Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006

Í "Ekkifréttum" var þetta helst......

Þetta er all skringileg frétt sem er á fréttavefnum mbl.is.

Það virðist sem sé teljast til frétta að fyrrverandi borgarstjóri R-listans telji borgarstjóraefni Samfylkingarinnar hæfast sem borgarstjóra og segist treysta því til starfans.  Eins og einhver myndi orða það "big news". 

Hverju megum við eiga von á næst?  Að Steinunn Valdís, núverandi borgarstjóri sendi frá sér svipaða fréttatilkynningu?  Eða borgarstjórinn sem var á undan Þórólfi, Ingibjörg Sólrún, á hún eftir að senda frá sér fréttatilkynningu, þar sem hún segist treysta Degi til starfans?

Eða koma þeir Birgir Ísleifur eða Davíð Oddsson með fréttatilkynningu og segjast treysta Vilhjálmi best til starfans?

Hvaða skilyrði skyldu menn nú þurfa að uppfylla, svona almennt, til þess að það teljist fréttaefni hvaða stjórnmálaflokk þeir hyggjast kjósa?  Eða getur hver og einn sem atkvæðisrétt hefur gengið að því sem vísu að mbl.is muni birta yfirlýsingu um hverjum hann treystir best til að gegna borgarstjóraembættinu og hvernig hann hyggst greiða atkvæði?

 


mbl.is Yfirlýsing frá Þórólfi Árnasyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að tala en segja ekki neitt....

Ég horfði/hlustaði á borgarafund í beinni á NFS í dag.  Meira hlustaði en horfði, enda svo sem ekki í sjálfu sér um myndvænan atburð að ræða.  Einhverra hluta hikstar líka alltaf myndin hjá mér, en hljóðið kemur nokk skýrt í gegn.

Hvað á nú að segja um frammistöðu frambjóðendanna? Enginn fannst mér skora nein stig þarna. 

Líklega hefur Svandís staðið sig hvað best, þangað til hún fór að hnýta í þáttarstjórnendur vegna hvers það væri engin kona á meðal stjórnenda.  Þar missti hún það. Lét síðan því sem næst króa sig af í því að segja að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn kæmi ekki til greina, skiljanlegt, enda margir af þeirra stuðningsmönnum ekki hrifnir af Sjálfstæðisflokki, en samt, aldrei að láta mála sig út í horn.

Ólafur var eins og staður hestur, engu átti að slaka til, og kjósendur áttu að virða það við Frjálslynda að þeir hefðu ekki haggast.  Ekkert af þeirra málum hafði þó komist í gegn, og ekki telst líklegt að þeirra mál komist í gegn, ef viðmótið er þetta.  Til hvers á þá að kjósa hann?  Til þess að það sé "nöllari" í borgarstjórn?

Björn Ingi rann nokkuð smurt í gegnum þáttinn, varðist fimlega þegar bréf Halldórs Ásgrímssonar bar á góma, og skoraði nokkra punkta þegar hann, einn frambjóðenda, áttaði sig á mistökunum sem Vilhjálmur gerði þegar hann dró skólagjöld inn í umræðuna.  En hann sagði ekki neitt.

Vilhjálmur stóð sig nokkuð vel.  Gerði mistök í sambandi með því að minnast á skólagjöld, en fór annars vel í gegnum þetta.  Hefði þurft að hafa öflugri svör við árás þáttastjórnenda hvað varðaði ályktanir SUS (SUS er ekki í framboði, reykvíkingar þurfa svo sem ekkert frekar að eiga von á því að þeirra stefnumál verði ofan á þó að Sjálfstæðismenn nái hreinum meirihluta, frekar en að reykvíkingar þurfa að eiga von á því að ræstingar verði boðnar út í grunnskólum Reykjavíkur, ef Samfylkingin kemst til valda, þó að slíkt hafi verið framkvæmt af Samfylkingunni í Hafnarfirði.  Það er ekkert nýtt að fleiri en ein skoðun finnist í stjórnmálaflokkum á Íslandi.)  Sagði svo sem ekki mikið.

Það vakti athygli mína að þáttastjórnendur þurftu oftar en einu sinni að stoppa orðaflauminn sem stóð út úr Degi þegar hann komst að, samt sagði hann ekkert.  Það var hins vegar eins og orðbunan öðlaðist sjálfstætt líf.  Samt sagði hann ekki neitt, sem hægt var að skilja.  Jú, nema það auðvitað að "framkvæmdaáætlun" er ekki "framkvæmdaáætlun".  Það hafði reyndar komið fram áður.

Í heild sinni var þessi þáttur þokkaleg skemmtun, en engin "skandalíseraði", engin gerði afgerandi mistök, því held ég að þessi þáttur hafi ekki breytt neinu.  Baráttan heldur sinni stefnu, það er 8. maður Sjálfstæðisflokks, eða Framsóknarmaðurinn sem verða inni.

En það er ennþá einn og hálfur sólarhringur þangað til kjörstöðum lokar, sitthvað gæti breyst.

Það er það sem gerir þetta svona skemmtilegt.

 


5 flokka borgarstjórn - er Sjálfstæðisflokkurinn öruggur í meirihluta?

Þá er 4. raðkönnun Gallup komin. 

Stóru tíðindin eru auðvitað að Framsóknarflokkurinn er inni.  Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur með meirihluta, og könnunin staðfestir Samfylkingu sem 25% flokk.

Það yrði óneitanlega ákveðin vonbrigði fyrir Sjálfstæðisflokkinn  að ná ekki meirihluta og að fara niður fyrir 45%, ekki síður held að það yrði áfall fyrir Samfylkinguna ef hún fengi aðeins um 25% upp úr kjörkössunum. 

Þó að rétt um 6% og 1. borgarfulltrúi væri að öllu jöfnu ekki talinn sigur, yrði það að teljast í þessu tilfelli fyrir Framsóknarflokkinn, slíkur hefur gangur hans verið í skoðanakönnunum,en hann hefur þó aukið fylgi sitt í öllum raðkönnunum Gallup.  Ef til vill er sígandi lukku best, eins og sagt var í gamla daga.  VG og Frjálslyndir virðast svo sigla nokkuð lygnan sjó með 2 og 1 borgarfulltrúa.

Eftir þessari könnun er því ljóst að baráttan stendur á milli framsóknarmannsins og 8. sjálfstæðismannsins.  (Könnun Félagsvísindastofnunar fyrir NFS sýnir þetta öfugt, þar er Framsókn úti, en Sjálfstæðisflokkurinn með 8 menn)

Ef þetta verða niðurstöðurnar leyfi ég mér að spá því að Sjálfstæðisflokkurinn verði í meirihluta í Reykjavík á næstu kjörtímabili.  Naumur fjögurra flokka meirihluti held ég að komist ekki á koppinn, og er ekki eftirsóknarverður.  Slíkur meirihluti væri eins og í stöðugri gíslingu.

En hverjir myndu mynda meirihluta með Sjálfstæðismönnum?  Meira um það seinna.

Nú eru 2 dagar til kosninga


mbl.is Framsóknarflokkur nær inn manni samkvæmt nýjustu könnun Gallup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru sveitastjórnamál í "kjallaranum" hjá landsmálunum?

Það fer alltaf svo lítið í taugarnar á mér þegar ég heyri stjórnmálamenn og "stjórnmálaskýrendur" tala eins og sveitastjórnarmál, séu lítið annað en "undirflokkur" landsmálanna.

Þeir virðast vilja skýra fylgissveiflur í sveitastjórnum með því að kjósendur séu að tjá sig um landsmálin og sér í lagi ríkisstjórnina.  Þetta hefur verið nokkuð áberandi upp á síðkastið og er til dæmis oft notað til útskýra frekar dapurt gengi Framsóknarflokksins í könnunum.

Mér finnst þetta bera vott um nokkra lítilsvirðingu gagnvart þeim frambjóðendum sem standa í eldlínunni í sveitarfélögum víða um landið.  Svona rétt eins og þeir séu einhverjar "gínur" sem stilla má upp, en það eina sem skipti máli gerist á alþingi og í ríkisstjórn.

Persónulega tel ég það alrangt.  Fulltrúarnir og þær stefnuskrár sem settar eru fram í bæjunum skipta nefnilega höfuðmáli. 

Hver vill segja að sterk staða Samfylkingar í Hafnarfirði með Lúðvík Geirsson í forystu, sókn Sjálfstæðismanna í Kópavogi undir stjórn Gunnars Birgissonar, firnasterk staða Sjálfstæðismanna í Keflavík með Árna Sigfússon í fararbroddi, nú eða sá möguleiki að Sjálfstæðisflokkurinn vinni hreinan meirihluta í Reykjavík undir forystu Vilhjálms, sé eitthvað sem er að gerast vegna atburða í landsstjórninni?

Auðvitað gæti verið freistandi að segja að þetta sé tilkomið vegna frábærrar frammistöðu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn (nema Hafnarfjörður auðvitað), en hlutirnir eru ekki svona einfaldir.

Sjálfstæðisflokkurinn hopar hins vegar undan á Akureyri og á Ísafirði, en sækir á í Fjarðabyggð, Akranesi og í Árborg (ef marka má kannanir). Heilt yfir sýnist mér svo Vinstri grænir sækja á, víða jafnvel meira heldur en Samfylkingin, en þeir eru báðir í stjórnarandstöðu.  Persónulega tel ég slæma stöðu Framsóknar hafa miklu fleiri ástæður, og sumar dýpri heldur en veru þeirra í ríkisstjórn.  Ósamlyndi kemur til dæmis upp í hugann, og sést það ef til vill best á þeirri staðreynda að það eru ekki aðeins kjósendur sem eru að yfirgefa flokkinn, heldur einnig frambjóðendur (sbr. frétt frá Akureyri í gær.).

Auðvitað skipta stefnuskrár miklu máli, en það eru þó frambjóðendurnir sjálfir sem skipta þó líklega meira máli, enda nálægðin mikil, sérstaklega í smærri sveitarfélögum.  Það er trúverðugleiki og það það traust sem sveitastjórnarmenn skapa sér, sem skiptir meginmáli, ekki hvort flokkurinn þeirra er í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Kjósendur eru að dæma verk þeirra síðustu fjögur ár, og hvort þeir treysta þeim áfram til að leiða bæjarfélagið næstu 4.  Ekki hvort þeir vilja flokkinn þeirra í eða úr ríkisstjórn.

Þess vegna er landslagið í sveitarstjórnum eins fjölbreytt og raun ber vitni, og er það vel.

 


Er Framsókn að hafa það? Samfylking ennþá á lágu nótunum, Sjallar og VG síga örlítið?

Þá er 4. raðkönnun Gallup komin.  Ekki hægt að segja að miklar breytingar séu, þær þess heldur líklega allar innan skekkjumarka.

Sjálfstæðisflokkurinn ennþá með meirihluta, Samfylking með 4, Vinstri grænir með 2 (það hlýtur að vera misritun í fréttinni, þegar þeir eru sagðir með 1) og Frjálslyndir með 1. fulltrúa.

En það sem mesta athygli vekur er það að Framsóknarflokkurinn eykur við fylgi sitt 4. könnunina í röð og er nú í fyrsta sinn á þröskuldi þess að fá mann, næsti maður inn er Framsóknarmaður.

Það skyldi þó ekki fara svo að Framsóknarflokkurinn hefði það á endasprettinum og 5 flokkar yrðu í borgarstjórn?

Sjálfstæðisflokkur og VG gefa örlítið eftir, en Samfylkingin nær að hífa sig örlítið upp.  Ef ekki verður stór breyting á, endar Samfylkingin undir 30% sem hlýtur að verða þeim mikil vonbrigði.  4 borgarfulltrúar yrði þeim mikið áfall að ég tel.  En ekki er útilokað um þeirra 5. mann.

Sjálfstæðisflokkur er með meirihlutann innan seilingar, en ég er þó þeirrar skoðunar að það velti meira á skiptingu atkvæða en nokkru öðru hvort hann náist, tel ólíklegt að þeir fari yfir 50%.

Frjálslyndir virðast nokkuð öruggir með sinn mann og það sama má segja um VG, þeirra 2 virðast nokk öruggir, þó að 3. maðurinn sé lengra frá en í síðustu könnun.

En kosningarnar eru að verða æ meira spennandi.

Nú eru 3. dagar til kosinga.


mbl.is Framsóknarflokkur bætir örlítið við sig í Reykjavík samkvæmt könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Djúp og útbreidd óánægja?

Fátt virðist leggjast Framsóknarflokknum í hag fyrir komandi kosningar.  En býsna langt er nú gengið þegar frambjóðendur flokksins segja skilið við hann fáum dögum fyrir kosningar.  Ekki segja fréttir neitt um ástæðu þessa, en það getur varla verið að frambjóðendur segi skilið við flokkinn sinn út af smáatriðum.

En maður heyrir þetta útundan sér, jafnvel hingað til fjarlægra landa, að Framsóknarmenn eru margir hverjir ekki ánægðir með flokkinn sinn.

Það er því ef til vill ekki að undra að illa gangi víða um land hjá flokknum.

Skyldi álíka atburður hafa gerst áður í íslenskri stjórnmálasögu?  Gaman væri að vita það.

 


mbl.is Frambjóðandi Framsóknarflokks segir sig úr flokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar og miðjusækin stjórnmál - "Sylvíu Nóttarvæðing" kosningabaráttunnar? Eru einhverjir að fara á taugum?

Ég fylgist, eins og ég hef áður sagt, með kosningabaráttunni úr fjarlægð.  Auðvitað upplifi ég ekki stemninguna, en ég reyni eftir fremsta megni að fylgjast með, í blöðum, á bloggum og stundum fæ ég tölvupósta frá gömlum kunningjum.

Baráttan í þetta skiptið er að því leyti öðruvísi nú en undanfarnar kosningar hvað Reykjavík snertir að R-listinn gaf upp öndina, að virðist saddur lífdaga, og eru því 5 flokkar í framboði.  Þannig  er R-listinn horfinn og virðast framboðin sem að honum stóðu oft á tíðum lítið vilja vita af honum.  Það má þó með nokkrum sanni segja að Samfylkingin sé arftaki R-listans, enda 4 af efstu mönnum hennar borgarfulltrúar R-listans.

Kosningabarátta Samfylkingarinnar hefur mér þótt frekar skrýtin, ef til vill er það að hluta til fjarlægðinni að kenna, hún teflir fram "Sylvíu Nótt" kosningabaráttunnar, "uppdiktaðri fígúru" mótaðri með sömu forskrift og Sylvía.  Persónulega finnst mér þetta ákaflega illa til fundið, og tel að kjósendur eigi betra skilið.  Flestir vita líklega hvernig "brandarinn" hennar Sylvíu endaði og einhvern veginn held ég að þessi fái keimlík örlög.

Persónulega er ég svo þeirrar skoðunar að prófkjör þeirra hafi ekki skilað besta fulltrúanum í fyrsta sætið, Stefán Jón, eða Steinunn væru mun betri í þessum slag, heldur en Dagur að mínu mati. 

Nú undir lok kosningabaráttunnar, þegar kannnanir benda til að heldur sé að fjara undan Samfylkingunni virðist sem svo að taugar Samfylkingarinnar séu að bresta, dregnar eru "neikvæðar auglýsingar" undan stólnum og svo virðist sem að SUS sé nú höfuðandstæðingur Samfylkingar í höfuðborginni, ekki framboðslisti Sjálfstæðisflokksins.

Þetta held ég að dugi þeim lítið, enda ekki nýtt á Íslandi að skiptar skoðanir séu innan flokka um hin ýmsu mál.  Líklega ætti að duga að nefna einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, svo að flestir Samfylkingarmenn skilji hvað ég er að fara. 

Samfylkingin sem og hinum R-listaflokkunum tókst þó vel að bjarga sér fyrir horn, þegar þeim tókst að útskýrar fyrir fjölmiðlamönnum og kjósendum að Framkvæmdaáætlun væri hugmyndabanki.

Tilraunin til að segja kjósendum að það væri Sjálfstæðisflokknum að kenna að Alfreð hefði verið svona valdamikill í 12, tókst ekki jafn vel, og held ég að flestir kjósendur hafi séð í gegnum þennan "kattarþvott" R-listaflokkanna.  Alfreð er þeirra maður, hefur setið í þeirra skjóli í 12 ár og verður svo fram á laugardag.

Vinstri grænir hafa að því er ég hef séð rekið frekar einfalda baráttu, reynt að keyra áfram að sínum málum á frekar jákvæðum nótum.  Auðvitað reyna þeir dulítið að skauta frá R-listanum, en það getur varla talist nema eðlilegt.  Nýr oddviti þeirra er líklega sá frambjóðandi sem hefur vaxið mest í baráttunni og hefur komið skemmtilega á óvart.  Vinstri grænir þyrftu þó að læra að nota vefinn betur í sinni baráttu.

Framsóknarflokkurinn er nokkuð sér á parti í kosningabaráttunni. Eina framboðið sem virðist ekki koma að manni og enginn "vill vera með".  Reka öfluga kosningabaráttu, en virðast ekki ætla að ná árangri, "parkera bömmernum" í stæði fatlaðra (sem ætti auðvitað ekki að vera stórmál, hefði átt að vera nóg að biðjast afsökunar, en verður eitt af þeim málum sem öðlast eigið líf).  Mótlætið virðist líka fara í taugarnar á þeim, og virðist þeim tamt að leita skýringa á óförum sínar alls staðar annarsstaðar  en hjá sjálfum sér.

Ein af skýringunum er ábyggilega að flokkurinn gengur ekki heill og óskiptur til leiks í Reykjavík, frambjóðandinn sem hafnaði í öðru sæti í prófkjöri, vildi ekki taka sæti á listanum.  Líklegast verður einnig að líta til þess að Framsóknarflokkurinn sem "brand" hefur ekki boðið fram í Reykjavík undanfarnar 3 kosningar.  Það sama gildir um Samfylkinguna og VG, en Framsóknarflokkurinn mátti líklega síður við að hverfa úr umræðunni, enda aldrei verið tiltakanlega sterkir í Reykjavík.

Ef menn vilja kenna samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn um ófarir Frammara í Reykjavík (það hefur ábyggilega einhver áhrif), ættu þeir ekki síður að velta því fyrir sér hvað 12 ára samstarf við Samfylkingu (og forvera hennar) og VG hefur skilað þeim í Reykjavík.  Þegar búið að er ala framsóknarmenn upp við að þetta sé foringinn í Reykjavík, og hinn sami foringi er svo formaður annars stjórnmálaflokks, getur brugðið til beggja vona hvar atkvæðið lendir. 

Frjálslyndum hef ég ekki heyrt mikið í, enda á ég engan kunningja sem hefur lýst því yfir að hann styðji Frjálslynda.  Þeir virðast þó sigla ágætan byr, hafa markað sér sérstöðu í "flugvallarmálinu" og margir hafa sagt það mín eyru, að það sé eins með þá og Samfylkinguna, að betra fólk sé í 2. og 3. sætinu heldur en því 1.  Það verður þó að teljast gott hjá þeim að virðast vera með sinn mann nokkuð öruggan inni.

Sjálfstæðismenn eru með ákaflega "miðjusækið" framboð (það má reyndar segja um þau öll) og virðast reyna að sigla einföldustu leið, enda hafa kannanir sýnt þá með byr í seglunum, spurningin virðist vera hvort þeir ná 7 eða 8 borgarfulltrúum.  Því virðast Sjálfstæðismenn fyrst og fremst reyna að sigla hjá öllum skerjum og ekki láta hanka sig á neinu.  Að mörgu leyti eðlilegt þegar vel gengur.

Þessi ákveðna sókn Sjálfstæðisflokks inn á miðjuna virðist hafa komið Samfylkingunni í opna skjöldu, hún virðist ekki ná vopnum sínum og samkvæmt könnunum tapar hún fylgi á meðan barátta hennar virðist verða æ örvæntingarfyllri.

Fljótlega ætla ég að skrifa hér pistil um hvernig ég hef á tilfinningunni að meirihlutinn verði.

 

 

 

 


Fylgistap Samfylkingar staðfest?

Þriðja könnun Gallup sýnir áframhald á þeirri línu sem könnunin frá því í gær lagði.  Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir bæta við sig Samfylking og Frjálslyndir tapa fylgi og Framsóknarflokkur færist örlítið nær því að koma inn manni.

Það hlýtur að styrkja Sjálfstæðismenn gríðarlega að fá þessar kannanir, sem auka fylgið á hverjum degi, upp um ca. 2% frá könnuninni í gær.  Sömuleiðis ætti þetta að setja byr í seglin hjá Vinstri grænum, samkvæmt þessari könnun eru þeir að fara að berjast fyrir 3. borgarfulltrúanum.

Það er spurning hvort að þetta geti líka fært einhver atkvæði frá Samfylkingu yfir til Vinstri grænna, þar sem fólk teldi það "stratígískara"?

Framsóknarmenn ættu sömuleiðis að kætast aðeins, þessar kannanir benda til að 1. maður sé mögulegur fyrir þá, þó að róðurinn verði ábyggilega erfiður.

Frjálslyndir síga áfram niður ef fram heldur gæti þeirra maður verið tvísýnn.

Sjálfstæðismenn hljóta að vera kampakátir, ef þeir halda "mómentinu" er næsta víst að þeir nái meirihluta, hvernig skiptingin verður á milli hinna flokkanna verður þó líklega lykilatriði, þar sem mér þykir ótrúlegt að þeir nái hreinum meirihluta atkvæða.

Ef Samfylkingin fengi aðeins 25% í kosningunum, hlýtur það að teljast reiðarslag fyrir flokkinn, oddvitann í Reykjavík og formann flokksins. Þeir munu því líklega leggja allt undir fram að kjördegi.  Spurningin er hvort að þeir keyra áfram á neikvæðu auglýsingunum, eða reyna bjartsýnni tón? 

Nú eru 4. dagar til kosninga ...


mbl.is Sjálfstæðisflokkur og VG bæta við sig í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Google velur borgarstjóra

Fékk tölvupóst í dag frá gömlum kunningja sem styður Vinstri græna.  Efni tölvupóstsins snerist um hæfni leitarvélarinnar Google væri til að finna réttar niðurstöður, og jafnvel spá um framtíðina.

Hann hvatti menn til að slá inn í leitarvélina (www.google.com) leitarorðin "næsti borgarstjóri", og nota síðan "I feel lucky" hnappinn,  taldi hann að forspárgildi þessa væri ótvírætt og og augljóst hver yrði næsti borgarstjóri Reykjavíkur.

Þessum "vísindum" er hér með komið á framfæri, þó að ég verði að láta það fygja með að ég sé nú ekki of trúaður á "sannindin".


Að tapa 2. borgarfulltrúum á 24. tímum

Ég er einn af þeim sem fylgist með kosningabaráttunni úr fjarlægð.  Því er erfitt að finna stemninguna, ég hef nú ekki einu sinni kosningarétt (hélt það fyrst, en svo rann það upp fyrir mér að svo væri auðvitað ekki), en ég reyni að fylgjast með, í gegnum vefinn og svo vini og kunningja.  Persónulega hef ég fengið það á tilfinninguna að baráttan væri frekar bragðdauf (kem ef til vill inn á það hér á bloginu á næstunni) og ekki mikið til að festa hendur á.  Þá verða skoðanakannanir oft fyrirferðarmeiri í umræðunni en ella og þær eru skeggræddar fram og aftur, sérstaklega ef þær sýna breytt  pólítískt landslag.

Skoðanakönnun dagsins frá Gallup, sýnir verulega breytt landslag frá því í gær.  Jafnvel svo breytt að erfitt er að trúa að breytingarnar geti verið svona miklar á aðeins einum sólarhring.  Samfylkingin tapar 2. borgarfulltrúum frá könnuninni í gær, Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig einum, sömuleiðis Vinstri grænir.

Það er að vísu rétt að taka fram, að samanborið við mína eigin útreikinga á könnunni frá í gær (sjá neðar hér á blogginu) eru breytingarnar ekki svo miklar, þá heldur Sjálfstæðisflokkurinn sínum 8, en 1. borgarfulltrúi flyst frá Samfylkingu til Vinstri grænna.

En þessi síðasta könnun gefur Samfylkingunni u.þ.b. 5% minna fylgi, Frjálslyndir tapa einnig nokkru, Vinstri grænir bæta  verulega við sig (ca 4%),  Sjálfstæðisflokkurinn sígur á, og meira að segja Framsóknarflokkurinn bætir sig, þó honum vanti enn nokkuð til að ná inn manni.

5% fylgistap svona stuttu fyrir kosningar hlýtur að vekja ugg hjá Samfylkingunni, jafnvel þó að einungis sé um eina könnun að ræða.  Svona könnun hlýtur sömuleiðis að gefa byr í seglin hjá VG og Sjálfstæðisflokknum, gefur líka Framsóknarflokknum von, þó að hún sé ekki mjög stór.

Þetta setur aukna spennu, alla vega hvað mig varðar, í komandi kosningar og ég bíð spenntur eftir því að sjá næstu kannanir.  Verður um frekari sveiflur að ræða, og þá í hvaða átt?  Þessi könnun rennir stoðum undir það að Sjálfstæðisflokkurinn geti náð meirihluta í Reykjavík, ef hann heldur "mómentinu". 

Nú eru ekki nema 5 dagar til kosninga ...


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks og VG eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband