Þegar allt verður orðið ókeypis....

Hann Leifur minn á lítinn bangsa, sá heitir víst "Thanks-a-lot-bear" ef ég hef skilið rétt.  Ef ýtt er á hann þylur hann nokkrar mismunandi setningar.  Ein af þeim er: "The magic words are please and thank you". 

Þegar ég hef verið að reyna að fylgjast með baráttunni fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar (sem ég hef ennþá kosningarétt í), þá dettur mér stundum þessi bangsi í hug.

Það virðist nefnilega ekki þurfa nema að ýta á einhverja takka á frambjóðendunum til að einhver "magic words" komi þar út.  En þar er ekki um að ræða "please and thank you", heldur virðast það vera orð svo sem "ókeypis", "uppbygging" "aukin þjónusta" og þar fram eftir götunum sem eru "töfraorðin".

Flest virðist eiga að vera "ókeypis", ef ekki ókeypis er alla vegna nauðsynlegt að lækka allt í verði, en auka samt uppbyggingu og þjónustu.  Og kjósendur tala oft eins og sá sem lofar þeim mestu "ókeypis" fái atkvæði þeirra.  Sumir fagna líka ákaflega öllu því sem þeir fá ókeypis.  Ef til finnst þeim betra að borga til reksturs leikskóla í 60 ár (meðalævi skattgreiðenda eða svo), frekar en að borga í þau 8 ár sem börn þeirra dvelja á þessum uppeldisstofnunum (ca miðað við 2 börn).  En töfraorðið "ókeypis" er öflugt.

Nú er rétt að taka fram, til að valda ekki neinum misskilningi, að auðvitað er þetta ekki bundið við íslenska stjórnmálamenn.  Ástæðan til þess að ég fór að hamra þetta á lyklaborðið er einmitt frétt sem birtist í Globe And Mail í dag, um sívaxandi skattgreiðslur Kanadabúa. (Sjá http://www.theglobeandmail.com/servlet/story/RTGAM.20060426.wtax0426/BNStory/National/home).

Þar kemur fram að skattgreiðslur meðal Kanadabúa hafi aukist um 1600% síðastliðinn 45 ár og skattar séu stærri útgjaldaliður meðalfjölskyldunar heldur en matur, húsnæði og fatnaður samanlagt.

Á þeim sömu árum og skattgreiðslur hækkuðu um 1600%, hækkaði útgjöld kanadískra fjölskyldna vegna húsnæðis um 1006%, matarkostnaður jókst um 481% og fatakostnaður hækkaði um 439%

Árið 1961, voru meðalfjölskyldutekjur kanadabúa $5000, og af þeim var borgað $1675 í skatta, eða 33.5%.  Árið 2005 höfðu tekjurnar hækkað í $60.903, en af þeim var fóru $28.467 í skatta til ríkisins, fylkjanna, eða sveitarfélaganna, 46.7%.

Þetta er vissulega sláandi tölur, og engan veginn til fyrirmyndar.  Það væri vissulega gaman ef einhver hefði sambærilegar tölur fyrir Ísland.

Það er því alveg ljóst að þó að ýmislegt sé "ókeypis" hér í Kanada sem á Íslandi þá er það allt saman borgað einhvern veginn. 

En hjá "Töfraorðaböngsunum" heitir þetta "ókeypis".

"Töfraorðabangsarnir" voru einnig á ferð hér í Kanada, nú fyrr á árinu, þegar kosið var til þings, en í þetta sinnið voru það þó hógværari loforðasmiðir sem unnu sigur, þó að vissulega hafi loforðin komið frá þeim líka. 

En ef til vill er þetta bara óþarft nöldur í mér, hver vill ekki fá hlutina "ókeypis" og hver hefur nokkuð með laun að gera um mánaðarmót, þegar allt verður orðið frítt?

Allt vald til "Loforðabangsana", eða hvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband