Sívaxandi fylgi Sjálfstæðisflokks

Það kemur mér ekki á óvart að fylgi Sjálfstæðisflokksins aukist jafnt og þett í núverandi árferði.  Fyrir síðustu kosningar þegar ég rökræddi hér á blogginu við kunningja minn sagði ég að það sem þyrfti til að Sjálfstæðisflokkurinn næði fyrri styrk, væri vinstristjórn.

Býsna margir kjósendur á Íslandi höfðu litlar eða engar minningar um slíka stjórn, en hafa líklega verið fljótir að sjá í gegnum núverandi ríkisstjórn.

Margir blogga og tjá sig um "heimsku" eða "gullfiskaminni" kjósenda.  Í mínum huga dæma slíkar fullyrðingar sig sjálfar, kjósendur hafa alltaf rétt fyrir sér.

En hitt er svo auðvitað rétt að Sjálfstæðisflokkurinn er langt í frá að vera fullkominn flokkur og þarf að halda betur að spöðunum.

En í kapphlaupi, þarf ekki að setja "heimsmet" til þess að sigra, það nægir að hlaupa hraðar en hinir.  Þá einföldu speki er einfalt að heimfæra upp á Íslensk stjórnmál.


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Eins og ég hef áður bent á er aukið fylgi Sjálfstæðisflokksins einfaldlega til marks um að Íslendingum finnst ástandið aftur farið að nálgast eðlilegt jafnvægi. Okkur finnst "eðlilegt" að Sjálfstæðisflokkurinn sé stærstur. Af því að þannig hefur það alltaf verið.

Það er meira að segja hægt að koma hlutunum í "eðlilegt" horf með því að hverfa aftur til hins kunnuglega ástands. Og hvað er betra til þess en að kjósa Sjallana? Better the Devil You Know ...

Það er jú líka vel þekkt staðreynd að þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur. Og þeir sem hafa búið við misþyrmingar eru gjarnir að leita aftur í sambönd við fólk sem misþyrmir þeim.

Þess vegna vilja Íslendingar Sjálfstæðisflokkinn. Til viðbótar vilja þeir helst af öllu Davíð Oddsson sem leiðtoga sinn.

Eins og ég hef áður sagt, varnarhættir sálarinnar eru margir. Einn af þeim öflugustu er afneitun á ríkjandi ástandi og afturhvarf til þess sem maður þekkir, jafnvel þótt það sé óheilbrigt.

Því hvað er óheilbrigðara í íslenskum stjórnmálum en Sjálfstæðisflokkurinn?

Kristján G. Arngrímsson, 2.11.2009 kl. 19:13

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Sjálfsagt má færa ágætis rök fyrir því að það sé eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé stærsti flokkurinn á Íslandi.  Stefna hans rímar líklega vel við þankagang stærsta hluta þjóðarinnar.

En það var ósköp eðlilegt að kjósendur vildu refsa Sjálfstæðisflokknum í síðustu kosningum, og það gerðu þeir.

En þegar fólk vill umskipti, þá vill það yfirleitt hafa þau til hins betra.  Það er einmitt þar sem kjósendum finnst (og líklega ekki að ósekju) vinstri flokkarnir hafa brugðist.

Allt hjal um "Nýja Ísland", gagnsæið og betri stjórnarhætti reyndust hjómið eitt.  Þegar viðbætist óvinsælar aðgerðir eins og umsókn að ESB, gegn meirihluta þjóðarinnar, skrýtin aðferðafræði í IceSave málinu, undarleg og klofin afstaða hvað varðar iðnaðaruppbyggingu, þá missir ríkisstjórnin stuðning æ fleiri.  Æ fleiri eru að komast á þá skoðun að þeir hafi skipt "niður".

Þess vegna leita kjósendur aftur til Sjálfstæðisflokksins, sem þeir eru farnir að gera sér grein fyrir að þó hann sé svo langt í frá að vera gallalaus, er líklega betri kostur en núverandi ríkisstjórn.  En það þurfti vinstri stjórn til að það kæmi í ljós.

Máltæki um klárinn og líkingar við ofbeldishjónabönd gef ég ekki mikið fyrir, þú hlýtur að geta komið með betri rök en slíkt. 

En það er alveg rétt að Íslendingar vilja leiðtoga.  Þeir vilja leiðtoga sem getur talið í þá kjark og leitt þá áfram.  Þar er enn einn punkturinn þar sem núverandi ríkisstjórn hefur brugðist.

Steingrímur er reyndar ágætur og talar við þjóðina en Jóhanna hefur algerlega brugðist í því hlutverki, enda reytist af henni traustið.

G. Tómas Gunnarsson, 2.11.2009 kl. 21:48

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég er reyndar alveg sannfærður um að aukið fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur ekkert með stefnu hans að gera. Það sést líka á því litla fylgi sem formaður flokksins nýtur.

Þetta snýst um að fólk sækist eftir kunnuglegu ástandi. Þess vegna á líkingin við ofbeldishjónabönd í rauninni ágætlega við.

Hvað varðar foringjaþörfina bendi ég á að Kim Il-sung var svo elskaður af n-kóresku þjóðinni að þegar hann dó brast hún í grát, bókstaflega. Sterkur leiðtogi er langt frá því að vera það sama og góður leiðtogi.

Ég vil ekki fara mikið út í það hér, en Jóhanna er leiðtogi af allt annarri gerð en Davíð og Steingrímur. Hún höfðar til allt annars gildismats en þeir, og jafnvel væri fróðlegt að greina nánar þau siðferðisgildi sem Jóhanna, annars vegar, höfðar til, og þau sem Davíð og Steingrímur, hins vegar, höfða til.

Kristján G. Arngrímsson, 3.11.2009 kl. 18:27

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Staðreyndin er hins vegar sú að traustið á Jóhönnu hefur hrunið.  Nú getur hún ekki lengur látið sér nægja að sitja í sínu fagráðuneyti og heimta peninga í málaflokkinn, eða sitja í stjórnarandstöðu og skreppa í ræðustól á Alþingi annað slagið og röfla um eyðslu og bruðl og ógegnsæi.

Nú er komið að henni að koma þessu í verk, og hvað gerist þá?

Hver verður arfleifð Jóhönnu í stjórnmálum, hvað hefur hún "afrekað", hverju hefur hún breytt?

Það er fátt sem kemur upp í hugann nema auðvitað stórgallað kerfi félagslegra íbúða sem sveitarfélög víða um landið eru enn að súpa seyðið af. 

G. Tómas Gunnarsson, 3.11.2009 kl. 18:38

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Er það traustið sem hefur hrunið, eða vinsældirnar? Um það er erfitt að segja.

En það er spennandi spurning hver verði arfleifð Jóhönnu. Ég hugsa að hún muni njóta þess að hafa orðið forsætisráðherra á þessum erfiða tíma, og hafa ásamt Steingrími Joð komið í veg fyrir að skipið sykki, þrátt fyrir mikinn brotsjó. Hún mun með öðrum orðum njóta góðs af þessum erfiðu aðstæðum.

Mér þykir líklegt að "dómur sögunnar" verði sá, að Jóhanna hafi verið einn merkasti forsætisráðherra Íslands fyrr og síðar. Jafnvel þótt fylgið skreppi saman nú.

Tapaði ekki Churchill í kosningunum 1945, þrátt fyrir allt? Og hvaða status hefur hann núna í breskri sögu?

Kristján G. Arngrímsson, 3.11.2009 kl. 19:37

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er auðvitað vandaverk að spá í hvernig sagan verður skrifuð, og því sem næst ómögulegt.

En ég get ekki séð hvað það væri sem ætti að gera Jóhönnu að einum merkasta forsætisráðherra Íslandsögunnar.  Hún verður ætíð á spjöldunum fyrir að vera fyrsta konan í embættinu, en ég held að það verði ekki meira en það.

Í þeim könnunum sem hafa verið að birtast hefur verið spurt um traust, það hefur hrunið hjá Jóhönnu.

G. Tómas Gunnarsson, 3.11.2009 kl. 20:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband