Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2016

Týpísk "ekki frétt" um lítið sem ekkert

Það er mér hulin ráðgáta hvers vegna miðill sem mbl.is hefur "ekki frétt" sem þessa undir viðskiptum, en ekki "fólk" eða "Smartlandi".

Smá "rant" leikara sem hefur lítið til málanna að leggja annað en sleggjudóma, er að mínu mati týpísk "ekki frétt".

Ef vil vill má þó virða mbl.is, það til vorkunnar að fréttir af sama stofni hefur mátt lesa í ýmsum erlendum fjölmiðlum.

Ef til vill er þetta gott dæmi um hve langt fjölmiðlamenn seilast til að koma að skoðunum sem samrýmast þeirra eigin.

En ef vilji er til þess að fjalla um UKIP og Nigel Farage er að mínu mati eitt atriði sem er morgunljóst.

UKIP bíður á næstu þremur árum að eitt af eftirfarandi:  1) Leggja flokkinn niður. 2) Endurskipluleggja flokkinn og baráttumál hans.  3) Sigla hægt og hljótt inn í haf gleymskunnar.

Það verður að hafa í huga að UKIP hefur engan beinan aðgang að stjórnvaldsákvörðunum í Bretlandi. Flokkurinn hefur einn þingmann og hefur engin áhrif í breska þinginu.

Lang stærsta baráttumáli flokksins (úrsögn Brelands úr "Sambandinu") hefur nú verið náð og því erfitt að sjá flokkinn halda áfram nema með mikið breytta stefnu.

Aðal "powerbase" flokksins hefur byggst upp í kringum kosningar til Evrópusambandsþingsins, þar sem flokkar eins og UKIP geta gert "gott mót" (vegna hlutfallskosninga), öfugt við einmenningskjördæmi eins og í Bretlandi, þar sem flokkar eins og UKIP eiga yfirleitt erfitt uppdráttar.

Persónulega finnst mér því líklegast að dagar UKIP séu taldir - í árum en ekki áratugum. Fljótt eftir að núverandi kjörtímabili til Evrópusambandsþingsins lýkur, myndi ég reikna með að flokkurinn "hverfi" á einn eða annan hátt.

En það verður ekki frá UKIP og Nigel Farage tekið, að áhrifin hafa verið mun meiri en eiginleg stærð flokksins hefur gefið til kynna.

Það er ólíklegt að yfirvofandi úrsögn breta úr "Sambandinu" hefði komið til sögunnar án þeirra.

Það er á engan hátt óeðlilegt, eða að það teljist flótti, þó að Farage segi af sér við þessar aðstæður.

Hans verki er lokið.  Líklega flokksins einnig.

 


mbl.is Höfuðrotta stekkur frá sökkvandi skipi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sambandshroki"

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum margra ráða- og stjórnmálamanna í kjölfar "Brexit".

Það sem ef til vill stendur upp úr er hroki margra "Sambandssinna" og svo hve mikil óvissa ríkir um hvernig skuli staðið að málum.  Enn einu sinni kemur í ljós að lagaumgjörð "Sambandsins" er í raun hraksmíð og veldur deilum.

Ekki er ljóst hvaða stofnun "Sambandsins" fer með umboð þess í komandi viðræðum við breta og hafin er valdabarátta innan þess um hver stjórni.

Þar fara fremstir í flokki "Sambandsríkissinnar", sem eru sterkir innan framkvæmdastjórnarinnar og svo þeir sem vilja staldra við, eða jafnvel færa völd aftur til þjóðríkjanna, sem eiga sér hauka í horni í ráherraráðinu.

Svo hörð er þessi barátta að fullyrt er að Angela Merkel vilji Jean Claude Juncker úr embætti fyrr en síðar.

En hroki margra embættis og frammámanna "Sambandsins" í garð breta hefur einnig verið eftirtektarverður.

Svo langt hefur hroki "Sambandsmanna" gengið að sumir af þingmönnum Bretlands á Evrópusambandsþinginu, hafa verið spurðir hví þeir sitji þar enn.

Aðrir tala á þann veg að nauðynlegt sé að koma hinu Sameinaða Breska Konungdæmi út úr "Sambandinu" og auðið er.

Rétt eins og þeir líti svo á að "Sambandið" sé að henda Bretlandi út, en ekki að Bretland sé að segja sig úr Evrópusambandinu.

Staðreyndin er sú að valdið og ákvörðunin hvílir eingöngu hjá bretum. Þeir geta ákveðið hvenær þeir ákveða að segja sig úr "Sambandinu" og það er nákvæmlega ekkert sem aðrar þjóðir þess hafa um það að segja.

Staðreyndin er sú að Bretland er fullgildur meðlimur "Sambandsins" þangað til "50. lagagreinin" er virkjuð, og í allt að tvö ár þar í frá, nema um annað semjist.

Þangað til hefur Bretland full réttindi og allar skyldur sem "Sambandsaðild" hefur í för með sér.

Enda hefur enginn af "Sambandsharðjöxlunum" spurt hvers vegna Bretland greiði enn í sameiginlega sjóði þess.

Í raun mætti líklega halda því fram að það sé ólöglegt að "Sambandsríkin" haldi fundi án Bretlands, svo lengi sem "Sambandið" ber af því kostnað.

Það er eðlilegt að Bretland vilji undirbúa sig vel, enda er vandaverk framundan. Það þarf að snúa til baka 43. ára aðild að "Sambandinu" og semja um næstum hvert skref.

Það sem kann ef til vill að gera verkið enn erfiðara en sýnist, er að bresk stjórnvöld hafa svo gott sem enga sínum snærum (launaskrá) sem eru vanir að höndla flóknar viðræður á borð við viðskipta- og fríverslunarsamninga, enda hefur landið ekki verið frjálst að gera slíka samninga í þau 43. ár sem "Sambandsaðild" þess hefur varað.

Það veit enginn nákvæmlega hvað gerist þegar Bretland mun segja sig úr Evrópusambandinu.  Það felur í sér mýmörg tækifæri, en jafnframt stórar hættur. Hvernig tekst til veltur ekki síst á því hvernig stjórnvöld í Bretlandi (og einnig Evrópusambandinu) munu takast á við verkefnið.

En það er ljóst að flas er ekki til fagnaðar, jafnt í þessu efni sem mörgum öðrum. Yfirvegun og skynsemi er það sem þarf til.

En rétt eins og oft áður virðast þau gæði vera af skornum skammti hjá frammámönnum Evrópusambandsins.

Meira framboð virðist af hroka.

 

 


mbl.is Vill Breta út sem fyrst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lög hljóta að gilda

Það er gott og þarft að rætt sé um hver eigi að vera stefna Íslands hvað varðar innflytjendur, flóttamenn og hælisleitendur.

Í þeim efnum, sem mörgum öðrum, eru uppi mismunandi skoðanir, áherslur og meiningar.  Það er eðlilegt, en í þessu málefni sem öðrum er eðlilegt og gefst best að lög ráði.

Hvort að lögunum eigi að breyta, eða Ísland að taka á móti fleiri innflytjendum, flóttamönnum eða hælisleitendum er svo önnur saga.

Það er rétt að hafa í huga að Ísland tekur þegar á móti miklum fjölda innflytjenda.  Árið 2015 voru innflytjendur á Íslandi rétt tæp 5000. Það er hátt hlutfall miðað við íbúafjölda.

Og af því að komandi forseti nefnir Kanada er rétt að hafa í huga að í Kanada gilda afar strangar reglur um innflytjendur, og þeim er framfylgt af þó nokkurri hörku.

Kanada tekur að jafnaði við 250 til 300 þúsund innflytjendum ár hvert.  Það er lægra hlutfall miðað við íbúafjölda en þeir 5000 innflytjendur sem komu til Íslands árið 2015.

Og Kanada sendir úr landi á milli 10 0og 20.000 ólöglega innflytjendur ár hvert (nokkuð misjafnt eftir árum).

Munurinn á milli landanna hvað varðar stefnu í innflytjendamálum, er líklega ekki hvað síst sá að Kanada "velur" alla sína innflytjendur, þar sem þegnar engrar þjóðar eiga sjálfkrafa rétt því að flytja til Kanada til þess að búa þar og starfa.

Alla jafna heyrist mér Kanadabúar vera nokkuð sáttir við innflytjendastefnu landsins, þó að misjafnar skoðanir heyrist um hver fjöldinn ætti að vera.  Fáir ef nokkrir vilja loka fyrir innflytjendur, og sömuleiðis fáir sem vilja "opna" landamærin.

Sömuleiðis heyrist mér flestir vera sáttir við að almennt sé tekið hart á ólöglegum innflytjendum, því þeim finnst að innflytjendur eigi að fara eftir settum reglum og lögum, og ekki eigi að gefa þeim sem "smygla" sér fram hjá röðinni forgang.

Og það er ef til vill mergurinn málsin.

Lög hljóta að gilda, og eiga að gilda.

Það er sjálfsagt að ræða hvort breyta þurfi lögunum (sem verður þá gert á Alþingi) og/eða verkferlum.

Persónulega tel ég að íslensk stjórnvöld hafi staðið nokkuð vel að móttöku flóttmanna, þó vissulega megi deila um hvort að þeir hafi mátt vera fleiri.

En að mínu mati er mun rökréttara að bjóða fleirum að koma úr flóttamannabúðum, en gefa forgang þeim sem koma til landsins með vafasömum eða ólöglegum hætti, oft í raun á leiðinni annað þegar þeir eru staðnir að lögbrotum.

 


mbl.is Auðvelt að mála fjandann á vegginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir 17. árum

Ég get ekki talist gríðarlega mikill fótboltaáhugamaður.  En það er ekki hægt annað en að hrífast með stemmningunni í kringum frábæra frammistöðu íslenska landsliðsins.

Ég hef ekki komið "á völlinn" í 17. ár.

Þá einmitt sá ég íslendinga etja kappi við frakka á Stade de France.

Þá töpuðum við naumlega 3 - 2.

Mér er ennþá minnistæð þögnin sem sló á franska áhorfendur þegar Ísland jafnaði 2 - 2.

En að sitja á Stade de France innan um 80.000 áhorfendur var ógleymanlegt.

En við vonum öll að þögn muni slá á franska áhorfendur í kvöld - oft.

Áfram Ísland.

 

 

 

 


mbl.is Ísland er úr leik á EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband