkasti ökumaður í Formúlunni fyrr og síðar.
En heppnin var ekki með honum í dag, frekar en í Japanska kappakstrinum. Eftir að hafa unnið sig upp í 5ta sætið úr því 10unda, sprakk hjá honum dekk þannig að hann varð að breyta áætlun sinni.
Eftir það var engin spurning. "Tígulgosarnir" gátu ekið rólega og voru nokk öruggir með báða titlana, sem og varð raunin.
Ljósi punkturinn til viðbótar við frábæran akstur "Skósmiðsins" var góður sigur Massa, sem átti eftirminnilegan sigur á heimavelli. Það verður fróðlegt að fylgjast með Massa á næsta ári og hvernig hann stendur sig gagnvart Raikkonen.
En auðvitað óska ég Reunault aðdáendum til hamingju með titlana, þeir eru vel að þeim komnir og höfðu öruggasta bílinn þetta tímabil, það er það sem landar titlum.
En kappaksturinn í gær markaði tímamót, Schumacher hættir, Michelin þreytti sína síðustu formúlu, í það minnsta um nokkurn tíma, sömuleiðis Cosworth.
En auðvitað verður tímabilsins fyrst og fremst minnst fyrir tvennt, Alonso sigraði annað árið í röð og Schumacher dró sig í hlé.
En Formúlan heldur áfram, það verða vissulega kaflaskipti þegar ökumaður af kalíberi Schumachers hættir, en það koma alltaf menn í manna stað, Massa sýndi það um helgina.
En ég er þakklátur fyrir þá skemmtun sem Schumacher hefur veitt, þau 12 ár sem ég hef fylgst með Formúlunni.
Alonso heimsmeistari ökuþóra og Renault vann einnig titil bílsmiða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2006 | 14:39
Það var allt í lagi, það voru Bandaríkjamenn sem voru að hlera!
Það vakti nokkra athygli mína þegar ég kom inn í endan af Silfri Egils að þar var Jón Baldvin Hannibalsson að láta móðan mása um "njósnamálefni".
En þar gat ég ekki heyrt betur en að Jón segði, þegar Egill spurði hann að því hvers vegna hann hefði ekki kært eða tilkynnt að hann teldi sig hafa verið hleraðan, að hann hefði talið að það væru Bandaríkjamenn sem væru að hlera sig. Það hefði ekki verið fyrr en löngu síðar að hann hefði heyrt af hinni "Íslensku leyniþjónustu".
Utanríkisráðherra Íslendinga taldi sem sé ekki ástæðu til að aðhafast neitt, því það voru "bara" Bandaríkjamenn sem voru að hlera símann hans? Hann sá ekki ástæðu til að skýra samráðherrum sínum frá því, ekki ástæðu til að hafa samband við lögreglu, eða að skýra almenningi frá þessu?
Þessi málflutningur er með eindæmum.
Það vakti líka mikla athygli mína þegar Árni Snævarr skýrði frá því að hann hefði vitað af "leyniþjónustunni" og var undrandi á því að Jón Baldvin hefði ekki vitað af henni sömuleiðis. Sagði Árni að Árni Sigurjónsson hefði hringt í sig og viljað rekja minningar sínar, en hefði látist áður en af því varð. Er ekki þörf á leyniþjónustu fyrir hið opinbera ef blaðamenn eru svona mikið betur upplýstir en ráðherrar?
Þó að það sé ef til vill svo lítil hártogun, þá vakti líka athygli mína þær köldu kveðjur sem þeir einstaklingar sem hafa boðið sig fram í prófkjörum Samfylkingarinnar fengu frá Jóni, þegar hann sagði að prófkjör væru úrelt fyrirbrigði og "almennilegir menn" (eða eitthvað í þá áttina) fengjust ekki til að bjóða sig fram. Þar átti hann við Stefán Ólafsson prófessor.
En ég verð að bíða með að horfa á þáttinn í heild þar til seinna í dag.
Þór var að undirbúa farveginn fyrir frumvarp um öryggisgæslu, segir Jón Baldvin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2006 | 14:17
Það er rétt að halda minningunni á lofti
Það er rétt að halda minningu þeirra sem börðust gegn kommúnismanum á lofti. Það má heldur ekki gleymast hvernig kommúnisminn lék almenning þessum löndum. Ekki bara Ungverjaland, heldur í allri Austur-Evrópu og vissulega víðar.
Ég hafði fyrir nokkru stutt kynni af Ungverja sem hafði upplifað þessa uppreisn, þá barn að aldri. Hann hafði svo flúið með afa sínum og ömmu og alist upp á norðurlöndunum. En þær bernskuminningar sem hann átti frá Ungverjalandi voru brotakenndar, en skelfilegar og virtust móta hann nokkuð.
Það hlýtur að vera til marks um að batnandi manni er best að lifa að Ólafur Ragnar Grímsson skuli taka þátt í því að heiðra uppreisnarmenn gegn kommúnisma í Ungverjalandi, ætli hann segi sessunautum sínum frá "vini sínum" Ceausescu?
Uppreisnarinnar minnst í Ungverjalandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2006 | 05:40
Af hlerunum
Ég hef aldrei verið hleraður. Það gæti þó verið of sterkt til orða tekið. Réttara væri líklega að segja að mér er ekki kunnugt um að ég hafi verið hleraður. Það er óþarfi að gefa þetta alveg frá sér, því ýmislegt getur auðvitað komið í ljós seinna, jafnvel löngu seinna.
Það hefur verið með nokkrum ólíkindum að fylgjast með þessu máli og það hefur sífellt verið að koma á óvart. Sífellt hefur eitthvað nýtt verið að koma fram og ákærendur gærdagsins eru sakborningar dagsins í dag.
Ég vil nú segja að mér finnst að Kjartan Ólafsson og aðrir þeir sem kunna að hafa verið hleraðir af stjórnvöldum eigi að hafa fullan og óskilyrtan aðgang að gögnum. Jafnframt hlýtur að teljast eðlilegt að allir sagnfræðingar og jafnframt landsmenn allir hafi fullan aðgang að þessum gögnum. Það á í raun ekki að líðast að aðgangur sé takmarkaður við einstaka sagnfræðinga. Gögn eiga annað hvort að vera opin, og þá öllum, eða þá lokuð ef slíkar aðstæður eru uppi.
En hitt er auðvitað ekki óeðlilegt að fylgst hafi verið eitthvað með ákveðnum hópum "vinstri manna", þegar "kalda stríðið" stóð sem hæst. Hvort sem menn kalla það "leyniþjónustu" eða eitthvað annað skiptir ekki máli. Allir vita að ýmsir höfðu tengsl "austur". Allir vita að sendiráð Sovétríkjanna var óeðlilega fjölskipað á Íslandi og starfsmenn þess höfðu tengsl við ýmsa Íslendinga.
En hvað varðar þá sem telja að þeir hafi verið hleraðir fyrir 11 árum, þá finnst mér það skrýtið að menn skuli ekki hafa þótt ástæða til að gera neitt í þeim málum, fyrr en þeir standa í prófkjöri mörgum árum seinna.
Persónulega finnst mér einsýnt að Samfylkingarmenn í "Kraganum" hafni slíkum manni, enda ekki gott að velja sér mann til forystu sem ekkert gerir í því að honum er tilkynnt að sími hans sem starfsmanns Utanríkisráðuneytisins, sé hleraður.
Fyrrverandi utanríkisráðherra situr síðan eftir með "egg á andlitinu", hann sömuleiðis virðist ekki hafa tekið það alvarlega að hann væri hleraður, fyrr en löngu síðar, og sömuleiðis verður hann uppvís að því að hafa pukrast með eftirgrenslanir um samráðherra sinn.
Að vísu finnst mér ekkert óeðlilegt að grennslast hafi verið um tengsl Íslendinga við STASI, og hvort eitthvað væri um þá að finna í skjalasafni stofnunarinnar. En auðvitað hefði það verið heiðarlegra að greina frá þeim niðurstöðum opinberlega.
En þetta er farsi sem líklegast er ekki nema á fyrsta þætti. Því er líklega rétt að lækka launin hjá handritshöfundum Áramótaskaupsins, það er auðveld vinna þessa dagana.
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2006 | 04:50
Bara af því að við gátum tekið ákvörðunina?
Nú þegar ákveðið hefur verið að hefja hvalveiðar frá Íslandi á ný, hafa margir velt því fyrir sér hvers vegna þessi ákvörðun var tekin. Hafa sumir viljað meina að ákvörðunin hafi verið tekin eingöngu vegna þess að "við gátum tekið hana".
Auðvitað er það einföldun að halda því fram, en þó er það vissulega nokkuð til í því. Ég tel að ákvörðunin hafi að hluta til verið tekin vegna þess að Íslendingar vilji láta vita að þeir ráði sjálfir sínum málum. Vegna þess að ef að íslenskir vísindamenn telja að stofnunum sé ekki hætta búin þá teljum við ekkert mæla á móti veiðum, ef ekki koma fram rök fyrir því að stofnar langreyða og hrefnu séu í hættu, þá áskilji Íslendingar sé rétt til að nýta stofnana af skynsemi.
Sama lögmál gildir t.d. um tillögur sem fram hafa komið um bann við botnvörpuveiðum. Ég ætla ekki að dæma þær tillögur, til þess tel ég mig ekki hafa næga þekkingu. En vissulega getur það orðið svo að slíkt bann verði nauðsynlegt. En ég vona að ef til slíks kemur verði það ákvörðun Íslendinga, tekin af íslenskum stjórnvöldum í samráði við íslenska vísindamenn.
Sama vona ég að verði upp á teningnum ef fram koma tillögur um bann við svartfuglsveiðum, gæsaveiðum, eða öðru slíku, ákvörðunin verði tekin á "heimavelli".
Þess vegna held ég að ástæðan sé að sumu leyti vegna þess að "við gátum tekið þessa ákvörðun".
Og það sem meira er, ég held að það sé nokkuð gild ástæða.
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2006 | 02:31
Stakir steinar valda æsingi
Það er oft merkilegt hvað dálkurinn "Staksteinar" í Morgunblaðinu getur fengið annars hina rólyndustu menn til að stökkva upp á nef sér. Sjálfur sé ég ekki Morgunblaðið, og þar af leiðandi ekki "Staksteina", en það fer ekki fram hjá mér hvaða æsingi þeir valda og má oft lesa um þá á netinu.
Sjaldan eða aldrei hafa þeir þó valdið eins miklum æsingi og nú fyrir nokkrum dögum þegar fjallað var um "Samtök herstöðvarandstæðinga" og "Keflavíkurgöngur".
Mátti lesa vandlætingu yfir þeim skrifum víða um netið, m.a. hjá þeim félögum Ögmundi Jónassyni og Árna Þór Sigurðssyni.
Árni skrifar m.a.:
"Staksteinahöfundur (sem að venju kýs að fela andlit sitt og vega úr launsátri eins og það er nú stórmannlegt!!) lætur að því liggja að þúsundir Íslendinga sem um árabil hafa barist fyrir herlausu landi, hafi gengið erinda fjöldamorðingja í Sovétríkjunum. Hafi gengið gegn erlendum her í landinu í þágu þeirra sem drápu óbreytta borgara í Berlín 1953, í Búdapest 1956 og Prag 1968. Og í þágu þeirra sem drápu 10 milljónir manna í Úkraínu með hungursneyð af mannavöldum. Að herstöðvaandstæðingar hafi viljað koma á slíku samfélagi hér á landi! Trúir höfundur Staksteina þessu virkilega sjálfur?
Herstöðvaandstæðingar hafa árum saman barist fyrir friði og félagslegu réttlæti í alþjóðamálum meðan Morgunblaðið hefur stutt dyggilega við hvers kyns ofríkis- og heimsvaldastefnu undir forystu Bandaríkjanna. Herstöðvaandstæðingar vilja friðsamlega sambúð þjóða og vilja draga úr ógninni sem þjóðum heims stafar af herskárri stríðsstefnu pótintáta auðvaldsins vestan hafs. Morgunblaðið talar fyrir stríðsrekstri Bandaríkjanna og væri þá allt eins hægt að saka blaðið um að bera ábyrgð á fjöldamorðum í Afganistan og Írak og grimmúðlegri meðferð fanga en það verður ekki gert hér."
Og Ögmundur lætur sitt ekki eftir liggja:
"Um þessa einstaklinga og hvað fyrir þeim vakti segir m.a. í Staksteinum:
"Þeir gengu í þágu Stalíns og eftirmanna hans en Stalín var einn helzti fjöldamorðingi 20. aldarinnar.
Þeir gengu í þágu þeirra, sem hnepptu aðrar þjóðir í þrælkun.
Þeir gengu í þágu þeirra, sem myrtu verkamenn á götum úti í Berlín 17. júní 1953.
Þeir gengu í þágu þeirra, sem sendu skriðdrekana inn í Búdapest til þess að drepa saklaust fólk á götunum þar.
Þeir gengu í þágu þeirra, sem kæfðu Vorið í Prag í fæðingu.
Þeir gengu í þágu þeirra, sem drápu 10 milljónir manna í Úkraínu með hungursneyð af manna völdum.
Þetta voru hugsjónir herstöðvarandstæðinga. Svona þjóðfélag vildu þeir skapa á Íslandi."
Þetta eru kaldar kveðjur til Árna Björnssonar,Vigdísar Finnbogadóttur, Halldórs Laxness, Jakobínu Sigurðardóttur, Ragnars Stefánssonar, Jóhannesar úr Kötlum, Svövu Jakobsdóttur, Guðmundar Böðvarssonar, Guðrúnar Helgadóttur, Guðmundar Georgssonar, Jónasar Árnasonar, Gils Guðmundssonar, Birnu Þórðardóttur, Einars Ólafssonar, Ingibjargar Haraldsdóttur, Jóns Torfasonar, Kristínar Halldórsdóttur, Ragnars Arnalds
.. og allra hinna; listamannanna, stjórnmálamannanna, launafólks og mannréttindasinna, allra þúsundanna sem tóku þátt í baráttunni fyrir herlausu Íslandi, ýmist með þátttöku í Keflavíkurgöngum eða með öðrum hætti.
Ég hef aldrei verið gefinn fyrir beitingu meiðyrðalöggjafar nema þá til að hrekja gróflega upplognar sakir. En á það ekki við í þessu tilviki?"
Það má taka undir það með þeim félögum að það kanna að vera nokkuð gróft að setja alla þá sem gengu "Keflavíkurgöngur" undir einn hatt. Ástæður fyrir því að menn fóru í þessar göngur hafa ábyggilega verið af mismunandi toga, sumir voru ef til vill þjóðernissinnar, aðrir þoldu ekki erlenda menn eða erlend menningaráhrif, einhverjir voru "friðarsinnar" og eflaust má finna fleiri ástæður en aðrir voru án efa kommúnistar og höfðu það sem sína æðstu ósk að koma á "sovétskipulagi" á Íslandi að fyrirmynd Stalíns og annara "alþjóðlegra hetja" sósíalismans.
Ekki þekki skoðanir allra sem Ögmundur nefnir þarna í pistili sínum, en hitt tel ég á allra vitorði hvaða hug Halldór Laxness bar til Sovétríkjanna og þess skipulags sem þar ríkti. Þó að hann seinna hafi afneitað þeim. Ögmundur nefnir líka Jóhannes úr Kötlum, sem orti "Sovét Ísland óskalandið, hvenær kemur þú?", eitthvað rámar mig líka í lofkvæði um Stalín eftir hann.
Það eru líka fæstir í vafa um það hverjir hefðu "hagnast" mest á því á kalda stríðs árunum ef bandaríski herinn hefði verið gerður brottreka frá Íslandi, það hefðu verið hin sömu Sovétríki. GIUK hliðið svokallaða hefði veikst, kafbátar Sovétsins átt greiðari leið frá Murmansk og tenging á milli Bandaríkjanna og Evrópu til vopna og liðsflutninga ef í harðbakkann slægi orðið erfiðari og hættulegri.
Það þarf því ekki að velkjast í miklum vafa í þágu hvaða ríkis það hefði verið ef herinn hefði farið.
Það var líka gjarna sama fólkið sem "predikaði" um nauðsyn þess að herinn hyrfi á brott og talaði fjálglega um "einhliða afvopnum" og það væri "betra að vera rauður en dauður". Í þágu hvaða ríkis skyldi það nú hafa verið? Hvaða ríki hefði notið ávinnings ef það hefði gengið eftir?
Eins og ég sagði áður, þá kann það að vera nokkuð gróft að setja alla herstöðvarandstæðinga undir einn hatt, en slíkt er ekki einsdæmi í umræðu í pólítík. En hitt verða gömlu "kommarnir" að athuga, að þó að þau tímamót hafi orðið að ekki sé lengur her á Íslandi og þess ekki talinn þörf, í það minnst ekki sem stendur, þá núllstillir sagan sig ekki. Kalda stríðið var blákaldur veruleiki fyrir u.þ.b. 15 árum, hafði þá staðið frá 1917 eða 44, svona eftir því hvernig sagan er skoðuð. Þeir voru líka býsna margir sem vildu koma á sovétskipulagi á Íslandi, það er enginn goðgá að ætla að hlutfall þeirra hafi verið drjúgum hærra innan "Keflavíkurgöngugarpa" en á meðal þjóðarinnar.
En "Sovét Ísland óskalandið", hefur ekki komið og kemur vonandi ekki úr þessu, en það er ekki hægt að líta fram hjá því að það voru margir sem börðust fyrir því.
Saga | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)