Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

450 kall kílóið

Ég veit ekki hvað Íslendingar borða mikið lambakjöt í ár, eða hvað þeir borðuðu mikið í fyrra, en mér var sagt að þeir hefðu borðað 7300 tonn árið 2005.

Ef við reiknum með að neyslan sé u.þ.b. 7500 tonn og deilum því magni niður á þær 3348 milljónir sem segir í fréttinni að verði framlag ríkisins til sauðfjárræktar á fyrsta ári samningsins, þá er niðurstaðan rétt undir 450 krónum á hvert kíló.

Ég hef áður sagt að hér kaupi ég Áströlsk eða Ný Sjálensk lambalæri á u.þ.b. 540 krónur kílóið, í smásölu, það sem sé u.þ.b 90 krónum meira en Íslenskir skattgreiðendur borga fyrir hvert kíló af lambakjöti, læri, hrygg og frampart, munurinn er sá að fyrir sína peninga fá Íslenskir skattgreiðendur ekki örðu af kjöti.  Það þurfa þeir að kaupa út í búð.

Og það sem meira er, það er verið að festa þetta kerfi í sessi þangað til 2014.


mbl.is Nýr sauðfjársamningur undirritaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattlagning framtíðarinnar

Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hvað skuldir ríkissjóðs hafa minnkað.  Það eru risafjárhæðir sem ella hefðu farið í vaxtagreiðslur sem nú er hægt að nýta til annara hluta.

Best færi auðvitað á að tækifærið yrði notað til að draga jafnframt úr útgjöldum ríkisins og lækka skatta verulega á næstu árum, en líklega er það of mikil bjartsýni.

En það sem er vert að hafa í huga þegar menn velta fyrir sér skuldum ríkisins og skattlagningu, að lántökur hins opinbera eru skattlagning á framtíðinni.  Það sem var tekið að láni á árum áður verður að greiðast af tekjum þeim sem ríkið hefur í dag.

En þó að staða ríkissjóðs sé afar góð, þýðir það ekki að það eigi að eyða meiri peningum, en segir ekki máltækið að það þurfi sterk bein til að þola góða daga.

 


mbl.is Dregur úr hreinum skuldum ríkissjóðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þröng á þingi

Nei, líklega verður ekkert þrengra á þingi á næsta kjörtímabili en nú er, enda verða þingmenn jafn margir og á því kjörtímabili sem er að líða.  En hitt er ljóst að það verður þrengra en áður hvað framboð varðar, ef allir þeir sem talað er um að hugsi sér að bjóða fram ná að setja saman lista.

Nú sitja fulltrúar 5 flokka á þingi, en framboðin gætu orðið 9 í næstu kosningum ef allt fer eins og horfir nú um stundir.

Til viðbótar við flokkana 5 geta kjósendur átt von á því að sjá 2. framboð aldraðra og öryrkja, framboð á vegum Framtíðarlandsins og sömuleiðis er spurning hvort að Flokkurinn bjóði fram lista.

Ef öll þessi framboð bjóða fram "fulla" lista í öllum kjördæmum verða frambjóðendur rétt tæplega 1200, það er u.þ.b. 0.4% þjóðarinnar.  Ég veit ekki hvað þetta er hátt hlutfall kosningabærra manna, en það er auðvitað umtalsvert hærra, sé miðað við þá 216.191 sem voru á kjörskrá í sveitarstjórnarkosningunum 2006, er hlutfallið 0.55%.

En auðvitað er ekki þar með sagt að öll þessi framboð komist á koppinn, en þingmannaveiran stingur sér þó víða niður og sýkir ótrúlegasta fólk, en vissulega má segja að það sé gott að áhugi fyrir stjórnmálum sé mikill. 

Ég er hins vegar sammála þeim sem segja að það verði fyrst og fremst stjórnarflokkarnir sem komi til með að njóta góðs af fleiri framboðum.  Ný framboð draga jafnan til sín óánægjufylgi sem er ekki líklegt til að enda hjá stjórnarflokkunum.  Einnig eru stórir flokkar mun líklegri til að hagnast ef fjöldi atkvæða fallla "dauð" hjá littlum flokkum.


Læknisferð

Fórum til barnalæknisins í dag.  Akvæmasýning.  Jóhanna Sigrún í 5 mánaðaskoðun, mældist 66cm og vantaði 2g upp á að vera 8 kíló. 

2 sprautur í lærið, sú stutta lét sig hafa þá fyrri án þess að æmta en þegar leikurinn var endurtekinn var henni nóg boðið og lét lækninn heyra það.

Leifur Enno mældist hins vegar 101cm og 18.5 kíló, læknirinn hæstánægður með Foringjann, skoðaði eyru og munn og spjallaði stuttlega við hann. 

Allt reyndist sem sé stefna í rétta átt, börnin hæfilega bústin og blómleg.


Vonandi

Vonandi verður þetta raunin, það er að segja að þátttakan í kosningunni verði góð, ef hún verður nálægt 90% verður það auðvitað stórkostlegt.

Hvernig sem niðurstaðan verður er vonandi að þátttakan verði góð, þannig að sátt ríki um niðurstöðuna og að yfirgnæfandi meirihluti bæjarbúa hafi tjáð sig.  Þetta virðist hins vegar ætla að verða spennandi barátta og ljóst að andstæðingar stækkunar hafa vinningin eins og er.

Alcan og þeir sem fylgjandi eru stækkun verða því að bretta upp ermarnar ef þeir ætla að ná markmiðum sínum.

 

 


mbl.is 90% Hafnfirðinga telja líklegt að þeir taki þátt í kosningu um álver
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

16 ára

Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að 16 ára unglingum yrði leyfit að kjósa.  Fullt af 16 ára unglingum gengur í stjórnmálaflokka, starfar þar og hefur áhrif með því að kjósa í prófkjörum.

Það sem mér finnst hins vegar mæla á móti þessari hugmynd, er að alþingismenn samþykktu fyrir all nokkrum árum að hækka sjálfræðisaldur Íslenskra unglinga upp í 18 ár, það fannst mér óheillaskref. Mér finnst það skrýtið ef unglingum er ekki treyst til sjálfræðis, en eigi samt að geta tekið þátt í kosningum.  Hvað er það sem gerir pólítík og kosningar svona mikilvægara en flest annað þannig að nauðsyn beri til að unglingar geti tekið þátt í því fyrr en flestu öðru?

Hvers vegna er þeim ekki treyst til að ákveða hvort þau vilji gifta sig, hvers vegna er þeim ekki treyst til að ákveða sjálf hvort þau vilji drekka áfengi, hvers vegna liggur þeim svo á að kjósa?

P.S.  Tók sérstaklega eftir því í fréttinni að Kúba var nefnd sem fyrirmynd.  Einhvern veginn er það ekki ríki sem kemur upp í hugann þegar talað er um kosningar, en auðvitað er gott að þurfa ekki að vera nema 16 ára til að mega kjósa kommúnista, eða hvað?


mbl.is Vilja lækka kosningaaldurinn í 16 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evra hvað? Þeim fjölgar ekki sem vilja að Ísland gangi í ESB

Það er sláandi að sjá niðurstöður nýjustu skoðanakönnunar Fréttablaðsins hvað varðar ESB og evruna.

Þeim Íslendingum sem vilja taka upp evru og ganga í ESB fækkar og hafa ekki verið færri frá árinu 2003 segir Vísir.

Það er aðeins á meðal kjósenda Samfylkingar sem ESB innganga hefur meirihluta, en það verður að hafa í huga að samkvæmt sömu könnun hefur fylgi þess flokks ekki verið lægra um langa hríð, þannig að líklega hafa margir þeir sem ekki hugnast evran og  ESB aðildin þegar hætt stuðningi við flokkinn.  Ef til vill er þarna fundin þó nokkur skýring á fylgisleysinu?

Það verður fróðlegt að fylgjast með "Evrópuumræðunni" nú á næstu vikum, ég yrði ekki hissa þó að hún yrði ekki eins fyrirferðarmikil, alla vegna ekki af hálfu Samfylkingar.

Í fréttum á visir.is má m.a. lesa eftirfarandi:

"Eftir mikla evruumræðu hér á landi, segjast einungis 37,1 prósent þeirra, sem afstöðu tóku í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, vilja að evra sé tekin upp sem gjaldmiðill hér á landi en 62,9 prósent eru því hins vegar mótfallin.

Nokkur munur er á afstöðu eftir kyni og búsetu. Þannig eru karlmenn frekar því fylgjandi en konur að tekin sé upp evra. 40,4 prósent karla eru því fylgjandi og 59,6 prósent mótfallin. En 33,6 prósent kvenna eru fylgjandi hugmyndinni að taka upp evru á Íslandi en 66,4 prósent mótfallin. Þá eru 67,3 prósent íbúa utan höfuðborgarsvæðisins mótfallnir hugmyndinni að taka upp evru og 32,7 prósent fylgjandi. 59,9 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins eru því hins vegar mótfallnir, en 40,1 prósent fylgjandi.


Þá hefur andstaða við að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu ekki verið meiri síðan í könnun Gallup frá því í apríl 2003. Einungis 36,0 prósent segjast vilja að sótt sé um aðild, en 64,0 prósent eru því mótfallin. Síðast þegar spurt var um afstöðu til aðildarumsóknar í könnun Fréttablaðsins, 19. febrúar á síðasta ári, voru 55,2 prósent mófallin aðildarumsókn, en 44,8 prósent fylgjandi. Stuðningur við aðildarumsókn hefur því dregist saman um tæplega níu prósentustig frá því í febrúar á síðasta ári."

"Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingar, hefur sagt íslensku krónuna næsta ónýtan gjaldmiðil og að huga beri að því að taka upp evru sem gjaldmiðil á Íslandi. Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins, sem gerð var laugardaginn 20. janúar, er meirihluti þjóðarinnar henni ósammála. Ekki hafa fleiri verið mótfallnir því að sótt sé um aðild, síðan í könnun Gallup frá því apríl 2003, þegar 27,8 prósent aðspurðra voru því fylgjandi, 42,1 prósent var því mótfallin og 30,1 prósent var óákveðið."

"Frá því Fréttablaðið spurði síðast um hvort Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu, 19. febrúar 2006, hefur andstaðan við það aukist meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins, um tæplega 15 prósentustig. Nú segjast 65,3 prósent ekki vilja að Ísland sæki um aðild. 20,2 prósent eru því fylgjandi, sem eru rúmum 12 prósentustigum færri en í síðustu könnun. 14,8 prósent stuðningfólks Sjálfstæðisflokksins eru óviss og fækkar óvissum örlítið frá síðustu könnun.


Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins er því einnig mest mótfallið að evra sé tekin upp hér á landi sem gjaldmiðill. 66,1 prósent segist ekki vilja það, 23,0 prósent eru því fylgjandi. 10,9 prósent svara hins vegar ekki."

"60,0 prósent þeirra sem segjast myndu kjósa Framsóknarflokkinn eru því andvíg nú að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu. Þetta er nokkur breyting frá síðustu könnun blaðsins, þegar 48,5 prósent stuðningsfólks Framsóknarflokksins voru mótfallin umsókn.


Hlutfall óákveðinna er svipað nú og var þá, en 17,1 prósent er óákveðið. 22,9 prósent stuðningsfólks Framsóknarflokksins segjast hins vegar vilja að Ísland sæki um aðild, sem er 11,7 prósentustigum minna en í könnun blaðsins í febrúar 2006.


Meirihluti stuðningsfólks Framsóknarflokksins er einnig mótfallinn þeirri hugmynd að taka upp evru hér á landi, eða 55,9 prósent. 29,4 prósent framsóknarfólks eru því fylgjandi en 14,7 prósent óákveðin."

"Einungis meðal stuðningsfólks Samfylkingar er meirihluti fyrir því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og hefur stuðningur við það aukist aðeins frá síðustu könnun. Nú segjast 50,5 prósent samfylkingarfólks vera fylgjandi aðildarumsókn, sem er rúmum átta prósentustigum meira en í síðustu könnun blaðsins. Andstaða við umsókn hefur jafnframt aðeins aukist, en nú segjast 41,2 prósent vera því mótfallinn, 5,8 prósentustigum meira en í síðustu könnun. Hins vegar hefur óákveðnum fækkað um 14,0 prósentustig og eru nú 8,3 prósent óaákveðin.
Meirihluti þeirra sem segjast myndu kjósa Samfylkingu eru jafnframt fylgjandi því að taka upp evru hér á landi sem gjaldmiðil, 54,6 prósent. 33,0 prósent samfylkingarfólks eru því mótfallin og 12,4 prósent eru óákveðin."

Sjá fréttir visis.is hér og hér



Samstilltur þingflokkur

Það var hálf kómískt að horfa á Kastljós kvöldsins.  Þar leiddu saman hesta sína frambjóðendur til embættis varaformanns Frjálslynda flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson og Margrét Sverrisdóttir.

Nú er ég ekki stuðningsmaður Frjálslynda flokksins og skipti mér ekki af þessu kjöri og gæti í raun ekki verið meira sama hvort þeirra verður varaformaður, en ég kímdi meira yfir þessu en meðal Spaugstofuþætti.

Lang besti punkturinn var þegar Magnús Þór lýsti því yfir alvarlegur í bragði að þingflokkurinn væri sameinaður í því að vilja ekki breytingar í forystunni.  Það er sem sagt klárt að Guðjón Arnar, Magnús Þór og Sigurjón styðja Guðjón Arnar og Magnús Þór til formanns og varaformanns. 

Magnús fór einnig á kostum þegar hann lýsti því yfir að, "Ég stóð á bakvið framboð á Akranesi", og virtist þakka sér og aðeins sér velgengni þess framboðs á sama tíma og Margrét hafði augljóslega klúðrað "dauðafæri" í Reykjavík og ekki komist í meirihluta.

Margrét martuggði að forystan væri of "karlæg" og hjó eftir því að Magnús notaði orðin "vanir menn". 

Þó sátu þau líklega bæði á sér og "Hvítt afl", formaður þeirra eða varaformaður,  bar ekkert á góma í þættinum.

Var ekki sagt í gamla daga, hver þarf á óvinum að halda, með svona samherja?


Mýtan um fylgistapið

Hún hefur lengi og víða heyrst sú mýta að flokkar tapi á því að vera í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.  Þetta hefur verið fært upp á Alþýðuflokkinn sáluga og einnig Framsóknarflokk.

En ef sagan er skoðuð er það alls ekki einhlýtt.

1959 byrjuðu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur í samstarfi, með 39.7 og 15.2% atkvæða á bak við sig.  Í kosningunum 1963 vann Sjálfstæðisflokkur 1.7% en Alþýðuflokkur tapaði 1%.

Aftur var kosið 1967, þá tapaði Sjálfstæðisflokkur 3.9% en Alþýðuflokkur vann á, 1.5%.  Þegar hér er komið í sögu Viðreisnarstjórnarinnar hefur Alþýðuflokkur því unnið á um 0.5% frá upphafi hennar, en Sjálfstæðisflokkur tapað 2.2%. 

Enn er kosið 1971 og þá tapar Sjálfstæðisflokkur 1.3% til viðbótar en Alþýðuflokkurinn tapar 5.2%.

Á meðan þeir tóku þátt í Viðreisnarstjórninni, þá tapar Alþýðuflokkur því 4.7% en Sjálfstæðisflokurrinn 3.5%.  Það er allur munurinn.  Sé horft til þess að nýr flokkur var kominn fram á sjónarsviðið á vinstri væng stjórnmálanna, Samtök frjálslyndra og vinstrimanna sem fékk 8.9% 1971, þá getur það varla talist stórundarlegt þó að Alþýðuflokkur hafi tapað örlítið meira.  Enginn talar þó um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað á því að vera í samstarfi við Alþýðuflokkinn.

1974 vinnur svo Sjálfstæðisflokkurinn á um 6.5%, en Alþýðuflokkurinn heldur áfram að tapa, þá 1.4%, án þess að hafa verið í stjórn, hvað þá með Sjálfstæðisflokki.

Þá tekur við stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Þegar kosið er svo 1978, tapar Framsóknarflokkur 8% en Sjálfstæðisflokkur tapar 10%.  Sjálfstæðisflokkur tapaði sem sé 2% meira heldur en Framsóknarflokkurinn.  Samt talar enginn um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað á því að sitja í stjórn með Framsókn.  Alþýðuflokkurinn vinnur stórsigur, A-flokkarnir leiða Framsókn til öndvegis, vegna þess að þeir geta ekki komið sér saman um hvor þeirra eigi að fá forsætisráðuneytið.

Enn er kosið 1979.  Þá tapar Alþýðuflokkurinn 4.6%, en Framsóknarflokkur vinnur á 8%.  Engan man þó eftir að hafa talað um að það hafi verið Alþýðuflokknum sérstaklega slæmt að vera í stjórn með Framsókn.

Þá tekur við ríkistjórn Gunnars Thoroddsen.  Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og lítill hluti Sjálfstæðisflokks.

Síðan er kosið 1983.  Sjálfstæðisflokkur vinnur á, 3.3%, en Framsóknarflokkur tapar 5.9%.  Þeir mynda saman stjórn.

1987, Sjálfstæðisflokkur tapar 11.5%, en Framsóknarflokkur tapar aðeins 0.1%.  Rétt er þó að hafa í huga að í þessum kosningum bauð Borgaraflokkurinn fram og fékk 10.7%.  Þó að það sé tekið með í reikninginn, þá tapar Sjálfstæðisflokkurinn meira heldur en Framsóknarflokkurinn.

1991. Sjálfstæðisflokkurinn endurheimtir fyrri styrk og eykur fylgi sitt um 11.4%.  Framsóknarflokkur stendur í stað og Alþýðuflokkur eykur fylgi sitt um 0.3%.  Viðeyjarstjórnin er mynduð.

1995.  Sjálfstæðisflokkur tapar 1.5% af fylgi sínu en Alþýðuflokkur tapar 4.1% af fylgi sínu. Framsóknarflokkur eykur fylgi sitt um 4.4% og fær 23.3%  Það verður þó að hafa í huga þegar þessi úrslit eru skoðuð, að Alþýðuflokkurinn hafði klofnað, Jóhanna Sigurðardóttir hafði stofnað Þjóðvaka og fengið 7.2% atkvæða. Tap Alþýðuflokksins hlýtur því frekar að skrifast á Jóhönnu Sigurðardóttur heldur en samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.  Það er ekki alls ekki ólíklegt að ríkisstjórnin hefði haldið velli, og haldið áfram samstarfi ef Alþýðuflokkurinn hefði ekki klofnað, en vissulega er engan veginn hægt að fullyrða um slíkt.

Þá hefst það ríkisstjórnarsamstarf sem enn er við lýði.

Kosið er 1999.  Þá vinnur Sjálfstæðisflokkurinn á um 3.6% fær 40.7% atkvæða en Framsókn tapar 4.9% og fær 18.4%.  Nýtt flokkakerfi er komið til sögunnar, Samfylkingin fær 26.8%, VG 9.1% og Frjálslyndi flokkurinn 4.2%.

Komið er að kosningum 2003.  Þá fær Sjálfstæðisflokkur 33.7%, tapar 7% og Framsóknarflokkur 17.8% og tapar 0.6%.  Hvor flokkurinn er að tapa meira?

Síðan þá hefur leið Framsóknarflokks legið stöðugt niður á við, það er að segja í skoðanakönnunum og ekki er ólíklegt að það verði hlutskipti hans í kosningunum í vor.  En ég held að skýringanna fyrir því gengi sé að leita í öðrum hlutum heldur en samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.  Líklegra er að finna orsakirnar hjá flokknum sjálfum og svo þeim breytingum sem hafa verið að gerast á Íslandi, sérstaklega í búsetumálum.

En ef rennt er yfir þessa samantekt, get ég ekki fundið nokkur rök fyrir þeim fullyrðingum sem heyra má síknt og heilagt, jafnvel á virðulegum fréttastofum að þeir flokkar sem séu í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn tapi á því fylgi umfram samstarfsflokkinn.

 

 


Engin lognmolla

Það er ekki hægt að segja að það ríki nein lognmolla í Íslenskri pólítík þessa dagana.  Þingflokksformaður fellur í prófkjöri og lýsir því yfir í kjölfarið að hann ætli að hætta í vor.  Vistaskipti eiga sér stað og fleiri liggja í loftinu, ný skoðanakönnun sýnir parhúsið, turnarnir tveir eru voðalega eitthvað 2005.

Guðni frá Brúnastöðum er langsterkasti Framsóknarmaðurinn nú um stundir, og líklega sá eini sem á það skilið að að Framsóknarmaður skuli vera ritaður með stórum staf.  Það er merkilegt ef framsóknarmenn vilja ekki Guðna sem næsta formann, honum virðist ekki vanta fylgið.

Bjarni Harðarson kemur líka sterkur inn, en það er skrýtið finnst mér hjá framsóknarmönnum, að ef einn prófkjörsþátttakandi fellur úr skaftinu, að það þýði að einhver sem ekki tók þátt í prófkjöri eigi mestar líkur á því að hljóta það sæti.  Það hlýtur að teljast eðlilegt og í lýðræðisanda að þeir sem taka þátt, eigi mestan möguleika á því að færast upp.  Að mínu mati mega menn ekki láta "hreppapólítíkina" villa sér sýn.

Frjálslyndi flokkurinn virðist gerast stöðugt frjálslyndari, alla vegna hvað varðar það að þingmenn skipti um flokka, fær liðstyrk, þingmann sem var kosinn (eða ekki kosinn) fyrir Samfylkinguna.

Það hangir svo líklega eins og ský yfir landsfundi flokksins að eiga ekki eigið nafn, og þurfa þá hugsanlega að fara í kosningabaráttu undir nýju nafni.  Má ég stinga upp á Frjálslegi flokkurinn?

Ofan í þetta allt saman er svo ný skoðanakönnun sem hampar Vinstri grænum og Frjálslyndum, en Samfylking og Framsókn njóta ekki velgengni.  Sjálfstæðisflokkurinn siglir nokkuð lygnan sjó.

Það blasir auðvitað við að ríkisstjórnin er fallin, en það blasir líka við að það eru ekki nema tveir vænlegir möguleikar til stjórnarmyndunar.  Það er Sjálfstæðisflokkur og annað hvort Samfylking eða Vinstri græn.

Það er því ekki að undra að framsóknarmenn láti margir hverjir illa og finnist ekki tilhlýðilegt hvernig þessir tveir flokkar senda skilaboð til Sjálfstæðisflokksins.  Framsóknarmenn sjá fram á langa hvíld, hvíld sem þeir eru ekki fegnir.  Þeir reyna því allt sem aftekur að reyna að gera samstarf þessara tveggja flokka við Sjálfstæðisflokk sem tortryggilegast.  Þeir vilja margir meina að fylgistap Samfylkingar megi rekja til þessa möguleika. 

Vandi Samfylkingar er vissulega mikill, staðan í skoðanakönnunum er skelfileg.  Samfylkingin finnur það vel að það er ekki alltaf best eða auðveldast að vera í eða á miðjunni.  Þar er  mikil hreyfing á fylginu.  Ef sýndur er hægri vanginn, færir hluti kjósenda sig yfir til VG og ef sýndur er vinstri vanginn færir hluti fylgisins sig yfir til Sjálfstæðisflokks.  Í slíkri stöðu er þörf á sterkum og góðum foringja, til að halda fylginu og þann foringja hefur Samfylkingin ekki.

En það veit ekki á gott þegar flokkur er búinn að vera í stjórnarandstöðu allt frá stofnun (og í raun dulítið lengur) og nær ekki að sækja fylgi.  Komist slíkur flokkur ekki í ríkisstjórn eina ferðina enn, hljóta margir, bæði kjósendur og meðlimir að hugsa með sér að það þurfi að að stokka spilin, jafnvel skipta alveg um stokk.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband