Af illum íþróttaskóm og siðferðislega röngum hamborgurum

Það kemur stundum fyrir að ég les eitthvað í dagblöðum, tímaritum, bókum, nú eða á vefnum sem ég er sammála, því sem næst 100% og kemur skoðunum mínum þannig í orð, að ég óska þess hér um bil að ég hefði skrifað viðkomandi texta.

Þannig var það í morgun, þegar ég var að lesa netútgáfu tímaritsins Macleans.  Þar rakst ég á grein um samband siðferðis stórfyrirtækja, samband þeirra við neytendur og svo kallaða "anti-corporate"(hér vantar mig gott íslenskt orð) mótmælendur.

Ég get tekið undir það sem sagt er í greininni, að það sem hafi hafist sem velmeinandi mótmæli hafi breyst í "mótmælaiðnað".  Iðnað sem byggist á því að framleiða óánægju, en boði engar lausnir.

En ég hvet sem flesta til að lesa greinina sem finna má hér.

Auðvitað þurfa fyrirtæki aðhald, en það verður líka að viðurkenna það sem vel er gert og ekki einfaldlega ráðast á þann sem liggur best við höggi eða hefur mestu snertinguna við almenning.

Ég verð reyndar að lýsa því yfir hér að svo kölluð "pólítísk rétthugsun" á að öllu jöfnu ekki upp á pallborðið hjá mér.  Það er til dæmis oft skrýtið að sjá viðbrögðin hér í Kanada, þegar ég segi fólki sem býr í þessu mesta selveiðilandi heims, að ég hafi alist upp við það að borða hvalkjöt, og það sem meira sé, mér þyki það gott, og myndi setja það á grillið hér, ef það stæði til boða.

Ég skammast mín heldur ekkert fyrir að versla í WalMart, ef þar er eitthvað sem ég þarfnast og það er ódýrara og sambærilegt að gæðum og annars staðar.  McDonalds er að vísu ekki minn stíll, einhverra hluta vegna kysi ég frekar að fara á Burger King eða Harveys, en það verður ekki frá þeim tekið að þeir hafa náð meiri árangri í hamborgarsölu heldur en allir aðrir. Hvers vegna?  Verðum við ekki að segja að það sé vegna þess að þeir séu að gera eitthvað sem kaupendum líkar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Haha :-) Frábær grein! Maðurinn er vitlaus vera!

Mjöll Jónsdóttir (IP-tala skráð) 29.4.2006 kl. 23:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband