Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2015

Skautalist Össurar

Margt finnst mér vel sagt hjá Össuri Skarphéðsinssyni í þessari frétt. En þó finnst mér eins og hann skauti í kringum "fílinn í stofunni".

Ég held að allir séu sammála um að sökin liggur hjá báðum málsaðilum (eða öllu frekar öllum), en auðvitað fyrst og fremst hjá Grikkjum sjálfum.

Það eru jú þeir sem hafa markað brautina fyrir ríki sitt.

Það er alveg rétt hjá Össuri að Grikkjum hefði aldrei átt að vera leyft að taka upp euro. Það er rétt hjá Össuri að bókhaldið var skáldað og það er líka rétt hjá honum að "allir" vissu það.

Sýnir það ekki betur en margt annað á hvers kyns grunni euroið er byggt?

En Össur sleppir því að nefna hvernig euroið gerði Grikklandi kleyft að safna skuldum eftir að euroið var tekið upp. Vextir voru lágir og gjaldmiðillinn tók ekkert mið af efnahagsástandinu.

Á meðan allt var í þokkalegu standi í Þýsklandi (og öðrum sterkum eurolöndum) þá var gjaldmiðill Grikklands sterkur.

Innflutningsgeta Grikkja hélst, en innlendir aðilar töpuðu samkeppnishæfi sínu.

Össuri finnst þægilegast að skauta fram hjá slíku.

Hann minnist heldur ekki á það að "Sambandsaðild" hefur ekki reynst Grikklandi sú "töfralausn" við efnahagslegum óstöðugleika sem flokksfélagar hans, þar á meðal núverandi formaður, boðuðu að slík aðild væri (reyndar var að þeirra mati nóg að sækja um, ef ég man rétt).

Össur skautar "áttur" í kringum slíkan sannleika.

34 ár hefur Grikkland verið aðili að "Sambandinu", hefur verið með euro síðan 2001.

Nú er atvinnuleysi þar í hæstu hæðum, efnahagurinn í kalda koli og talað er um að þurfi að veita landinu aðstoð á mannúðarforsendum. Hundruð þúsunda einstaklinga hafa vart í sig og á, og treysta á aðstoð samtaka s.s Lækna án landamæri hvað varðar heilbrigðisþjónustu.

Þar með er ég ekki að segja að rekja megi ástandið eingöngu til eurosins eða "Sambandsaðildar" Grikklands.

En það er ljóst að hvorki "Sambandsaðildin" eða euroið hefur verið Grikklandi "töfralausn". Spilling hefur ekki minnkað, skattheimtan hefur lítið skánað, efnahagslegur óstöðugleiki hefur ekki horfið.

Þvert á móti má halda því fram að Grikkland hefði ekki getað steypt sér í slíkar skuldir ef það hefði haldið sig við drökhmuna. Og því hefði ekki ferið fórnað til að bjarga ástandinu á Eurosvæðinu 2010.

Ef til vill hefði það misst af bólunni á síðasta áratug, þegar ódýrt lánsfé flæddi um hvern krók og kima.

Og ríku mennirnar sem Össur talar um að hafi tæmt Grikkland innan frá, hefðu ekki getað flúið með neitt nema "gengissignar drökhmur".

Það er ljóst að euroið á eftir að reynast Grikkjum dýrkeypt, og líklega "Sambandinu" einnig.

Það nýtur æ minni stuðnings í núverandi mynd, enda flestum orðið ljóst hve uppbygging þess er gölluð, og stuðningurinn minnkar, jafnvel í kjarna "Sambandsins.

 


mbl.is Pólitíkusar sekir en ekki almenningur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beggja skauta byr Pírata - 2ja flokka stjórn?

Þeir sigla góðan byr í skoðanakönnunum þessa daga Píratarnir. Að mörgu leyti er það skiljanlegt, og að öðru leyti ekki.

Á miðju kjörtímabili er ekki óeðlilegt að ríkistjórn hafi mótbyr, reyndar gætir víða um lönd vaxandi óþolinmæði gagnvart stjórnvöldum og nýjum flokkum vex fiskur um hrygg.

Þess gætir einnig á Íslandi, því þó að ríkisstjórnin sé vissulega ekki ofsæl af sínu fylgi, virðast kjósendur enn síður geta hugsað sér að kjósa flokkana úr síðustu ríkisstjórn, Samfylkingu og Vinstri græn.

Reyndar er staða Samfylkingarinnar með eindæmum döpur, og ef ekki væri fyrir "sædkikkið" Bjarta framtíð, væri hún minnsti flokkurinn sem er á þingi nú (í þessari skoðanakönnun). Flokkurinn er búinn að missa u.þ.b. 2/3 af fylgi sínu frá því að best lét.

Sú afsökun sem lengi var notuð að Björt framtíð væri að fiska á sömu miðum, með sömu stefnumál, er vart nothæf lengur, enda samanlagt fylgi flokkanna aðeins um 15%.

Sjálfstæðisflokkurinn er ennþá langt frá sínu "eðlilega" fylgi, en má samt best una við sitt af "gömlu" flokkunum, þó að það sé auðvitað lítil huggun.

Framsóknarflokkurinn er búinn að missa mikið fylgi, þó segja megi að hann hafi séð það svartara í skoðanakönnunum. Það segir þó líka sögu að hann skuli vera fjórði stærsti flokkurinn í þessari könnun.

12% nægja Vinstri grænum til að vera þriðji stærsti flokkurinn. Þannig er ástandið í Íslenskri pólítík þessa dagana. Þó að margir virðast kunna vel við formann flokssins og bera til hennar traust, þá virðist afgangurinn af flokknum duga vel til að kjósendur leita annað.

Og svo eru það Píratar - þeir sigla með himinskautum líkt og í undanförnum könnunum.

Hve stór hluti þeirra sem gefa Pírötum stuðning sinn í þessari könnun, gerir það vegna þess að þeir fylgja þeim beint að málum er erfitt að segja til um, það er nokkuð freistandi að álíta að all margir geri það hreinlega vegna þess að þeir vilja ekki styðja nokkurn hinna flokkanna.

En það breytir því ekki að Píratar, ef þeir halda vel á spöðunum, eiga góða möguleika á því að stórauka fylgið í næstu kosningum, ég tel það reyndar nokkuð víst, þó ég trúi því ekki fyrr en ég sé það að þeir verði yfir 30%.

En það skiptir auðvitað (jafnvel meira en hjá öðrum flokkum) miklu máli hvernig skipast á framboðslista og svo er það spurningin hvernig þeim gengur að halda sérstöðu sinni?

Nú er til dæmis að hætta á þingi sá þingmaður þeirra sem mér hefur litist best á. Í borgarstjórn virðast þeir falla inn í meirihlutann eins og flís..  og starfa þar eins og hefðbundnu vinstriflokkarnir, alla vegna eins og ég sé úr fjarlægð.

En mér þykir það nokkuð merkilegt þegar verið er að skeggræða skoðanakannanir upp á síðkastið, að ég man ekki eftir því að neinn hafi ymprað á einu tveggja flokka stjórninni sem er í spilunum, ef úrslitin yrðu með þessum hætti.

Það er stjórn Pírata og Sjálfstæðisflokksins, sem (með fyrirvara um skipan framboðlista) ég held að gæti orðið fyrir marga hluta sakir góð og athyglisverð ríkisstjórn.

En þar eru líklega margir ósammála mér.

 


mbl.is Píratar enn langstærstir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grísland?

Í allri umræðunni um Euro/Grikklandskrísuna hafa margið gert mikið úr samanburði á milli Grikklands og Íslands.

Þó að vissulega megi finna sameiginlega þætti, þá eru krísurnar í raun gjörólíkar.

Vissulega eru sameiginlegir þættir, eins og miklar skuldir, vinstri sinnuð stjórnvöld (þegar þjóðaratkvæðagreiðslurnar voru haldnar), þjóðaratkvæðagreiðslur, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið.

En stærsti munurinn er sá að skuldavandræði Grikkja hafa alltaf snúist um skuldir ríkisins. Það var ríkið sem sló lánin og það var ríkið sem var í erfiðleikum með að greiða þau.

Á árunum fyrir bankahrun hafði Íslenska ríkið hins vegar greitt sín lán upp að stærstum hluta. Það voru bankarnir sem voru ofurskuldsettir og lentu í vandræðum með að greiða sín lán.

Þjóðaratkvæðagreiðslurnar á Íslandi snerust ekki um hvort að ríkið ætti að greiða skuldir sínar (það hafa Íslensk stjórnvöld ávallt gert), heldur hvort ríkið ætti að taka ábyrgð á skuldum sem Landsbankinn hafði stofnað til, og Bresk og Hollensk stjórnvöld höfðu fært yfir til opinberra aðila.

Þjóðaratkvæðagreiðslan í Grikklandi var heldur óljósari, en snerist um hvort að segja ætti já eða nei við tilboð um greiðslu og lánaáætlun sem í boði var (eða ekki) af hálfu Euroríkjanna.

Gríska ríkisstjórnin ákvað að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu til að fá álit þjóðarinnar, en vinstri stjórnin á Íslandi barðist gegn þjóðaratkvæðageiðslum, og hundsuðu flestir ráðherrar þá fyrri (líklega er það einsdæmi að forsætisráðherra lands hundsi þjóðaratkvæðagreiðslu).

Ísland þurfti aldrei að setja nein takmörk á notkun gjaldmiðils síns, eins og Grikkland og Kýpur hafa þurft að gera, þó að gjaldeyrishöft hafi vissulega verið sett á og séu enn í gildi.

En bankar á Íslandi lokuðu aldrei og allir höfðu aðgang að peningum sínum til nota innanlands eftir sem áður.

Seðlabanki Íslands starfaði enda með stjórnvöldum, en ekki gegn þeim.

Gengisfall Íslensku krónunnar efldi útflutning og styrkti samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja. Slíkt er yfirleitt ein af grunnaðgerðum Alþjóða gjaldeyrisjóðsins en stóð Grikklandi ekki til boða.

Gjaldeyrishöft og sjálfstæður gjaldmiðill hindruðu fjárflótta frá Íslandi, nokkuð sem ekki stöðvaðist fyrr en bönkun var lokað í Grikklandi.

Það er því ljóst að mínu mati að þó vissulega megi sjá sameiginlega þætti, þá er aðstaða Grikklands og Íslands á engan hátt samanburðarhæf.

Grikklandi stendur engin "Íslandsleið" til boða.

Skuldirnar og orsakir þeirra eru ólíkar. Ísland fékk engar skuldir niðurfelldar og sóttist ekki eftir því. Fyrir Grikkland er slíkt lífsnauðsynlegt.

Það er engin spurning í mínum huga að Ísland var betur statt utan "Sambandsins" og Eurosvæðisins, með eigin gjaldmiðil og betur varið gegn þvingunum.

Það kemur æ betur í ljós í Grikklandi hvaða máli það skiptir að hafa framselt vald eins og t.d. í peningamálum til "Sambandsins".

Grikkir sýndu mikið hugrekki í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þrátt fyrir lokaða banka og lítt duldar hótanir ýmissa forystumanna Evrópusambandsins, sögðu þeir nokkuð afdráttarlaust nei.

Hvað við tekur veit engin og enn einn gálgafresturinn hvílir á landinu eins og mara, nú fram á sunnudag.

Þvælingurinn fram og aftur um "blindgötuna" hefur þegar valdið ómældu tjóni, bæði í Grikklandi og í Evróusambandinu, og þar bera báðir aðilar sök.

Það hljóta allir að vera sammála um að að mál sé að linni.

Það verður að ljúka málinu, endanlega. En það er nokkuð sem "Sambandið" virðist sífellt eiga erfitt með.

Svo vitnað sé til Ensks máltækis, þá er búið að sparka dósinni svo lengi áfram, að dósin er svo gott sem ónýt.

 

 

 


Verður allt "Oxi-clean" í Grikklandi?

Niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Grikklandi er í senn afgerandi og sláandi. Hún kom mér nokkuð á óvart, og er ég líklega ekki einn um það.

Það er merkilegt hvað skoðanakannanir eru langt frá raunveruleikanum, rétt eins og þær voru í Bresku kosningunum.

oxicleanÝmsir vilja meina að beinar og óbeinar hótanir og heimsendaspár ýmissa forystumanna "Sambandsins" hafi stutt Nei málstaðinn.

En hvert stefnir Grikkland nú?

Það veit í raun enginn, en ljóst er að Tsipras kemur að taflborðinu með sterkt og óvéfengjanlegt umboð þjóðar sinnar, nýbúinn að fórna fjármálaráðherranum, sem ætti ef eitthvað er að blíðka "Troikuna".

En það er spurning hvað Eurosvæðisríkin geta boðið Grikklandi meira en þegar hefur verið gert? Lengingar lánstíma og vaxtalausra og afborgunarlausra tímabila (sem í raun jafngildir afskriftum) er ekki ólíklegt, en afar erfitt er fyrir ríkin að bjóða upp á beinar skuldalækkanir.  Það myndi án nokkurns vafa mælast afar illa fyrir á "heimvígsstöðvum", þannig líklegra er að reynt verði að fela sannleikann.

Þann að Grikkir munu aldrei borga skuldir sínar til baka nema að litlu leyti.

En flest bendir til að afstaða Eurosríkjanna sé klofin í þessu máli eins og svo mörgum öðrum. Það er áberandi að Frakkland og Ítalía virðast taka mun jákvæðari afstöðu til Grikkja, en til dæmis Þýskaland, Spánn, Holland og Finnland.

En Spænska ríkisstjórnin óttast að eftirgjöf gagnvart Syriza muni tvíefla Podemos, og kosningar eru í haust á Spáni.

Finnar hafa alltaf verið frekar andsnúnir lánveitingum til Grikkja, og eftirgjöf á þeim mun örugglega ekki mælast vel fyrir, og allra síst nú þegar Finnar eiga í vaxandi erfiðleikum og horfa fram á samdrátt, niðurskurð og vaxaandi atvinnuleysi.

Þjóðverjar vilja halda fast um skattfé sitt, eins og eðlilegt er, og mikil andstaða er í Þýskalandi við afskriftir til handa Grikkum. Verulega skiptar skoðanir eru í flokki Merkel, og eins er líka víst að AfD myndi vaxa fiskur um hrygg, ef slík "lausung" í fjármálum yrði ofan á.

Svona má lengi telja áfram og ljóst er að fátækari þjóðir Eurosvæðisins í A-Evrópu hafa lítinn áhuga á því að "niðurgreiða" það sem fyrir þeim lítur út sem hærri lífstíll en þær hafa sjálfar.

Í raun sýnir þetta stóran hluta vandamála eurosins í hnotskurn. Ólíkum þjóðum með ólíkan efnahag er ætlað að deila gjaldmiðli en fáu öðru. Slíkur pólítískur gjaldmiðill, með svo gott sem enga efnahagslega "jarðtengingu", er ávísun á vandamál, eins og margir hafa bent á.

Slíkar ábendingar hafa komið allt frá því að euroið var á hugmyndastigi, en samt var hin pólítíska mynt keyrð áfram.

En vandamál Grikkja eru auðvitað langt í frá horfin þó að þeir hafi hafnað frekari niðurskurði og aðhaldsaðgerðum. Reyndar er erfitt að sjá annað en slíkt í spilunum hjá þeim, hvort sem þeir verða innan eurosins eða utan.

Utan eurosins eiga þeir líklega betri von um að rétta fljótar úr kútnum, þó að upphafið þýði enn frekari erfiðleika. En til að slíkt takist verður að halda vel á spilinum.

Reyndar er það jákvæðasta sem hefur komið út úr þjóðaratkvæðagreiðslunni, það að ótvíræð úrslit hafa fengið Gríska stjórnmálaflokka (all flesta) til að þjappa sér saman að baki niðurstöðunni.

Það er þó alltént sólargeisli í hinu efnahagslega skammdegi Grikklands.

En eins og staðan er nú, myndi ég segja að möguleikarnir á því að Grikkland hverfi af Eurosvæðinum væru 60/40.

En öfugt við það sem flestir frammámenn Eurosvæðisins segja, myndi ég telja að boltinn væri hjá "Sambandinu", hvað er "Sambandið" og Eurosvæðið reiðubúið til að gefa Grikkjum mikinn slaka?

Hvað stóran hluta af skuldunum eru þeir reiðubúnir til að afskrifa?

Og þegar Alþjóða gjaldeyrisjóðurinn er búinn að gefa út skýrslu sem segir að nauðsynlegt sé að fella niður stóran hluta af skuldum Grikklands, þá getur "Sjóðurinn" varla tekið þátt í enn einni björgunaráætlun án þess.

Það sama ætti auðvitað að gilda um Eurosvæðið og "Sambandið", en það kann að vera pólítískt næsta ómögulegt.

 


mbl.is Hvað gera Grikkir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarlegur munur á afstöðu aldurshópa

Það veit enginn hver verður niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslu í Grikklandi nú á sunnudaginn. Flestar ef ekki allar skoðanakannanir benda til þess að afar mjótt verði á mununum.

Hvaða afleiðingar úrslitin munu hafa, er sömuleiðis á reiki.

Mun Grikkland hverfa af Eurosvæðinu? Mun Seðlabanki Eurosvæðisins loka a frekari fyrirgreiðslu? Verður fundin lausn á vanda Grikklands - til skemmri tíma eða til langframa?

Spurningarnar eru stórar og eru gríðarlega mikilvægar fyrir Grískan almenning. Þeirra er jú valið nú, nei eða já, af eða á, er skiptir þetta litlu máli?

Það getur verið erfitt að greiða atkvæði þegar engan veginn er ljóst um hvað atkvæðagreiðslan snýst, og sitt sýnist hverjum.

En það er sláandi hve mikill munur er á afstöðu mismunandi aldurshópa? Í það minnsta ef marka má skoðanakönnun sem gerð var af fyrirtækinu Avgi og má finna hér (á grísku).

Þó að fylkingar já og nei, séu svipaðar að stærð, er samsetning þeirra afar ólík.

Greek Vote cut

Ungt fólk og sérstaklega námsmenn virðist að lang stærstum hluta segja nei. Í þeim aldurshópum er enda atvinnuleysi gríðarlegt og námsmenn sjá litla möguleika að námi loknu.

Ellílífeyrisþegar eru hins vegar að stærstum hluta í já hópnum.

Hvort að einstaklingar telji sig vera að greiða atkvæði um euro eða drökmu, er ekki gott að segja, en í það minnst má þá draga þá ályktun að yngra fólkinu finnst því ekki hafa neinu að tapa.

Þeir sem eru atvinnulausir, eða sjá ekki fram á að fá atvinnu, finnst líklega gjaldmiðillinn sem þeir fá ekki útborgað í, ekki skipta mestu máli.

Ellilífeyrisþegar eru andstæða þessa og finnst áríðandi að verðgildi gjaldmiðilsins sem lífeyririnn er greiddur í, haldi sér að einhverju marki.

En enginn veit hver verður niðurstaðan á sunnudag, eða hvað gerist í kjölfarið á henni. En næsta víst má heita, að Gríska þjóðin kemu frá henni klofin og áframahaldandi óvissa mun ríkja.

En það er nokkuð ljóst að Evrópusambandið hefur tapið miklum velvilja (goodwill) og fylgis á meða yngra fólks í Grikklandi.

Það virðist æ fleira vera þeirrar skoðunar að Grískur almenningur hafi engu að tapa nema hlekkjun.. euroinu.

 


Árið 2010 og aftur 2012 valdi Evrópusambandið að fresta vandanum í Grikklandi - Verður það líka valið nú?

Það má endalaust deila um hvort að Grikkir hefðu aldrei átt að ganga í Evópusambandið, aldrei átt að fá leyfi til að taka upp euro, eða hvort svona hefði átt að gera eða hins eigin, á mismunandi tímum.

Því sem ekki er hægt að neita er að krísa ríkir í Grikklandi og hefur gert það síðan 2009 - hugsanlega fyrr að að hennar hafi ekki gætt, að stórum hluta vegna þess að euroið huldi vísbendingar þar um.

Ég held sömuleiðis að það sé engin leið til að neita því að Grikkland er lang leiðina komið að því að "falla saman", og erfiðleikar almennings magnast dag frá degi, og eru ærnir fyrir.

Greece   Merkel TsiprasBæði árin 2010 og 2012 var ákveðið að "fresta vandanum",eða ef til vill ætti frekar að segja að Evrópusambandið og Grikkir ákváðu í sameiningu að best væri að fresta því að horfast í augu við hann.

Þegar slíkt er valið, hverfa erfiðleikarnir sjaldnast, heldur magnast og verða ill viðráðanlegri.

Það er einmitt það sem hefur gerst í Grikklandi.

Það að ætla að velta núverandi hörmungum á herðar Tsipras eða Syriza er blekking, þó að vissulega megi gagnrýna ýmislegt í framgöngu þeirra og stjórnarháttum.

Það sem þeir hafa fyrst og fremst gert er að neyða alla hlutaðeigandi til að horfast í augu við ástandið eins og það er og varpa ljósi á vandræðin sem frestunin hefur harft í för með sér.

Í huga mer kom stutt viðtal frá árinu 2012, birt í Spiegel stuttu eftir endurskipulagningu Gríska skuldanna það árið. Ég leitaði á náðir Google og fann viðtalið, sem er við prófessor Harald Hau (sem ég þekki ekki nánari deili á).

Prófessorinn segir þar, árið 2012 að vandanum hafi aðeins verið frestað og það muni taka 9  mánuði til 3. ár fyrir Grikklandskrísuna að verða enn verri, og þá á ábyrgð skattgreiðenda.

Eða eins og segir í viðtalinu:

SPIEGEL ONLINE: Is the debt haircut enough to free Greece from its worst burdens?

Hau: No. The agreed-upon debt haircut is insufficient. No matter what, there will be a second, proper bankruptcy. It will probably take another nine months to three years, but then there will be a really big crisis, both economically and politically. The problem has only been deferred. The next time it will only affect the taxpayers, though.

SPIEGEL ONLINE: Why?

Hau: The banks have been stalling for time over the last one and a half years. They wanted to take as many interest payments with them as possible. Now they realize that time is running out and have thus changed their strategy. They are just trying to pass on as many debts as possible to the public sector. From their perspective, this is a smart move. But it will be a catastrophe for taxpayers in the end.

SPIEGEL ONLINE: Then it would have been smarter to have a comprehensive debt haircut that included all investors?

Hau: Of course. Greece's debts don't just need to be reduced to 120 percent of gross domestic product, as is now planned, but down to 60 percent. For that there needs to be a proper national default. Then there would be a completely different negotiating position. Every euro given to investors would be a gift.

Ég hugsa að segja megi að Herr Hau, hafi verið nokkuð sannspár. Ég held einnig að líklega hafi Syriza litlu breytt, nema einhverjum mánuðum til eða frá, um hvenær krísan blossaði upp af endurnýjuðum krafti.

Það er enda svo að nú er IMF farinn að tala á annan veg, og virðist að einhverju marki vera að reyna að fjarlægja sig frá afstöðu Euroríkjanna.

P.S. Hvaða Evrópa er það sem bíður átekta eins og talað er um í fyrirsögn þessarar fréttar?

Er öll heimsálfan á hliðarlínunni? Vissulega getur Grikklands/Eurokrísan hafa áhrif víða og raunar mun víðar en í Evrópu. En fyrst og fremst eru það Euroríkin og Evrópusambandið sem bíða átekta.

En það er allt annar hlutur en Evrópa. Slíku ætti aldrei að rugla saman í fréttum.

 

 

 

 


mbl.is Evrópa bíður átekta - samantekt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bölvað háð og spé

Auðvitað er guðlast ekki nauðsynlegt, en að sjálfsögðu á það ekki að teljast glæpur.

Því tel ég að réttsýnir menn fagni þessari lagabreytingu. Aukið mál og tjáningarfrelsi er tvímælalaust af hinu góða að mínu mati, rétt eins og trúfrelsi.

Og þó að sjálfsagt sé að virða rétt allra til að iðka trú sína, án banns eða afskipta (svo framarlega sem trúariðkunin stangast ekki á við önnur lög), er engin sérstök ástæða til þess að virða það sem trúarbrögðin boða, eða snúast um, ef einstaklingum finnst það rangt.

Og trúarbrögð eiga ekki að vera hafin yfir aðra þætti samfélagsins og það er jafn sjálfsagt að að þeim öðru því sem á sér stað í samfélaginu.

Persónulega hef ég ekki stórar áhyggjur af því að fjömiðlar og aðrir miðlar fyllist af guðlasti, ég hef ekki mikla trú á því.

En ef sjálfsagt skýtur því upp kollinum hér og þar, einstaka sinnum.

En það er engin ástæða til þess að rjúka upp til handa og fóta yfir slíku, hvað þá að reyna að "krossfesta" nokkurn fyrir slíkt athæfi.

Og þeir trúuðu eiga að geta haldið ró sinni, því þeir telja sig líklega vita hver sá er sem kveða mun upp hinn "endanlega dóm".

Þess, þó að ég hafi ávallt gaman af góðu gríni, hvort sem það inniheldur guðlast eður ei, er ég þeirrar skoðunar að þeir sem æða fram með gífuryrðum og skætingi, dæmi sig yfirleitt sjálfir.

 

 

 

 

 


mbl.is Guðlast ekki lengur glæpur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Free Eston Kohver

Nú eru u.þ.b. níu mánuðir síðan Rússneska leyniþjónustan, FSB, rændi Eistneska leyniþjónustumanninum Eston Kohver, Eistlands megin við landamæri ríkjanna.

Síðan hefur Eston dúsað í Rússnessku fangelsi.

Þrátt fyrir kröfur fjölda alþjóðlegra stofnana og einstakra ríkja hefur Rússland farið sínu fram.

En það er rétt að halda málinu vakandi og krefast frelsis til handa Kohver.

 

FreeEstonKohver


Millivegur Grísku ríkisstjórnarinnar og skuldunautanna

 Ég get ekki neitað því að ég hló dátt þegar mér barst seinni myndin í tölvupósti.

Lagarde varou

Varougarde

 

 

 

 

 

 

 

 


Hvers vegna er það næsta ómögulegt að fella niður stóran hluta af skuldum Grikklands?

Því sem næst allir eru sammála því að Grikkland, eða Grikkir geta ekki staðið undir skuldum ríkisins.

En þó að flestir séu sammála um það þýðir það ekki að vilji sé til þess að fella stóran hluta þeirra niður. Jafnvel þó að æ fleiri geri sér grein fyrir því að um sé að ræða glatað fé, sem aldrei verður að fullu greitt til baka.

Auðvitað er það svo að eðlilegt getur talist (alla vegna í flestum tilfellum) að lán séu greidd. Þannig ganga hlutirnir fyrir sig við eðlilegar kringumstæður.

En hluti vandans er að það eru hin ríkin á Eurosvæðinu sem eru að lang stærstum hluta eigendur skulda Grikkja. Ýmist með beinum lánum, í gegnum sjóði sem komið hefur verið á fót í gegnum Seðlabanka Eurosvæðisins og síðan einnig í gegnum Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.

Og eins og komið hefur fram er efnahagsástandið í mörgum ríkjum Eurosvæðisins langt í frá gott, og ríkin mega illa við að tapa slíkum fjármunum. Hvað þá að stjórnmálamenn (en ýmsir þeirra fullyrtu að engin hætta væri á að fé myndi tapast)kæri sig um að útskýra fyrir kjósendum hvers vegna gríðarlegar upphæðir af skattfé þeirra hafi verið gefið.

Keep calm and have another summit EUÞað verður því ekki þægilegt fyrir stjórnmálamenn í löndum eins og Spáni, Ítalíu og Frakklandi, að útskýra hvers vegna allt þetta skattfé muni tapast.

 

Það er heldur ekki auðvelt fyrir stjórnmálamenn í fátækum löndum eins og Eistlandi, Slovakíu og Sloveníu, að útskýra að á milli 2.5 og 3% af þjóðarframleiðslu þeirra hafi horfið í eurohítina í Grikklandi.  Fátæk ríki munar um minna.

En ekki síður óttast stjórnmálamenn "Sambandsins" að eftirgjöf hluta skulda Grikklands muni vekja upp kröfur um skuldaniðurfellingar víðar um lönd, t.d. á Spáni, þar sem þingkosninar eru síðar á þessu ári. Slík eftirgjöf gæti virkað sem atkvæðasegull fyrir hreyfingar eins og Podemos.

Einnig er uppi ótti um að linkinnd gagnvart Grikklandi stuðli að auknum vinsældum "anti Sambandssinna", s.s. Marie Le Pen í Frakklandi, UKIP í Bretlandi, Finnaflokksins og áfram má telja.

Reyndar hlýtur að vera mikill vafi á hvort að skuldaniðurfelling myndi færa þeim meira fylgi, en allur vandræðagangurinn og mistökin í krísustjórnuninni hafa þegar gert. En koma

Eurozone greek  risk exposure

Euroloss German

ndi hvert á fætur öðru væri vissulega hætta á mögnun.

Hér má sjá nokkrar upplýsingar um hvernig skuldinar skiptast á milli Eurolandanna, en endanlegar tölur og útreikningar eru nokkuð á reiki, enda fjárhagsaðstoðin sem Grikkland hefur fengið, sett upp á nokkuð flókinn máta.

Þar kemur til sögunnar bein lán, sjóðir "Sambandsins" og Eurosvæðisins, Seðlabanki Eurosvæðisins (bæði skuldabréfaka

up og ELA aðstoð) og svo Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, en vissulega gæti komið til þess að aðildarríkin þyrftu að leggja honum til aukið fjármagn ef hann þarf að afskrifa lán Grikklands. 

Svogæti einnig farið að Seðlabanki Eurosvæðisins, yrði tæknilega gjaldþrota ef allt færi á versta veg.

Munurinn á þessum tveimur "skuldagröfum" liggur að mestu leyti í að fyrra grafið innheldur ekki ábyrgðir sem gætu komið til sögunnar vegna ELA aðstoðar SE.

Eins og sagði í upphafi þá eru ekki miklar líkur á því að Grikkland geti borgað skuldir sínar og því líklegra en ekki að skattgreiðendur þurfi að axla slíkt tap. En þeir eru margir stjórnmálamennirnar sem kjósa frekar að það gerist hægt og rólega (t.d. með lengingu lána og "vaxtafríum") og þeir geti rætt málin á neyðarfundum og ráðstefnum. Það kemur "betur út" að fresta vandamálinu, en að þurfa að ræða þau við kjósendur.

Hvað þá að þeir vilji ræða hvers vegna lánin voru færð frá fjármálafyrirtækjum í einkaeigu yfir til skattgreiðenda.

Slíkt færir engin atkvæði.

 


mbl.is Hvetur Grikki til að segja nei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband