Ögmundur, vígamóður en ekki særður

Það er ekki hægt annað en að lyfta hatti sínum til heiðurs Ögmundi Jónassyni í dag.  Skoðanir okkar liggja ekki á svipuðum slóðum (svona yfirleitt) en hann hefur ætíð verið óhræddur við að tjá skoðanir sínar og stendur nú fast við þær með eftirminnilegum hætti.

Líklega hefur ýmislegt verið búið að ganga á í Stjórnarráðinu og búið að hóta og þrýsta á víxl.  Ekki þykir mér ólíklegt að Jóhanna hafi verið búin að hóta því að stjórnin væri fallin, ef Ögmundur bakkaði ekki frá afstöðu sinni og Ögmundur hafi því ákveðið að segja af sér.  Það er líklegt að hann hafi valið þá leið frekar en að vera kennt um að hafa sprengt stjórnina, eða að gefa eftir sannfæringu sína.  Þessi "þriðja leið" hafi því verið sú eina sem hann sá sér opna.

Vissulega hverfur hann úr ríkisstjórn nokkuð vígamóður, en með þessu móti ósærður. Beygir sig ekki í duftið fyrir samstarfsflokknum (eins og mörg flokkssystkini hans virðast gera) og ávinnur sér virðingu víða um þjóðfélagið.

En ríkisstjórnin er komin að fótum fram og með hrygluna í hálsinum.  Það hefur nokkuð verið talað um "draugabanka" víða um heiminn undanfarið.  Íslendingar sitja vissulega uppi með þá, en nú verðist vera að bætast við "draugaríkisstjórn".

Líklegast þykir mér að Árni Þór Sigurðsson hljóti ráðherraembætti nú þegar uppstokkun verður, hvort sem það verður Heilbrigðisráðuneytið eða hvort farið verður einhverjar í hrókeringar.  Það er næsta víst að Samfylkingunni væri það ekki á móti skapi að farið yrði í breytingar við þetta tækifæri og Jón Bjarnason færður til, eða hreinlega settur út úr ríkisstjórninni.

Það er líka spurning hvort að reynt verður að skjóta styrkari stoðum undir stjórnina, horft þá til Framsóknarflokks, en ég held að sú verði þó varla raunin, enda yrðu það líklega afdrifarík mistök fyrir flokkinn að koma í ríkisstjórn undir þessum kringumstæðum.

En Íslendingar lifa svo sannarlega á áhugaverðum tímum.

 


mbl.is Var ekki að fórna sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ojæja, greip hann ekki bara tækifærið til að sleppa úr heilbrigðisráðuneytinu áður en þarf að skera alvarlega niður?

Kristján G. Arngrímsson, 30.9.2009 kl. 19:13

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Sá er spuni býsna margra Samfylkingarmanna sem ég hef séð og heyrt af í dag.

En ég held ekki, enda getur Ögmundur á engan hátt skotið sér undan ábyrgð á Fjármálafrumvarpinu, enda skilst mér að vinnu við það sé lokið.

Þannig hlýtur það að vera á ábyrgð Ögmundar og ég á síður von á því að hann reyni að hlaupast undan þeirri ábyrgð.  Við skulum alla vegna segja að ég trúi því ekki fyrr en ég sé það.  En vissulega hafi ótrúlegri hlutir gerst á Nýja Íslandi.

Að mínu viti er Ögmundur að hlaupa frá IceSave og kúgunum Samfylkingar.

G. Tómas Gunnarsson, 30.9.2009 kl. 19:33

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ja frá einhverju er hann að hlaupa.

Það er þá aðeins meiri bógur í Steingrími Joð, sem ætlar ásamt Jóhönnu og fleirum að láta sig hafa það að klára Icesave.

Aðrir geta úr öruggri fjarlægð stjórnarandstöðunnar látið hvína í sér eins og þeir séu miklir menn og sjálfstæðiselskandi.

En í rauninni eru þeir dauðfegnir að þurfa ekki að standa í því að þrífa upp skítinn eftir útrásarvíkingana sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn slepptu lausum, þjóðinni til einhvers mesta skaða sem sögur fara af.

Talandi um að kunna ekki að skammast sín.

Kristján G. Arngrímsson, 30.9.2009 kl. 21:41

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Aðalábyrgð á IceSave vandanum liggur auðvitað hjá stjórnendum Landsbankans.  En ef tala á um pólítíska ábyrgð, þá liggur hún auðvitað hjá Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu.

IceSave komst ekki á neitt flug fyrr en sú ríkisstjórn tók við völdum.  Mig minnir að IceSave reikningarnir í Hollandi hafi til dæmis tekið til starfa um vorið 2008.  Hver var þá viðskiptaráðherra og hver var stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins?

Jú, viðskiptaráðherra var Björgvin G. Sigurðsson núverandi þingflokksformaður Samfylkingar og stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins (skipaður af Björgvini) var Jón Sigurðsson, helsti efnahagspekingur Samfylkingar og megin höfundur efnahagsstefnu hennar.

Sá spuni (sem er líklega ættaður frá Samfylkingu) að hrunið hafi verið óumflýjanlegt allt frá einkavæðingu bankanna, er ekkert meira en það:  Spuni.

En það er líka eitt að hafa verið við völd þegar hrunið varð.  Það gerir ekki það að verkum að menn þurfi að taka ábyrgð á hörmungar samningum.

IceSave samingarnir eru auðvitað alfarið á pólítíska ábyrgð Samfylkingar og Vinstri grænna.  Þeir enda valdir af þjóðinni til þess að stjórna landinu og væntanlega leiða það mál (ásamt öðrum) til lykta.

Það var þar sem þeir brugðust, enda vildi Félagi Gestsson ekki hafa þetta lengi hangandi yfir sér og flýtti sér að semja um þessa "glæsilega niðurstöðu".

G. Tómas Gunnarsson, 30.9.2009 kl. 22:05

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Talandi um spuna!

Og ef útí það er farið mætti sem best segja að Samfylkingin axli nú þá ábyrgð sem hún ber með því að vilja halda kjafti og klára málið frá. Og Björgvin sagði af sér, og rak forstjóra FME (sem var skipaður af Sjöllunum, enda besti vinur aðal), og Ingibjörg er hætt. (Sem betur fer).

Að segja IceSave samningana alfarið á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar er nú eiginlega eins og að halda því fram að Hitler hafi ekki átt neina sök á Nurnbergréttarhöldunum.

En jæja, þetta er orðið nýjasta tískan Íslandi: Mér? Nei, þetta er ekki mér að kenna! Hann gerði það!

Ætli nokkur hér á landi viti hvernig maður fer í rauninni að því að axla ábyrgð? Það eina sem fólk kann er að skella skuldinn á aðra.

Mér finnst Samfylkingin, eftir að Ingibjörg fór, komast næst því núna að horfast í augu við veruleikann og gera eitthvað í honum. Steingrímur Joð líka.

Hinir eru bara í einhverju bulli. Formenn Sjálfstæðis og Framsóknar eru ferlegir bullshittarar. Það kemur ekkert útúr þeim nema stöðluð gagnrýni sem maður hefur heyrt milljón sinnum áður. Maður nennir ekki einu sinni að hlusta á þá lengur vegna þess að maður veit upp á ´hár hvað þeir munu segja.

Skilaboðin til íslenskra stjórnmálamanna eru einföld núna: Haldiði kjafti og gerið eitthvað.

Kristján G. Arngrímsson, 1.10.2009 kl. 06:21

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Björgvin axlaði enga ábyrgð, hann sagði af sér þegar næsta ljóst var orðið að ríkisstjórnin var sprungin.  Það kallast ekki að axla ábyrgð.

Forstjóri FME var vissulega Sjálfstæðismaður og virðist hafa verið langt frá því að vera starfi sínu vaxinn.  En það er svo merkilegt að það var frekar stjórnarformaðurinn sem virtist standa í því að gefa bönkunum "gott vottorð". Hann virðist reyndar enn frekar brattur í þessari frétt http://www.visir.is/article/20081119/FRETTIR01/492992746/-1 , sem er rétt tæplega árs gömul.

Það að þurfi að gera IceSave samninga hlýtur að liggja á pólítískri ábyrgð ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.  En að þar með liggi ábyrgðin á lélegum samningi (sem því sem næst allir eru að verða sammála um að samningurinn sé, meira að segja Jóhanna er farin að tala eins og hann sé ekki leggjandi á þjóðina) hjá sömu ríkisstjórn, er auðvitað ekki rétt.

Ríkisstjórnin fór þá leið að skipa samninganefnd eftir sínu höfði, skipaða sínum gæðingum (aðstoðarmaður Steingríms J, kosningastjóri VG úr NorðAustur, Svavar Gests o.s.frv).  Ekki var farin sú leið að láta t.d. Alþingi skipa samninganefndina, eða leita leiða til að gera hana þverpólítíska.

Þvert á móti var reynt að halda störfum hennar leyndum (flestir þekkja svar Steingríms, þegar hann sagði störf hennar varla hafin, þegar samningur lá því sem næst fyrir), halda gögnum frá Alþingi og reynt að fá þingmenn til að samþykkja samningin án þess að fá að sjá hann allan.

Þess vegna liggur pólítísk ábyrgði á samningnum, og því hve lélegur hann er fyrir Íslendinga hjá ríkisstjórnarflokkunum, Samfylkingu og Vinstri grænum.

Það liggur í hlutarins eðli.

G. Tómas Gunnarsson, 1.10.2009 kl. 12:12

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Alveg dæmigerður spuni: Að láta sem IceSave snúist um samninginn við Hollendinga og Breta en ekki bullið sem IceSave var til að byrja með, og var á ábyrgð stjórnenda Landsbankans, sem voru handvaldir af Sjálfstæðisflokknum og höfðu FME í vasanum.

Og líka er reynt að þyrla upp ryki til að draga dul á að IceSave var til þess gert að hægt væri að moka peningum frá Bretlandi til Islands (það var hin tæra snilld sem Sigurjón digri hlakkaði yfir).

Þetta er alveg eins og þegar sígarettuframleiðendur láta í veðri vaka að reykingar séu spurning um frjálst val, en ekki að þeir eru að selja fíkniefni.

Spuni. Bull.

Kristján G. Arngrímsson, 1.10.2009 kl. 19:02

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

IceSave samningurinn snýst um IceSave samninginn.  Hann er við Breta og Hollendinga.

Hve hátt hlutfall af IceSave kom til Íslands verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki.  En meiriparturinn varð eftir í Englandi, eftir því sem mér hefur skilist, enda fylgdist Breska fjármálaeftirlitið sömuleiðis með starfseminni.  En stjórnendur Landsbankans (sem þú vilt meina að hafi verið handvaldir af Sjálfstæðisflokknum) lánuðu stóran hluta þessa fés til Íslenskra fjármálasnillinga, þar á meðal þeirra sem Sjálfstæðisflokkurinn er ásakaður um að hafa eytt ómældum tíma og gríðarlegu "pólítísku kapítali" í að leggja í einelti og ofsækja.  Hvernig sem það passar nú saman?

Þetta hefur ábyggilega verið áhugaverð flétta og flókið samband og líklega má treysta því að allt sem hefur farið aflaga í því, er forystu Sjálfstæðiflokksins að kenna, og hefur verið "handstýrt" af henni.

Þessir sömu fjármálasnillingar fjárfestu stærstan part þessa fés í Breskum fyrirtækjum, "tuskubúðum", leikfangaverslunum, matvöruverslunum o.s.frv.  Sú fjárfesting fór, eftir því sem ég kemst næst, mest fram í gegnum Bresk fyrirtæki, sem voru í eigu Íslensku fjármálsnillinganna.

En þú ættir auðvitað að hlusta á forsetann Kristján.

Hann sagði heiminum að hvað sem segja mætti um Íslensku bankana þá hefðu þeir starfað eftir reglum "Sambandsins".

Ef til vill ekki alveg rétt hjá honum, en meiningin er góð.  Vissulega náðu starfsreglur "Sambandsins" yfir Íslensku bankana, rétt eins og alla aðra banka á EEA/EES svæðinu.  Það tryggir þó ekki að þeir hafi farið eftir þeim reglum, en það er nú einmitt það sem er verið að rannsaka.

En það var hlutverk Íslenska fjármálareftirlitsins að fylgjast með því að þær reglur væru haldnar (sem og auðvitað Íslenskar reglur, séu þær ekki samhljóða), en það er einnig hlutverk fjármálaeftirlits þess lands sem starfsstöðin er í að hafa eftirlit.  Þar koma fjármálaeftirlit Bretlands, Hollands til sögunnar.

Sökin er því alls ekki eingöngu Íslenskra aðila, þó að auðvitað sé engin rökstuðningur fyrir því að segja að Íslenskir aðilar beri enga ábyrgð.  Þeir bera þó ekki neina ábyrgð á lagasetningum "Sambandsins", því þar hafa Íslendingar engin áhrif, eins og flestum er kunnugt.

P.S. Nú ertu bæði búinn að draga Hitler og tóbaksframleiðendur inn í rökræðuna til að sýna fram á hve Sjálfstæðisflokkurinn og Íslensku bankarnir eru slæmir, ég velti því fyrir mér hvað kemur næst.

P.S.S. En svona af því að þú komst með tóbakið í rökræðuna, þá bæti ég hér við. Tóbaksframleiðendur (sem eru ef skoðað er í grunninn, bændur, en þeir framleiða ekki tóbakið, heldur rækta það, hér skulum við hins halda okkur við afurðastöðvarnar :-) þröngva mér vitanlega ekki neinum til þess að nota vörur sínar.  Ég sjálfur kaus að nota þessar vörur um all langt skeið, en ákvað síðan að hætta því.  Það reyndist mér ekki erfitt.

En vissulega reyna þeir að gera vörur sínar eftirsóknarverðar.  Og vissulega auka vörur þeirra hættuna á ýmsum sjúkdómum.  Það eru líklega fáir sem mótmæla því.

En í dag eru þeir "lögleg pólítísk bráð".  Þeim hefur til dæmis verið bannað að auglýsa vörur sínar víða.  En það sama gildir t.d. ekki um áfengisframleiðendur hér í Kanada og í "Sambandinu".  Það má auglýsa Vodka, en ekki sígarettur.

Hvort er hættulegra ætla ég mér ekki að dæma um, fer sjálfsagt eftir því hvernig það er notað. 

Sjálfsagt hefði orðið miklu sterkari viðbrögð á Íslandi ef Sigmundur Ernir hefði nú tekið upp á því að kveikja sér í sígarettu í ræðustól á Alþingi.

En eins og áður, þá stendur fólk á mismundandi kögunarhólum.

G. Tómas Gunnarsson, 1.10.2009 kl. 22:24

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég verð nú að viðurkenna að ég hef aldrei skilið þann mikla skilning sem algengt er að hér á landi sé sýndur þeim sem eru fullir í vinnunni. Mér finnst að svoleiðis menn eigi að reka. Þar með talinn Simma. (Ég held reyndar að hann hefði aldrei átt að komast á þing, en það er önnur saga).

Ég tók sígarettuframleiðendaspunann bara sem dæmi, burtséð frá því að um sígarettur er að ræða (það er líka önnur saga).

En það er ekki önnur saga að já, forusta Sjálfstæðisflokksins er að mestu leyti ábyrg fyrir því kaldakoli sem íslenskt efnhagslíf er í. Hún - með fulltingi Framsóknarflokksins -  leysti úr læðingi þau öfl (menn og hugmyndafræði) sem grófu undan samfélaginu.

Ingibjörg Sólrún var síðan svo blinduð af valdafíkn, er mér nær að halda, að hún æddi út í fenið.

(ég verð svo að viðurkenna að ég hreinlega veit ekki á hvaða kögunarhóli ég stend)

Kristján G. Arngrímsson, 2.10.2009 kl. 17:47

10 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Og hérna er svo smá Samfylkingaráróður frá Rúv ...

Kristján G. Arngrímsson, 2.10.2009 kl. 19:22

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það þurfti að leysa bæði öfl og menn úr læðingi á Íslandi.

Svo ég noti nú svona dæmi eins tamt er, þá má segja að þó að einhver sé að skilja við makan, sem hefur ef til vill skilið viðkomandi eftir á verri stað en þegar upphafið var, þá er ekki þar með sagt að sambandið hafi verið tóm vitleysa, að ást sé eitthvað sem ætti að banna.

En það er gott að velta því fyrir sér hvað fór úrskeiðis og hvort að betra hefði verið að gera eitthvað í málunum fyrr, hvort að kaupmála hefði e.t.v. verið þörf o.s.frv.

Það er nefnilega vitleysa að hér af allt farið í vitleysu af því að upphafið var rangt.

En stjórnvöld sem virtust vera orðin blinduð af góðærinu og þeim stöðuga straumi peninga sem kom inn gerðu ekkert með þær aðvaranir sem bárust um að "sambandið" væri á hættulegum slóðum.

Framan af gekk allt nokkuð vel, en óveðursskýin hrönnuðust upp árið 2006.  Ekkert var í raun gert.  Haustið 2007 og snemma árs 2008 voru ýmis teikn á lofti, en lítið var gert og engin asi.  Rétt er að hafa í huga að vorið 2008 er IceSave opnað í Hollandi.  Íslenskir stjórnmálamenn (forsetinn meðtalinn) virtust helst líta á það sem hlutverk sitt að fara um heiminn sem klappstýrur fyrir bankana.

Þetta með það að RUV birti skoðanakönnun sem er óhagstæð Samfylkingunni, segir ekki mikið Kristján.  Þeir geta varla sleppt því að birta Gallup könnun sem þeir borga sjálfir.

En það er vert að hafa í huga að fyrst þeir treyst Gallup til þess að gera kannanir fyrir sig, verður það enn athygliverðara hvers vegna þeir birta ekki niðurstöður Gallup könnunar, sem borguð var af öðrum?

Var hún ekki fréttnæm?  Taldi fréttastofan að sá sem greiddi könnunina veikti á einhvern hátt trúverðugleika hennar?  Voru niðurstöðurnar þess eðlis að RUV ákvað ekki að birta hana?  Eitthvað annað?

G. Tómas Gunnarsson, 5.10.2009 kl. 23:48

12 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er útaf fyrir sig rannsóknarefni hvernig meint málsmetandi fólk, stjórnmálamenn, fjármálamenn, hagfræðingar og fréttamenn, fékk það úr að lánsfé sem streymdi hingað væri aukning á þjóðartekjum.

Kristján G. Arngrímsson, 6.10.2009 kl. 18:43

13 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég meina, þarf maður ekki að vera dálítið barnalegur til að halda að lán séu tekjur?

Kristján G. Arngrímsson, 6.10.2009 kl. 18:44

14 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það varð gríðarlega aukning á þjóðartekjum, það er engin spurning eða blekking.  En aukning á þjóðartekjum getur á sér margar og misvísandi skýringar.

Það að þú (og líklega einhver annar) lendir í árekstri og látir gera við bílinn þinn, eða kaupir nýjan, eykur í umsvif í þjóðarbúskapnum og þar með þjóðartekjur.  Það verður þó varla séð að hagur þjóðarbúsins hafi vænkast við það.

Þjóðartekjur jukust, en verðmætasköpunin sat eftir, eða þannig.  Þess vegna töluðu ýmsir á þann veg að við gætum alveg gengið í "Sambandið", sjávarútvegurinn skipti ekki það miklu máli lengur.  Fjármálageirinn hafði tekið við.

Því vissulega skapaði þetta lánsfé umsvif.  Fólk hafði góð laun í bönkunum, bílar seldust, íbúðir hækkuðu í verði en seldust samt eins og karamellur, fatabúðir blómstruðu o.s.frv.

Allt þetta skapaði gríðarlegar tekjur fyrir hið opinbera, að ógleymdum tekjuskatti bankanna og svo gríðarlegum tekjum af fjármagnstekjuskatti. 

Mannst umræðuna fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar?  Allt átti því sem næst að geta verið ókeypis, í það minnsta dagheimilispláss, sá sem ekki lofaði því var bara "halló".  Það voru "nægir peningar til", spurningin var bara hvernig átti að eyða þeim.

En þetta líktist því miður pýramída á hvolfi, allt hvíldi á ótrúlega lítilli framleiðslu.

G. Tómas Gunnarsson, 6.10.2009 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband