Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Fara "kvenréttindi" og lýðræði ekki saman?

Ég vil meina að ég sé ekki síður jafnréttissinnaður en aðrir, jafnvel meira en sumir, en á það ber að líta að vissulega eru menn og konur ekki nauðsynlega á eitt sáttir um hvað jafnrétti sé og hvernig beri að túlka það hugtak.

Jafnrétti er í mínum huga fyrst og fremst að ekkert í lögum, reglugerðum og öðru slíku geri mismun á milli manna, sem sé að allir hafi jafnan rétt. 

Það færist hins vegar í vöxt að hugtakið jafnrétti eða skort þar á, sé notað um það þegar annað kynið er meira áberandi í ákveðnum störfum eða stöðum.  Persónulega finnst mér það ekki rétt og væri því nær að tala um jafnræðis eða jafnstöðu baráttu.

Ég held til dæmis að fáir myndu segja að það væri ekki jafnrétti til háskólanáms á Íslandi þó að svo hátti til að þar séu fleiri konur en karlar.  Það væri enda út í hött.

Það vekur líka athygli mína í þessarri frétt að þar sem "jafnréttisstýran" virðist helst telja að skóinn kreppi, eru á stöðum þar sem lýðræði ríkir.  Í fréttinni segir: 

Þar má nefna hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja, á þingi og í sveitarstjórnum.

Allir vita hvernig staðið er að vali fulltrúa á þing og í sveitarstjórnir.  Vilja menn að þær frjálsu kosningar sem viðhafðar hafa verið verði aflagðar, og það verði bundið í lög að ekki sé löglegt að kjósa nema eftir kvóta, eða að stjórnmálaflokkar hafi ekki frelsti til til að ákveða hvernig kynjasamsetning er á listum?

Það sama gildir um fyrirtækjastjórnir, þar kjósa þeir sem eiga hluti í fyrirtækjunum stjórnarmenn.  Eiga þeir aðeins að hafa frelsi til þess að kjósa eftir lögbundnum kvótum, en ekki til þess að kjósa einfaldlega þá sem þeir telja hæfasta til að stjórna eigum sínum?

Í dag var skipt um stjórnarformann í FL Group.  Ingibjörg Pálmadóttir tók við af eiginmann sínum Jóni Ásgeiri Jónssyni. 

Eflaust eru þeir til sem líta á það sem stóran sigur fyrir jafnrétti á Íslandi að hún taki við.

Persónulega sé ég ekki muninn.  Ekki það að ég treysti ekki Ingibjörgu til góðra verka (hún enda af traustu Skagfirsku kyni) hjá FL Group, en þarna er einfaldlega stærsti hluthafinn að skipta um fulltrúa sinn og ég held að kyn hans skipti ekki nokkru máli.

Hitt er svo annað mál að atvinnulífið hefur gott af aukinni þátttöku kvenna í fjárfestingum og stjórnunarstöðum, en það verður að vera á réttum forsendum.  Konum mun án efa fjölga í stjórnum í réttu hlutfalli við aukna þátttöku og aukin umsvif þeirra á fjármálamörkuðum.  Fyrirtæki eins og t.d. Auður Capital, er mun betur til þess fallið að að hafa áhrif á jákvæðan og uppbyggilegan máta heldur en nokkur lagasetning.

En umfram allt verður að tryggja að "kvenréttindi" fari saman við lýðræði, bæði almennings og hluthafa.

 


mbl.is Jafnréttisbaráttunni langt í frá lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrátt úr þankanum

Það er ýmislegt sem brýst um í kollinum svona dags daglega.  Hér er smá sýnishorn af því sem hefur flakkað á meðal gráu sellanna undanfarna daga.

 Nú á dögum gríðarlega hás eldsneytisverðs, þegar því sem næst á hverjum degi berast fregnir af því að flugfélög séu að leggja upp laupana, draga úr sætaframboði, segja upp fólki, hækka verðin  og þar fram eftir götunum.  Sömuleiði er talað um gríðarlega mengun af flugferðum og nauðsyn þess að leggja "kolefnisskatt" á flugferðir sem myndi að sjálfsögðu gera þær enn dýrari.

Fer þá ekki að verða æ erfiðara að veðja á "ferðabransann" og verða ekki "ál og virkjanir" æ álitlegri kostur?

....

Írland var eina landið í "Sambandinu" sem lét fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um "Lissabon sáttmálann" svokallaða.  Það var gert vegna þess að það er skýrt tekið fram í Írsku stjórnarskránni að allt framsal á fullveldi skuli borið undir þjóðaratkvæði.

Svarar það ekki einhverjum spurningum um hvort að fullveldisframsal felist í aðild að "Sambandinu"?

....

Nú þegar árar frekar illa í efnahagslífinu og einkareknum og einkavæddum fyirtækjum gengur misjafnlega nota margir tækifærið og tala eins og allur "kapítalisminn" sé ónýtur, "frjálshyggjan" sé í dauðateigjunum og þurfi að henda henni frá og þar fram eftir götunum. 

Nú sé að koma í ljós að það sé ríkisreksturinn sem "blívi" og jafnvel þurfi að "þjóðnýta" eitt og annað.  Gömlu kommarnir virðast sumir jafnvel telja að þeirra tími sé kominn aftur.

En vissulega hafa einkavædd fyrirtæki eins og til dæmis bankarnir átt betri daga.  En það verður ekki horft fram hjá því hvað þeir hafa aukið umsvif sín og skila miklu til samfélagsins.  Það virðist enda svo að það eru einna síst þeirra fjárfestingar sem eru til vandræða.

En sameignarsinnarnir virðast vera búnir að gleyma að þetta er langt í frá eina "bankakreppan" sem hefur hrist upp í Íslenskum bönkum.  Skemmst er auðvitað að minnast þess að fyrir u.þ.b. 25 árum þurfti ríkissjóður að leggja Landsbankanum til nokkra milljarða til að forða honum frá gjaldþroti.  Þannig hafði ríkisreksturinn leikið hann.  Hvað skyldi sú upphæð vera að núvirði?

Það er merkilegt að heyra menn tala eins og slíkur rekstur sé lausnin.


Flikkað upp á myndir

Á yngri árum var ég með ljósmyndadellu, líklega á frekar háu stigi.  Tók aðallega svarthvítar myndir, framkallaði og stækkaði og hafði gaman af.  Stöku sinnum tók ég góðar myndir.

Síðan eftir að skólavist lauk og aðgangi að myrkrakompu sömuleiðis datt ljósmyndaáhuginn niður.  Það var síðan eftir að stafrænu myndavélarnar fóru að koma að ég fór að fikta við að taka myndir aftur.  Fyrst var þetta aðallega með litlar "compact" vélar sem ég vann við að selja.  En um síðustu áramót var keypt að Bjórá SLR Canon d40.  Þá blossaði áhuginn upp á nýju, bara það eitt að handleika vélina færði góðar minningar.

Ennþá hef ég gaman af svarthvítu myndunum og þó að margar myndirnar séu af ómegðinni, get ég líka fengið útrás fyrir önnur áhugamál, s.s. "barkarblætið" sem hefur fylgt mér um nokkurt skeið.

Fyrir nokkrum vikum fór ég svo að hlaða myndum inn á Flickr, á slóðina www.flickr.com/tommigunnars

Þar má finna nokkra tugi mynda, meðal annars þær sem hér eru fyrir neðan og með því að "klikka" á þær er hægt að heimsækja síðuna og skoða þær nánar.

 

The Monarch in our Garden Tree Monkey Chippie Green on the Tree Going Home Your Neighbourhood Reflects on You Tongue in Cheek

Örlítil getraun

Þegar ég er að þvælast um á netinu dett ég oft um ýmsar skrýtnar staðreyndir sem koma mér á óvart.  Eitthvað sem skiptir oftast engu máli en mér þykir þó athyglivert.

Því er það þessi litla getraun:

 Hvað eiga kvikmyndaleikstjórinn Guy Maddin og kántrýsöngkonan k.d. lang sameiginlegt, og þá er ég að meina fyrir utan það að vera bæði Kanadamenn.


Af bjarnargreiðum og veiðum

Þó að það sé eins og að bera í bakkafullan lækinn að fjalla meira um "stóru bangsamálin", þá langar mig að minnast á ýmislegt sem vakti athygli mína.

Margir hafa vakið máls á því að þetta sé ekki pólitískt mál og að út í hött sé að leggja það "að fótum" Umhverfisráðherra.  Í sjálfu sér er ég sammála því.  En það vekur hins vegar spurninguna, hvað var Þórunn að gera norður?  Ekki nóg með að ráðherra þjóni engum tilgangi á staðnum, heldur hafði komið fram í fjölmiðlum að Þórunn væri í fríi.  Hvað gekk ráðherra til?  Til hvers taldi hún sig þurfa að leigja flugvél til að komast á staðinn? 

Hennar pólítíska ábyrgð er að útskýra það fyrir almenningi.

Það hefur sömuleiðis vakið athygli mína að lýðskrumarar á Íslandi sem sáu alla meinbugi á því að taka á móti erlendu flóttafólki, sjá ekkert því til fyrirstöðu að hið opinbera eyði milljónum af almannafé til þess að flytja ísbirni til síns heima. 

Hefði ekki verið betra að skjóta birnina strax og ánafna samsvarandi  peningum og áætluð björgun kostaði  til rannsókna og aðstoðar við ísbirni í sínum náttúrulegu heimkynnum?

Íslendingar virtust nú í seinna skiptið vera að "panikera".  Talað var að þyrfti að flytja ábúendur að Hrauni á brott og allir virtust óttast björninn.  Danski "sérfræðingurinn" kom með 9. ára son sinn með sér, vegna þess að ekki hafði verið hægt að finna pössun fyrir hann í Danmörku.  Hvar var drengurinn svo passaður?  Jú, um það sá húsfreyjan að Hrauni.

Persónulega tel ég að heilladrjúgast sé að aflífa þá birni sem koma til Íslands, nema ef vilji er til þess að koma upp athvarfi fyrir ísbirni einhversstaðar, til dæmis í Húsdýragarðinum.  Það er engin ástæða til þess að gera of mikið úr útrýmingarhættu hjá ísbjörnum, og það að ferja eitt eða tvö dýr til síns "heima" skiptir ekki nokkru máli þar um.  Mesta hættan sem stafar að ísbjarnastofninum er hlýnun jarðar, sem minnkar kjörlendi þeirra.  Þó benda flestar vísbendingar til þess að bangsar hafi áður mátt þola þrengingar sem stafa af hlýnun. Elstu steingervingar af ísbjörnum eru u.þ.b. 100.000 ára gamlir og benda það til þess að þeir hafi aðlögunarhæfni til að takast á við mismunandi hitastig.

Auðvitað er það "grand" af fyrirtækjum að bjóðast til þess að kosta björgun bangsa.  Ég velti því fyrir mér hvað sé inni í þeim kostnaði. 

Skyldi til dæmis áralöng vinna ábúenda að Hrauni við að byggja upp æðarvarp verða greitt af þeim sem kosta björgunina? 

Nú þurfa fjölmiðlar sömuleiðis að ganga hart eftir því að fá allar kostnaðartölur varðandi björgunina og hvernig hann skiptist á milli einkaaðila og hins opinbera.


Limra Þórunnar

Best að sýna að máli bjarndýrs ég veld
beint norður með einkavél held
Það þýðir ekki að hangsa
því ég bjarga ætla sko bangsa
en svo fékk ég þennan blóðrauða feld


mbl.is Ísbjörninn að Hrauni dauður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stökur

Einstaka sinnum detta stökur í huga mér, næstum svona af sjálfu sér.  Þannig var það í morgun þegar ég las fréttirnar.  Þetta er þó sama stefið, tvítekið. 

Ólíklegt að hann eldi launi
endar sjálfsagt í tómu rugli.
Bangski skokkar heim að Hrauni
heldur partý með egg og fugli

Bangsa leiðist ekki baun
búkinn færir ei með veggjum.
Kátur skokkar heim á Hraun
helst að leita að eggjum.


Skagfirska sveiflan á sér marga aðdáendur

Polar%20Bear%20Waltz

Alvöru veður, alvöru fólk

Það er fátt leiðinlegra en að bíða á flugvöllum, nema ef vera skyldi að bíða í flugvélum.  En ég get borið vitni um að veðrið var "alvöru" hér í Toronto í gærdag og kveldi.  Ekki það versta sem ég hef lent í, en alvöru þrumuveður.

Þrumurnar drundu hér á milli húsanna og eldingarnar sáust vel og sumar voru í óþægilega lítilli hæð að sumum fannst.

Á köflum komu þær svo títt að það var engu líkara en "papparassar" hefðu sest um okkur hér að Bjórá.

En alvöru fólk tekur þessu með hringdansi.

En þó að það sé leiðinlegt að bíða í flugstöðinni, er það auðvitað hjóm eitt hjá því að þurfa að bíða í flugvél.

En mér skilst að það hafi verið hlutskipti þeirra sem voru að koma, en eftir því sem mér er sagt þurfti flugvélin að lenda í Hamilton og bíða þar eftir að komast aftur til Toronto.

En við þessu er ekkert að gera, veðrinu ræður enginn.


mbl.is Stigu hringdans í flugstöðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei kveða Írar

Hvernig sem á það er litið hlýtur það að teljast verulegt áfall fyrir ESB og aðildarríki þess að Írar skuli hafa sagt nei við Lissbon sáttmálanum.

Það skiptir engu hvort að menn reyni að finna einhverjar aðrar ástæður fyrir "nei-inu" en andstöðu við sáttmálann.  Nei-ið er staðreynd.

Þetta setur hnút á málið og er ekki að efast að mikið verður reynt að leysa hann á næstu vikum og misserum.

Auðvitað má segja að sú staðreynd að rétt um 1% af íbúum ESB hafi fellt sáttmálann sé ekki mikils virði, en þegar það er tekið með í reikiningin að þetta eina %, eru einu íbúarnir sem fengu að tjá sig um sáttmálann með atkvæðagreiðslu lýtur málið öðruvísi út.

Því má eins segja, að allar þær þjóðir sem fengu að greiða atkvæði felldu sáttmálann.  Þessi neitun fylgir svo í kjölfarið á höfnun Frakka og Hollendinga, þegar þeir greiddu atkvæði um "stjórnarskránna" sem var nokkurs konar undanfari Lissabon sáttmálans.

Það sem stendur eftir er að nú veit raun enginn hvert "Sambandið" stefnir, hafi einhver vitað það áður.  Alla vegna finnst mér ég hafa heyrt margar mismunandi skoðanir á því hvert stefnan liggi.

En það verður fróðlegt  að fylgjast með framhaldinu, verður sáttmálinn "sleginn af", greiða Írar atkvæði aftur, bakka hinar þjóðirnar alfarið með sáttmálann.

Hvað gerist?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband