Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Verðugur friðarverðlaunahafi

Ég hygg að nefnd sú sem veitir Friðarverðlaun Nóbels þurfi ekki að leita lengra en til Malala Yourafzai til að finna verðugan verðlaunahafa.

Það kann ef til vill ekki að virðast að Malala sé verðug þess mikla heiðurs að hljóta Friðarverðlaun Nóbels, alla vegna ekki við fyrstu sýn.

En barátta hennar fyrir menntun til handa sér og stallsystrum hennar er merkilegt framtak og mun stuðla að friði og framförum, ekki í dag, ekki á morgun, en í framtíðinni sem skiptir ekki minna máli en dagurinn í dag.

Aukin menntun og aukin tækifæri til að njóta menntunar, bæði fyrir stúlkur og drengi,  er mikilvægur grundvöllur framfara og eykur möguleika friðar og velmegunar.

Þess vegna er áríðandi að baráttufólk, eins og Malala, njóti stuðnings og viðurkenningar.  Vissulega vekja aðgerðir þeirra og barátta upp obeldi og óeirðir, jafnvel með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

En það má ekki draga úr stuðningi við réttindabaráttu þeirra og stuðning við mannréttindi og mál og skoðanafrelsi.  Við megum ekki falla í þá gryfju að kaupa friðinn með því að fórna tjáningarfrelsi eða hverfa frá stuðning við baráttu einstaklinga eins og Malölu.

Friður sem keyptur er með þögn eða undanlátssemi, er falskur friður og gjarna skammlífur.

Því endurtek ég uppástungu mína að Malala Yoursfzai verði næsti friðarverðlaunahafi Nóbels. 

 


mbl.is Þóttust vera fjölskylda Malölu Yousafzai
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn eitt dæmi um offorsið og æsinginn

Því miður hefur það orðið lenska í tíð núverandi ríkisstjórnar að keyra mál áfram af offorsi, ofstopa og æsingi.

Að staldra við og gefa málum tilhlýðilegan tíma og þátttakendum umhugsunarfrest þykir slæm latína. Hvað þá að gaumgæfa málin betur.

Þess vegna hafa verið lögð fram frumvörp á Alþingi sem jafnvel ráðherrar hafa líkt við bílslys.

Því miður gildir það sama um breytingarferli stjórnarskrárinnar.  Þar hefur verið keyrt áfram án þess að horft hafi verið fram á veginn.  Mikinn hluta af því gerrræði má líklega skrifa á þá staðreynd, að "Sambandssinnar" telja núverandi stjórnarskrá hindra inngöngu Íslands í fyrirheitna landið.  Ekkert má standa í vegi fyrir því "masterplani".  Jafnvel stjórnarskránni skal hennt í flýti og flaustri.

En ef líkja má framlagningu eins ókaraðs frumvarps við bílslys, hvaða líkingu ætti þá að grípa til þegar með svipuðum hætti er gengið fram gagnvart sjálfri stjórnarskránni?

Líklega verður að grípa til líkinga á við móðuharðindi.  Móðuharðindi af mannavöldum.

Þess vegna er áríðandi að segja nei við tillögum stjórnlagaráðs.

P.S.  Rakst á ljómandi gott myndband á bloggi Jóns Steinars Ragnarssonar í morgun, leyfi mér að endurbirta það hér.  Þar má sjá Reimar Pétursson setja fram góð rök fyrir því að segja nei í kosningunni um stjórnarskrádrögin.

 


mbl.is Skiptar skoðanir innan stjórnlagaráðs um frumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að bíða eftir "góðu veðri".

Eins og fram kemur hér í fréttinni sem þessi færsla er hengd við, hafa allar skoðanakannanir í ríflega 3. ár sýnt að meirihluti Íslendinga er á móti inngöngu landsins í "Sambandið".

Það vita "Sambandssinnar".  Það veit "Sambandið".

Þess vegna liggur þeim ekkert á að ljúka viðræðum.  Þess vegna hentar þeim að viðræðurnar dragist eins á langinn og mögulegt er.

Vonin um að hlutirnir snúist til betri vegar er nokkuð veginn það eina sem "Sambandssinnar" eiga eftir.  Von um kraftaverk, töfralausn.  Von um að efnahagsástandið á eurosvæðinu fari að lagast, von um að Íslendingar "sjái ljósíð".  "Sambandssinnar" hafa enda verið duglegir að kynna aðild sem "töfralausn", þannig að þetta rímar nokkuð saman.

Samfylkingin getur enda ekki út frá pólítískri stöðu sinni viðurkennt þá staðreynd að "Sambandsaðild" sé næsta ólíkleg, hvað þá slitið viðræðum eða sett þær á ís.  Það myndi ganga illa í hennar stuðningmenn.  Betra að "óvinirnir" fái slíkt hlutverk.

Þá er betra að vona að Eyjólfur hressist og "sumarið" láti sjá sig sig á eurosvæðinu.  En enn er aðeins "haust" og það er hætt við því að "veturinn" verði langur.

En á Íslandi hyllir undir "vorið og það eina sem getur komið í veg fyrir að "sumarið" komi er núverandi ríkisstjórn.

Líklega verður "sumardagurinn fyrsti" í mái í ár.

 


mbl.is Meirihluti á móti í meira en þrjú ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einfalt Nei

Þá er ég búinn að kjósa og atkvæðið mitt er á leið til Íslands.

Það var ekki notað mikið af bleki í þetta sinn.  Aðeins kosið um fyrstu spurninguna og Xið sett við Nei.

Ég hygg að best sé að byrja endurnýjunarferli stjórnarskrárinnar því sem næst upp á nýtt, þó að sjálfsagt megi nýta einhvern hluta af tillögum stjórnlagaráðs.

En ég kvað nei við þeirri tillögu að sú vinna verði lögð til grundavallar nýrri stjórnarskrá.

Ég vona að það geri sem flestir.


mbl.is Álit á tillögum stjórnlagaráðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að verðlauna friðinn

Að flestu leyti má segja að Evrópusambandið sé vel að friðarverðlaunum Nóbels komið. Enginn (að ég tel) neitar því að "Sambandið" hefur stuðlað að friði og samvinnu innan Evrópu, alla vegna oftast nær.

En auðvitað er ef til full mikil einföldun að þakka "Sambandinu" fyrst og fremst þá staðreynd að Evrópu hefur átt frekar friðsælt skeið nú í ríflega 60 ár.

Líklega er rétt að þakka það frekar auknu lýðræði og vitundarvakningu, en að sérstakt samband þurfi til, en það hefur vissulega hjálpað til.  Það eru ekki lýðræðisþjóðir sem hafa staðið fyrir ófriðnum í Evrópu undanfarnar aldir.

Þjóðir geta slíðrað sverðin án þess að formleg bandalög komi til.  Í ár eru 200 ár síðan Bandaríki Norður Ameríku og Kanada háðu síðast stríð og ég hygg að ekki hafi verið mikil hætta á vopnuðum átökum þar undanfarna áratugi.  Lýðræði enda gróið í báðum ríkjunum og mikil efnahagslegs samvinna og samtvinnun átt sér stað.  Samvinna sem skilaði til dæmis  FTA samningnum, sem síðar varð grundvöllur að NAFTA.

Og þó að í dag sé ef til vill ekki rétti dagurinn til að hnýta í "Sambandið", er það einmitt einhver stærsti gallinn við framþróun þess, að lýðræðis hefðin hefur ekki verið sett í forgang við uppbyggingu þess. Lýðræðishallinn innan "Sambandsins", enda oft ræddur.  Ríkjum innnan "Sambandsins" og þó sérstaklega eurosvæðisins, er þröngur stakkur skorinn og  brestur í saumum, nákvæmlega núna þegar "Sambandið" fær friðarverðlaunin.

Þess vegna þarf friðarverðlaunahafinn að sætta sig við það að innan vébanda hans eru táragassprengjur í reglulegri notkun, þegnarnir kasta Molotovkokteilum (sem voru vissulega uppfundnir innan núverandi landamæra "Sambandsins") á löggæslulið, barsmíðar og óeirðir er daglegt brauð og hreyfingum andstæðum lýðræðinu vex fiskur um hrygg.

Það að steypa mörgum þjóðum saman í eitt ríki, eins og nú virðist vera stefnt að leynt og ljóst er ekki örugg uppskrift að friði.  Sum af grimmilegustu stríðum sögunnar hafa enda verið borgarastyrjaldir, eða styrjaldir sem brotist hafa út þegar ríki hafa brotnað upp.

En það er engu að síður rétt að óska "Sambandinu" til hamingju með verðlaunin.  

P.S.  Brandarar dagsins fjalla margir um það að nú sé skollið á "kalt stríð" innan "Sambandsins" um hver fái að taka við verðlaununum fyrir hönd þess.  Barroso, Van Rompuy eða Schulz. 


mbl.is Valið á ESB staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr einni fylkingu í aðra

Ég get ekki tekið undir það sem ég hef séð í fjölmiðlum að þessi vistaskipti komi á óvart.  Vissulega ekki óumflýjanleg, en samt eins og eðlieg framvinda.

Hann er enda þröngt setinn framboðsbekkurinn hjá Samfylkingunni og næsta víst að þar munu margir þingmenn þurfa að finna sér annan starfa, hvort sem þeim verður hafnað í prófkjörum eða kosningum.

Það er því einfalt og þægilegt að flytja sig yfir til "systurflokks" Samfylkingarinnar.  Ekkert breytist í raun, stefnumálin eru þau sömu og flokkurinn styður ríkisstjórnina, nú sem endranær.  Ég hef áður sagt það að mér finnst Björt framtíð vera eins og óþægilegt og óþarft bergmál af Samfylkingunni.

Ég veit ekki hvort rétt sé að segja að líkur á þingsæti fyrir Róbert minnki, en þær aukast ekki heldur.  Líklega verður hann utan þings í báðum flokkum.   En því ræður auðvitað "kæri Jón á bolnum" og hvernig hann nýtir atkvæði sitt.

P.S. Læt hér fylgja með lag með Eistnesku hljómsveitinni Kuldne Trio, en það heitir Mina Olen Robert, eða Ég er Robert.  Þeir sem hlusta á lagið, þekkja líklega margir hverjir hið geðþekka lag Þýsku hljómsveitarinnar Kraftwerk, We Are The Robots.  Hér í annari útsetningu með Eistneskum texta.  Hrein snilld.

 


mbl.is Róbert til liðs við Bjarta framtíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar gjaldmiðillinn heldur sínu striki og dregur ekki mið af raunveruleikanum

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að lánshæfismat Spánar sé á niðurleið. Reyndar er lánshæfismat opinberra aðila víðast hvar á niðurleið.

Skuldastaða hins opinbera enda víða langt frá því að vera til fyrirmyndar.  

En Spánn er í stærri klípu, eins og mörg þau lönd sem hafa tekið upp euro. Gjaldmiðill Spánar aðlagar sig ekki að efnahagslegum raunveruleika landsins.

Gjaldmiðill Spánar er sterkur og hefur ekki látið verulega undan síga þó að fjórðungur atvinnufærra Spánverja sé án atvinnu.  Þó að landsframleiðsla dragist saman.  Þó að útflutningur Spánverja dugi ekki til að greiða fyrir innflutningin.  Þó að tugir þúsunda íbúða séu auðar og óseldar.  Þó að vanskil í bankakerfinu aukist með hverjum deginum sem líður. Þó að fasteignaverð hafi hrunið og ekki sjái fyrir endann á því.  Þó að mótmæli séu daglegt brauð í mörgum af stærstu borgum Spánar.  Þó að eitt stærsta og öflugasta hérað Spánar tali um sjálfstæði.  Þó að stjórnendur í Spænska hernum hafi minnt á "hlutverk hans".

Þrátt fyrir allt þetta hefur gjaldmiðill Spánar haldið mestu af verðgildi sínu.

Það hefur gert þeim sem eiga peninga að flytja þá í burtu frá Spáni, án þess að glata svo nokkru nemi af fjármunum sínum.

Frá júni 2011 til júní 2012, nam fjármagnsflóttinn frá Spáni u.þ.b. 300 milljörðum euroa. Sú upphæð nemur rétt undir 30% af landsframleiðslu Spánar (einhversstaðar á bilinu 27 til 28 % ef ég man rétt).

Sjálfsagt gleðjast margir yfir því að velefnaðir Spánverjar og fyrirtæki komist með fé sitt úr landinu án þess að glata verulega af verðmæti þess, en landinu blæðir hægt og rólega út.

Í mörg ár voru raunvextir neikvæðir á Spáni.  Slíkt ástand kyndir undir fasteignabólur og eykur líkur á óarðbærum framkvæmdun.  Slíkt varð enda raunin á Spáni, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera.

En það kemur alltaf að skuldadögunum.  Þeim mætti Spánn í spennitreyju allt of sterks gjaldmiðils og berst þar um á hæl og hnakka, með báðar hendur bundnar.

 


mbl.is Lánshæfi Spánar lækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju eru "Sambandssinnar" hræddir við að þjóðin segi álit sitt?

Það hefur mikið verið rætt um þjóðaratkvæðagreiðslur á undanförnum misserum. Margir hafa talað um að rétt sé að stöðva aðlögunarviðræðurnar við "Sambandið" og hefja þær ekki að nýju fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það mega "Sambandssinnar" ekki heyra á mynnst.  Þeir segja að þar með sé rétturinn til að greiða atkvæði um samning tekinn af þjóðinni.  Það eru skrýtin rök frá þeim sem neituðu þjóðinni um að greiða atkvæði um hvort sótt skyldi um aðild.

Auðvitað er sjálfsagt og sáraeinfalt að greiða atkvæði um hvort halda skuli aðlögunarviðræðum áfram, samhliða næstu alþingiskosningum.  

Ef kjósendur vilja fá samning á borðið sem þeir geta greitt atkvæði um, þá segja þeir auðvitað já við því að viðræður haldi áfram. 

Séu þeir búnir að gera upp hug sinn og vilja ekki ganga í "Sambandið" og telji frekari viðræður óþarfar, þá segja þeir nei við frekari viðræðum.

Öllu einfaldara getur það varla verið og kostnaður sáralítill ef atkvæðagreiðslan fer fram samhliða alþingiskosningum.

Sé meirihluti fyrir því að halda aðlögunarviðræðum áfram, styrkir það umsóknina og bindur að mínu mati næstu ríkisstjórn til að halda þeim áfram.

Sé meirihluti fyrir því að slíta viðræðum, þarf lítið að ræða það frekar og bindur sömuleiðis hendur næstu ríkisstjórnar að mestu leyti.

Hví vilja "Sambandssinnar" ekki leita til þjóðarinnar með þetta deilumál?

Eru þeir hræddir við úrskurð hennar?  


mbl.is Ögmundur vill ESB-kosningu í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umfjöllun um Ísland á BNN í dag.

Viðskiptasjónvarpsstöðin Business News Network, eða BNN, sendir út frá Toronto í Kanada.  Þátturinn Headlines var að nokkru leyti helgaður Íslandi.  

Þar var rætt við Ólaf Ragnar Grímsson, Dariu Zakharova, frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og Jon Johnson, annan Íslenska konsúlinn í Toronto.

Ólafur talar býsna vel og útskýrir afstöðu Íslendinga ágætlega.  Fulltrúi IMF ber Íslandi vel söguna, en er varkár í svörum sínum.  Jon Johnson er á léttari nótum, en minnist á vangaveltur um upptöku Kanada dollars.

En þeir sem áhuga hafa geta horft á upptökur af þættinum á www.bnn.ca

En hér má finna myndskeiðið með Ólafi Ragnari, hér myndskeiðið með Dariu Zakharova og hér myndskeiðið með Jon Johnson.


En orðstýr deyr aldregi...

Það hefur stundum verið sagt að ekkert sé eins varanlegt og tímabundnir skattar. Þeir hafa tilhneygingu til þess að endast lengi, ef ekki að eilífu.

Sjálfsagt eru skiptar skoðanir um aukaskattlagningu á raforku og víst er að margir í "vilta vinstrinu" fagna neyslusköttum sem þessum, sérstaklega álagningu á stóriðjufyrirtæki.   Sjálfsagt væri í þeim hópi mikill fögnuður ef eitthvað af stóriðjufyrirtækjunum ákvæði að loka og yfirgefa landið.

Mér finnst það líka alltaf nokkuð merkilegt þegar ráðamenn tala um gríðarlegan hagnað fyrirækja af gengissigi krónunnar.  Það er engu líkara en þeir telji gengi krónunnar sem var 2007 eða svo, vera hið eina rétta.  Þá hafi gengið verið í jafnvægi og allt þar umfram sé nokkurs konar "hvalreki" útflutningsfyrirtækja.

Það virðast býsna margir vera búnir að gleyma í hve miklum vandræðum mörg útflutningsfyrirtæki og samkeppnisiðnaður áttu  í vegna sterks gengis.

Þess utan er reyndar útlitið langt frá því að vera bjart hjá málm og námufyrirtækjum þessa mánuðina og þeim spáð erfiðleikum og samdrætti á næstu mánuðum og árum.  En hvað varðar Íslenskri ríkisstjórn um slíkt.

Það versta varðandi þennan skatt er þó líklega að ekki virðist vera hægt að treysta því sem Íslenskir ráðamenn segja og semja um.  Ef samið er um tímbundnar álögur jafnframt því sem samið er um fyrirframgreiðslu á tekjuskatti og öðrum opinberum gjöldum, er það óneitanlega verulega ómerkileg framganga að ganga á bak slíkum gjörningi.  

Slík framganga sendir þau skilaboð til umheimsins, að á Íslandi sé ekki hægt að ganga að neinu vísu í samskiptum við stjórnvöld.  Skattar hækki eftir góðþóttaákvörðunum ríkisstjórnar og samningar og viðræður skipti engu máli.  Ríkisstjórn brjóti samkomulag sem náðst hafi, eftir eigin hentugleika.

Svo talar ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar um nauðsyn á aukningu erlendrar fjárfestingar.

Orðstýr deyr aldregi, en þegar talað er um þessa ríkisstjórn verður eitthvað annað en "þeim er sér góðan getur", að fylgja á eftir.

 


mbl.is Raforkuskattur áfram til 2018
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband