Nú árið er liðið í ....

Það tíðkast að líta til baka á áramótum og "melta" árið sem er að líða.

Það verður að segjast eins og er að árið sem nú nýverið kvaddi var okkur að Bjórá ákaflega gott.  Það sem stendur auðvitað upp úr er að í fjölskyldunni fjölgaði um einn, Jóhanna Sigrún Sóley fæddist 9. ágúst og kom hingað heim að Bjórá fáum dögum síðar.

Leifur Enno sem var þar með hækkaður í tign, upp í "Stóri bróðir" átti líka gott ár, náði þeim merka áfanga á árinu að fara yfir meterinn í hæð, tók hálfan mánuð í að venja sig af bleyjum og kopp og hélt áfram tilraunum sínum við að stjórna fjölskyldunni.

Það var einnig stór atburður fyrir okkur persónulega þegar við festum kaup á Bjórá 49, fyrsta húsinu sem við eignumst.  Það fylgir því ákveðin vellíðan að vera í eigin húsnæði.  Það fylgir því mikil vinna og mikill lærdómur, það eru mörg "projectin" sem eru á hugmyndastiginu. Fyrr á árinu seldum við  þá íbúð í Reykjavík sem fylgdi með mér í okkar búskap.

Þeir atburðir sem sitja í minninu úr fréttum á árinu eru eftirtaldir.

Hér var skipt um stjórn í Kanada.  Minnihlutastjórn Íhaldsflokksins tók við af skandalahlöðnum Frjálslyndaflokknum.

Lögreglunni tókst að koma í veg fyrir áætlanir um hryðjuverk hér í Kanada.

Michael Ignatieff náði því ekki að verða formaður Frjálslynda flokksins.

Hvað Íslenska atburði varðar er eitt og annað sem kemur upp í hugann.

Sveitarstjórnarkosningar og afsögn Halldórs Ásgrímssonar í kjölfarið á þeim.  Ágætis kosningar en líklega einhver afleitasta skipulagning afsagnar sem sést hefur lengi.

Varnarliðið ei meir.  Líklega það sem stendur upp úr á árinu til lengri tíma litið.  Þetta bitbein sem hefur verið til staðar frá því að ég man eftir mér (og gott betur) er bara farið, búið, hættir, farnir heim.

Hálslón, fylling þess, Kárahnjúkavirkjun og allt það dót.  Hugmyndin um að láta stífluna standa sem minnismerki að mínu mati bæði geggjaðasta og heimskasta hugmynd ársins.  Ýmsir fjölmiðlamenn lýstu því yfir á árinu að hér eftir yrðu þeir ekki hlutlausir í umfjöllun sinni um virkjunina, líklega með það að markmiði að fá almenning til að trúa því að þeir hefðu verið það hingað til.

NFS ei meir. Lokað og að lokum kom í ljós að "Kæri Jón" réði þessu öllu.  Fréttamennirnir á NFS þó líklega með þeim seinustu að uppgötva þá staðreynd.  Óneitanlega á elleftu stundu, en betra seint en aldrei, eða hvað?

Auðvitað er hellingur til viðbótar, hvalveiðar, prófkjör, leyniþjónusta og hleranir og lengi mætti sjálfsagt upp telja.

 En viðburðaríkt og skemmtilegt ár er liðið nú gildir hins vegar að horfa fram veginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband