Angan af jólum

Nú eru jólin komin hjá mér, alla vegna í huga mér.  Það er hangikjötsilmurinn sem færir mér jólin.  Hangikjötið sem ég, rétt eins og mamma gerði alltaf, sýð á Þorláksmessu, og ilmurinn sem leggur af því er merki um að jólin séu komin.  Jólin hófust hér að Bjórá í gærkveldi.

Konan mín gerir reyndar stundum grín af mér og talar um að fyrir mér séu jólin lítið nema kokteill af mismunandi ilmum.

Þar ber fyrst að nefna hangikjötslyktina, en appelsínulyktin kemur líklega þar á eftir. Góð eplalykt er heldur ekkert til að fúlsa við og greniilmurinn getur komið sterkur inn.

Svona ganga jól bernskunnar aftur og aftur, minningarnar eru kallaðar fram með anganinni um leið og nýjar verða til.

Það var ljúf stund í gær þegar við eftir amstur dagsins, börnin sofnuð, við settum gamla mynd með Peter Sellers í tækið, Bleiki pardusinn þaut um skjáinn og við borðuðum niðursneiddar appelsínur með klementínum í bland.  Það er í raun ekki til neitt betra sælgæti.

Aðfangadagur rann svo upp bjartur og fagur, sólin skein, ekki í heiði, en hátt á himninum sem varla sést ský á, nú eru ekki nema 7 tímar til jólamáltíðarinnar.  Jólín reyndar að hefjast í Eistlandi og farið að styttast verulega í þau á Íslandi, en við þurfum að bíða aðeins lengur.

Ég óska öllum nær og fjær gleðilegra jóla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband